Börnin og aðventan

Börnin og aðventan

Inn í allar annirnar miðlar kristin trú okkur dýrmætum sannindum um frið, hógværð, auðmýkt, fyrirgefningu og sáttargjörð. Kristin trú bendir okkur lengra, veitir okkur stærri sjóndeildarhring en augun greina.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
16. desember 2015

Aðventan er tími undirbúnings.  Við undirbúum okkur fyrir komu jólanna, sem stundum eru nefnd hátíð barnanna.  Á jólum minnumst við fæðingar barnsins hennar Maríu, sem færði okkur boðskapinn góða um kærleika og frið.  Jesús talaði við fólk og um börnin sagði hann þegar lærisveinarnir ætluðu að meina börnunum að nálgast meistarann: Leyfið börnunum að koma til mín og varnið þeim eigi því slíkra er Guðs ríki.  Lærisveinarnir brugðust við að þeirra tíðar hætti og  átöldu þá sem komu með börnin til Jesú eins og segir í guðspjöllum Matteusar, Markúsar og Lúkasar.

Í erli daganna missum við stundum sjónar á því sem mestu skiptir, eins og lærisveinarnir í frásögunum. Það er margt sem skal gera nú á aðventu, samverur eru undirbúnar, hús og heimili þrifin, margt er á dagskrá.  Gleymum ekki að við fullorðna fólkið erum að skapa minningar fyrir börnin okkar og auðvitað viljum við að þær séu góðar og gefandi.

Inn í allar annirnar miðlar kristin trú okkur dýrmætum sannindum um frið, hógværð, auðmýkt, fyrirgefningu og sáttargjörð. Kristin trú bendir okkur lengra, veitir okkur stærri sjóndeildarhring en augun greina. Lífið hefur merkingu og tilgang, lífið hefur stefnu og markmið. Guð hefur gott í hyggju með líf þitt og allra. Þessi boðskapur er borinn fram í dag, eins og í nær tvö þúsund ár, í heim ófriðar, samkeppni og baráttu. Hinn kristni boðskapur nær í gegn, nær að blómstra, þegar við tökum hann til okkar, eins og börnin, veitum honum viðtöku og lifum í þeim anda og í þeirri trú.

Guð kom í heiminn í jólabarninu til að færa heiminum frið. Þann frið vill hann gefa þér.

Í aðventusálmi séra Svavars Alfreðs Jónssonar segir:

Hans leið skal lögð með klæðum

og lyftast dalur hver,

því Guð úr himinhæðum

í honum kominn er

sem frelsun mönnum færir

og friðarvonir nærir.

Hann vitja vill. Þú veröld, konung hyll!

Tökum við þeim friði sem Guð einn gefur og miðlum honum áfram til barnanna og alls samferðarfólks.  Munum eftir börnum heimsins, þeim sem eiga um sárt að binda, þeim sem búa við óöryggi og erfiðar aðstæður.  Þeim sem eru glöð og frísk og þeim sem eru veik.  Þeim sem hafa sterka sjálfsmynd og þeim sem glíma við skerta sjálfsmynd.  Þeim sem eru lögð í einelti og þeim sem leggja í einelti.  Minnumst allra barna og biðjum þeim blessunar og bjartrar framtíðar.

Pistill fyrst birtur í Morgunblaðinu 16. desember 2015