Hver var Ágústus keisari?

Hver var Ágústus keisari?

Nú líður að jólum og brátt munum við heyra jólaguðspjallið enn á ný, þessa hugljúfu sögu sem við þekkjum öll. Þar er fyrstur nefndur til sögunnar keisari nokkur sem ber nafnið Ágústus. Hver var eiginlega þessi Ágústus sem mánuðurinn ágúst er nefndur eftir og er fyrstur allra nefndur til sögunnar í guðspjalli Lúkasar?
fullname - andlitsmynd Þórhallur Heimisson
23. desember 2009

Nú líður að jólum og brátt munum við heyra jólaguðspjallið enn á ný, þessa hugljúfu sögu sem við þekkjum öll.Þar er fyrstur nefndur til sögunnar keisari nokkur sem ber nafnið Ágústus. Hver var eiginlega þessi Ágústus sem mánuðurinn ágúst er nefndur eftir og er fyrstur allra nefndur til sögunnar í guðspjalli Lúkasar?

Árið 45 fyrir Krists burð hafði Júlíus Sesar sigrast á öllum óvinum sínum innan og utan Rómaveldis. Hann lét kjósa sig konsúl til lífstíðar og harðstjóra og hélt þannig við lýði þeim fornu stofnunum rómverska lýðveldisins sem hann þó fyrirleit umfram aðra menn. Hann var ókrýndur konungur ríkisins og lagði á þeim stutta tíma sem hann átti eftir ólifaðan grunninn að rómverska heimsveldinu, IMPERIUM ROMANUM.

Sesar (Júlíus) hafði með herkænsku sinni og snilld lagt undir Róm alla Gallíu þar sem í dag er Frakkland. Hann hafði stækkað heimsveldið og fært landamæri þess að bökkum Rínarfljóts í austri og að Atlantshafinu í vestri. Hann var einnig mikill áróðursmeistari því hann skrifaði hið fræga rit Gallastríðin til að lýsa herför sinni. Tengdasonur hans Pompeius hafði risið gegn honum en Júlíus hélt þá yfir Rúbikófljót, landamæri Ítalíu (kastaði teningunum eins og hann sjálfur sagði), og hrakti Pompeius úr landi eftir mikla orustu þar sem Sesar fór fyrir mun minni herstyrk en óvinir hans. Áður en til þessarar borgarastyrjaldar kom hafði Pompeius lagt Sýrland, Palestínu og Litlu-Asíu undir Róm auk sigra í Gallíu, á Hispaníu (Spáni), Hellas (Grikklandi) og í Norður-Afríku (Númidíu).

Hinn 15. mars árið 44 fyrir okkar tímatal var Júlíus Sesar myrtur í öldungaráðinu í Róm af samsærismönnum sem þóttust fremja ódæðisverkið með hag lýðveldisins í huga. Þeirra á meðal voru fóstursynir hans Brútus og Cassíus.  Eftir dauða Sesars var Markús Antóníus eini eftirlifandi konsúllinn og erfingi að völdunum í ríkinu.

En átján ára frændi Sesars er hét Júlíus Sesar Oktavíanus, vildi ekki láta sitt eftir liggja. Safnaði hann liði meðal herdeilda Júlíusar Sesars undir því yfirskyni að Antóníus gerði ekkert til að hefna dauða herstjórans og hetjunnar miklu. Þeir félagar sömdu þó frið um stundarsakir og háðu sameiginlega orustu gegn Cassíusi og Brútusi við Filipí sem endaði með ósigri morðingja Sesars. Þegar ósigurinn lá fyrir sviptu þeir Cassíus og Brútus sig lífi að fornum rómverskum sið.

Eftir þessa miklu orustu varð Antóníus ástfanginn af hinni fögru drottningu  Egyptalands, Kleópötru. Hann flutti nú til Egyptalands og sökkti sér næstu níu árin niður í óhóf og munað við hirð drottningar. Árið 31 fyrir Krist mættust stálin stinn þegar herstjóri Oktavíanusar, Agrippa, háði sjóorustu við Antóníus og Kleópötru. Þau skötuhjúin biðu mikinn ósigur. Antóníus flúði og þegar Oktavíanus gerði innrás í Egyptaland ári síðar svipti Antóníus sig lífi. Kleópatra gaf sig aftur á móti á vald Oktavíanusi og ætlaði að töfra hann eins og fyrirrennara hans. Sagan segir að Oktavíanus hafi gengið fyrir drottninguna fögru og tjáð henni að hún yrði svipt öllum völdum. En af ótta við að festast í neti hennar og falla fyrir fegurð hennar leit hann aldrei upp frá gólfinu. Þegar Kleópatra sá hvernig komið var lét hún höggorm bíta sig í brjóstið og varð það hennar bani. Þannig komst Egyptaland undir rómverska stjórn og varð eitt af skattlöndum Rómar.

Oktavíanus var nú einráður og hóf mikla endurskipulagningu á heimsveldinu öllu. Hann kom á fót flóknu skrifræði, ríkissjóði, skattakerfi og opinberri þjónustu, endurbætti lögin, endurnýjaði herinn og gerði hann að fastaher. Árið 27 fyrir Krist var hann sæmdur guðlegum nafnbótum og titlaður Ágústus, hinn fyrsti keisari Rómaveldis. Oktavíanus var sá Ágústus keisari sem mætir okkur í jólaguðspjallinu, þar sem segir:

„En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústus keisara…”

Enginn ógnaði nú lengur hinu mikla veldi Rómar er teygði sig allt frá Bretlandseyjum til Litlu-Asíu, nema helst germönsku ættbálkarnir við Rínarfljót. Þeir voru stöðug ógn við Rómarfriðinn, PAX ROMANA, og gerðu látlausar árásir yfir fljótið mikla. Draumur Ágústusar var að sigra þessa óstýrilátu ættbálka og færa landamærin lengra í austur, frá Rín til Saxelfar.

Fyrstu árin eftir að Ágústus tók sér alræðisvald barði hann niður uppreisnir víða um ríkið og leitaðist við að tryggja landamæri þess. Sjálfur tók Ágústus reyndar sjaldan þátt í átökum þó hann væri æðsti yfirmaður hersins, en skipaði þess í stað reyndum hershöfðingjum sínum að annast málin. Þannig lagði hann undir ríkið Cantabríu, Aquitaníu, Pannóníu og Dalmatíu. Eftir það komst nokkur friður á. Til marks um að friðaröld væri runnin upp lét Ágústus loka hliðum Janusarmusterisins í Róm þrisvar. Samkvæmt trú Rómverja táknaði það að friður væri kominn á og að herguðinn gæti notið hvíldar.

Sumir sagnfræðingar gera því skóna að Ágústus hafi ekki haft mikið vit á herstjórn, en að hann hafi verið þeim mun meiri skriffinni. Í raun réttri má segja að Ágústus hafi ekki aðeins verið snjall herstjórnarmaður heldur í raun miklu meira, það er  að segja raunsær stjórnmálamaður af bestu gerð. Hvað er það eiginlega annað en snilld að kunna að láta þá sem best geta stjórnað her um að stjórna, þ.e. hershöfðingjana? Um leið var öllum mögulegum brellum beitt til að semja frið og snúa andstæðingum ríkisins hverjum gegn öðrum. „Divida et impera” -  að deila og drottna, það voru hans ær og kýr.

Ágústus var mikilvirkur heimsveldissmiður og renndi styrkum stoðum undir Rómaveldi. Hann endurvakti fornan rómverskan klæðaburð og lagði mikla áherslu á rómverskar dyggðir. Á þetta minnir nokkuð þegar Bandaríkjamenn á okkar dögum horfa aftur til hinna „gömlu góðu gilda” og tala um „God, mother and apple pie.” Ágústus renndi einnig stoðum undir hverskonar skemmtanir og hvatti skáld, sagnfræðinga og ræðumenn til dáða. Hann lagði metnað sinn í það að endurreisa konungsættir þeirra landa sem herinn hafði unnið, og gerði þær að bandamönnum sínum.  Þannig sátu margir konungar í umboði Ágústusar sem einskonar lénsmenn í eigin ríki. Sjálfur forðaðist hann það nautnalíf og óhóf sem átti eftir að einkenna rómversku keisarana þegar fram liðu stundir.

Hann var alltaf klæddur á einfaldan hátt og borðaði aðeins það sem hann þurfti, var hófsemdarmaður á vín og mikill andstæðingur hverskonar gjálífis.

Rómaveldi.