Caim, verndarhjúpur og leiðarljós

Caim, verndarhjúpur og leiðarljós

Trúin fólst fremur í því að opna hug og hjarta meðvitað fyrir nærveru Guðs, taka við ljósi hans í bæn og lofgjörð í Jesú nafni, eða stilla sig inn á bylgjulengd hans, svo að notuð sé nútímalíking.

Lexía: Jes 64.3-8 Pistill: 1. Tím 1.12-17 Guðspjall: Lúk 15. 11-32

Á hásumardegi breiðist himinbirta og fegurð yfir þjóðarhelgidóm Þingvalla. Og hér í Þingvallakirkju þökkum við og játum, að sú birta er Guðs gjöf í Jesú nafni. Sem í auðmýkt í smæð sinni vísar kirkjan til lifanda Guðs sem kjarna og fyllingu sköpunar og lífs. Guð er þeim, sem trúir hulinn og nærtækur í senn, sem innra líf í barmi og þýður andblær, er fer um sköpun og lífríki. Og hann opinberast í mannsmynd sinni Jesú Kristi, svo að sagan hans, orð hennar og frásagnir koma okkur við, og tala ekki aðeins úr fortíð heldur inn í samtíð og hverja andrá.

Kristin trú Kelta eða Vestmanna, eins og þeir voru nefndir af norrænum mönnum, er byggðu Írland, Skotland og Wales til forna, fólst ekki svo mjög í fastmótuðum trúarjátningum, enda þótt tekið væri vissulega tillit til þeirra, svo sem írska játningin fagra frá 7. öld vísar til, er við fórum með. Trúin fólst fremur í því að opna hug og hjarta meðvitað fyrir nærveru Guðs, taka við ljósi hans í bæn og lofgjörð í Jesú nafni, eða stilla sig inn á bylgjulengd hans, svo að notuð sé nútímalíking.

Margt hindrar þá stillingu nú sem fyrr, tælandi áhrif og öfl er myrkva líf og sögu. Til að verjast þeim gerðu eða drógu kristnir Keltar, að morgni dags, hring í Jesú nafni umhverfis sig sem ljóshjúp eða verndarsvæði, er þeir nefndu Caim. Signingin forna, sem kennd er við landnámskonuna, Auði Djúpúðgu, sem hefur verið kristin í keltneskum anda, felur í sér slíka hringmyndun eða helgun í Jesú nafni.

Trúin er samkvæmt þessari viðmiðun það samband, er kemur okkur meðvitað og virkt inn á áhrifasvæði Guðs í Jesú nafni. Og þannig tengd getum við lítið yfir atburði daganna í vitund um nærveru hans, styrkst í honum, þrátt fyrir svo æði margt, sem ógnar, skelfir og skyggir á lífsgleði og birtu. Fréttir fjölmiðla segja tíðindi daganna en þó aðeins glefsur af sögunum mörgu og sjaldan þær gleðiríkustu. Nýfætt barn er oftast fagnaðarefni en ekki ef það finnst látið í ruslagámi. Fréttir af slysum og mannskaða, renna hjá með myndum á sjónvarps- og tölvuskjám og hræra mismikið við sálarstrengjum, en valda þeim sem næst standa sorg og þraut og færa heljarskugga inn í sumarveröld þeirra. Miklu varðar að himinbirta Guðs fái skinið í gegnum þann skugga í líkandi elsku sinni, og henni sé miðlað í trú og von.

Saga Jesú um föður og syni hans í Guðspjallinu er átakamikil, en hún endar vel og fallega. Hún birtir megin stef fagnaðarerindis Jesú Krists um fyrirgefandi náð og elsku Guðs og er þeim kær sem láta sig varða erindi hans og hefur gegnum tíðina orðið fjölmörgum til lausnar og frelsis, bægt frá raun og sorg og glætt von og trú. Margir sjá enda sjálfa sig líkt og á sögusviði hennar eða ástvini sína, horfna syni og dætur. Játning postulans í pistli dagsins vottar, að hann þakkar það, að hafa verið falin þjónusta að verki Jesú Krists enda þótt hafi lastmælt, ofsótt hann og smánað. ,,Kristur kom til að frelsa synduga menn,” segir hann og kveðst vera þar fremstur í flokki. Dæmi hans sýni, að allir geti leitað lausnar og eilífs lífs hjá frelsaranum krossfesta og upprisna.

Áður en Jesús segir frá sonunum tveimur greinir hann frá hirði, sem tapar sauði og gerir hvað hann getur til að finna hann og bregður upp mynd af konu, er tapað hefur peningi, sem henni er dýrmætur og fagnar mjög er hann finnst. Þær líkingar eru sem formáli undan frásögninni af sonunum, þar sem verðmætið mesta, mannlegt líf er í húfi í viðtækasta skilningi. Sauðurinn og peningurinn nýttust ekki sem skyldi og sonurinn, sem kokhraustur hverfur að heiman og kemst í þrot, var horfinn frá því verki og markmiði, sem honum bar að sinna og horfa til. Og hinn, er var áfram heima, skildi ekki gildi þess sem hann átti og naut. Að vera horfinn og týndur merkir í þessu samhengi að hafa tapað lífstilgangi sínum, tapað líka skilningi á verðmætum lífsins og gleðinni yfir þeim.

Hvað yngri soninn varðar líkist frásagan að sumu leyti ýmsum þekktum ævintýrum. Hún lýsir löngun hans og þrá til að fara að heiman, sem er mjög skiljanleg í sjálfri sér, að vilja fljúga úr hreiðrinu og sanna flughæfni sína og skoða veröldina og njóta lífsins. Í slíkum ævintýrum fara bræður stundum saman af stað, og einn þeirra, oftast sá yngsti, reynist aðgættnari og hógværari en hinir og því skynugri og viturri og nær góðu sambandi við ýmsa góða förunauta og að lyktum því takmarki, sem að er stefnt. Bræðurnir fá jafnan einhvern farareyri, en samt ekki slíkan sem yngri sonurinn fær í sögu Jesú. Hvatvís heimtar hann beinlínis föðurarf sinn greiddan út. Það sýnir umburðarlyndi og þolgæði föðurins, að hann skuli verða við þeim ófyrirleitnu óskum. En þær hafa líka valdið honum hryggð, því að þær jafngilda því, að hann sé dauður syni sínum.

Ég hef iðulega sett þessa dæmisögu Jesú upp í látbragðshelgileik með fermingarbörnum og gætt þess að láta það koma vel fram, er sonurinn brottfarni kemur til sjálfs sín, áttar sig á hörmungum sínum í svínastíunni og herðir upp hugann til að snúa við. Ég hef jafnframt hugað að því að sýna vel í leiknum, hve óöruggur og uggandi hann er á leið sinni aftur heim, eins og hann sé ítrekað að æfa það, sem hann geti sagt við föður sinn, er hann hafði vanvirt í glapræði sínu og eigingirni. ,,Ég hef syndgað móti himninum og gegn þér”, játar hann. ,,Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn” og óskar eftir því síðan að fá að vera sem einn af daglaunamönnum hans. Þegar hann óvænt fær svo góðar móttökur, koss föður síns, fagra skykkju, hring á fingur og dýrlega veislu, hefur honum fyrst skilist gildi þess og þýðing að vera sonur og fundið það, sem hann sóttist eftir alla tíð, innilega gleði og fögnuð, sátt og frið.

Faðirinn vill einnig sýna eldri syni sínum skilning og miskunnsemi. Hann hafði farið til móts við soninn, sem horfinn var og snéri síðan við til hins, sem ekki vildi fagna bróður sínum, til þess að bræða þann klaka, er lagst hafði á hjarta hans. Frásagan svarar því ekki, hvort það hafi tekist, hvort eldri sonurinn iðraðist og gat því metið stórfengleika þessa viðburðar, að bróðir hans, sem var týndur, væri fundinn, og var sem látinn, en væri lifnaður við, og höndlað líka kærleikann djúpa í orðum föðurins, ,,Allt mitt er þitt” og gengið því inn í fögnuðinn dýra.

Jesús svarar því ekki. Hann beinir máli sínu til þeirra, er litu hann tortryggnum augum, vegna þess að hann tók þá að sér sem stóðu fyrir utan siðaramma Gyðingdómssins, tollheimtumenn og bersyndugu. Sagan var sögð til þess að fá farísea og fræðimenn, er líktust eldri bróðurnum, til að gleðjast með Guði og taka þeim sem bræðrum og systrum, er snéru sér til hans fullir eftirsjár og iðrunar, í stað þess að halda þeim í ,,hæfilegri” fjarlægð, óhreinkast ekki af þeim og njóta jafnframt hagstæðs samanburðar.

Jesús vill segja þeim, að þeir eigi ekki raunverulegt samband og samfélag við föðurinn himneska nema að þeir séu sjálfir í samræmi við það grunneðli hans að syrgjast yfir þeim en fyrirlíta þá ekki, sem hafa augljóslega hrasað, og gleðjast því, þegar slíkir hverfa frá villu síns vegar og styðja þá síðan, svo að þeir komist á og haldist á réttri braut.

Frásaga Jesú snertir djúpa strengi sorgar og gleði. Sorgbitnir foreldrar trega börn, sem hurfu þeim út í óvissuna og tapað hafa öryggi og rótfestu og virðast ekki megna að losna frá fjötrum og böli. Þau hafa gefið sig á vald og ánetjast niðurbrjótandi öflum, sem eytt hafa siðferðisþreki og sjálfsvirðingu þeirra.

Útsendarar illskunnar, ,,Hells Angels” og viðlíka samtök koma sér því miður fyrir í okkar samfélagi, því að fyrirstaðan er ekki næg. Ásetningur þeirra er þó augljós, siðlaus eiturlyfjasala og önnur skaðleg glæpastarfsemi. Það fjölgar í röðum þeirra, vegna þess að ístöðulausir einstaklingar láta glepjast og ímynda sér, að þeir verði meiri af í slíkum félagskap, sem vitnar þó aðeins um brenglaða sjálfsmynd og innra öryggisleysi. Og fórnarlömbunum fjölgar, er hverfa inn í myrkviðinn og vímuefnamókið.

En hvað veldur þessu varnar- og bjargarleysi? Bæði þeir sem ginna og ánetjast eiga eða hafa átt foreldra og hafa sótt uppeldis- og menntastofnanir. En þeir og þær kunna að hafa brugðist illilega, ekki megnað að veita öryggi og aðhald, efla sjálfstraust og siðferðisþrek og jafnvel vegið að lífstrausti og gleði, svo sem opinberar afhjúpanir síðustu vikna sýna átakanlega. Róttæk iðrun og gjörtæk endurskoðun, einbeittur vilji og þrá til umskipta- og endurlausnar geta þó bætt úr og endurvakið traust, sú hreinsun, sem leiðir til þess að himneskt ljós og frelsandi andans máttur fái streymt um sál og líkama og samfélag, upplýst og verndað.

Eftirminnilega sýning Þjóðleikhússins á liðnu leikári á leikriti Arthurs Millers ,,Allir synir mínir” kemur í huga, þegar gætt er bæði að Guðspjallsfrásögunni og samtímaatburðum. Hún fjallar líka um tvo syni, Larry, flugmann, sem týndist í heimstyrjöldinni síðari og eldri bróður hans Chris, sem lifði hildarleikinn af en ber ýmis merki hans. Faðir þeirra, iðjuhöldurinn Joe Keller, sem framleiddi varhluti í flugvélar í stríðinu, er þó í aðalhlutverkinu, en er ólíkur föðurnum í dæmisögunni, því að brigðir hans valda hörmungum. Kate kona hans lifir í voninni um heimkomu Larrys, þangað til að það afhjúpast harkalega, að framleiðsla Joes á gölluðum vélarhlutum, sem hann lét frá sér fara gegn betri vitund, hafi óvéfengjanlega valdið dauða ungra flugmanna og líka fráfalli Larrys. Leikritið endar sorglega, ekki aðeins vegna þessarra uppljótranna, heldur vegna þess að kjarkinn skortir til að horfast í augu við sannleikann og iðrast í auðmýkt, von og þrá og taka við endurnýjunarmætti lifandi trúar, líknandi fyrirgefningu hennar og friði.

Saga Jesú um föðurinn og syni hans tvo fer hins vegar vel, vegna elsku og visku föðurins, sem í orðum Jesú endurpeglar föðurinn himneska. Og sem slík fjallar hún ekki aðeins um einstakt tilvik. Hún lýsir jafnframt samskiptum Guðs og manns og stöðu og ástandi þess mannkyns, sem horfið hefur frá lífsgrunni sínum og finnur ýmist til vonleysis vegna þess eða virðist ónæmt á slíka annmarka. Þeir sem falla í síðari flokkinn eru enn fjarri því að eignast lifandi von, því að þeir lifa í fölsku öryggi.

Við getum og megum hugsa okkur frásögu Jesú þannig, að bræðurnir séu þrír og einn fari og leiti þess sem týndur er, finni hann og segi við hann: ,,Við faðir þinn höfum áhyggjur af þér. Hann þráir þig hvernig sem fyrir þér er komið. Hann hefur búið þér stað, ef þú kemur heim.” Þannig er sagan líka, vegna þess að Jesús segir hana. Sem bróðir og frelsari ,,kemur hann til þess að leita hins týnda og frelsa það.” Enginn getur sagt sögu um týnda syni og dætur og frelsun þeirra eins og hann. Hann einn getur lýst og sannferðugt birt föðurelsku lifanda Guðs. Kross hans sýnir þá elsku og er sem útréttur faðmur, þar sem Guð kemur til móts við lífvana heim, til þess að eyða með sigurafli kærleika síns öllu dauðans myrkri og veldi og skapa og gefa eilíft líf. Enginn getur, vakni hann til vitundar um stöðu sína og veraldar gagnvart uppruna sínum og skapara, sem þannig kemur til móts við hann, sagt nema það eitt: ,,Faðir ég hef syndgað móti himinum og gegn þér, en glaðst þá jafnframt yfir fagnandi móttökum föðurins himneska, sem segir: ,,Komið fljótt með hina bestu skykkju” og ,,Allt mitt er þitt.“

Þessi vitund og háleita sýn er kristin trú í hnotskurn. Hún glæðist í þjóðarhelgidómi Þingvalla í lágreistri Þingvallakirkju og þökkin fyrir það líka, að veigur hennar hefur mótað mannlíf og sögu þessa lands í aldir og árþúsund. Safnadagurinn í dag minnir á verðmæti fortíðar. Trúin á Guð í Jesú nafni, er þó annað og meira en safngripur enda þótt margir verðmætir gripir fortíðar minni á hana. Trúin er veigur lífsins, sambandið, lífstenglin við uppsprettu lífsins, þríeinan Guð, föður son og anda helgan, sem berst í andblænum og fer og flæðir um sköpun og lífríki. Lifandi er trúin, ef hún skynjar og sagt getur líkt og Jesaja spámaður (í Lexíunni) ,,En þú Drottinn ert faðir vor, vér erum leir, þú hefur mótað oss og allir erum vér handaverk þín.” Og virk er trúin í Jesú nafni, ef hún gerist farvegur hans og lýsir upp sál og líf og umlykur sem caim, verndarhjúpur og leiðarljós, og vitnar um sig líkt og segir í keltneska sálminum fagra, er við sungum í þýðingu sr. Heimis Steinssonar heitins fyrrum þjóðgarðsvarðar og sóknarprests þessa söguríka helgidóms:

,,Orð Guðs í verki og vizkunnar tré, veit mér í náð þinni, að stöðugt ég sé farvegur mildi, er mýkir hvert stríð, mynd í Guðs hugskoti um eilífa tíð.”

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda um aldir alda. Amen.

Flutt í Þingvallakirkju í messu með keltnesku ívafi.