Við erum með eitruð gen

Við erum með eitruð gen

Mörg börn í Alþýðulýðveldinu fóru á mis við friðsama æsku vegna þess að pabbi og mamma fóru út af fyriskipuðu spori. Sum þessara barna eru mörkuð fyrir lífstíð og mörg bitur. Svo eru afkomendur valdsmanna líka flekkaðir. Eitt þeirra dró saman hræðilega stöðu þeirra með: „Við erum með eitruð gen.“
fullname - andlitsmynd Sigurður Árni Þórðarson
17. september 2012

eitrud-gen-450.jpgMarteinn Lúther negldi skjal á dyr Hallarkirkjunnar í Wittenberg og siðbreyting og siðbót hófst. Hamarshöggin og hugsun Lúthers opinberuðu vitleysur tímans, sem hægt var að leiðrétta. Hallarkirkjan og dyr hennar eru síðan hvetjandi tákn um að fólk sinni lífsleikni og taki á móti Guðsgjöfunum. Ég var í Íslendingahópi sem fór um Lúthersslóðir og heillaðist af dramatískri sögu siðbótartímans, mannvirkjum og náttúru svæðisins. En svo fengum við líka að heyra um baráttu fólks, sem enn lifir. Á tímum Hitlers og síðar Alþýðulýðveldisins voru framin hryllileg ofbeldisverk gagnvart pólitískum andófsmönnum, umhverfissinnum og kirkjufólki. Uppgjörið er rétt að byrja og ekki útséð með allar afleiðingar.

Við hlið Hallarkirkjunnar er orðastaður, akademía sem lútherska kirkjan í Þýskalandi rekur. Markmið starfsins er samtal, aukinn skilningur og sátt. Þar heyrðum við m.a. sagt frá viðbrögðum mismunandi hópa eftir hrun kommúnismans. Margir Stasiliðar hafa haldið fram að þeir hafi ekki gert neitt rangt. Svo eru fórnarlömb þeirra hinum megin borðs og bera djúp sálarsár. Hvernig á að fyrirgefa vondu fólki og tuddum þeirra? Flekkun feðra og mæðra smitast í marga liði. Börn kúgara og börn fórnarlamba glíma lengi við afleiðingar. Ekki er þeim að kenna að þau urðu til. Þau áttu enga sök á gerðum foreldra. Mörg börn í Alþýðulýðveldinu fóru á mis við friðsama æsku vegna þess að pabbi og mamma fóru út af fyriskipuðu spori. Sum þessara barna eru mörkuð fyrir lífstíð og mörg bitur. Svo eru afkomendur valdsmanna líka flekkaðir. Eitt þeirra dró saman hræðilega stöðu þeirra með: „Við erum með eitruð gen.“

Sár Stasilandsins eru djúp (- lesið nýútkomna bók Önnu Funder!). Tíminn læknar engin sár nema þau séu skoðuð, hreinsuð og unnið með þau af heiðarleika. Börn sorgarinnar og einnig þau með eitruðu genin þarfnast sáttar. Hlutverk kraftmikillar kirkju er að vera farvegur hins góða. Lífgjöf er mál Guðs sem elskar og vill hreinsa hið sauruga. Lúthersneglan á Hallarkirkjudyr varðar að menn geti losnað við eitruð gen, náð sátt og búið við frið. Á sínum tíma mótmælti siðbótarkirkjan vondum hlutabréfum eilífðar og nútímakirkja berst gegn flekkun mennsku, samfélags og náttúru. Hlutverk okkar er að hreinsa sár og vera farvegur lífs. Eitrað samfélag á ekki að líða og ekki heldur að fólki finnist það hafi eitruð gen hvorki í Þýskalandi né á Íslandi. Siðbótar er sífellt þörf.