„Ég vil lofsyngja Drottni“

„Ég vil lofsyngja Drottni“

Gleðilega hátíð, kirkjulistahátíð Hallgrímskirkju 2007. „Ég vil lofsyngja Drottni“ (2.Mós.15.1) er yfirskrift hátíðarinnar. Það er tilvísan til lofsöngs Móse og Ísraelsmanna eftir hina undursamlegu björgun við Rauðahafið. Lofsöngur, feginsandvarp. Það er kirkjulistin. Hún er lofsöngur, feginsandvarp og þakkargjörð til skaparans, lausnarans, anda lífs og vonar.

Við hvað á ég að líkja þessari kynslóð? Lík er hún börnum, sem á torgum sitja og kallast á: Vér lékum fyrir yður á flautu og ekki vilduð þér dansa. Vér sungum yður sorgarljóð, og ekki vilduð þér syrgja. Jóhannes kom, át hvorki né drakk, og menn segja: Hann hefur illan anda. Mannssonurinn kom, át og drakk, og menn segja: Hann er mathákur og vínsvelgur, vinur tollheimtumanna og bersyndugra! En spekin sannast af verkum sínum.

Þá tók hann að ávíta borgirnar, þar sem hann hafði gjört flest kraftaverk sín, fyrir að hafa ekki gjört iðrun. Vei þér, Korasín! Vei þér, Betsaída! Ef gjörst hefðu í Týrus og Sídon kraftaverkin, sem gjörðust í ykkur, hefðu þær löngu iðrast í sekk og ösku. En ég segi ykkur: Týrus og Sídon mun bærilegra á dómsdegi en ykkur. Og þú Kapernaum. Verður þú hafin til himins? Nei, til heljar mun þér steypt verða. Ef gjörst hefðu í Sódómu kraftaverkin, sem gjörðust í þér, þá stæði hún enn í dag. En ég segi yður: Landi Sódómu mun bærilegra á dómsdegi en þér. Matt. 11. 16-24

Gleðilega hátíð, kirkjulistahátíð Hallgrímskirkju 2007. „Ég vil lofsyngja Drottni“ (2.Mós.15.1) er yfirskrift hátíðarinnar. Það er tilvísan til lofsöngs Móse og Ísraelsmanna eftir hina undursamlegu björgun við Rauðahafið. Lofsöngur, feginsandvarp. Það er kirkjulistin. Hún er lofsöngur, feginsandvarp og þakkargjörð til skaparans, lausnarans, anda lífs og vonar. „Öll von og þrá sem jörðin á af birtu Guðs er borin.“ segir í yndislegum sumarsálmi. Listin ber því vitni. Oft á tíðum ósagt, eins og þegar blómið lýkur upp augum sínum móti birtu dagsins. Án orða, án undirskriftar og lófataks. Það lofar Guð með veru sinni.

Kirkjulistahátíð í Hallgrímskirkju, sem nú er haldin í 11. sinn, hefur verið gleðilegur og sívaxandi þáttur í menningarlífi borgarinnar og sem auðgað hefur, frjóvgað og nært grósku íslenskrar menningar. Guð launi og blessi það starf, og þau sem þar hafa lagt huga og hendur að góðum verkum. Og þá mörgu hollvini sem stutt hafa með ráðum og dáð. Í aldarfjórðung hafa hjónin Inga Rós Ingólfsdóttir og Hörður Áskelsson staðið fyrir metnaðarfullu listalífi hér í kirkjunni, og áhrif þess þrotlausa starfs þeirra hafa svo víða skilað ávöxtum til blessunar í kirkju og þjóðlífi, það er mikið gleði og þakkarefni.

Og eins vil ég minna á og þakka hér í dag, hve ríkan hlut Þjóðkirkjan á í listalífi landsmanna með margvíslegu listalífi í sóknum um land allt. Ég nefni Sumartónleika í Skálholti, Tónlistardaga Dómkirkjunnar og Kirkjulistahátíð Akureyrar, og áfram mætti lengi telja, - og eins með starfsemi kirkjukóra í sóknunum, með barnakórstarfi, og margháttuðu uppeldi og iðkun þar sem söngur og tónlist skipar mikilvægan sess, allt er þetta ómetanlega dýrmæt uppistaða í menningu okkar.

Kirkjulistahátíð er samfundur listar og trúar, kirkju og menningar. Og svo sem sjá má í dagskrá hátíðarinnar er sá samfundur ótrúlega öflugur og frjór. Fimmhundruð flytjendur, H-moll messan og svo ungafólkið í gærkvöldi, og svo rekur hvert stórvirkið og hver undursamlega perlan aðra, hér í Hallgrímskirkju og eins í Skálholti. Ég hvet alla til að kynna sér hina metnaðarfullu dagskrá hátíðarinnar og njóta þess sem í boði er, og láta eflast og uppbyggjast af samfundi trúar og listar.

Hér í forkirkjunni má líta Jakobsstigann, listaverk Svövu Björnsdóttur. Áhrifarík túlkun á sögu Gamlatestamentisins um draum Jakobs. Þegar hann, flóttamaður frá sjálfum sér og fjölskyldu og ættliði, já og Guði, lagðist til svefns í auðninni, með stein í koddastað. Og hann dreymdi draum. Hann sá stiga standa milli himins og jarðar og englar Guðs fetuðu upp og ofan stigann. Og er hann vaknaði þá hrópaði hann: „Sannarlega er Drottinn á þessum stað og ég vissi það ekki!“ Listaverk Svövu er enn ein áminning þess hvernig hin helga saga talar til samtímans með öflugum og áleitnum hætti. Þú getur tekið þér stöðu við Jakobsstigann hér í forkirkjunni og horft upp í birtuna og íhugað hvað þú sérð þar. Draumar mannsins, von og dýpsta þrá er endurskin af birtu Guðs, himni hans. En einatt vitum við það ekki!

Samfundur listar og trúar minnir á að listin er alltaf túlkun. Kirkjan verður að vera opin fyrir og virða margbreytni túlkunarinnar, þar sem eitt þarf ekki að útiloka annað. Og á tímum þegar trú og siðgæði er álitið afstætt og alla vega prívat, þá getur listin verið okkur mikilvæg áminning um að kristin trú snýst um annað og meira en okkar innra líf. Hún er samfélagslegur veruleiki, því Guð lætur sig líf og heim varða. Og spekin sannast af verkum sínum.

Mörg okkar gátum ekki haldið aftur af tárunum hér í gær, þegar við heyrðum hinar undursamlegu tóna og túlkun H-moll messunnar. Þetta þekkja flestir. Við viknum, við komumst við þegar við syngjum „Heims um ból“ á jólum, eða „Nú árið er liðið“ á gamlárskvöld. Og við tárumst við skírn barnsins, eða þegar afastrákur eða ömmustelpa hjúfrar sig í hálsakot. Það tjáir þann ugg og órósemi sem við innst inni finnum, og þakklæti, huggun, von andspænis þessu undursamlega lífi, sem er svo brothætt og varnalaust. Og skynjun þess sem er manni æðra. Þar er himinninn opinn og englar Guðs í nánd. En við vissum það ef til vill ekki.

Ritningartextar dagsins sem hér hafa hljómað eru með einum eða öðrum hætti harmakvein yfir því sem aflaga fer. Harmur yfir kaldlyndi og forherðing, afskiptaleysi og vantrú. Sá sem talar í þeim textum öllum er að tjá vonbrigði yfir því að okkar undursamlega líf, okkar yndislega jörð, okkar auðuga, gróskumikla veröld, borgin, þjóðin, kirkjan, menningin, sem hefur alla burði til að vera aldingarður, skuli bera muðlinga, rangindi og neyðarkvein í stað réttlætis, friðar og frelsins. Og við þurfum að vera minnt á það, til að eflast í þeirri vissu að svona þarf ekki að vera, svona á þetta ekki að vera! Við sem berum væntingar í brjósti um svo margt, um heill og farsæld barnanna okkar til dæmis, við sem eigum okkur drauma um gróandi þjóðlíf og þverrandi tár á Íslandi, við sem biðjum um frið á jörðu og frið milli manna og þjóða, við sem eigum okkur hugsjónir og drauma og finnum til þess þegar hugsjónir rætast ekki, þegar vonirnar bregðast, við ættum að skilja þetta sem þarna er sagt. Og vita, að Guði er ekki sama þegar vonir hans og væntingar bregðast. Og okkur á ekki að vera sama! Við skulum minnast þess að andlegt líf, menning og trúarlíf, samanstendur af siðgæðislegu innsæi, hæfileikanum til að setja sig í annarra spor, finna til með öðrum, harma það sem miður fer - og iðrast.

Svo virðist sem gróðavænlegur markaður sé í samtíðinni fyrir það að niðurlægja fólk, ögra og ofbjóða. Skemmtanagildi þess að niðurlægja, auðsýna fyrirlitning og niðrandi atferli, orðfæri og viðmót virðist verðmæt söluvara. Og oft og iðulega upphafin sem list. Menningin, listin, trúin, - já, líka trúin-, verða iðulega verkfæri hins illa og ljóta, kaldhæðni og kæruleysis, óskapnaðar, upplausnar, eyðingar.

Dropar niðurlægingar og kaldhæðni hola stein mannúðarinnar.

En Guðs góði andi er samt að verki. Oft hefur hann hrifið, snortið, vakið, áminnt. En við vissum það ekki

Þegar helgin missir mál og þegar hin helgu vé og mörk eru vanvirt, þá er mennskan í hættu, þá er mannúðin í hættu. Hér eiga listin og trúin samleið, listin og kirkjan hafa báðar mikið fram að færa til skilnings á því hvað það er að vera manneskja. Í guðspjalli dagsins harmar Jesús það að samtíð hans vildi fremur vera áhorfandi en þátttakandi, dæmandi, geyspandi, gapandi áhorfandi. Æ hvað manneskjan hefur lítið breyst! Á okkar tímum þegar meir og minna allt er metið við kvarða skemmtanagildis og allt á að vera svo skemmtilegt og allir svo hressir er brýnt verkefni kirkjunnar að efla þann atburð og iðkun sem guðsþjónustu kirkjunnar er ætlað að vera, og iðkun hennar á krossgötum ævinnar. Þar sem við erum þátttakendur en ekki áhorfendur, iðkendur en ekki neytendur, viðmælendur og samtalsaðilar í þeim atburði þar sem Guð ávarpar okkur og snertir. Þar er samfundur Guðs og manns við krossinn, sem er tákn samstöðu í þjáningunni og kraftur til átaka gegn því sem þjakar, þjáir, niðurlægir, deyðir. Og jafnframt boðskapur um lausn og von. Hvar annars staðar en í helgidóminum er sagan sögð og sýninni haldið á lofti sem vekur von og trú og gleði, og afl og áræði til að takast á við hið sára og örðuga? Hin heilaga iðkun er tjáning ljóðs og söngs, leiks og innsýnar, iðkun og atburður þar sem Guð og maður mætast og taka höndum saman að lina þrautir, lækna meinin, þerra tárin, láta réttinn flæða fram og friðinn ríkja. Sannarlega er Drottinn á þessum stað.

Jafnframt því sem samfundur trúar og listar er efldur þá þurfum við að skapa vettvang fyrir samfundi trúar og raunvísinda. Trúin tjáir sig á öðru sviði en raunvísindin og þarf ekki að verja sig andspænis þeim, ekki fremur en ljóðið og listin. Raunvísindi nútímans eru mesta andlega afrek Vesturlanda, og sprottin af meiði kristinnar guðsmyndar og lífssýnar. Andi Guðs, líkn og náð er að verki og vekur undrun, gleði og trú. Einatt vitum við það ekki, af því að Guð setur ekki merkimiða sína á né krefst höfundarréttar. En snauður er sá hugur sem ekki undrast og dreymir.

Og við þurfum að styrkja enn meir þá þætti uppeldis, mennta, menningar og samfélags, sem efla hina innri mótstöðu gegn því illa og ljóta, og sem efla manneskjuna til andlegs þroska og sálarstyrks, manndóm og menningu. Að stuðla með ráðum og dáð að efling þess andlega þroska samfélagsins sem hlynnir að lífinu, ekki síst því lífi sem er veikt og varnalaust. Þess vegna ættum við að stuðla að því að grundvallarsögur sannrar mennsku og siðmenningar verði á ný færðar til vegs í uppeldi og iðkun samfélagsins, sögur Biblíunnar og sagnaarfur kynslóðanna. Í þeim arfi er fólgin öflug forvörn og leiðsögn betri og traustari en nokkuð annað á vegferðinni til lífs og heilla, borg og þjóð, einstaklingum og samfélagi.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen