Hefurðu gleymt lykilorðinu?

Hefurðu gleymt lykilorðinu?

Sumarið er makalaus tími og skiptir engu þó gangi á með þykkum regnskúrum né heldur þótt grár og þéttur suddinn faðmi allt um stund. Það er sumar og allt mannlíf tekur mið af gróandanum sem lætur ekkert stöðva sig. Túnfífill lyftir gulum kolli mót himni og gleður augað. Grámjúk og viðkvæm biðukollan er ekki aðeins merkisberi liðinnar kynslóðar heldur ósigrandi boðberi framtíðarinnar.
fullname - andlitsmynd Hreinn Hákonarson
30. júní 2006

Sumarið er makalaus tími og skiptir engu þó gangi á með þykkum regnskúrum né heldur þótt grár og þéttur suddinn faðmi allt um stund. Það er sumar og allt mannlíf tekur mið af gróandanum sem lætur ekkert stöðva sig. Túnfífill lyftir gulum kolli mót himni og gleður augað. Grámjúk og viðkvæm biðukollan er ekki aðeins merkisberi liðinnar kynslóðar heldur ósigrandi boðberi framtíðarinnar. Grænt grasið bærist í þýðum vindi og iðar af magnþrungnu lífi. Það er nefnilega kraftur jarðar og moldar sem ólgar og vekur gleði og bjartsýni í huga.

Árstíðirnar móta manneskjurnar, hugsun þeirra og líf. Sumarið lyftir sálinni upp á við og hún teygar að sér ferskt loft og vöxt jarðargróðurs. Við finnum kannski aldrei eins mikið fyrir lífinu, fegurð þess og undramætti eins og einmitt þá. Lífinu sem okkur er gefið til að lifa og njóta. Syngjandi fuglinn sem svífur fimlega um fagurblátt loftið í leit að gómsætu æti handa óþreyjufullu og bjargarlausu ungviði er okkur holl fyrirmynd. Hann notar stundina og nýtur lífsins. Er sífellt að störfum og hlúir að lífinu og undirbýr af natni og kostgæfni lífsgöngu nýrra þegna í ríki náttúrunnar. Mild og regnvot sumarnóttin umvefur hann og lífið sem honum er ætlað að sinna. Hann hefur hlutverk sem fyllir hann bjartsýni og hamingju.

Það kann kannski í fyrstu að hljóma framandi að sumarið sé tími trúarinnar enda þótt ekki sé blásið til neinnar sérstakrar trúarhátíðar. Sumarið er nefnilega í raun og veru ein samfelld trúarhátíð því það ber augljóst vitni um lifandi skapara sem starfar aldrei eins vel fyrir opnum tjöldum eins og einmitt þá. Svið trúarinnar opnast og kraftur sköpunar og dýrðar birtist okkur hvort heldur í rjóðleitu barni sem heldur á ís eða í sterku skini sólar.

Lífið er undrasterkur þráður. Já, svo sterkur að ekkert fær slitið hann. Þótt dauðinn virðist höggva á hann þá er svo ekki. Því dauðinn er ekki annað en sem dimmt og þungt ský á himni lífsins sem hrekst fyrr eða síðar undan þeirri heitu sól sem Guð lætur skína á okkur hverja stund og gildir einu hvort við sjáum hana eða ekki. Hún er þarna eins og óþrjótandi eldsneytistankur lífríkisins. Okkur er nóg að finna yl hennar.

Sumarið býður okkur fylgd út í ævintýri ævintýranna: Lífið tekur að sönnu ótrúlegum breytingum og sumar ganga undrahratt fyrir sig en aðrar svo hægt að við sjáum þær aldrei heldur aðeins það sem er. Já, það sem er í þeirri andrá sem þýtur sem blær í trjánum og fullkomnar stundina sem líður eins og kúnstpásan í tónverkinu eða punktur fyrir aftan eina af mörgum ódauðlegum setningum í Njálssögu. Það er þessi stund sem er nánast flogin áður en hún sest - starfsöm stund veraldar sem hvílist í háttbundnum takti: Það er hjartsláttur skaparans.

Og manneskjan er í heiminum. Hún er og aldrei eins og mitt í kröftugum gróanda lífsins þar sem skaparinn syngur af lífs og sálar kröftum og kallar okkur fram á vettvang dagsins. Skynjar dynjandi æðaslátt andartaksins hvort heldur í sjálfri sér eða brakandi sem og mjúkum stönglum blóma og annarra jurta. Í miðju lífsins, miðju veraldar svo að segja, já, þar sem lífsins tré stendur í miðjum garðinum.

Lykilorðið er ekki falið djúpt í huga manneskjunnar svo enginn óvelkominn stingi plastkorti í harðleita rauf hraðbankans og sópi út af reikningnum heldur er það auglýst í heyranda hljóði: Jesús Kristur. Hann er græðandi hönd Guðs sem hlúir að öllu lífi í mannlífsgarðinum, sáir og stingur upp, plægir og umbyltir. Flytur tré úr ófrjósömum jarðvegi yfir í lifandi mold til þess að það dafni. Strýkur okkur um lúinn vanga og þerrar tár af hvarmi. Vökvar sálina með andlegum gróðrarskúrum svo hún rís upp til lífsins. Tekur í litla hönd okkar og leiðir inn í lífið. Opnar augu okkar og fyllir hugann af bjartsýnni von sem segir okkur að sumar lífsins sé komið, já hið eilífa sumar.