Hér er vantrú um efa - frá trú til trúar

Hér er vantrú um efa - frá trú til trúar

Trúin er eitt af því sem eykst þegar af henni er tekið – hún dafnar best þegar hún er notuð sem mest, líkt og ástin. Þannig eru góðu verkin boðun þeim sem þau vinnur. Og þeim sem njóta verka annarra eru þau vitnisburður um ríkt innra líf, andlegan veruleika guðsríkisins í hjörtum þeirra sem iðrast hafa og tekið á móti fyrirgefningu Guðs.

Svo er skrifað, að Kristur eigi að líða og rísa upp frá dauðum á þriðja degi, og að prédika skuli í nafni hans öllum þjóðum iðrun til fyrirgefningar synda og byrja í Jerúsalem. Þér eruð vottar þessa. Lk 24.46-48

Síðasti kafli Lúkasarguðspjalls greinir frá atburðum upprisudags Jesú. Þar segir fyrst frá því að vinkonur hans komu að gröfinni tómri en hittu fyrir tvo menn í leiftrandi klæðum sem sögðu Mannssoninn upp risinn, eins og hann sjálfur hafði sagt fyrir um. Konurnar minntust þá orða Jesú, “sneru frá gröfinni og kunngjörðu allt þetta þeim ellefu og öllum hinum” (Lk 24.8). “En þeir töldu orð þeirra markleysu eina og trúðu þeim ekki” (v. 11). Pétur fór þó og kannaði málið og “undraðist það, sem við hafði borið” (v. 12).

Áminningin um orð Jesú kveikti þannig undir eins trú í hjörtum kvennanna, en karlarnir áttu bágt með að trúa því, sem þeim hafði þó áður verið sagt. Það þurfti meira til. Í síðari hluta kaflans segir frá því að Jesús kom sjálfur, ávarpaði þá, sýndi þeim hendur sínar og fætur og fékk hjá þeim steiktan fisk. Skýrara gat það varla verið! “Síðan lauk hann upp huga þeirra, að þeir skildu ritningarnar” (v. 45) og bauð þeim að vera vottar sínir, boð sem konurnar höfðu þegar framfylgt þarna um morguninn.

En á milli þessa, á leið hinna efagjörnu frá vantrú til trúar, verður sá atburður, sem kenndur hefur verið við Emmausfarana. Þennan dag eiga tveir úr hópnum erindi til Emmaus, þorps í um ellefu kílómetra fjarlægð frá Jesúsalem, það er um tveggja tíma göngu. Eðlilega ræða mennirnir sín á milli það sem gerst hefur, meðal annars hvernig konurnar gerðu þá forviða þarna um morguninn með frásögn sinni af orðum englanna (v. 22-24). “Þá bar svo við, er þeir voru að tala saman og ræða þetta, að Jesús sjálfur nálgaðist þá og slóst í för með þeim. En augu þeirra voru svo haldin að þeir þekktu hann ekki” (v. 15 og 16). Fram kemur að þeir voru daprir í bragði (v. 17), þannig að sá fögnuður, sem hlýtur að hafa fylgt frásögn kvennanna af atburðunum við gröfina, hefur ekki átt greiðan aðgang að hjarta þeirra.

Jesús hvetur mennina til að segja sér frá því sem svo mjög upptekur huga þeirra. Þegar þeir hafa lokið máli sínu andvarpar hann yfir heimsku og trega hjarta þeirra “til þess að trúa öllu því, sem spámennirnir hafa talað” (v. 25). Því næst útleggur Jesús fyrir þeim “það, sem um hann er í öllum ritningunum” (v. 27) og við það brennur í þeim hjartað (v. 32). Það er samt ekki fyrr en þeir hafa fengið hann til að koma með þeim inn til kvöldverðar, þar sem Jesús brýtur með þeim brauðið, að innri augu þeirra opnast og þeir þekkja hann, “en hann hvarf þeim (ytri) sjónum” (v. 31). Við svo búið snúa þeir aftur til Jerúsalem, fá fregir af því að Drottinn sé sannarlega upp risinn og hafi birst Símoni (v. 33-34) og Emmausfararnir staðfesta upprisufregnina með sinni reynslu.

Þessar þrjár frásögur af upprisudegi Drottins Jesú segja margt um kristniboð og hvernig fólk tekur á móti trúnni á mismunandi hátt.

Í fyrsta lagi höfum við konurnar, sem hitta boðbera Guðs, englana, sem jú á sinn hátt eru kristniboðar í þessu samhengi. Samkvæmt þessu er hlutverk þeirra sem boða trúna fyrst og fremst að minna á orð Jesú. Og kjarni þeirra, kerygmað, er þessi: Mannssonurinn var framseldur í hendur syndugra manna og krossfestur, en reis upp á þriðja degi (sbr. Lk 24.7). Þannig rættust orð Jesú í lífi hans, dauða og upprisu og þannig játum við trú okkar.

Áhrifin sem þessi einfaldi, en máttugi boðskapur hafði á fyrstu vitni upprisunnar, voru að sama skapi einföld, en máttug. Þær tóku á móti í trú – og fengu kjark til að segja frá. Þær eru dæmi um fólk sem grípur góðu fréttirnar fagnandi – tekur Jesú á orðinu - og þreytist ekki á að fá aðra til að sjá Jesú sömu augum! Sum okkar hafa verið á þessum dásamlega stað afturhvarfsins og mörg höfum við – Guði sé lof og dýrð! - fengið að sjá áhrifin sem orð Jesú hafa á hjörtu og líf hinna móttækilegu. Kannski er það þetta fólk sem Jesús umlykur með orðunum í Fjallræðunni: “Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá” (Mt. 5.8).

Í öðru lagi eru það mennirnir á veginum, Emmausfararnir. Þeir höfðu heyrt boðun kvennanna, gleðifréttirnar um upprisu Jesú, en samt voru þeir daprir í bragði. Þeir gátu ekki trúað, augu þeirra voru svo haldin að þeir þekktu ekki einu sinni Jesú þó hann slægist í för með þeim sjálfur. Lykillinn að boðun til þessarra manna var trúarreynslan sem fólst í þeirri athöfn þegar Jesús braut brauðið. Vegurinn að hjarta Emmausfaranna lá í gegn um leyndardóm helgihaldsins, að undangenginni predikun orðsins. Það er þessi þáttur í hinni heildrænu boðun sem kallast borðsamfélagið eða koinonia á máli guðfræðinnar.

Og í þriðja lagi eru það lærisveinarnir ellefu, mennirnir sem þekktu Jesú svo undur vel. Þeirra fyrstu viðbrögð eru vantrú og efi, en Símon Pétur lætur þó segjast þegar hann fer sjálfur að gröfinni, og við það að mæta Jesú augliti til auglitis og gefa honum fisk að borða sannfærast hinir líka. Venjulega er þetta atvik túlkað á þá vegu að Jesús hafi viljað sýna á áþreifanlegan hátt að hann var upp risinn í líkama – og er það líklegasta skýringin – en við getum alveg leyft okkur að hugsa hana á annan hátt.

Í þessari frásögn gætum við séð þriðja þáttinn í öllu boðunarstarfi, þjónustuna eða diakoníuna. Liður í því að augu lærisveinanna ljúkast upp fyrir sannleiksorði Guðs er sú kærleiksþjónusta sem felst í því að gefa. Í þessu tilviki er það Jesús sjálfur sem þiggur kærleiksverkið og það getum við skilið í ljósi orða hans, sem Matteusarguðspjall greinir: “Því hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég, og þér komið til mín” (Mt 25.35-36). Því “það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér” (Mt 25.40), segir Jesús. Þetta er máttugur veruleiki sem við megum vinna að. Hugsaðu þér, næst þegar þú víkur einhverju góðu að fólkinu sem á vegi þínum verður, að þarna sé Jesús sjálfur á ferð. Hvílík náð að mega gleðja sjálfan Guðssoninn þó í litlu sé!

Með nokkrum rétti mætti segja að kærleiksþjónusta kristinna manna sé boðun bæði gefanda og þiggjanda. Trúin er eitt af því sem eykst þegar af henni er tekið – hún dafnar best þegar hún er notuð sem mest, líkt og ástin. Þannig eru góðu verkin boðun þeim sem þau vinnur. Og þeim sem njóta verka annarra eru þau vitnisburður um ríkt innra líf, andlegan veruleika guðsríkisins í hjörtum þeirra sem iðrast hafa og tekið á móti fyrirgefningu Guðs.

Í ljósi þess sem að ofan greinir er gott að hafa í huga að fólk í dag er mis móttækilegt fyrir boðskapnum, alveg eins og fólkið á dögum Jesú. Hvort það er dæmigert fyrir konur að trúa umbúðalaust og karla að þurfa meiri skýringar veit ég ekki. En ég las um daginn að hæfileikinn til að trúa væri bundinn í arfberum manneskjunnar, óháð kyni. Sumir væru hreinlega erfðafræðilega hæfari til að trúa en aðrir! Hvort þetta er rétt veit ég ekki, en þó ekki fjarri biblíulegri hugsun, sbr. Rm 12.3, um að hver og einn haldi sig “við þann mæli trúar, sem Guð hefur úthlutað honum” (sjá einnig 1Kor 12.11 um útbýtingu andans gjafa og Ef 4.7 um úthlutun náðar Krists). Víst er að boðskapurinn hittir sumt fólk beint í hjartað á meðan lengri leiðir þarf að hjarta annarra. Þetta þekkja allir, bæði af kristniboðsakrinum og hér heima.

En hvernig sem við hér nálgumst veruleika trúarinnar er eitt víst: Við erum vottar Guðs, hvert og eitt sem tilheyrum Kristi fyrir dauða og upprisu skírnarinnar. Við erum öll kölluð til að vera vitnisburður hver sem við erum og hvar sem við erum. Við flytjum heiminum erindi Guðs í orði og verki. Á þeirri vegferð er mikilvægt að muna að við erum ekki ein; Jesús Kristur slæst í för með okkur í anda sínum og lýkur upp augum okkar á þann hátt sem við skiljum hverju sinni og eykur okkur skilning á umhverfi okkar og samferðafólki þannig að vitnisburður trúarinnar megi komast til skila inn í mismunandi aðstæður.

Látum hinn einfalda, en máttuga boðskap kristinnar trúar vísa okkur veg daglega í samfylgdinni með Jesú. “Svo er skrifað, að Kristur eigi að líða og rísa upp frá dauðum á þriðja degi, og að prédika skuli í nafni hans öllum þjóðum iðrun til fyrirgefningar synda og byrja í Jerúsalem. Þér eruð vottar þessa” (Lk 24.46-48). Þessa predikun stundum við með ýmsum hætti, með boðun orðsins og borðsamfélaginu í kirkjum, samkomuhúsum, á heimilum og undir berum himni, í sálgæslu og samtali vina, með því að vinna kærleiksverk, gefa af fjármunum okkar og vera málsvarar réttlætis í þjóðfélaginu.

Kæru vinir. Biðjum Guð um visku til að tala inn í mismunandi aðstæður og kjark til að fara fram í krafti anda hans (Lk 24.4). Verum það sem við erum kölluð til, gjörendur orðsins, og eigi aðeins heyrendur þess (Jk 1.22), vottar góðu fréttanna í orði og verki.