Nú er tími umhyggju og samstöðu

Nú er tími umhyggju og samstöðu

Við höfum sannarlega lifað ótrúlega örlagadaga á Íslandi. Við finnum öll til ótta og öryggisleysis, við erum eiginlega í losti og vitum ekki hvaðan á okkur stendur veðrið.

Nú kom Jesús aftur til Kana í Galíleu þar sem hann hafði gert vatn að víni. Í Kapernaúm var konungsmaður nokkur sem átti sjúkan son. Þegar hann frétti að Jesús væri kominn frá Júdeu til Galíleu fór hann til hans og bað hann að koma niður eftir og lækna son sinn. En hann var dauðvona. Þá sagði Jesús við hann: „Þið trúið ekki nema þið sjáið tákn og stórmerki.“

Konungsmaður bað hann: „Drottinn, kom þú áður en barnið mitt andast.“

Jesús svaraði: „Far þú, sonur þinn lifir.“

Maðurinn trúði því sem Jesús sagði við hann og fór af stað. En meðan hann var á leiðinni ofan eftir mættu honum þjónar hans og sögðu að sonur hans væri á lífi.

Hann spurði þá hvenær honum hefði farið að létta og þeir svöruðu: „Í gær upp úr hádegi fór hitinn úr honum.“ Þá sá faðirinn að það var á þeirri stundu þegar Jesús hafði sagt við hann: „Sonur þinn lifir.“ Og hann tók trú og allt hans heimafólk. Jóh. 4 46-53

Við höfum gengið í helgidóminn til að sækja styrk og huggun trúar og bænar í erfiðleikum, ótta og óvissu. Við höfum heyrt hér huggunarorð hins hæsta, þegar hann segir í lexíu dagsins: „Ég hugga yður... Hver ert þú þá sem óttast dauðlega menn og mannanna börn sem falla sem grasið en gleymir Drottni, skapara þínum, sem þandi út himininn og lagði grunn að jörðinni? ....Brátt verður bandinginn leystur, hann mun ekki deyja í dýflissu og ekki skorta brauð.“ Þetta er orð vonarinnar, hugfestum þau og treystum þeim. Eins skulum við taka til okkar hvatning postulans: „Styrkist í Drottni og krafti máttar hans...“

Og svo er guðspjallið sagan af bænasvarinu, lækningunni, kraftaverkinu, þegar Jesús læknar son hundraðshöfðingjans. Það er saga sem lýsir kraftaverki trúarinnar og kærleikans, umhyggjunnar. Við sjáum skelfingu lostinn föður sem leitar uppi meistarann frá Nasaret og biður hann að koma og lækna drenginn sinn sem er í lífshættu. Þetta er háttsettur hermaður erlends setuliðs. Fulltrúi alls sem er svo víðsfjarri því sem meistarinn stendur fyrir. Fulltrúi harðýðgi vopnavalds og aflsmunar auðlegðarinnar. Oft hefur til hans sést í skínandi herklæðunum, á glæstu herfákunum, umkringdur öllum táknmyndum valds og yfirburða heimsveldisins. Og hann trúir ekki á Guð, þarf ekki á honum að halda í velgengninni. En nú nú er aðeins eitt sem kemst að hjá honum. Barnið hans er að deyja og aðeins eitt getur bjargað, öllu heldur aðeins EINN. Og hermaðurinn bíður ekki boðana, stekkur af stað. Já, svona er það nú, í neyðinni erum við öll eins, hinn auðugi sem og hinn snauði, þá er engin aðgreining. Við erum nefnilega öll manneskjur hvar svo sem við erum sett í samfélaginu, hver svo sem umbúnaðurinn er og tákn hefðar og valda. Þegar áfallið dynur þá skipta þau engu máli. Þá hrópar hjartað eitt í allri sinni smæð, og úthellir umhyggju sinni og ótta frammi fyrir Guði. Og hann fer ekki í manngreinarálit. Þannig hraðar hermaðurinn sér í varnaleysi ótta og örvæntingar til hins fátæka Jesú og ákallar hann og þiggur orð hans í trú, án allra trygginga og tákna. Og hlýtur bænasvar. Og, segir guðspjallið, hann tók trú og allt hans heimafólk. Allt var orðið nýtt.

Við höfum sannarlega lifað ótrúlega örlagadaga á Íslandi. Við finnum öll til ótta og öryggisleysis, við erum eiginlega í losti og vitum ekki hvaðan á okkur stendur veðrið.

Kreppan hefur afhjúpað hvernig meiri auður en nokkur gat ímyndað sér myndaðist, ekki vegna þess að hér höfðu uppgötvast áður ókunnar auðlindir í landi eða sjó sem skópu áþreifanleg verðmæti fyrir atorku, dugnað og hyggjuvit. Nei, öllu heldur fyrir ótrúlega heppni í því ævintýralega spilavíti sem heimurinn var orðinn og þar sem því var heitið að allir myndu vinna. Það er sem hafi verið með einhverjum hætti klippt á samhengið milli fjármuna og raunverulegra verðmæta. Goðsagan leysti þau af hólmi. Og nú horfum við yfir rústirnar og þetta er allt eitthvað svo undur óraunverulegt.

Margir hafa misst mikið. Og þar er fjarri því að öll kurl séu komin til grafar. Á meðal okkar er mikill fjöldi fólks sem horfist í augu við að missa vinnuna, og fólk sem hefur misst ævisparnað sinn og lífsafkomu. Og þetta er í námunda við okkur hvert og eitt, það er gamla fólkið með sparnaðinn þinn. Og svo er það unga kynslóðin í þessu landi, fyrsta kynslóð Íslandssögunnar sem þekkir ekki annað er ótæmandi möguleika, takmarkalaus tækifæri vaxandi auðsældar og aukinna lífsþæginda, sem hægt var að taka út fyrirfram. Sú heimsmynd og framtíðarsýn hefur beðið mikinn hnekki. Við finnum öll með einhverjum hætti fyrir missi, sorg og kvíða fyrir komandi degi. Svo er líka smánin og sektin. Þau sem létu blekkjast, trúðu spám og fullyrðingum og gylliboðum, þau sem vildu ekki taka mark á varnaðarorðum eigin samvisku, og sjá nú verðmætin horfin að hluta eða öllu leyti. Og svo er líka skömm þeirra sem voru hinum megin við borðið og gáfu ráðin í góðri trú áreiðanlega. Og svo situr reiðin þarna líka við dyr þjóðarsálarinnar, reiði særðar réttlætiskenndar, reiði sekrar samvisku, reiði vanmáttar þess sem finnur sig blekktan. Og svo vantar ekki það sem blæs að glæðunum og nærir reiðina og kyndir undir óttann.

En nú er ekki tími fyrir vandlætingu og siðavendni! Við erum öll í þessum sama báti í sömu iðuköstum, með sama ótta og kvíða í hjarta. Brotsjórinn bylur á okkur öllum. En björgunarbáturinn er til reiðu og hefur tvær árar, á annað borð eru þekkingin, hins vegar siðgæðið. Hlutverk kirkjunnar, kristinna einstaklinga og safnaða, er umfram allt að leggjast með öllu velviljuðu fólki á þá síðarnefndu. Það er siðgæði umhyggjunnar um lífið, umfram allt hið viðkvæma og varnalausa, sjúka, ungviðið, börnin. Leggjumst á þá árina til að komast út úr flóðbylgjunni.

Helgisögn segir frá engli sem var falið að fara ofan til vítis og sækja einn hinna fordæmdu þar og bera hann upp til himins. Engillinn fór og vafði örmum um konu eina og lyfti henni varlega upp. En aðrir fordæmdir gripu fast í konuna til að vera lyft með henni upp til Paradísar. Engillinn gerði ekkert til að hindra fólkið í því, hann sveif svo léttilega eins og engin byrði hindraði för hans. En konan fór að hrista fólkið af sér eitt af öðru. Hún sparkaði og sló, reif og sleit sundur greipar þess svo það missti krampatökin og féll niður í djúpið. En það merkilega var að eftir því sem þeim fækkaði sem engillinn bar, þeim mun þyngri var byrði hans. Og þegar konunni loksins tókst að rífa sig lausa af þeim síðasta, þá var sem hún ein væri englinum ofviða, hann gat með engu móti borið hana, svo hann varð að sleppa.

Sagan minnir á að það er ekki meiningin að við eigum að vera upptekin af eigin hag og heill og láta okkur í léttu rúmi liggja heill og hagsmuni annarra. Öll erum við veitendur og þiggjendur í hinu stóra bókhaldi guðsríkis: kærleikurinn, vináttan, skilningur og samhugur og samlíðan er gefin og þegin í þessu dýrmæta samhengi sem byggir upp traust og trú - og von.

Nú er tími umhyggju og samstöðu. Síðar kemur að tíma uppgjörsins, er reikningar verða gerðir upp og sagan skráð. Gætum þess að stund sannleikans verði einnig tími sáttargjörðar. Leitum ekki sökudólga og blóraböggla! Nú þurfum við öll að standa saman, og hlynna hvert að öðru og að þeim gildum sem við eigum best og ein munu bera okkur yfir þessa erfiðleika og ein megna að leggja undirstöður undir heilbrigt samfélag á Íslandi. Sjóðir hinna andlegu og siðferðislegu verðmæta, umhyggju, kærleika, trúar og bænar standa traustir og vara þegar annað bregst og hrynur.

Framtíðin dylst í óvissumyrkri, og mistök fortíðar verða ekki aftur tekin. Það eina sem við eigum er þetta andartak sem er. Af náð sinni gefur Guð aðeins „Dag í senn, eitt andartak í einu.“ Og því þurfum við ekki að kvíða neinu. Styrkjumst í Drottni og krafti máttar hans. Áhyggju þína ber umhyggja hans. Bænin er að leggja áhyggjur allar á þá arma, fela honum fortíð og nútíð, og horfa með honum fram á veginn. Í framtíð hans er birta og gleði, lausn og von.

„Drottinn, kom þú!“ kallaði hermaðurinn í örvænting sinni og bað fyrir barni sínu. Það skulum við líka gera, biðja fyrir börnunum okkar og framtíð þeirra. „Far þú, sonur þinn lifir!“ svarar Jesús honum. Og hann fór í trú og trausti. Förum eins héðan og út í lífið og daginn í trú, með orð vonar og kærleika í huga og hjarta, og látum það stýra skrefum okkar, hugsunum og verkum til góðs.