Leyndardómurinn

Leyndardómurinn

Hvílík töfratíð eru jólin! Engin hátíð grípur okkur með viðlíka hætti, snertir þjóðlífið allt, leggur undrablæ friðar, helgi, kærleika yfir allt. Um það er samfélagssáttmáli í landinu okkar, rótfestur í þúsund ára samhengi trúar og siðar, um friðarstund og heilög jól.
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
24. desember 2012
Flokkar

Sál og tunga segi með sælum englaher: Dýrð sé Drottinn þér! Amen

Gleðileg jól!

Enn höfum við fengið að fagna helgum jólum. Enn höfum við tendrað jólaljós, borðað hátíðarmat, skipst á gjöfum, fundið kyrrð og helgi færast yfir, jafnvel hrifist og fagnað sem börn. Nú höfum við gengið í kirkju til að eiga kyrrðarstund jólanætur, njóta söngsins, finna andblæ alda og genginna kynslóða hér í Dómkirkjunni. Ungar, tærar raddir ykkar, kóranna hennar Þorgerðar Ingólfsdóttur, hafa fyllt helgidóminn yndisleika og fegurð og endurómað englasöng og himneska hljóma. Mikið er ég þakklátur ykkur fyrir það sem þið gefið af ykkur. Það er svo satt sem BBC sagði um Jólasögu Hamrahlíðarkórsins, þann yndislega jólahljómdisk, flutningur ykkar einkennist af ró, yfirvegun og hrífandi kyrrleika, hreinum og kristalstærum söng. Þetta er líka upplifun okkar allra, sem í áranna rás höfum fengið að njóta þess er þið færið okkur jólahljóminn tæra og hreina og það er ómetanlega dýrmæt gjöf. Guð launi það og blessi ykkur og allt sem að ykkur stendur og ykkur fylgir. Gleðileg jól! Hvílík töfratíð eru jólin! Engin hátíð grípur okkur með viðlíka hætti, snertir þjóðlífið allt, leggur undrablæ friðar, helgi, kærleika yfir allt. Um það er samfélagssáttmáli í landinu okkar, rótfestur í þúsund ára samhengi trúar og siðar, um friðarstund og heilög jól.

Jólin eiga sér sannarlega margar hliðar og ótrúleg undradjúp. Undir oft svo glæstu yfirborðinu er látlaus saga, barnslega einföld í mynd ævintýra og helgisagna. En um leið og við göngum þar um dyr þá opnast nýjar víddir og dýptir. Eiginlega eins og kakódósin hennar mömmu. Þar var mynd af konu með kakódós í hendi, á dósinni hennar er sama mynd af konu með kakódós í hendi og á þeirri dós er sama mynd, og svo framvegis inn í hið óendanlega, eða þannig hugsaði ég mér það þegar ég var barn og kakódósin merkileg, leyndardómsfull og djúp.

Að mála mynd í myndinni er gömul aðferð innan málaralistarinnar. Myndin í myndinni veitir innsýn í leyndardóminn, sem er laðandi, heillandi. Það er nú svo að innan hverrar manneskju eru regindjúp og óendanleiki. Listin og ljóðið tjá þessa innri sýn, myndina sem einatt er hulin sjónum okkar og vitund. Þess vegna eru helgidómar og helgisiðir og hátíðir og hefðir, sögur, ljóð og söngur. Trúin er innsæi, sjón hjartans og því grípur hún til tjáningarmáta þess sem snertir hjartað, virkjar sálina, hina innri sjón andans.

Að telja sig vaxinn upp úr ævintýrum og helgisögum er einatt til marks um mesta barnaskap! Vegna þess að heimur talna og staðreynda efnisheimsins er aðeins ein hlið veruleikans. Manneskjan verður aldrei skilgreind í formúlum, mannlíf og samfélag aldrei skilgreint í Exel, af því að manneskjan er alltaf meira en, og samfélag manna, siðmenning, þjóð, alltaf miklu meira en. Gætum okkar alltaf á orðalagi eins og „Þetta er bara....“ Það er ekkert bara, lífið er ekkert bara, þú ert ekkert bara!

Veistu að það eru fleiri nevtrónur í mannsheilanum en stjörnur í Vetrarbrautinni? Þær eru margar, rosalega margar. Og mikið er manneskjan smá andspænis þeirri mergð og svimandi óravíddum. En mannsheilinn er sannarlega allra flóknasta fyrirbæri alheimsins – og rúmast milli eyrnanna þinna! Svo veistu líka að hugurinn er hreint ekki hið sama og heilinn, heldur ennþá leyndardómsfyllra fyrirbæri, svo einstaklega undursamlegt að því hæfir ekkert sem er betra en orðið SÁL, nema vera skyldi orðið hjarta. Sjálfsvitund, sjálf, samviska – þetta fyrirbæri sem vegur og metur rétt og rangt, finnur ást, hatur, gleði og sælu, líður sekt, söknuð, sorg, trú, von og kærleika..... - þvílík ráðgáta og leyndardómur!

Það er í tísku að efast um trú, guðleysi og vantrú þykir best hæfa menntuðu og hugsandi fólki sem tvittar og commentar og hefur aðgang að öllum heimsins upplýsingum við fingurgómana og telur sig því geta efast um allt. Í hinni merku bók, sögunni af Pí, sem nú er komin á hvítatjaldið, - og fjallar, já, etv umfram allt um trú, þar segir á einum stað: „Ég skal segja það hreint út. Það eru ekki guðleysingjar, sem fara í taugarnar á mér heldur efahyggjumenn. Efi er gagnlegur sem tímabundið ástand. Fyrst Kristur vakti heila nótt í angist, fyrst Kristur stundi á krossinum „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“ þá er okkur svo sannarlega leyfilegt að ala með okkur efasemdir. En svo verðum við að halda áfram. Það að velja efann sem lífsskoðun er náskylt því að velja hreyfingarleysi sem samgöngutæki.“ svo mörg voru þau orð. (Sagan af Pí. Höf. Yann Martel, þýð. Jón Hallur Stefánsson)

Trú er ekki tilraun frumstæðra manna til að skýra hið óskýranlega tilverunnar. Hún er annað og víðara sjónarhorn á líf og tilveru, sem tekur með í reikninginn það sem meira er, dýpra, víðara en allt: að það er hugur að baki, sál, hugsun, hjartaþel, vit og vilji, ást og gleði, eins og smiðs yfir smíðisgrip sínum, listamanns yfir sköpun sinni, föður eða móður yfir nýfæddu barni sínu. Guð. Og að treysta á hann.

Trú er marghljóma hljóðfæri, sem geymir allan tónskala mannlífsins. Hún er ekki síst menning, samhengi að hvíla í, iðkun til að hafa um hönd, siðferðisviðmið, samfélagsmótandi sögur og hefðir. Og þar einhverstaðar ert þú, og ég, með hik og efa og hálfvolga skoðun, eins og börn með kakódós í hendi og mynd sem geymir mynd sem lýkur upp djúpum meiri og undursamlegri en við getum ímyndað okkur: Guð er það djúp, Guð er sá leyndardómur. Og hann lætur sig sál þína varða, hug þinn, hjarta þitt, vilja þinn, hag og ráð. Þess vegna eru jólin.

Jólin segja: Guð er hér hjá þér sem lifandi raunveruleiki í heiminum þínum, í sögu þinni. Treystu því!

Með fæðing frelsarans hófst tilraun sem enn stendur yfir, að skapa, lækna og leysa líf og heim með afli kærleika og fyrirgefningar, mildi og miskunnsemi. Og til þess vill hann laða okkur. Okkur, sem erum í mynd Guðs af því að við erum fær um að skapa og dreyma, að elska og líkna og fyrirgefa. Og sönn mennska, heilt og satt mannlegt samfélag er það sem gerir allt sem í þess valdi stendur til að hlúa að slíkri sköpun og innsæi, elsku og líkn. Afastrákur minn tók mig með sér að sjá myndina um Hobbitinn um daginn. Æðisgengin mynd og margslungin saga. Og þar er hinn kristni boðskapur kjarni máls, höfundur sögunnar, Tolkien, vildi setja fram hinn kristna boðskap á máli goðsagna og ævintýra: Það er ekki aflið og valdið sem sigrar, ekki auðurinn, ofstopinn, tröllskan. Nei! - heldur varnalaus auðmýktin, hógværðin, mildin.

Við erum ofursmá og vanmegna í hinni stóru mynd og sögu. Hvað megnum við svo sem? Það minnir mig á söguna um þröstinn og dúfuna: „Segðu mér, hvað vegur eitt snjókorn? Spurði þrösturinn dúfuna. Minna en ekki neitt, svaraði dúfan.

Þá verð ég að segja þér undursamlega sögu, sagði þrösturinn. Ég sat á bjarkargrein, þétt við stofninn þegar það fór að snjóa. Það var enginn bylur, nei, bara logndrífa, eitt og eitt snjókorn leið af himni, hljóðlega og fyrirhafnarlaust. Og þar sem ég hafði ekkert betra að gera fór ég að telja snjókornin sem féllu á greinina mína og sátu þar eftir. Nákvæmlega þrjármilljónir sjöhundruð fjörutíu og eittþúsund níuhundruð fimmtíu og þrjú talsins. En þegar þrjúmilljónsjö hundruð fjörutíu og eittþúsundníuhundruð fimmtugasta og fjórða kornið féll, brotnaði greinin. Við það flaug þrösturinn burt.

Dúfan, sem allt frá dögum Nóa var sérfræðingur í þessum málum, sagði hugsandi við sjálfa sig: Ef til vill vantar aðeins eina mannsrödd til að verði friður á jörðu?“ (Orð í gleði)

Þú átt rödd! Rödd sem þú hefur lagt hér til hins hreina hljóms og tæra, sem við þráum að fylli heima og geima og mannlífið allt, og skapa frið á jörðu og hverri sál í heimi hér. Já, frið og fögnuð færi þér frelsari heimsins. Gleðileg jól.