Orðið og eftirfylgdin

Orðið og eftirfylgdin

Þegar yfirvöldin, hver sem þau eru, fjarlægjast það samfélag fólks sem þau eru sett til að starfa fyrir og starfa með og þjóna, hugsa fyrst um sig, bregðast þau því umboði sem felst í ábyrgðinni frammi fyrir Guði.

Jesús svaraði: „Ef Guð væri faðir yðar munduð þér elska mig því að frá Guði er ég út genginn og kominn. Ekki hef ég sent mig sjálfur. Það er hann sem sendi mig. Hví skiljið þér ekki mál mitt? Af því að þér getið ekki hlustað á orð mitt. Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gera það sem faðir yðar girnist. Hann var manndrápari frá upphafi og hefur aldrei þekkt sannleikann því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu því hann er lygari og lyginnar faðir. En af því að ég segi sannleikann trúið þér mér ekki. Hver yðar getur sannað á mig synd? Ef ég segi sannleikann, hví trúið þér mér ekki? Sá sem er af Guði heyrir Guðs orð. Þér heyrið ekki vegna þess að þér eruð ekki af Guði.“ Þeir svöruðu honum: „Er það ekki rétt sem við segjum að þú sért Samverji og hafir illan anda?“ Jesús ansaði: „Ekki hef ég illan anda. Ég heiðra föður minn en þér smánið mig. Ég leita ekki míns heiðurs. Sá er til sem leitar hans og dæmir. Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem varðveitir mitt orð skal aldrei að eilífu deyja.“ Jóh 8.42-51

Hold er tregt, minn herra mildi, í hörmungunum að fylgja þér. ó ég feginn feta vildi fótspor þín, sem skyldugt er, viljinn minn er í veiku gildi, þú verður því að hjálpa mér.

Komir þú undir krossinn stranga, kristin sála, gæt þess hér, ef holdið tekur að mögla og manga, minnstu hver þín skylda er. Láttu sem þú sjáir ganga sjálfan Jesúm undan þér. (Hallgrímur Pétursson. PS 30)

Náð sé með yður og friður, frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Kæri Langholtssöfnuður.

Það er alltaf jafn mikið gleðiefni að fá að vera gestur hér í þessum stól og við þetta altari. Þökk fyrir að leyfa mér það. Og í dag er sunnudagurinn Okuli eða augu. Hann heitir svo af því að þannig byrjar hinn forni inngöngusöngur messunnar: Augum mínum lyfti ég til þín, Drottinn. (Þetta er úr sálmi 25. 15, en þýðingin er önnur).

Það má segja að stef sunnudagsins sé þetta: Hvert horfir þú maður, þessa dagana? Svarið er í passíusálmsversinu hér á undan: Láttu sem þú sjáir ganga, sjálfan Jesúm undan þér.

Kæri söfnuður. Kannski er þetta alveg nógu löng predikun, nema af því að það væru vinnusvik gagnvart söfnuðinum sem á rétt á því að heyra útleggingu guðspjallsins, og líka þegar því er ekki að að leyna að það er nú ekki auðveldasta guðspjall ársins sem predikurum dagsins er treyst fyrir til að útleggja.

Við gætum auðvitað í staðin fyrir að snúa okkur beint að guðspjallinu dvalið við lexíuna eða pistilinn. Við gætum tekið fyrir boðorðin tíu og spurninguna um virðingu þeirra, eða áherslu þeirra í nútíma samfélagi, eða bara í einkalífi okkar sem hér erum. Við gætum líka spurt hvort fermingarbörnin væru örugglega búin að læra þau.

Svo gætum við vísað til þess um leið, að í pistlinum er einmitt sú setning sem fylgdi fermingardeginum hér á Íslandi mjög lengi og sumstaðar enn:

Vertu trúr allt til dauða og Guð mun gefa þér lífsins kórónu. Við sem erum eldri höfum væntanlega öll heyrt þetta sagt yfir okkur á sínum tíma. Og kannski höfum við líka mætt þessari setningu stundum síðan, án þess að þurfa beinlínis að glíma við hana eða verja hana gegn andstæðingum hennar. En við komumst aldrei hjá því að spyrja hvaða merkingu hún hefur. Er ég trúr? Hvernig veit ég hvort ég er það? Ég veit að ég er trúr konunni minni, en er ég trúr frelsaranum sem ég vildi svo gjarna fylgja á fermingardaginn fyrir bráðum 48 árum.

Það er full ástæða til að hugleiða boðorðin, og um leið skýringar Marteins Lúters við þau. Það er jú ein af grundvallarundirstöðun þess að vera kristin manneskja.

Og það viljum við öll sem hér erum. Annars værum við alls ekki hér.

En nú er það sem sagt guðspjallið sem ræður ferðinni og er til umhugsunar fyrst og fremst á þessum degi. Og í dag er það eitt af þessum erfiðu.

Hvað er guðspjallamaðurinn Jóhannes eiginlega að fara? Jesús deilir ekki bara við gyðinga, heldur gyðingana, samkvæmt því sem hann segir. Er þetta ekki bara mjög villandi frásögn og helst til þess fallin að ala á úlfúð í garð gyðinga?

Jú það er einmitt þannig. Einmitt þess vegna þurfum við að gefa þessum texta rúm í predikun. Hann getur leitt fólk á villigötur. Líka fólk eins og okkur.

Guðspjallið í dag setur okkur fyrir sjónir mjög erfiðar kringumstæður frelsarans á leiðinni til Jerúsalem. Það er síðasta för hans þangað. Hann er á leiðinni til að fullkomna verkið sem hann var sendur til að vinna. Það er leiðin sem lýkur á krossinum með setningunni: Það er fullkomnað.

Við höldum kannski að við höfum ásamt honum afgreitt freistingasöguna í eitt skipti fyrir öll þegar freistarinn vék frá honum eftir föstuna í eyðimörkinni. En svo var auðvitað alls ekki. Ekki frekar en að við getum klárað þann kafla í lífinu á einum tilteknum degi. Freistingasögu mannsins lýkur aldrei meðan hann lifir.

Guðspjallið er klippt út úr langri frásögn með innbyrðis stígandi. Jesús glímir við andstæðinga sem hér eru kallaðir gyðingarnir. Það er rétt eins og hann hafi verið einn á móti öllum. En svo var auðvitað alls ekki.

Stígandin sýnir vel hvernig deilur geta stigmagnast þar til deilendur eru farnir að segja orð og setningar sem þeir myndu annars aldrei gera og kalla hver annan öllum illum nöfnum, eins og sagt er. Við höfum séð þetta og heyrt þetta, og þekkjum þetta.

Frásögnin endar á því að segja að þeir hafi tekið upp grjót til að grýta hann, en hann duldist og slapp frá þeim. Svo æstir voru þeir orðnir sem hann talaði við að þeir voru tilbúnir til að grípa til örþrifaráða og drepa andstæðing sinn. Bróður sinn.

Hér gætum við notað tækifærið og minnst þess hvernig ofbeldi getur brotist fram þegar illskunni nægja ekki lengur orð og svívirðingar, eða þegar vilji og löngun sem í grunninn er kannski allsekki vond heldur góð og eðlileg getur ekki tjáð sig í orðum eða kann það ekki og fær illan endi og grípur til líkamsmeiðinga.

Þetta er sannarlega líka sagan af því. Og um það þekkjum við því miður alltof mörg dæmi. Líka úr samtímanum. Kannski jafnvel úr eigin lífi. En það sem við skulum líka minnast hér og nú er að í þessa frásögn hefur gyðingahatrið sótt sér næringu. Við skulum muna að það eru ekki nema rúm sextíu ár liðin síðan slökkt var á ofnunum í Auswitsch og skrúfað fyrir gasið. Það er ekki lengur tími. Það er eiginlega ótrúlega og skelfilega skammur tími.

Skelfilegustu ógnir sem Vesturlönd hafa séð á þeim tíma sem kallast þó hinn siðmenntaði tími voru nærðar af þessu hatri á einum kynstofni.

Það væri rangt að halda því fram að kristnir menn eða kristin trú bæri ábyrgð á því sem þar gerðist. En það væri líka rangt að halda því fram að kristnir menn hefðu ekki komið nálægt því eða bæru enga ábyrgð.

Í sorg og í skömm minnumst við þess.

Gyðingahatur og kynþáttafordómar hverskonar byggja á samskonar fordómum og hatri eins og orð þeirra sem glíma við Jesú þennan dag sem guðspjallið greinir frá.

En með því að halda áfram að glíma við andstæðinga sína í orðum axlar Jesús líka ábyrgð á því í hvaða átt samtalið leiddist.

Það er hinsvegar algjörlega rangt að gera viðmælendur hans að einhverjum samnefnara fyrir gyðinga, rétt eins og við gerum ekki gyðinga sem heild ábyrga fyrir krossfestingunni. Þá værum við búin að gleyma orðum Jesú sjálfs þegar hann segir að mannssonurinn eigi einmitt að fara til Jerúsalem og líða þar þjáningu og smánardauða, en rísa upp á þriðja degi. Vegna bræðra sinna og systra. Vegna sona og dætra Ísraels. Fyrst. Síðan hinna.

Viðmælendur Jesú eru dæmi um þá sem telja sig ráða yfir þessum heimi, hafa fjarlægst vilja Guðs en sett sig í sæti hans. Þeir kalla til ákveðinnar réttarstöðu sinnar vegna þess að þeir séu synir Abrahams og hafi sem slíkir sérstakt umboð frá Guði. En vegna þess að þeir leita ekki vilja Guðs heldur síns eigin vilja kallar Jesús þá syni Satans. Þeir þjóna ekki Guði heldur höfuðandstæðingi hans.

Kæri söfnuður. Þegar yfirvöldin, hver sem þau eru, fjarlægjast það samfélag fólks sem þau eru sett til að starfa fyrir og starfa með og þjóna, hugsa fyrst um sig, bregðast þau því umboði sem felst í ábyrgðinni frammi fyrir Guði.

Það er það sem Jesús á við þegar hann talar um þá sem láta aðra kenna á valdi sínu. Í skjóli valds ætla þeir að ná sínum eigin vilja fram, og eiga jafnvel til að segjast gera það í Jesú nafni. Þeir þjóna ekki vilja föðurins. Það þýðir ekki að kenna sig til Abrahams og láta eins og hægt sé í skjóli þess ætternis, eða einhvers annars, að gera það sem þeim sýnist.

Vald er vandmeðfarið. Það er líka hægt að láta svo sem maður sé ekki ábyrgur meir fyrir sínum kjósendum þegar maður er kominn í ráðherrastól. Það er ágætt að hafa það í huga á þessum dögum, og einkum fyrir frambjóðendur. En þeir eru að reyndar ekki hér.

Föstutíminn og textar hans setja okkur oftar en einu sinni fyrir sjónir sýnishorn af því þegar syndin lúrir og bíður við dyrnar þangað til hún nær yfirhöndinni, eins og í frásögninni um Kain og Abel. Guð sagði við Kain: Ef þú gjörir ekki rétt þá liggur syndin við dyrnar og hefur hug á þér, en þú átt að drottna yfir henni.

Það gerði Kain ekki, heldur fór og drap bróður sinn.

Hið sama býr að baki þeim árekstri sem guðspjallið lýsir. Þeir, sem nefndir eru vilja drepa Jesú, sem þó er einn af þeim og bróðir þeirra. Þeir leita ekki vilja Guðs og heyra því ekki það sem Jesús segir þeim. Þeir heyra bara í sjálfum sér.

Við getum öll haft svo hátt að við heyrum ekki það sem við ættum að heyra. Og alls ekki Guð.

Kæri söfnuður.

Það er þriðji sunnudagur í föstu. Hann heitir Okuli. Augu. Við horfum í ýmsar áttir. En það eru augu Drottins sem á okkur hvíla. Við erum á leið til Jerúsalem með Jesú frá Nasaret. Við höfum valið okkur það.

Á leiðinni mæta honum einstaklingar og hópar. Sumir eru sjúkir og hann læknar þá. Sumir eru gagnrýnir og hann sannfærir þá, aðrir eru tortryggnir og forðast hann.

Sumir treysta honum og fylgja honum, aðrir sjá í honum ógn við líf sitt og stöðu og hafna honum eða vilja tortíma honum. Hið sama gerist enn í dag.

Samtalið sem við höfum heyrt er ekki þeirrar gerðar að við getum leitt það hjá okkur.

Þess vegna er þetta predikunartexti og sunnudagsguðspjall. Ástæðan felst í lokasetningunni. Hún er jafngild þá og nú, jafngild fyrir yfirvöldin og fyrir fermingarbörnin: Jesús sagði:

Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem varðveitir mitt orð, skal aldrei að eilífu deyja.

Það er Gvendardagur á morgun. Týndur dagur og týnd minning Guðmundar góða, biskups á Hólum. Það er þarfleg iðja kristins manns að hugleiða sögu hans. Hvað sem annars má um hann segja gildir vissulega að : Hann varðveitti Orð Guðs og erindi Jesú Krists. Það er þannig sem maður er trúr allt til dauða og mun öðlast kórónu lífsins.

Með því að varðveita orð hans sem sjálfur var trúr.

Postulinn skrifar: Trúr er sá, er yður kallar, hann mun koma þessu til leiðar. (1.Þess.5.24)

Dýrð sé Guði, Föður og syni og heilögum Anda, svo sem var í upphafi er og verður frá eilífð til eilífðar. Amen