Andi jólanna

Andi jólanna

Mörgum er andi jólanna andi streitu, stress, ærustu og anna. Nei, það er eitthvað annað sem veldur öllu slíku. Andi jólanna er andi umhyggjunnar. Jólin eru tími umhyggju um eigin dýpstu þarfir, um náungann og þau sem með einum eða öðrum hætti fara halloka í lífinu. Andi jólanna er áhrif sem hræra við innstu hjartastrengjum með löngun eftir friði, gleði og góðvild.
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
22. desember 2009

Úr Christmas Carol

Mörgum er andi jólanna andi streitu, stress, ærustu og anna. Nei, það er eitthvað annað sem veldur öllu slíku. Andi jólanna er andi umhyggjunnar. Jólin eru tími umhyggju um eigin dýpstu þarfir, um náungann og þau sem með einum eða öðrum hætti fara halloka í lífinu. Andi jólanna er áhrif sem hræra við innstu hjartastrengjum með löngun eftir friði, gleði og góðvild. Hin sígilda jólasaga Charles Dickens, A Christmas Carol, sem nú er sýnd í kvikmyndahúsum um allan heim, dregur þetta einkar vel fram. Myndin er á köflum öfgafull og ofsafengin með snilldarbrögðum þrívíddartækninnar. En boðskapurinn leynir sér ekki. Sagan minnir okkur á þá sönnu gleði og frelsandi náð sem mannkyn fagnar á jólum. Sá boðskapur berst til okkar í jólasöngvunum sem fagna fæðingu frelsarans, og kveðjur og viðmót fólks bergmálar þá gleði og tjáir náð Guðs og blessun, jafnvel í erfiðleikum og raunum. Nískupúkinn ömurlegi sem öllu hefur fórnað fyrir gróða, hatast í jólin. Hátíð og helgi eiga ekkert skjól í heimi hans, peningarnir eiga hug hans allan, mannlegt samneyti, umhyggja og ást er honum víðsfjarri, sálin er siggróin, hörð og köld. Hann þolir ekki jólin. Þangað til andi jólanna nær til hans og augu hans opnast. Hann sér að hann sem átti allt fór á mis við lífið. Hann sér að einsemdin ein verður hlutskipti hins sjálfselska, sjálfhverfa sjálfgæðings. Hann sér að allir eru í þörf fyrir hjálpræðið, björgunina sem kærleikurinn, umhyggjan er, það sem krossinn á turnspírunni táknar, og klukknahljómurinn og söngurinn tjáir. Andi jólanna lýkur upp augum og hjörtum fyrir góðvild og fegurð í umhverfinu, í öðru fólki, í mannlegu samfélagi, og fyrir þeim möguleikum sem lífið veitir til að gera öðrum gott, gleðja aðra, bæta lífið. Andi jólanna vekur vonina um framtíð, frið og gleði, fyrirgefning og frelsi. Af því að andi jólanna er andi frelsarans, Jesú Krists. Guð gefi okkur öllum af þeim góða anda helgra jóla, ljós hans og gleði blessi okkur öll og gefi gleðiríka aðventu og blessuð, heilög jól í Jesú nafni. Karl Sigurbjörnsson