Sjómannadagur - sögurnar af lífsháska

Sjómannadagur - sögurnar af lífsháska

Ræða flutt á sjómannadegi um sögurnar úr lífsháskanum, upphaflega á Húsavík 7. júní 2015 og aðlöguð ári síðar á 5. júní 2016 og flutt í Glerárkirkju. Textinn úr guðspjalli Matteusar Mt 8.23-27. Þá voru fluttir tveir nýlegir sálmar annar eftir Hjört Pálsson sb. 831: Þeir lögðu frá sér fisk og net. Kannski dálítið ögrandi á sjómannadegi. Og hinn sálmurinn, lag og texti eftir Hauk Ágústsson Bænin.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Ég ólst upp við það að sagðar voru sjóferðasögur heima þegar föðurbræður mínir komu í heimsókn. Maður hlustaði með andakt og spenntur á sögurnar af sjónum enda voru þeir bræðurnir allir meira og minna á sjó nema faðir minn sem var læknir. Hann hafði samt þessa áráttu að keyra niður á höfn með okkur krakkana og skoða skipin. Sjálfur er ég skrifstofukarl og kyrrsetumaður, svo einhver kann að spyrja hvað ég er að gera upp á dekk og ræða um sjómannadaginn. En það hef ég mér til málsbóta að mér líður vel við sjóinn og á sjó, helst að sigla skútu og finna vindinn hvína og ölduna klofna við kinnunginn. Tveggja ára sigldi ég með Gullfossi yfir Atlandshafið. Ja, nú verð ég að passa mig að fara ekki að segja sögur eins og þeir föðurbræður mínir. Þetta voru minnisstæðar stundir og kannski aðeins fært í stílinn, magnaðar sögur af sjávarháska og björgun. Eins og þegar Vonarstjarnan sigldi eftir englinum í land í átt að Strandarkirkju eða þegar „nissinn“ stökk fyrir borð og Einar frændi stöðvaði skipið og kveikti ljósin til að leita af sér grun að maður hefði farið fyrir borð og þá birtist bjargið beint framundan. Kannski hefur eitthvað skolast til í minningunni hjá mér en sögurnar voru yfirnáttúrulegar. En björgunin var staðreynd. Og Einar frændi var sæmdur fálkaorðunni fyrir björgunarafrek.

1.

Raunveruleiki fortíðarinnar var kannski annar en í dag. Lífsháskin var einhvern veginn nær. Jón Kalmar Stefánsson dregur upp fortíðarmynd í bók sinni Himnaríki og helvíti. Minnsta yfirsjón í undirbúningi sjóferðar kostar þar mann lífið þegar farið var á djúpið í opnum árabáti. Harðneskjuleg náttúröflin gerðu menn harða af sér. Að ná í lífsbjörg út á djúpið var spurning upp á líf eða dauða.

Ritningarlestrarnir úr Davíðssálminum dregur upp ógnina sömuleiðis ferð Páls til Rómar þar sem hann lenti í sjáfarháska við strendur Krítar. Hann spáir þar fyrir að þeir muni komast af eftir vitrun frá Guði. Það er eitt þegar háskin nálgast okkur menn þá kemur oft eitthvað yfirskilvitlegt yfir okkur.

Fyrir nokkru heyrði ég athyglisvert erindi á ráðstefnu sem bar þá merkilegu yfirskrift: Listin að deyja. Þar hafði læknir rannsakað atvik í kringum dauða og sá ákveðið ferli og greindi það sem ber við þegar dauðinn nálgast. Hann nefndi fyrirboða og birtingar hins látna, ljósafyrirbæri osfrv. Markmiðið með ráðstefnunni var að opna umræðu um dauðann, þannig að fólk væri betur undirbúið. Ég held að við höfum gott af að taka þá umræðu, í stað þess að láta eins og við eigum að lifa hér á jörð frá eilífð til eilífðar.

Líf okkar er eins og á bláþræði, ógnin stórkostleg í raun. Stundum hugsa ég sem svo að hugsun mín á eftir að slokkna, ég verð ekki lengur. Sumir eru þeir sem trúa því að endalokin séu algjör. Það kann að vera ákveðin lausn gagnvart dauðanum að hugsa sem svo að þegar meðvitund mín slokknar eins og hún kviknaði einu sinni þá er öllu lokið. En allt annað hættir ekki að vera þó ég hverfi. Hugur Guðs á sér samhljóm í huga mínum þá litlu stund sem ég veit af mér. Því hvað er ein mannsævi þegar litið er til óravídda himingeimsins, stjarnanna, sem menn stýrðu eftir í eina tíð? Hvað er minn hugur, hugsun og meðvitund, gagnvart því öllu? Þá verður maður smár, en samt ég. Hefur þú leitt hugann að því að það er engin sem hugsar þína hugsun, engin getur fyllilega sett sig í spor þín, engin lifað þínu lífi, engin verið þú nema þú, enginn verið ég nema ég. Við erum einstæði í alheimi, ég og þú.

Engin getur lifað þínu lífi nema þú. Þannig er hvert líf einstakt, þitt eins og allra annarra, þá verður Guð mikill, sem hefur gert allan þennan fjölbreytileika. Svo stöndum við frammi fyrir raunverulegri ógn í tilveru okkar, að hugur okkar geti slokknað, eða hvað, lifað með Guði, hjá Guði. Það er hin kristna lífsjátning, að Guð gleymir ekki barninu sínu sem hann hefur skapað með þessum undursamlega hætti til að vera í sköpun sinni, eins og eitt andartak út frá eilífðinni séð og óravíddunum. En það er líf sem Guð elskar.

Á Ólafsfirði er altaristafla af Jesú á bæn í Getsemane en efst í litlum hringlaga ramma er mynd af manni í sjóstakk sem rær í ölduróti. Þetta er mynd einmanaleikans. Erum við þannig hvert og eitt, á okkar skel að berjast í ölduróti lífsins? Þannig virðist okkur raunveruleikinn á stundum vera og eflaust líður okkur þannig af og til. En boðskapur Biblíunnar er sá að við erum ekki ein. Þessi mynd kallast á við myndina af Jesú sem biður með okkur og í okkur. Það er hugur sem er annt um þig í ölduróti lífsins. Þó að sögurnar eru yfirnáttúrlegar þá eru þær að segja okkur sannleika, jafnvel þegar raunveruleikinn og dauðinn er okkur nærri. Á sjómanadegi er það gjarnan rætt hvað við erum smá gagnvart ógnum lífsins í raun. En þú mátt út frá orði Guðs líta svo á að líf þitt er einstakt í huga Guðs, þú ert honum mikils virði, ekki þannig að þú getir haft hann í hendi þér, ekki frekar en öldur hafsins, en hann er okkur leiðarljós, viðmið og festa í lífinu.

2.

Fiskurinn er sóttur í ógnandi gin djúpsins en um leið er vaggandi aldan, sterk þörf fyrir að vera á sjó, að finna vindinn, sjávarloftið, storminn, að vera í náttúrunni svo sterk. Fiskurinn er trúarleg tákn, ICHTHUS, kristnir menn notuðu það sem leynimerki. Tákn eru margræð og það gerir þau líka heillandi. Merkið varð til á háskalegum tíma í lífi kirkjunnar þegar kristnir menn voru teknir höndum, pyntaðir og jafnvel drepnir fyrir trúna. Menn teiknuðu fisk í sandinn eða vegg til að gefa til kynna trú sína og stafirnir í gríska orðinu fiskur voru frumkirkjuleg trúarjátning: Jesús Kristur, Sonur Guðs, frelsari. Það er hann.

Ég held að þessi lífsreynsla kirkjunnar hefur verið öllum sem lifa við mörkin, lífsháskann, til hjálpar. Trúin er reynd í raunveruleikanum, gangvart lífsháskanum og það gerir okkur meira lifandi að horfast í augu við hann. Hugrekki og karlmennska á vafalaust rætur í slíkri reynslu enda er karlmennska allt annað en fífldirfska.

Karlmennska kemur fram í því að áræða að standa frammi fyrir lífsógninni og takast á við hana með von í hjarta og bjartsýni. Það er stundum talað um „karlamenning“ og það frekar niðrandi en þá ættum við karlmenn að reka af okkur óorð með að sýna sanna karlmennsku. Það er ekki „ómennska“. Það finnst mér vondar frétt þegar maður heyrir um ofbeldi karla í hvaða mynd sem það birtist. Karlmennska er reyndar ekki einkamál karla ekki frekar en „kvennamenning“ og „hin mjúku gildi“ sé einkamál kvenna. „Hún var drengur góður“ var sagt um konu eina í Íslendingasögum.

Ég man eftir einum frænda mínum segja frá því að hann hafði verið í farskipi og kom heim eftir hálft ár og þá þekkti hann varla börnin sín og þau vissu varla hvaða karl þetta var sem kom inn á heimilið. Sem betur fer er það sjaldgæft núorðið að menn eru svo lengi fjarri fjölskyldum sínum. Það er karlmennska að standa með barninu sínu vegna þess að það er margt sem ógnar lífi þeirra og velferð í nútímasamfélagi þó að lífsháskin er kannski ekki eins nálægur og fyrr á tímum. Þá kallar náttúran á karlmannlega íhlutun, hafið og landið, sem við verðum að umgangast með næmi, tækin okkar eru stórkostleg og mikilvirk. Sjómenn verða að sækja sjóinn með visku og mildi við náttúruna. Guð gaf okkur hana og gefur okkur aflann, lærum að greina og sjá, en þegar upp er staðið er það Guð sem gefur.

Kæruleysi og hálfkæringur er hættulegt lífsmynstur. Það sannast að hömlulaus græðgi á gjafir Guðs reynist lífsfjandsamleg afstaða. Við þurfum að sjá lífið í heild sinni. Hvað eflir það? Það kann að kosta fórnir af okkar hálfu en gott og vel látum af að vera að taka meira en við þurfum, næmleiki við náttúruna og fjölskylduna eru þær dyggðir sem Guð kallar okkur til. Það er guðsdýrkun í raun. Lífsreynslan ætti að kenna okkur hana. Það er þroskaleið. Lífsfylling er ekki fólgin í valdi og að ráða sem mestu heldur að njóta gjafa Guðs með þakklæti og nægjusemi með þeim sem maður elskar.

Það er orðatiltæki hjá okkur að tala um að skipta kökunni, þjóðarkökunni réttlátlega á það auðvitað að vera. En þetta orðatiltæki finnst mér vera dæmi um hálfkæringinn. Auðvitað ættum við að tala um brauðið. Við erum að tala um lífsviðurværi fólks. Það er fagnaðarefni að lágmarkslaun hafa nuddast upp í 300 þúsund. Það sem ég er að tala um er að við skiptum réttlátlega af gæðum hafs og jarðar. Stundum fær maður það að tilfinninguna að tæknin hafi gert okkur fjarlæg náttúrunni. Stýrimaður og skipstjóri setja tækin í gang og stilla og áfram siglir skútann, finnur aflann, kranar og net, komið um borð, afli í lest, unnið og fryst, heima á leið. Bóndinn þarf að setja hendur í mold öðru hvoru og sjómaður að gera að fiski til að finna lífskeðjuna sem við erum hluti af. Til að minna sig á skapara sinn, sem gefur aflann, ávöxt erfiðisins. Skiljið þið hvað ég er að fara? Trúin á Guð er að vera í tengslum við náttúru og fjölskyldu sína á góðan og heilbrigðan hátt.

3.

Fiskur og brauð eru tákn kirkjunnar, sem víða má sjá. Og guðspjall sjómannadagsins eru nú gjarnan þetta sama um undrið á vatninu ár eftir ár. En sagan sú hefur margar víddir. Ein er sú að kirkjunni er líkt við skip. Við tölum um kirkjuskip og sum staðar í sjávarplássum sérstaklega eru skip upp í rjáfri eins og í Akureyrarkirkju til að minna á þetta.

Kannski var þetta óttalegur dallur sem lærisveinarnir voru á þarna úti á Genesaret vatninu. Og þar gat stormurinn steypt sér af hæðunum niður á vatnið allt í einu. Kirkjan er óttalegur dallur finnst mann stundum, fúaspýtur, gamalt dót og tækin fá, bjargræði lítil. Kirkjuskipið. En það er í yfirfærðri merkingu og myndin stækkar þegar við sjáum hana í okkar raunverulegu aðstæðum. Jesús er um borð. Það breytir nokkru, miklu, öllu. Því hann hefur vald á storminum. Hann er hér með okkur.

Hugsunin er stór, stærri, held ég, en að við áttum okkur á. Þessi stutta frásögn, fáeinar setningar, segja okkur að Jesús minn er með í ólgu lífsins, í ógninni, sem steðjar að, í erfiðleikunum, sorginni, dauðanum. Hann biður með okkur, stendur með okkur gagnvart því sem ógnar lífinu, gefur eilíft líf. Sagan segir okkur að Guð gleymir okkur ekki, hann vaknar, þegar við vekjum hann með bænaákalli okkar, stendur með börnunum sínum í storminum miðjum. Við eigum bara svo erfitt með að trúa því. Þess vegna þessi athugasemd: „Þið trúlitlir“. Það er misskilningur að við þurfum að sýna fram á mikinn trúarhita svo að hann komi til hjálpar, þvert á móti kemur hann til okkar í ráðaleysi okkar, jafnvel þegar við leiðum ekki hugann að því er hann hjá okkur, gengur með okkur.

Það er þá kveðja kirkjunnar á sjómannadaginn til allra sjómanna, fjölskyldna þeirra og ástvina, til samfélagsins hér sem sækir björg sína m. a. í sjóinn og það annað sem má verða til efla lífið. Drottinn er með í lífsins ólgu sjó.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með oss öllum.