Hvernig Guð er ...

Hvernig Guð er ...

Enn sagði hann: Maður nokkur átti tvo sonu. Sá yngri þeirra sagði við föður sinn: Faðir, lát mig fá þann hluta eignanna, sem mér ber. Og hann skipti með þeim eigum sínum. Fáum dögum síðar tók yngri sonurinn allt fé sitt og fór burt í fjarlægt land. Þar sóaði hann eigum sínum í óhófsömum lifnaði. En er hann hafði öllu eytt, varð mikið hungur í því landi, og hann tók að líða skort. Fór hann þá og settist upp hjá manni einum í því landi. Sá sendi hann út á lendur sínar að gæta svína. Þá langaði hann að seðja sig á drafinu, er svínin átu, en enginn gaf honum.

En nú kom hann til sjálfs sín og sagði: Hve margir eru daglaunamenn föður míns og hafa gnægð matar, en ég ferst hér úr hungri! Nú tek ég mig upp, fer til föður míns og segi við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum.

Og hann tók sig upp og fór til föður síns. En er hann var enn langt í burtu, sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann. En sonurinn sagði við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Þá sagði faðir hans við þjóna sína: Komið fljótt með hina bestu skikkju og færið hann í, dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum. Sækið og alikálfinn og slátrið, vér skulum eta og gjöra oss glaðan dag. Því að þessi sonur minn var dauður og er lifnaður aftur. Hann var týndur og er fundinn. Tóku menn nú að gjöra sér glaðan dag.

En eldri sonur hans var á akri. Þegar hann kom og nálgaðist húsið, heyrði hann hljóðfæraslátt og dans. Hann kallaði á einn piltanna og spurði, hvað um væri að vera. Hann svaraði: Bróðir þinn er kominn, og faðir þinn hefur slátrað alikálfinum, af því að hann heimti hann heilan heim.

Þá reiddist hann og vildi ekki fara inn. En faðir hans fór út og bað hann koma. En hann svaraði föður sínum: Nú er ég búinn að þjóna þér öll þessi ár og hef aldrei breytt út af boðum þínum, og mér hefur þú aldrei gefið kiðling, að ég gæti glatt mig með vinum mínum. En þegar hann kemur, þessi sonur þinn, sem hefur sóað eigum þínum með skækjum, þá slátrar þú alikálfinum fyrir hann. Hann sagði þá við hann: Barnið mitt, þú ert alltaf hjá mér, og allt mitt er þitt. En nú varð að halda hátíð og fagna, því hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn. (Lúkas 15:11-32)

Dæmisaga Jesú Krists um týnda soninn er kjarninn í fagnaðarboðskap hans. Hún er sterk og hún gleymist engum sem hefur heyrt hana. Varla er hægt að lesa hana án þess að komast við, klökkna. Sennilega er ekki vitnað jafn oft í nokkra aðra líkingu eða dæmi í samfélagi manna. Hún er svo skýr og einföld, næstum að segja barnalega einföld. En hún segir það með svo ljósum hætti hvernig Guð er.

Hvatinn að sögunni kom þó ekki til af góðu.

Kristur hafði verið að tala við þá lægst settu í þjóðfélaginu, tollheimtumenn, syndara, setið með þeim veislur og kynnst þeim. Hinum virtari og betri borgurum landsins, fræðimönnum og faríseum, fannst það ekki við hæfi að maður sem vildi láta taka sig alvarlega skyldi leggjast svo lágt. Þeir gagnrýndu hann fyrir að tala við þetta fyrirlitlega fólk. Með því að fara ekki í manngreinarálit var Kristur talinn grafa undan almennu velsæmi, trú og góðu siðferði. Þá sagði hann söguna af týnda syninum. Og þess vegna eigum við þessa perlu, sem varpar svona skæru og fögru bliki á fagnaðarerindið.

Sagan hefst á alveg ótrúlegri heimtufrekju yngri sonarins á heimilinu. Mætti halda að hann hefði alist upp í þjóðfélagi okkar. Allt svo sjálfsagt. Hann gæti vaðið áfram hugsunarlaust. Nú segir hann við föður sinn:

Setjum nú svo pabbi að þú sért dáinn þá ætti ég helminginn af eignunum. Ég á hins vegar framtíðina fyrir mér, og ég ætla að láta til mín taka, berast á, verða partur af þotuliðinu, vera á myndunum í glanstímaritunum. Eins og þú veist þá er í tísku að vera ungur, ríkur og fallegur. Tækifærin bíða mín úti í heimi. Mín upphefð kemur að utan.

Og faðirinn segir: Gott og vel. Gerðu svo vel, farðu með þitt líf eins og hugur þinn stendur til.

Þvílíkt uppeldi á blessuðum drengnum! Var nema von að eitthvað væri að sonunum og lífi þeirra með þennan glataða föður. Var það heldur nema von að farísearnir og fræðimennirnir hneyksluðust? Væri nú ekki nær að gera kröfur til sonarins? Og ef ekki varð tauti við hann komið að senda hann þá í sveit hjá einhverju öðru fólki, láta hann vinna, leggja fyrir og koma svo til baka sem almennilegur og ábyrgur maður, sem verðskuldaði eitthvað? Nei, nei. Hann fór með fullar hendur fjár og gleymdi sér í glamúrnum og sukkinu, eyddi öllu, og endaði vinalaus og alls laus um síðir. Svo allslaus að hann er farinn að fóðra svín, þessa dýrategund sem var óhrein og viðbjóðsleg öllum sönnum Gyðingum.

Og segir svo í guðspjallinu: "En nú kom hann til sjálfs sín...". Það var semsé ekki eins og rynni upp fyrir honum ljós, gjörbreyttum manni, sem göfgaðist skyndilega. Nei, nei, ekkert svoleiðis. Hann bara var í skítnum og vildi helst ekki vera þar. Það var nú allt afturhvarfið. Mundi eftir gömlum, góðum dögum heima í örygginu. Hann var svo sem ekkert að hugsa um það hvernig hann var búinn að fara með föður sinn, virðist ekki hafa séð neitt rangt við það heldur sá hann fyrir sér dúkað borð heima, og svo sá hann fyrir sér vinnumennina fyrir sér. Þeim leið ágætlega á búgarðinum. Og hann dreif sig af stað til þess að gerast vinnumaður í kartöflugörðunum heima.

Svo kemur hann heim og allt er gott, óskaplega gott og faðirinn lætur drenginn ekki lofa sér neinu. Hann segir ekki: Nú hagar þú þér eins og maður. Nú vinnur þú eins og stóri bróðir, - nei ekkert um það heldur: Þér er fyrirgefið -skilmálalaust fyrirgefið. Þú átt alla sömu möguleika og hann bróðir þinn og allir aðrir hér eftir sem hingað til.

• • •

Góðir vinir.

Þessi samlíking Krists var eitt mesta hneykslunarefnið hjá öllu almennilegu fólki meðal hans þjóðar. Sumum finnst líka á okkar tímum að það sé ekkert sjálfsagt og jafnvel ekki einu sinni æskilegt að Guð sé eins og faðirinn í sögunni. En þetta er fagnaðarerindið. Guð vill eiga breyska barnið sitt, hvernig sem ástatt er fyrir því, hvað sem það hefur af sér gert. Guð er skilyrðislaus, óskiljanlegur kærleikur.

Og það er þessi takmarkalausi kærleikur Guðs föður sem Kristur kom til að birta okkur. Þetta er ekki bara saga sem frelsarinn segir, heldur er þetta líf hans og boðskapur. Það er hann sem sagði söguna og sýndi hana svo oft og oft í lífi sínu. Með þessum hætti tók hann á móti syndurum, týndum og tættum sonum og dætrum Guðs. Þeim sem höfðu farið illa með líf sitt og sóað því, - þeim sem voru búnir að brjóta og týna.

Þannig sendi hann tollheimtumanninn réttlættan heim, þann sem sagði í sálarneyð sinni: Guð vertu mér syndugum líknsamur. Guð fyrirgaf skilyrðislaust. En inum, faríseanum sem taldi sig mikinn af sjálfum sér og verðleikum sínum gat hann ekkert gefið eða fyrirgefið. Sagan um faríseann og tollheimtumanninn er önnur hneykslanleg saga Krists sem var notuð gegn honum síðar.

Bræðurnir í sögunni eru jafnir, það þýðir ekkert að vinna sig í álit hjá Guði. Auðvitað er það hart fyrir eldri bróðurinn, þann sem stendur sig, þann sem er trúr í stöðu sinni. En samt sem áður fær maður ekki samúð með eldri bróðurnum. Ég verð að viðurkenna að ég hef hins vegar alltaf haft svolitla samúð með alikálfinum. Eins og þegar prestur var að segja þessa dæmisögu og spurði svo: En hver var ekki glaður þegar yngri sonurinn kom heim. Og eitt barnið svaraði: Alikálfurinn - en það er nú reyndar annað mál - og þarna er það eldri sonurinn sem er miður sín. Honum virðist að vilji maður fá alla athyglina og komast í uppáhald þá sé rétt að stinga af og gera ótal vitleysur. Rétt eins og kennarinn man alltaf best eftir erfiðu nemendunum, ekki hinum sem standa sig sæmilega.

Þessi náð er ekki bara ódýr heldur virðist vera betra að syndga, syndga upp á náðina heldur en að standa sig.

Eldri sonurinn á sér marga skoðanabræður og systur í dag. Sá sem trúir, sá sem tekur trú sína alvarlega heldur sig frá öllu sem getur spillt getur vissulega freistast til þess að hugsa svona.

• • •

En náð Guðs hefur ekki áminnandi augnaráð og kærleikur hans er ekki háður framgöngu þinni. Vangaveltur um líf og breytni annarra, umhugsun um hvað aðrir segi um þetta eða hitt, það eru fjötrar, sem fólk leggur á sjálft sig, - og stundum aðra, - fólk sem ekki hefur kannski of mikið sjálfstraust og verður öryggislaust við slíka gagnrýni, - slíkt augnaráð, slíkt eftirlit, þetta sem Jón úr Vör kallar stjúpmóðurauga samfélagsins. Það bætir engan og ekkert, en veldur óþægindum og margs konar þjáningu.

Kærleikur Guðs er skilmálalaus. Það gerir hann svo stórkostlegan.

Bræðurnir eru jafnir fyrir föður sínum. Guð á nógan kærleika handa öllum, bræðrum og systrum á þessari jörð. Það er enginn munur á fólki.

Í þessu góðir vinir liggur dýpt fagnaðarerindisins. Þú vinnur þig ekki í álit hjá Drottni. Allt er komið undir kærleika hans. Ég er háður náð hans og fyrir miskunn Guðs eina er ég frelsaður. Þú - ég - við fáum aldrei tilefni til að hrósa okkur af neinu fyrir Guði. Það er kærleikur hans einn, sem ræður úrslitum.

Skírnin á að vera okkur árétting þessa. Þú ert Guðs barn og átt bræður og systur hvarvetna. Við njótum þess alla tíð. Eldri sonurinn sagði: Þessi sonur þinn - hann sagði ekki: Þessi bróðir minn. En gætum þess að ef við neitum þessum nána skyldleika okkar, sem systkini öll, þá erum við ekki aðeins að neita að trúa á skírnina heldur einnig kærleika Guðs. Þannig var það eldri sonurinn sem var týndur, glataður, ekki sá yngri.

Af þessu megum við læra. Guð þarf ekki að gera upp á milli. Hann á nógan kærleika handa öllum. Eins og góðir foreldrar sem elska börnin sín þannig að þeim finnst, hverju og einu að þau séu í sérstöku uppáhaldi.

Og svo kemur fagnaðarerindi upprisunnar til sögunnar í orðunum: Því hann bróðir þinn sem var dauður er lifnaður aftur. Já, við heyrum aldrei þennan boðskap til hlítar og höfum aldrei vaxið upp úr því að heyra hana. Hann er kjarni kristinnar trúar. Og við þurfum að heyra hann aftur og aftur.

Höldum áfram með söguna svolítið lengra. Voru allir hamingjusamir á búgarðinum eftir þetta? Allir heima upp frá því, allir búnir að læra sínar lexíur? Segir reynslan okkur það? Kennir ekki reynslan það að við lærum lítið af reynslunni? Hvað gerðist eftir þetta á búgarðinum, höfuðbólinu í dæmisögunni?

Ef að líkum lætur varð sonurinn aftur leiður á tilbreytingarlausu lífinu heima. Og dag einn fór hann að heiman. Ekkert spurðist til hans. Þegar hann var nefndur á nafn þá hnussaði í eldri bróðurnum. En faðirinn beið þolinmóður hugsaði hlýtt til breyska barnsins síns og vonaði.

Og sá dagur rann upp að sonurinn kom aftur heim, þreyttur og illa til reika. Og faðirinn tók á móti honum án ásakana, skilyrðislaust. Þú ert barnið mitt og allt mitt er þitt. Og þannig áfram aftur og aftur. 70 sinnum 7 sinnum. Í Jesú nafni. Amen.

Hjálmar Jónsson er prestur í Dómkirkjunni í Reykjavík. Flutt á þriðja sunnudegi eftir þrenningarhátíð, 6. júlí 2003.