Fylg þú mér!

Fylg þú mér!

Jesús vissi líka hvað var fyrir ofan rönguna á himninum sem Jónína litla minntist á við mömmu sína í sögunni. Þar var himnaríki þar sem hann ríkti en nú var hann kominn til þín og mín til að fá að ríkja sem konungur í hjörtum okkar. Þess vegna getum við öll sagt að hér sé himneskt að vera þrátt fyrir allt þvi að Guð er hjá okkur.
fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
28. mars 2013
Flokkar

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen  

Yndislega bjartur og fagur dagur er runninn upp í lífi fermingarbarnanna sem í dag staðfesta þann vilja sinn að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins. Ég bað Guð að gefa okkur öllum sólríkan dag en þótt ský kunni að vera á himni þá vitum við að sólin er að skýja baki. Það er hún sem er forsenda lífs á jörðinni.. Það er merkilegt hvað sólin er mátulega nálægt jörðinni, hvorki of fjarri né of nálægt. Þegar firnasterk sólgos verða á sólu þá verða norðurljósin á jörðinni stórkostleg og margir reyna að fanga ljósmyndir af þeim.  

,,Af hverju skína stjörnurnar?“, spurði Jónína litla eitt sinn. ,,Af því að sólin skín á þær“, svaraði móðir hennar. Það var stjörnubjart kvöld í janúar. Jónína sat úti á tröppunum heima hjá sér og starði upp í himininn. Hún varð aldrei þreytt á að horfa á stjörnurnar. Þær voru óteljandi. Það var óskiljanlegt hve þær voru margar og hve þær skreyttu himininn. Mamma Jónínu var oft búin að kalla í hana og minna hana á að láta sér ekki verða kalt. En Jónína gat ekki slitið sig frá þessari sýn. Allt í einu kallaði hún til mömmu sinnar:,,Mamma, mikið hlýtur að vera fallegt á himnum.“ ,,Af hverju dettur þér það í hug?“, spurði mamma. ,,Það hlýtur bara að vera, fyrst rangan er svona falleg,“ sagði Jónína.  

Boðskapur heilagra jóla segir okkur að svo elskaði Guð heiminn að hann gaf okkur einkason sinn. Guð afskrýddist sínum tignarskrúða í sínum fallega heimi á himnum og kom til okkar í litlu barni sem þurfti að reiða sig á umvefjandi faðm jarðneskra foreldra. Og barninu var gefið nafnið Jesús sem þýðir sá sem hjálpar, sá sem frelsar. Og hann óx fyrir náð Guðs frammi fyrir fólkinu sínu og samferðafólki. Eftir skírn sína í ánni Jórdan kallaði hann tólf lærisveina til fylgdar við sig og kenndi þeim í dæmisögum með meistaralegum hætti. Jesús lagði sig allan fram um að hjálpa fólki. Hann lét sér ekki nægja að segja fólki hversu vænt sér þætti um það heldur sýndi hann kærleikann í verki. Blindir fengu sýn, haltir gengu, fólk reis upp frá dauðum, eins og altaristaflan í kirkjunni okkar tjáir en þar er sagt frá því þegar Jesús reisti vin sinn Lasarus upp frá dauðum. Systur Lasarusar sem eru til hliðar við Jesú á málverkinu urðu vitni að þessu kraftaverki ásamt fleira fólki í Betaníu. Það var Sveinn Þórarinsson frá Kílakoti í Kelduhverfi sem málaði þetta málverk 1930-1931. Ég held að Guð hafi hjálpað honum að mála þetta verk þar sem Sveinn leitaðist við að tjá fegurðina á himnum, fyrir ofan rönguna eins og Jónína litla sagði svo skemmtilega í sögunni.  

En þótt það sé fallegt á himnum þá skortir töluvert á fegurðina á jörðinni, því miður.  

Boðskapur föstunnar og dymbilviku tjáir þann bitra sannleik. Á Pálmasunnudag var dymbill sem er trékólfur, settur í kirkjuklukkurnar til að gefa þeim dimman, mattan hljóm til að undirstrika alvöruna sem innreið Jesú inn um hlið Jerúsalemborgar fól í sér. Þar reið hann á vit örlaga sinna, krossfestingarinnar.  

Fimm dögum síðar rann upp Skírdagur. Á Skírdag er þess l minnst þegar Jesús stofnaði heilaga kvöldmáltíð  Annars er nafnið Skírdagur dregið af  fótaþvottinum, þegar Jesús þvoði fætur lærisveinanna til þess að sýna þeim að hann vildi þjóna fólki í kærleika. Viðbrögð lærisveinsins Símonar Péturs við þessu kærleiksverki Jesú í guðspjalli dagsins benda til þess að hann hafi ekki skilið hvað Jesú var að gera með fótaþvottinum. Mér dettur einna helst í hug að hann hafi talið þennan gjörning vera fyrir neðan virðingu Jesú. Það hefði verið nær að hann þvæði Jesú um fæturna. En svona var Jesú, hógvær og auðmjúkur.  

Við heyrðum það líka í guðspjallinu að lærisveinninn Júdas Ískariot hugsaði ekki fallega til Jesú og frelsarinn skynjaði það. Hann var búinn að ákveða að svíkja Jesú. Það var ekkert himneskt við þá hugsun hjá Júdasi nema síður sé. Hvað var þá til ráða fyrir Jesú? Hann gat vissulega flúið af hólmi og falið sig í mannfjöldanum, jafnvel flúið borgina Jerúsalem, flúið til annarra landa við Miðjarðarhafið. En Jesús vissi að hann væri eins og lamb sem væri leitt til slátrunar. Honum var ætlað að deyja fyrir syndir mannanna á krossi í eitt skipti fyrir öll. En um hann hafði verið sagt: ,,Sjá, Guðs lamb sem ber syndir heimsins.“  Fram að þessu hafði gyðingaþjóðin borið lömb sín í helgidóminn einu sinni á ári á Páskum þar sem þau voru skorin af æðstu prestunum á altarinu til þess að fólkið gæti fengið fyrirgefningu synda sinna. En með krossdauða Jesú var þess ekki lengur þörf því að hann, lamb Guðs, dó fyrir syndir alls mannkyns til framtíðarinnar litið. En gröfin hélt honum ekki, Jesús reis upp frá dauðum á Páskadag og gaf öllum mönnum hlutdeild í upprisu sinni með sér. Fyrir því erum við sem trúum á hann börn vonarinnar. Þetta er fagnaðarerindi kristinnar trúar.  

Í dag er hann hjá okkur, ósýnilegur, í anda sínum og segir við okkur hvert og eitt: ,,Fylg þú mér.“  

Á eftir ávarpa ég fermingarbörnin með nafni og spyr þau hvert og eitt: ,,Vilt þú leitast við að gera Jesú Krist að leiðtoga lífsins?“, eða með einföldum hætti:,,Viltu vera vinur Jesú?“  

Við höfum væntanlega flest staðið frammi fyrir því að svara þessari spurningu og svarað Já, hátt og skýrt. Í raun og veru erum við allt lífið að svara þessari spurningu. Lífið er í senn skemmtilegt og erfitt. Við erum þó yfirleitt í heiðríkju þar sem allt leikur í lyndi og lífið brosir við okkur. Þá eigum við að leitast við að verða samferðafólki okkar stoð og stytta. En stundum er lífið erfitt. Þá dregur ský fyrir sólu og skugga gætir í dölum þar sem við göngum um og leitum að ljósinu. Þá er gott að muna eftir því að margir englar í mannsmynd eru reiðubúnir að rétta okkur hjálparhönd og reynast okkur sannir ljósberar. Við erum nefnilega öll ljósþyrstar sálir. Við finnum það svo vel í skammdeginu þegar dagsbirtunnar nýtur stutt við.  

Ég minntist á hana Jónínu litlu í sögunni áðan. Hún var ljósþyrst sál líkt og stúlkan sem Sigurbjörn Einarsson biskup ræddi einu sinni við. Hún hélt á logandi kerti og blés á logann. ,,Hvert fór ljósið?, spurði hún. Sigurbjörn sagði við hana að ljósið hefði farið inn í hjarta hennar"- og þar væri nú bjartara en orð fá lýst. Þar væri nú góður vinur hennar sem væri besti vinur barnanna, Jesús Kristur. Hún brosti og tók utan um hálsinn á Sigurbirni og hvíslaði: ,,Er Jesús ekki líka vinur þinn?“  

Kæru fermingarbörn. Þið eigið vonarríka framtíð fyrir höndum. Ég vona að þið leggið ykkur fram um að veita birtunni sem frá ykkur stafar til þeirra sem þurfa á ljósi að halda.  Leggið áherslu á vináttuna í framkomu ykkar við hvert annað og annað fólk á vegferð ykkar í gegnum lífið. Auðsýnið heilindi í samskiptum ykkar við náungann. Þ.e.a.s. reynið alltaf að vera það sem þið viljið vera, góðir vinir. En Júdasi Ískaríot brást þar bogalistin að þessu leyti.  

Ég er viss um að Jesús virti stundum fyrir sér stjörnudýrðina á himninum á næturnar ásamt lærisveinum sínum. Hann vissi alveg hvaðan stjörnurnar fengu birtu sína. Þegar hann kenndi lærisveinum sínum forðum þá líkti hann sjálfum sér við sólina og sagði: ,,Ég er ljós heimsins, hver sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkrinu heldur hafa ljós lífsins.“  

Jesús vissi líka hvað var fyrir ofan rönguna á himninum sem Jónína litla minntist á við mömmu sína í sögunni. Þar var himnaríki þar sem hann ríkti en nú var hann kominn til þín og mín til að fá að ríkja sem konungur í hjörtum okkar. Þess vegna getum við öll sagt að hér sé himneskt að vera þrátt fyrir allt þvi að Guð er hjá okkur og við getum talað við hann um hvað sem er og hann hlustar og hann svarar okkur með því að gefa okkur margvísleg heilræði á lífsins vegi.  

Kæru fermingarbörn, megi heilræðavísur Hallgríms Péturssonar verða ykkur ljós á vegi. Guð gefi ykkur bjarta framtíð.  

Ungum er það allra best að óttast Guð, sinn herra Þeim mun viskan veitast mest og virðing aldrei þverra  

Hafðu hvorki háð né spott hugsa um ræðu mína, Elska Guð og gerðu gott geym vel æru þína.  

Foreldrum þínum þéna af dyggð, það má gæfu veita, Varast þeim að veita styggð, viljirðu gott barn heita  

Víst ávallt þeim vana halt: vinna, lesa, iðja, Umfram allt þó ætíð skalt elska Guð og biðja.  

Amen