Sannar gjafir

Sannar gjafir

Gefðu þannig gjafir á hverjum degi. Hafðu hugrekki til að rjúfa þögnina þegar þú sérð einhvern verða fyrir einelti, hafðu hugrekki til að ganga upp að manneskju og spyrja: Hvernig líður þér? Frekar en að ákveða fyrir hana hvernig henni líður. Hafðu hugrekki til að vera til og vera manneskja og náungi þeim sem eru samferða þér í lífinu.
fullname - andlitsmynd Sunna Dóra Möller
14. nóvember 2017

Flutt 14. nóvember 2017 í Hjallakirkju

Ég veit ekki hvað ég er búin að segja þessa sögu úr guðspjalli dagsins oft í barnastarfi kirkjunnuar um eyri Ekkjunnar.
Hún er ein af þessum sögum – sem við myndum telja til þekktari texta – sístæð og afskaplega myndræn.

Hún er ein af þessum sögum sem framkallar í hugskoti þess sem les, lifandi mynd af Jesú þar sem hann situr í musterinu og fylgist álengdar með, íhugull, þar sem ekkert fer fram hjá honum.

Síðan kemur ekkjan inn á sögusviðið, gengur á milli íburðarmikilla mektarmannanna, sem sín á milli stæra sig af stórum gjöfum svo allir örugglega heyri og sjái.
Ekkjan læðir tveimur smápeningum í sjóðinn og gengur út. Berst ekki á, gefur sitt í hógværð og þögn. Hverfur af sjónarsviðinu jafn skjótt og hún birtist.

Það er svolítið þannig, þegar saga hefur verið sögð ótal oft, þá hættir manni til að festast í formi, útskýra hana á svipuðum nótum hvert sinn og kann að missa sjónar á nýjum flötum sem hugsanlega leynast milli línanna.

Þegar ég sá að þessi texti væri guðspjall dagsins þá fór hugurinn aðeins á flug og ég fór að hugsa um þá klassísku nálgun sem er jú oft notuð, en það er þetta að fórn ekkjunnar sé notuð til að lofsyngja þá sem áttu lítið, og hugsanlega er verið, á ákveðinn hátt, meðvitað eða ómeðvitað, að lofsyngja fátæktina og skortinn en með því er horft framhjá óþægindunum sem textinn felur í sér.

Það er mannlegt og eðlilegt að falla á þessu prófi vegna þess að það er auðveldara að lofsyngja fórnina, því hún tengist svo nánum böndum hefðbundnu fórnarhlutverki Krists.
En ef við íhugum aðeins nánar þetta hugtak skortur sem kemur fyrir í textanum, það að búa við skort, þá getur það innifalið alveg ótal margt.
Hér er nefnilega ekki beint sjónum að fjárhagslega skortinum einum saman og hann lofsunginn, því við vitum öll hvað er erfitt að búa við skort, hvort sem hann er andlegur, líkamlegur eða efnahagslegur.

Núna 8. nóvember síðastliðinn var hinn árlegi baráttudagur gegn einelti.

Baráttudagar gegn hinum ýmsu samfélagsmeinum eru nauðsynlegir til að minna okkur á, til að ýta við okkur og benda okkur á það sem betur má fara.

Einelti á sér stað í öllum aldurshópum, á öllum aldursskeiðum lífsins og mikið hefur verið rætt um einelti í grunnskólum landsins og margar faglegar áætlanir gerðar til að grípa inn í og koma í veg fyrir að börnin okkar fari með þá tilfinningu úr grunnskóla að hafa aldrei verið gild, aldrei nóg og aldrei samþykkt.
Það er erfitt að bera höfuðið hátt eftir slíka reynslu og hún getur haft áhrif á okkur, á svo margan hátt, þegar til framtíðar er litið, þá gagnvart því hvernig okkur farnast ef við komum brotin út úr skólakerfinu, út í lífsbaráttuna.

Þá má hugsanlega segja að við búum við ákveðinn skort. Að tekin hafi verið frá okkur trúin á okkur sjálf og trúin á að við höfum eitthvað fram að færa sem sé gott, gilt og samþykkt.

Síðan getum við beint sjónum að þeim sem beita einelti eða þeim sem standa hjá.
Hvað verður til þess að við veljum að vera vond við náunga okkur, höfum þessa tilhneigingu að rífa aðra manneskju niður, gerum jafnvel grín að henni í almannarýminu og lyftum okkur upp á því að níða niður það sem aðrir hafa fram að færa.

Hvers konar árangur næst af slíku og af hvaða rótum er slíkt atferli sprottið. Það hlýtur að koma til af annars konar skorti, eða er það þannig?

Kann að vera að hér sé einnig til staðar vantrú á eigið gildi og eigin getu. Að þú hafir ekki trú innst inni að þú sem manneskja hafir eitthvað mikilvægt fram að færa á eigin forsendum. Þú byggir frekar hag þinn á því að benda á það sem misferst í fari annarra. Þú hvílir ekki í sjálfum þér og þínu.

Einhvers staðar á lífsleiðinni verður þessi skortur til.

Hann getur myndast í barnæsku og hann getur myndast þegar við erum að taka út mikilvægan félagslegan þroska og hann getur í raun myndast hvenær sem er í lífinu þegar við mætum mótlæti, gagnrýni, andstöðu og vonbrigðum.

Þarna skilur oft á milli hæfni okkar til að takast á við slíkar aðstæður. Hvort við höfum lært að líta í eigin barm og sjá það sem betur má fara í eigin fari eða þá að við vörpum ábyrgðinni frá okkur til þeirra sem eru í okkar nærumhverfi, því það það kann að vera auðveldara að finna sökina hjá þeim sem eru okkur samferða en að líta í eigin barm.

Samfélagið í dag er alltaf að senda okkur þau skilaboð að við séum ekki nóg, séum ekki fullnægjandi. Lækin þín á Instagram og Facebook eru staðfesting annars vegar á mikilvægi þínu eða þá lítilsvirði. Áttu ekki nógu marga vini eða of marga vini? Eru þetta allt vinir í raun?

Verkunum og afrekunum þínum er póstað á alnetið og þú bíður eftir viðurkenningunni.

Komi hún ekki, eykst skorturinn og tilfinning fyrir því að þú sért ekki nóg, hafir ekki rödd, það tekur enginn eftir því hvað ég er dugleg eða duglegur.
Verkin og útlitið skilgreina persónu þína, ekki gildi þitt sem dýrmæt sköpun Guðs.

Einvers staðar á leiðinni höfum við misst sjónar á því sem við þurfum öll á að halda í lífinu, en það er nánd, persónleg gæða samskipti í lifandi samfélagi og trú á það að við höfum gildi sem er óhagganlegt og sígilt þrátt fyrir öll þau skilaboð samfélagið sendir þér á hverjum degi um allar þær kröfur sem þér ber að uppfylla til að vera gild/ur.

Við sækjum viðurkenninguna langt yfir lækinn og stundum verður byrðin svo þung og sár að hún skapar ákveðinn skort í lífinu sem getur valdið svo miklum harmi í samskiptum að stundum verður ekki aftur snúið.

Ekkjan læðist inn musterisgólfið, vera hennar er umkringd þögn og hún er ósýnileg á svo margan hátt. Í kringum hana er yfirborðsmennskan og stærilætið.

Jesús rífur þögnina, þar sem hann stendur álengdar og fylgist með. Hann veit hvað býr að baki, hann þekkir stöðu og hjörtu þeirra sem þarna eru. Hann orðar meinið og bendir á það. Hjartað ræður för, sé gjöf þín gefin, sé hún gefin af hjartans rótum. Ekki af skorti, ekki af ofgnótt heldur af því að þú vilt gefa hana og krefst einskis á móti. Krefst ekki lofs né lasts, heldur þess, að innst inni veistu að gjöfin þín er mikilvæg, af því að hún er þín og þú ert samþykkt/ur eins og þú ert. Í þannig umhverfi verða allar gjafir mikilvægar og sannar.

Gefðu þannig gjafir á hverjum degi. Hafðu hugrekki til að rjúfa þögnina þegar þú sérð einhvern verða fyrir einelti, hafðu hugrekki til að ganga upp að manneskju og spyrja: Hvernig líður þér? Frekar en að ákveða fyrir hana hvernig henna líður. Hafðu hugrekki til að vera til og vera manneskja og náungi þeim sem eru samferða þér í lífinu. Mótmæltu óréttlæti þegar þú sérð það í verki. Gerðu ekki aðra að aðhlátursefni af þér þér líður illa, leitaðu frekar styrks og hjálpar þannig að þér líði betur og axlaðu þannig ábyrð á eigin lífi og líðan.

Fáðu viðurkenningu frá þeim sem þú treystir og standa þér næst og þú veist að segja þér sannleikann og minna þig reglulega á hversu dýrmæt þú ert og mikilvæg þeim sem elska þig og virða og vilja þér alls hins besta

Lifirðu þannig, verður skorturinn minni því þú sækist eftir árangri á réttan hátt, á þínum forsendum og um leið hefur þú tækifæri til að lyfta upp öðrum í kringum þig upp án þess að óttast að, það sé á þinn kostnað og vera þín í lífinu minnki.

Þannig gerum við heiminn betri, hvert og eitt okkar, einn dag í einu.

Jesús býður okkur um leið að þiggja hans hönd og trú hans á þér nær út yfir gröf og dauða. Hann trúir á gildi þitt og veit hversu dýrmæt/ur þú ert. Þannig hefur þú verið frá því að þú komst í heiminn og opnaðir fyrst augun og dróst fyrsta andann. Þá ákvað Jesús að standa alltaf með þér, vera til staðar fyrir þig og hann lofaði um leið að vera með þér alla daga allt til enda veraldar.

Tilboð sem stendur þér alltaf til boða viljir þú þigga samleið með honum. Hann stendur álengdar, líkt og í musterinu forðum daga og sér þig og elskar þig sama hvað og hefur þá einu ósk í hjarta að þér farnist vel.

Í Jesú nafni, amen.