Dauðinn, upprisan og vonin

Dauðinn, upprisan og vonin

Eins og Jesús birtist konunum við gröfina og lærisveinum sínum eftir upprisuna mun hann einnig birtast okkur. Hann birtist okkur í öðru fólki, fólki sem hjálpar og styður, fræðir og huggar.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
08. apríl 2012
Flokkar

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Jesús sonur Maríu er bezti bróðir minn: hann býr í hjarta mínu — þar kveikir hann í rökkrinu rauða margt eitt sinn á reykelsinu sínu.

Og jafnan þegar allir hafa yfirgefið mig og enginn vill mig hugga þá birtist hann sem stjarna í austri og sýnir sig á sálar minnar glugga.

Og þó hef ég ei beitt slíkum brögðum nokkurn mann: ég hef brennt á vör hans kossinn og hrækt síðan á nekt hans og nítt og slegið hann og neglt hann upp á krossinn.

En hvað svo sem ég geri er hann mín eina hlíf er hrynur neðsta þrepið því hvað oft sem hann deyr þá er eftir eitthvert líf sem enginn getur drepið.

Og Jesús sonur Maríu mætir oss eitt kvöld sem mannlegleikans kraftur: æ vertu ekki að grafa ‘onum gröf mín blinda öld — hann gengur sífellt aftur.

Þannig yrkir Jóhannes úr Kötlum um Jesú Maríuson. Hann sem fæddist, lifði og dó, en reis upp frá dauðum og birtist okkur fyrir trú á ýmsan hátt hér á jörð.

Páskar, hátíð upprisunnar. Grunnur trúar okkar. Án upprisu Krists væri engin kristin trú og engin Kirkja, því þá væri ekkert til að segja frá.

Páskar, hátíð lífsins. Eftir krossfestinguna ríkti sorg og söknuður. Á þriðja degi ríkti gleði og hamingja. Fyrirheitið hafði ræst. Guð hafði staðið við sitt. Lífið hafði sigrað dauðann.

Páskar, hátíð kærleikans. Hið góða hafði sigrað hið illa. Bölið hafði breyst í blessun. Vonleysið hafði horfið og vonin tekið völd.

Án upprisunnar værum við ekki hér í dag og hefðum ekki heyrt frásögu Markúsar guðspjallamanns af ferð kvennanna þriggja, Maríu Magdalenu, Maríu móður Jakobs og Salóme til grafar Jesú. Kvennanna sem höfðu verið í vinahópi Jesú og vildu nú veita honum smurningu eins og tíðkaðist í landi þeirra. Þær efuðust um getu sína til að velta steininum frá gröfinni. En áhyggjurnar voru ástæðulausar. Steininum hafði verið velt frá gröfinni.

Og þannig er það oft í lífinu. Við efumst um getu okkar og vantreystum okkur til verka. En þegar á hólminn er komið hefur efinn og óttinn verið ástæðulaus.

Um daginn var ég að keyra inn í Ísafirði og þá lágu 3 mjög stórir steinar á veginum. Þeir höfðu fallið úr hlíðinni fyrir ofan. Ég komst með naumindum fram hjá þeim. Þannig verða á vegi okkar ýmsir steinar, jafnvel björg, sem við vitum ekki hvernig við eigum að komast fram hjá eða yfir. Oftar en ekki þurfum við hjálp til að takast á við þungar byrðar lífsins, en þá megum við vita að á eftir böli kemur blessun, á eftir dauða kemur líf. Það er boðskapur páskanna. „Hann er upp risinn, hann er ekki hér“ sagði ungi maðurinn í hvítu skikkjunni við vinkonurnar þrjár þegar þær komu til grafarinnar.

Konurnar voru sendar með tíðindin til lærisveinanna. Og síðan hefur boðskapurinn borist mann fram af manni, um víða veröld og sett mark sitt á líf einstaklinga og samfélaga. Vestræn menning byggir meðal annars á kristnum hugsunarhætti og Kirkjan, sem hefur það hlutverk að segja frá hinum upprisna Jesú, hefur stutt listamenn til sköpunar í myndlist, tónlist, leiklist, svo eitthvað sé nefnt. Og ófáar sögur úr Biblíunni hafa ratað á hvíta tjaldið með einum eða öðrum hætti. Áhrif Kirkju og kristni sjást því víða.

Það hafa margir verið í sporum kvennanna sem vitjuðu grafar vinar sínar á þriðja degi. Fylgt ástvini til grafar og fundið sorgina og söknuðinn hellast yfir. Konurnar komu að tómri gröf. Jesús var upprisinn. Jesús er upprisinn.

Hvað þýðir það fyrir okkur nútímafólk?

Upprisa Jesú minnir okkur á að það er alltaf von í öllum aðstæðum lífsins. Þegar öll von virðist úti, mótlætið virðist hafa bugað okkur og við sjáum enga lausn þá skulum við minnast Jesú sem var hengdur á kross og deyddur en reis upp frá dauðum. Minnast þess að hið illa hafði ekki síðasta orðið, dauðinn hafði ekki síðasta orðið.

Með upprisunni gaf Jesús okkur hlutdeild í henni. „Ég er upprisan og lífið, sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi“, sagði hann og því megum við treysta eins og öðrum orðum hans og honum sjálfum. Hann sagðist vera upprisan og hann sagðist vera lífið. Að eiga hlutdeild í lífi Krists er ekki bara val okkar, heldur vorum við flest og sennilega öll, sem hér erum saman komin skírð til nafns hans og nafn okkar ritað í lífsins bók. Þannig var okkur gefin hlutdeild í lífi Krists, við vorum merkt krossins tákni og erum hans frá skírn og til eilífðar, hvort sem við lifum eða deyjum, þá erum við Krists, eins og Páll postuli orðar það í Rómverjabréfinu.

Lífið er fullt af andstæðum og mikil átök geta orðið. Atburðir bænadaga og páska sýna það glöggt. Valdníðslu, ofbeldi og háðung var beitt í viðeigninni á Golgata, en því var ekki svarað í sömu mynt, heldur með kærleika og krafti lífsins.

Þegar ég var barn hélt ég að pabbi minn kveikti á sólinni á morgnana, eins og hann kveikti á miðstöðinni á morgnana. Einn morguninn var engin sól, heldur lá þokan yfir öllum Skutulsfirði og ég sagði við mömmu mína, „nú hefur pabbi gleymt að kveikja á sólinni í morgun“. Þannig komst það upp hvaða hugmyndir ég hafði um pabba minn og hæfileika hans og ég komst að því að það var ekki pabbi minn sem kveikt á sólinni. En síðar hef ég komist að því að það er samt faðir minn sem kveikir á sólinni, þ.e. Guð faðir, sem gefur okkur birtu í sinni. Kveikir sólarljósið í lífi okkar. Það er svo margt í ytri tilveru okkar sem minnir á Guð og kærleika hans til okkar. Stundum er það næsta augljóst, en stundum órafjarri.

Vinkonurnar þrjár komu til grafarinnar við sólarupprás. Með þeirri birtu sem upprisunni fylgir hófu þær gönguna á nýjum kafla í lífi sínu. Þannig er það líka í lífi okkar þegar við leyfum hinum upprisna frelsara að ganga með okkur lífsveginn. Þá lærum við að treysta því að á dimmum dögum lífs okkar mun birtan aftur skína eins og sólin sem alltaf kemur aftur þó þoka leggist yfir. Birtan sem ljómar upp tunglið er ljósið sem það þiggur af sólinni. Á sama hátt er birtan í lífi okkar komin undir ljósinu frá Guði.

Hvernig veit ég að Guð er til spurði lítil frænka mín mig fyrir stuttu. Ég svaraði því til að þegar við værum lítil fengjum við að heyra sögur um Jesú. Sögur sem stæðu í Biblíunni og kenndu okkur margt um Guð og lífið. Ég sagði henni einnig að allt í kringum okkur gætum við séð verk Guðs. Ég sæi hana og hún sæi mig. Út um gluggann sæjum við sjóinn og fjöllin, fjöruna og fleira fólk. Svo þegar hún yrði eldri gæti hún fundið hvernig Guð hjálpar, styður og huggar. En ég sagði henni jafnframt að ég gæti ekki sagt henni að trúa, hún yðri að finna það sjálf og ég væri viss um að ef hún vildi það sjálf þá myndi hún finna fyrir návist Guðs í lífi sínu.

Og jafnan þegar allir hafa yfirgefið mig og enginn vill mig hugga þá birtist hann sem stjarna í austri og sýnir sig á sálar minnar glugga

sagði Jóhannes úr Kötlum í ljóði sínu.

Eins og Jesús birtist konunum við gröfina og lærisveinum sínum eftir upprisuna mun hann einnig birtast okkur. Hann birtist okkur í öðru fólki, fólki sem hjálpar og styður, fræðir og huggar. Hann birtist okkur í aðstæðum sem við köllum stundum tilviljanir. Hann birtist okkur þegar við finnum að við eflumst og fáum þrek til að takast á við erfiðar aðstæður. Hann birtist okkur á stundum gleði, t.d. þegar lítið barn er borið í heiminn, skírt og fermt. Þegar hjónin ganga upp að altarinu og þiggja fyrirbæn og blessun yfir kærleikssamband sitt. Hann birtist okkur á stundum gleði og sorgar, á hversdögum sem og hátíðsdögum, því hann er upprisinn. Kristur er sannarlega upprisinn.

Gleðilega hátíð, í Jesú nafni.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.  Ritningartextar:

Ps. 118:14-24; 1. Kor. 5:7-8; Mark. 16:1-7.