Trúarbragðafræðsla

Trúarbragðafræðsla

Fjölmiðlar vöktu í síðustu viku athygli á skýrslu Evrópunefndar gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi, sem birt var í Strasbourg 8. júlí og fjallaði að þessu sinni um Ísland. Af þessari 20 blaðsíðna skýrslu hafa sex línur um trúarbragðafræðslu í skólakerfinu og undanþágur frá henni orðið tilefni stórra fyrirsagna.
fullname - andlitsmynd Sigurður Pálsson
07. júlí 2003

Fjölmiðlar vöktu í síðustu viku athygli á skýrslu Evrópunefndar gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi, sem birt var í Strasbourg 8. júlí og fjallaði að þessu sinni um Ísland. Af þessari 20 blaðsíðna skýrslu hafa sex línur um trúarbragðafræðslu í skólakerfinu og undanþágur frá henni orðið tilefni stórra fyrirsagna. Það er vel, ef það er til marks um að mönnum þyki mikils um vert að þeirri fræðslu sé sinnt af kostgæfni í skólakerfinu. Það ætti að vera foreldrum og kennurum hvatning til að stand vörð um þessa fræðslu og vanda til hennar, en margt bendir til að henni sé víða þokað til hliðar, þrátt fyrir skýr ákvæði í lögum og námskrám.

Ég get hins vegar ekki leynt því að mér þykja yrðingar skýrsluhöfunda um trúarbragðafræðslu í skyldunámsskólum á Íslandi og undanþágur frá henni yfirborðskenndar og misvísandi, samanber upphaf málsgreinarinnar sem um þetta fjallar, en þar segir: „Samkvæmt lögum ber að kenna kristin fræði í skyldunámi barna, en nemendur geta fengið undanþágu frá henni.“ Hið rétta er að samkvæmt lögum ber að kenna kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði í skyldunámi. Um undanþáguákvæði yrði ég sérstaklega síðar.

Við setningu grunnskólalaga 1974, fyrir tæpum 30 árum, var í fyrsta skipti kveðið á um að fræða skyldi um helstu trúarbrögð heims í skyldunámi, auk kennslu í kristnum fræðum. Í námskrá sem út kom árið 1976 var þessari fræðslu fundinn staður á unglingastigi og nokkrum árum síðar sendi Ríkisútgáfa námsbóka frá sér tilraunanámsefni í þessum fræðum. Hægt gekk að koma þessari fræðslu á. Um ástæður þess skal ekki fjölyrt hér, en umrætt námsefni kom loks út hjá Námsgagnastofnun í vönduðum búningi árið 1995 og hefur nú náð nokkurri útbreiðslu. Með námskrá sem sett var 1989 var kveðið á um að auk trúarbragðafræðslu á unglingastigi skyldi hafin fræðsla um önnur trúarbrögð en kristni þegar á miðstigi og með námskránni 1999 var bætt um betur og mælt fyrir um að þessi fræðsla skyldi hefjast þegar í yngstu bekkjum grunnskólans. Þróun námskrár í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræðum hér á landi hefur um margt verið svipuð því sem gerst hefur á hinum Norðurlöndunum. Það er svo kunnara en frá þurfi að segja að fjárveitingar til námsefnisgerðar eru naumar og því hefur gengið hægar en skyldi að gefa út námsefni við hæfi, þótt nokkuð hafi áunnist.

Varðandi möguleika á undanþágu frá þessari fræðslu segist nefndin hafa „haft spurnir af því að í sumum tilvikum hafi reynst erfitt fyrir börn að fá slíka undanþágu, einkum á grunnskólastigi.“ Menntamálaráðherra hefur staðhæft að undanþágur eigi að vera auðsóttar og talsmaðir múslima telur þær ekki vandamál. Vottar Jehóva hafa til skamms tíma verið fjölmennasti hópur þeirra sem leitað hafa eftir undanþágum og lýsti talsmaður þeirra því yfir á fundi, sem haldinn var síðastliðið haust í Kennaraháskóla Íslands á vegum Reykjavíkurprófastsdæmanna um trúarbragðafræðslu í skyldunámi, að þeim reyndist engum vandkvæðum bundið að fá undanþágu fyrir börn sín. Lok setningarinnar „einkum á grunnskólastigi“ er óskiljanleg í ljósi þess að trúarbragðafræði eru ekki kennd hér í framhaldsskólum nema í undantekningartilvikum og þá sem valgrein. Þess má hins vegar geta að greinin er kjarnagein í menntaskólum á Norðurlöndum.

Undanþáguákvæði eru bundin í lögum í Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Íslandi en eru með ólíkum hætti, ýmist eru sérstök ákvæði um trúarbragðafræðsluna eða almenn ákvæði um undanþágur eins og hér á landi, sbr. 35. grein laga um grunnskóla. Mikil umræða hefur farið fram í öllum þessum löndum um undanþáguákvæði laganna og takast þar á sjónarmið um rétt foreldra til uppeldismótunar annars vegar og hins vegar um rétt samfélagsins til að mennta þegnana, einnig í þessum efnum. Öll Norðurlöndin leggja mikla áherslu á að skólinn temji nemendum umburðarlyndi og víðsýni en menn hafa spurt sig hvort það lærist best með því að veita undanþágur eða skipta börnunum í hópa í trúarbragðafræðslunni eða hvort vænlegra sé að öll börn taki þátt í þeirri fræðslu sem skólinn býður og fræðist þannig um eigin trú auk trúar- og lífsviðhorfa annarra. Þannig fái þau tækifæri til að temja sér virðingu fyrir ólíkum viðhorfum á grundvelli þekkingar og skilnings. Á Norðurlöndunum öllum er hlutur kristinna fræða mestur með tilvísun í sögu og menningu þessara þjóða, en öðrum trúarbrögðum og lífsviðhorfum eru einnig gerð skil á forsendum þeirra sjálfra. Námsgreinin er þar sem hér skilgreind sem hluti af almennri menntun án tengsla við tiltekin trúfélög. Finnland hefur þó þá sérstöðu að þar er greinin bundin kirkjudeildum.

Margir nýbúa sem hér hafa sest að eru kristinnar trúar. Um 94,5% allra íbúa á Íslandi tilheyra kristnum trúfélögum, um 3,2% eru í öðrum trúfélögum og 2,3% eru utan trúfélaga. Enda þótt þróun í átt til fjölmenningar sem rekja má til átrúnaðar sé fremur skammt á veg komin hér á landi, er mikilvægt að kristindóms- og trúarbragðafræðslu sé sinnt af kostgæfni. Markmið sem aðalnámskrá hefur sett þessari fræðslu eru verðugt keppikefli. Yfirvöld menntamála þurfa að tryggja að henni sé sinnt og að kennarar séu sem best búnir til þess að sinna henni af þekkingu og færni. Auk þess er brýnt að skapa trúarbrögðum rými meðal kjarnagreina framhaldsskólanna. Þekkingarleysi er jarðvegur fordóma.