Vesturbæingar gefa brunna!

Vesturbæingar gefa brunna!

Hjálparstarf kirkjunnar vinnur með söfnuðum þjóðkirkjunnar að landssöfnun á hverju ári. Fermingarbörnin fá tækifæri til að leggja fátækum lið. Þau gengu í hús mánudaginn 6. nóvember síðastliðinn.Þrjár ungar stúlkur komu í gættina, kynntu sig og sögðust vera safna fé til hjálparstarfs. “Við viljum gefa brunna í Mósambík.”
fullname - andlitsmynd Sigurður Árni Þórðarson
14. nóvember 2006

Hjálparstarf kirkjunnar vinnur með söfnuðum þjóðkirkjunnar að landssöfnun á hverju ári. Fermingarbörnin fá tækifæri til að leggja fátækum lið. Þau gengu í hús mánudaginn 6. nóvember síðastliðinn.Þrjár ungar stúlkur komu í gættina, kynntu sig og sögðust vera safna fé til hjálparstarfs. “Við viljum gefa brunna í Mósambík.”

ljósm/Sigurður ÁrniÞær og önnur fermingarbörn Neskirkju söfnuðu 250 þúsund krónum. Tveir brunnar gefnir í Nessókn! Á landinu öllu söfnuðust liðlega 6.3 milljónir króna. Það er stórkostlegur árangur. Við, starfsfólkið í Neskirkju, viljum færa fermingarbörnum framlag þeirra og líka öllum íbúum og gefendum, sem tóku vel á móti börnunum.

Hvað er hægt að gera við 250 þúsund? Grafa, steypa og kaupa tæki til gerðar tveggja brunna í Mósambík. Þessir brunnar munu síðan þjóna tvö þúsund manns í a.m.k. áratug.

Á vegum hjálparstarfsins er unnið að fleiri verkefnum, sem landsféð kostar. Um 250 þúsund kr. kostar að kaupa fimm vatnstanka við hús munaðarlausra barna í Úganda. Þessi upphæð dugir til að kaupa 102 geitur eða 785 hænur fyrir sjálfsþurftarbændur í Malavi.

Stúlkurnar þrjár voru góðir fulltrúar íslenskrar æsku, sem vill efla mannúð í heiminum. Þær gengu á milli húsa og báru með sér boðskap um elsku. Féð, sem þær söfnuðu og þökkuðu fyrir, rennur til góðs málefnis. Við getum verið viss um að það kemur að notum, því Hjálparstarf kirkjunnar er þekkt fyrir að nýta vel gjafafé og að það kemst til skila.

Áður birt á www.neskirkja.is.