Þrjár ástarsögur og appelsínur

Þrjár ástarsögur og appelsínur

Hvað gerir mannlíf þess virði að lifa því? Önnur tengd spurning og meiri: Hvað gerir líf Guðs þess virði að lifa því? Í faðmlögum fjölskylduboðanna og augntillitum hinna ástföngnu eru vísbendingar um svör?
fullname - andlitsmynd Sigurður Árni Þórðarson
25. desember 2008
Flokkar

Ég spurði son minn hvað væri honum mikilvægt í jólamessunni. Hann hugsaði sig um stundarkorn en sagði svo: “Jólasálmarnir og jólaguðspjallið.” Pabbinn vildi fá að vita hvort fleira væri mikilvægt. Hvað um prédikun prestsins? Drengurinn svarði: Nei, það má eiginlega sleppa henni! Hvað er mikilvægt á jólunum? Og hvað er mikilvægt í lífinu? Mig langar til að segja þér þrjár ástarsögur í dag til að tala um jólin, gildin og inntak lífsins.

Jólagjöfin 1940

Fyrsta sagan er af Birni og Ingu, sem hittust niður í Austurstræti fyrir 68 árum. Það varð lífsgæfa þeirra og happ, að þau opnuðu líf sitt fyrir hvoru öðru og fyrir hvort annað. Björn var Guðjónsson, hann fæddist í Bjarnastaðabænum við Ægisíðu. Á Grímstaðaholtinu var hann kallaður Bjössi og flestir íbúar hér í nágrenninu þekktu hann því hann var kunnasti grásleppkarlinn, sem gerði út frá Grímsstaðavörinni. Ég þekkti Björn, mat hann mikils og fylgdi honum hinstu ferð hans fyrr í þessum mánuði.

Björn fór í margar vel heppnaðar veiðiferðir, en besta ferðin hans var rúnturinn í Austurstræti. Á jóladag hitti hann Ingu Jóelsdóttir, konuefnið sitt, í fyrsta sinn. Vinkonur voru á ferð á þeim hátíðardegi árið 1940 og Björn og vinur hans voru úti að aka, en höfðu þó augun hjá sér. Þeir sáu dömurnar, buðu þeim í bíltúr og ferðin endaði í húsi við Tjarnargötu. Þar kom í ljós, að þau Björn og Inga höfðu líkan smekk. Þegar ávaxtaskálin fór hringinn sá Inga appelsínu, sem hana langaði í, en Björn var á undan. Hann var alla tíð snöggur, glöggur og rífandi gamansamur, sá auðvitað löngunartillit hennar og valdi appelsínuna, sem hún vildi.

En dýpri rökin voru, að Björn vildi það sama og Inga. Hans viðmið voru hin sömu og hennar. Hann mat það, sem henni hugnaðist og Inga varð hans appelsíustelpa. Hann varð ekki aðeins jólabjörninn hennar, heldur jólagjöf fyrir lífið. Inga heillaðist af Birni á jóladegi og varð síðan hans. Saga þeirra er ástarsaga, yndisleg saga, sem bar ávöxt ekki aðeins í börnum þeirra, elskusemi og virðingu á heimili þeirra heldur líka í samfélaginu sem þau lifðu í og voru hluti af. Þau iðkuðu ástina og urðu því gleðigjafar í mannfélagi okkar hér í Vesturbænm. Góð ástarsaga.

Appelsínustelpan

Sagan af örlaga-appelsínu Ingu og Björns minnti mig á bók eftir norska rithöfundinn og spekinginn Jostein Gaarder, sem heitir Appelsínustelpan. Þetta er nýlega þýdd bók á íslensku, hefur ekki farið víða, jafnvel dugmestu bóklesarar hafa ekki lesið hana. Það er miður því hún er undursamleg ástarsaga um mann, sem heillaðist af stúlku sem rogaðist með appelsínur í fyrstu skiptin, sem þau sáust. Appelsínusóknin átti sér eðlilegar skýringar og margt er ofið inn í söguna um þann merka ávöxt.

Stúlkan og maðurinn áttust en maðurinn veiktist ungur og lést eftir skamma legu. Hann skrifaði ástarsögu sína áður en hann dó - fyrir Georg, litla drenginn þeirra. Enginn vissi um, að maðurinn ritaði dauðsjúkur þetta opinskáa og tilfinningaþrungna skrif til drengsins því hann faldi það. En svo fannst þetta langa bréf ellefu árum síðar, þegar Georg var kominn á unglingsaldur.

Sagan er grípandi og heldur lesandanum föngnum. Hin áleitna meginspurning, sem pabbinn vill fá drenginn sinn til að hugsa um og höfundur vill fá lesendur einnig til að íhuga er: Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Menn hafa spurt og pælt í þeirri gátu frá árdögum manna. Aristóteles glímdi við hana, sjáendur Gamla testamentisins einnig. Jesús Kristur vann með þá spurningu með ýmsu móti og við komust ekki undan því að svara henni eða bregðast við henni með einu eða öðru móti, jafnvel þó við viljum ekki horfast í augu við hana eða svara.

Hvað gerir lífið þess virði að lifa því? Og tengdar spurningar eru: Ef lífið er stutt er það ekki líf sem vert er að lifa? Hvað þarf maður, að hafa lifað til að maður sé sáttur við líf sitt? Er stutt líf minna virði en það sem er langt og jafnvel ekki þess virði að lifa því?

Niðurstaðan er hin sama fyrir fólk allra alda, fólk suður í Grikklandi, austur við Genesaretvatn, á Högum og Melum lífsins og – niður við Ægisíðu, að lífið er mikils virði vegna þess að fólk elskar, fólk upplifir ástina, upplifir að lífið er í ástvinunum. Ekkert okkar sleppur við einhverjar raunir – líka í ástvinum okkar. Öll lifum við mótlæti, en lífið er stórkostlegt og gjöfult vegna þess, að við fáum að elska og vera elskuð. Þetta var önnur ástarsagan sem mig langaði til að miðla þér. Góð ástarsaga.

Jólaboðskapurinn

Og þá er komið að þeirri þriðju. Í tilfinningum og ástarsögum manna getum við séð speglast ástleitni Guðs. Við megum gjarnan sjá í öllum elskutjáningum manna brot af því, að Guð teygir sig til manna, Guð réttir hjálparhönd og Guð elskar. Af því Guð elskar erum við mikils virði, eigum í okkur gildi og erum markmið í sjálfum okkur. Guð er forsenda alls sem er, allra gilda, sjálfsvirðingar manna og ástarinnar þar með. Menn geta elskað þótt þeir trúi ekki á Guð, en trúmaðurinn sér í þeirri elsku afleggjara Guðs. Menn geta elskað börnin sín og maka óháð trú, en trúmaðurinn sér í þeirri elsku speglun himinelskunnar, sem er hið stóra samhengi þegar lífsferð manna lýkur. Við erum umlokin elsku himinsins. Við erum elskuð.

Guð og barn virðast í fljótu bragði vera fullkomnar andstæður, en varðar þó meginmál kristninnar. Spurningin um hvað geri mannlífið þess vert að lifa því er áleitin. Hin hlið þeirrar spurningar er hvað geri líf Guðs þess virði að lifa því. Kristnir menn hafa í tvö þúsund ár gruflað í af hverju Guð hafi orðið maður. Af þeim pælingum hafa orðið margar bækur og mismunandi og varða skilning á eðli Guðs og eðli Jesú Krists.

Elskuþrennnan

Ég tek mark á heimspekigreiningu upplýsingartímans og tel að við menn getum ekki skilgreint eðli Guðs. Við höfum ekki nema brotkennda skynjun og túlkunargetu varðandi hvað Guð er og þá aðeins í ljósi Jesú Krists og þeirri veröld sem við teljum að Guð hafi skapað. Þetta þýðir, að við getum og megnum ekki að smíða frumspekikenninar um Guð. Hins vegar er ekkert, sem bannar okkur að reyna að tjá afstöðu, innri skilning og trúarskoðun. Sú tjáning er eins og bæn eða ástarjátning.

Hinar fornu trúarjátningar tjá skýrt, að guðdómur kristinna manna er þrenning, sönn og ein, þrjár persónur í einingu, faðir, sonur og heilagur andi. Mismunandi tímar hafa lagt í þær persónur mismunandi skilning og mismunandi hlutverk. Í jólagleði og félagslegu ríkidæmi fjölskylduboðanna, sem við sækjum og njótum þessa daga, megum við gjarnan lyfta upp og gleðjast yfir, að Guð er Guð samfélags, Guð félagsfjölbreytni, lifandi samfélag persóna í elskuríkri sambúð, í skapandi dansi kærleikans. Faðir, sonur og heilagur andi lifa í hver öðrum, sem sjálfstæðar og frjálsar persónur, en þó sameinaðar í elsku og þar með á dýptina.

Af hverju varð Guð maður? Já, af hverju lætur Guð sig varða þennan útnára veraldarinnar, sem jörðin og mannheimur er? Af hverju lætur lýtur stórveldið að smælkinu? Af hverju nemur það, sem er allt - hitt sem er nánast ekkert? Af hverju er Guð ekki bara upptekinn af sínu jólaboði eilífðar, en tekur eftir þér í þínum aðstæðum, heyrir í þér, ber þig á örmum sér, finnur til með veikum frumum þínum, fagnar með þér þegar gleðin hríslast um þig, líður með þér angist þína, og vitjar þín, kemur til þín þar sem þú er kominn í strand, í öngstræti og á enda? Það er vegna þess, að Guð er guð elskunnar. Guð er vanur að elska í fjölbreytni samfélags guðdómsins, Guð er stór og útleitandi í ástalífi sínu, ekki innilokaður og sjálfhverfur, heldur ríkur og fangvíður. Þannig er ástin og sagan af Guði er góð ástarsaga.

Hvernig horfir þú á veröldina? Er hún þér smá og lokuð eða stór og skapandi? Getur þú hugsað þér að túlka jörð og stjörnur, heimsferla og vetrarbrautir, líf þitt og líf í fjarlægð sem stórkostlega ástarsögu, sögu sem á sér rætur í guðlegu drama, gleðilegu, umhyggjusömu og gefandi? Ef þú ert reiðubúinn til slíks ertu að byrja að nema veröld Guðs, sem umspennir allt.

Saga Björns og Ingu, allt frá Austurstrætisrúntinum á jóladegi 1940, er hrífandi. Saga Appelsínustelpu Gaarders er stórkostleg og fær mann til að staldra við lífsmálin og horfa elskulega á fólkið sitt. En dýpst og mest er ástarsaga Guðs, sem elur af sér heiminn, viðheldur honum og blessar hann. Spurningunni, af hverju varð Guð maður, verður best svarað með skírskotun til ríkulegs ástalífs Guðs. Ástfangnir heyra og sjá. Guð sér þig, heyrir raddir heimsins, miðlar inn í veröldina hæfni til elska, næra og ala af sér líf.

Við megum sjá Guð í ástarsögum heimsins. Veröldin er frá upphafi alin í ástareldi. Allt efni, öll tilveran kraumar af ást, Guðsástinni meðal mannanna.