Fastan er 40 dagar en páskarnir eru 50

Fastan er 40 dagar en páskarnir eru 50

Hvernig segjum við gleðilega páska í fimmtíu daga? Með því að segja það upphátt? Aftur og aftur og aftur og aftur? Það er ein leið. Svo þurfum við líka að segja það með lífinu okkar. Viljið þið vita hvernig?

Það er aðfangadagur jóla. Klukkan rétt að verða sex. Og nú er tíminn þegar hlustun á útvarp er víst mest allt árið - þöglu mínúturnar fimmtán áður en jólahátíðin gengur í garð. Klukkurnar í Dómkirkjunni slá sex og heyrum það í útvarpinu og óskum hvert öðru gleðilegra jóla. Jólakveðjan lifir svo með okkur allt kvöldið og fram á jóladaginn sjálfan og kannski fram á annan í jólum. En á þriðja deginum vita margir ekki hvað þeir eiga að segja. Sumir segja: gleðilega rest en finnst það hálf ankannalegt. Samt vara jólin í þrettán daga og auðvitað má eigum við að óska hvert öðru gleðilegra jóla allan tímann - og helst á hverjum degi.

* * *

Það er páskadagur. Sólin gægist upp fyrir fjöllin og fyrstu geislarnir strjúka vangann og við finnum ylinn og horfum á hvert annað og brosin læðast fram á varir og svo kemur kveðjan: Gleðilega páska.

Svo eftir messu og morgunverð eru páskaeggin snædd og við erum mett og glöð því það eru loks komnir páskar eftir langa föstu - sem við köllum meira að segja lönguföstu. Og þessi árin hittir hún einhvern veginn í mark af því að það eru svo mörg samviskubit í samfélaginu okkar: - Sumir borða of mikið - Sumir borða ekki rétt - Sumir hreyfa sig of mikið - Sumir hreyfa sig of lítið - Sumir keyptu sér flatskjá fyrir Hrun - og svo framvegis.

Gleðilega páska segjum við á páskadegi. En hvað segjum við svo á öðrum degi páska? Eða þriðja? Og hvað segjum við á tuttugasta og níunda degi páska? Ættum við ekki bara að segja: Gleðilega páska!

* * *

Tuttugasta og níunda degi páska kann einhver að spyrja. Já. Þetta er svolítið merkilegt með kirkjuárið okkar. Á undan stórhátíðunum kemur er föstutími. Jólafastan sem er rúmar þrjár eða tæpar fjórar vikur. Svo koma þrettán jóladagar. Langafastan sem varir í fjörutíu daga. Svo koma fimmtíu páskadagar. Fimmtíu.

Finnst ykkur það ekki magnað? Við köllum dagana fimmtíu stundum gleðidaga. Og það eiga þeir að vera.

* * *

En hvernig segjum við gleðilega páska í fimmtíu daga? Með því að segja það upphátt? Aftur og aftur?

Það er ein leið. Og við megum svo sannarlega temja okkur það. Það er nefnilega góð áminning um mikilvæg páskanna í því fólgin að segja gleðilega páska við fólkið sitt, ekki einn morgunn heldur fimmtíu morgna í röð!

Svo þurfum við líka að segja það með lífinu okkar. Hvernig þá?

Hér koma nokkrar hugmyndir:

Páskarnir eru tíma langvarandi hátíðarhalda. Við eigum að halda veislur og bera fram góðan mat og drykk. Gera okkur dagamun. Við getum til dæmis fengið okkur - eða boðið öðrum - súkkulaði í morgunmat. Þannig segjum við gleðilega páska.

Páskahelgið í kirkjunni á að einkennast af miklum söng, mörgum hallelújaversum og grípandi tónlist. Tónlist sem bjart er yfir. Þannig segjum við gleðilega páska.

Á páskum eigum við að vera óhrædd við að gera tilraunir. Prófa okkur áfram með það sem byggir upp eða gæti byggt upp. Páskarnir eru tími hinna ljósu lita, gjafmildis. Þeir eru tími tækifæranna. Þetta er líka tíminn að leyfa sér eitthvað öðruvísi og skemmtilegt. Þannig segjum við gleðilega páska.

En það er meira en þetta.

Páskarnir eru tími vonarinnar.

Ég segi það stundum við foreldra, þegar þau bera barn til skírnar, að þau hafi tvö hlutverk í uppeldinu: Kenna barninu að það sé og verði alltaf elskað og kenna barninu að það eigi von, það geti aldrei lokast inni. Þetta ættum við að leggja enn ríkari áherslu á um páskana - á gleðidögunum. Að rækta vonina og ástina og byggja upp.

Það eru gleðidagarnir. Það eru páskarnir. Með því að kenna öðrum að elska og blása þeim von í brjóst þannig miðlum við því sem er mikilvægast í þessu lífi.

Þannig getum við sagt gleðilega páska með og í lífinu okkar. Og kannski er það kjarninn í lífi hinna kristnu - það sem Esekíel spámaður er að kenna okkur með líkingunni sinni um hjörtu af steini og hjörtu af holdi. Því hjarta af steini er ástlaust og vonlaust, en hjarta af holdi er það ekki. Það elskar og vonar.

Og út á þessa hreyfingu, frá dauða til lífs, ganga páskarnir. Það sem dó er ekki lengur dáið heldur lifir. Það sem átti enga von á nú von. Og það er einhvern veginn þannig að við þurfum sífellt að minna okkur á þetta.

Þess vegna skulum við gera okkur dagamun og segja í dag og í tuttugu og einn dag til viðbótar:

Gleðilega páska!

Amen.