Gaman í Kana

Gaman í Kana

Lúther var hugfanginn af þessu guðspjalli. Í hans túlkun er vatnið á kerjunum tákn fyrir hina gömlu tíma – þá sem hann kenndi við lögmálið.

Keflavíkurkirkja er engin venjuleg kirkja, enda er sérstaða bæjarins sem hún er kennd við talsverð. Keflavík var, svo sem alþekkt er, undir áhrifum frá heimsveldinu sem bjó hér við túnfótinn, og jafnvel inni á heimilum fólks. Við höfðum Kanann, og Kaninn var alls ekki slæmur granni. Þeir voru margir sem höfðu góðar tekjur af nærveru hans og við finnum fyrir því nú þegar hann er farinn. Kaninn hafði líka áhrif á menninguna hérna á svæðinu og höfðatöluíslandsmetið eigum við í rokkhljómsveitum. Á því leikur enginn vafi. Ungmenni sátu með gítar í hönd undir veggspjöldum af hetjunum og trommutaktarnir dundu úr bílskúrunum á hverju götuhorni.

Kirkjan og bílskúrarnir

Kirkjan mótar samfélagið og samfélagið mótar kirkjuna. Margir þeir tónlistarmenn sem síðar urðu þekktir og dáðir hér á landi, stigu sín fyrstu skref í tónlistinni hérna í Keflavíkurkirkju en hér hafa verið starfandi barnakórar og skapandi tónlistarstarf allar götur. Kirkjan og bílskúrarnir hafa því fóstrað margan snillingin í gegnum tíðina!

Okkur þótti það því ekki úr vegi að hafa bílskúrsbrag á þessari útvarpsmessu, ef svo má segja. Reyndar getur kirkjan fundið góða fyrirmynd í bílskúrum – þá er ég ekki að tala um það sem inni í þeim er. Í mínum skúr er t.d. skapandi óreiða, svo skapandi er hún, að hún kemur aftur og aftur hversu oft sem ég tek til í honum. Nei heldur það hvernig þeir eru hannaðir. Bílskúrar eru með þessar flennistóru dyr sem nánast þekja alla framhliðina. Og í þeim skilningi þá bjóða fáar byggingar okkur jafn innilega velkomin eins og bílskúrar gera. Þeir ljúka upp öllum gaflinum fyrir þeim gestum sem að garði ber. Þetta eiga kirkjudyrnar líka að gera og þær breiða einnig faðminn mót gestum og gangandi, opna upp á gátt fyrir þeim sem vilja inn hvernig sem þeir kunna að líta út, hugsa eða finna til.

Gaman í Kana

Já, það er dansað í guðspjalli dagsins og enginn vafi er á því að menn hafa leikið fjörugustu tónlistina sem þeir kunnu, þarna í Kana þar sem brúðkaupið fór fram. Kristur er þar mitt í gleðinni og það sem meira er, brúðkaup þetta er eins og inngangur að því sem koma skyldi. Svo segir Jóhannes að þetta hafi verið fyrsta táknið sem Jesús vann, en svo mörg munu þau hafa verið að allar heimsins bækur dygðu ekki til þess að telja þau upp, eins og segir svo undir lok guðspjallsins.

Tákn þetta, stendur reyndar vel undir nafni, það er fullt af skilaboðum, myndum og skírskotunum í sögu og menningu þeirra sem frásögnina heyrðu í fyrstu. Já, á tákninu eru margar dyr og lyklarnir að þeim eru ef til vill ekki í hendinni heldur þarf að leita í vösum og jafnvel undir mottunni til þess að geta opnað þær upp á gátt.

Lúther var hugfanginn af þessu guðspjalli. Í hans túlkun er vatnið á kerjunum tákn fyrir hina gömlu tíma – þá sem hann kenndi við lögmálið. Það er að sinna hinni réttu hegðun út á við – láta aðra sjá og skynja það að góð verk eru unnin, fremur en að hjálpa og líkna náunganum í einlægni og af kærleika. „Eruð þið tilneydd að sýna umhyggju hið ytra og er það ykkur ekki að skapi?“ spyr hann fyrir hönd Jesú. „Gott og vel ég mun gera bragðið sætara og betra og breyta því í vín svo að umhyggjan verði bæði gleði ykkar og yndi.“

Það er þetta sem hann sér í þessari umbreytingu. Með orði Guðs breytist inntak allra hluta. Vatn breytist í vín. Kristinn maður fylgir ekki lögmálinu af þrælsótta og hlýðni – nei hann vinnur sín kærleiksverk af gleði og sannfæringu. Ramminn utan um allt þetta, brúðkaupið, er einmitt sá vettvangur þar sem ástin á að móta samskipti fólks og það er hún sem gefur þeim samskiptum gildi. Og vettvangurinn er hin gleðiríka hátíð þar sem fólk samgleðst og fagnar því kærleikssambandi sem þar er vígt.

Það er ástin ein

Já, þetta er guðspjall gleðinnar enda á orðið fagnaðarerindi svo vel við um þann boðskap sem kristin kirkja flytur. Kristin trú fjallar um innihaldið og ekkert stendur henni nær en kærleikurinn sem við eigum að bera hvert til annars. Þar eru gáttirnar stórar því við eigum ekki að staðnæmast fyrir utan kirkjudyrnar og snúa svo á braut. Við eigum að ganga rakleitt inn þar sem við fáum boðskapinn góða um kærleika og virðingu handa hverjum manni en þó fyrst og fremst kærleika Guðs til mannanna – „Það er ástin ein“ eins og segir í textanum sem hér var sunginn.

Sannarlega er þó full ástæða til þess að hamra á þessum skilaboðum. Freistingin stóra er einmitt sú að draga í dilka, flokka og sundurgreina hverjir eru verðugir og hverjir ekki. Við þekkjum söguna og við vitum það að innan kirkjunnar hafa menn líka misstigið sig í þessum efnum.

Það væri þó afar ósanngjarn dómur að halda því fram að flokkadrættir og fordæming lýsi afstöðu kristinna manna til náungans. Nei, þau eru fremur undantekningin. Þetta er orðað í pistlinum: „Verið ástúðleg hvert við annað í bróðurlegum kærleika og keppist um að sýna hvert öðru virðingu.“ Að sýna virðingu er einmitt það að fagna og hampa sérstöðu þeirra sem í kringum okkur standa.

Hið sanna starf kristinna manna, þekkjum við af réttindabaráttu svartra í Bandaríkjunum þar sem kirkjurnar voru jafnvel einu staðirnir þar sem litaðir menn gátu starfað á jafnréttisgrunni. Starf kristinna manna í suður Afríku beindist í sömu átt. Einnig starf presta í Rómönsku ameríku gegn órétti á tíð einæðisstjórna og miklu fleiri dæmi mætti nefna. Alltaf erum við þó að læra en það mikilvægasta er að við höfum hið skýra leiðarljós fyrir augunum og því eigum við að fylgja.

Eitt dæmið um þá sem fylgt hafa kalli Krists eru þeir tónlistarmenn sem messan er kennd við. Félagarnir í U2 hittust fyrst í tengslum við starf þeirra í Biblíuleshóp og textar þeirra ekki bara þrungnir kristnum boðskap – starf þeirra miðar einnig að því að bæta líf fólks og hlúa að þeim sem erfitt eiga. Það hafa þeir einkum gert í tengslum við baráttuna gegn alnæmi.

Engar venjulegar kirkjur

Já, hér erum við í þessari óvenjulegu Guðsþjónustu í engri venjulegri kirkju, sem hefur m.a. mótast af nærveru Kanans. Kirkjur eru auðvitað ekkert venjulegar og þær eiga ekki að vera venjulegar. Venjur geta verið varasamar. Þær geta leitt okkur áfram inn á óheppilegar brautir ef þær ganga í lið með fordómum og ótta gagnvart því sem er framandlegt – óvenjulegt. Kirkjan hefur lært sína lexíu, vonandi og á komandi tímum verður hún að axla sína ábyrgð, sem leiðandi afl til framfara í heimi sem þarfnast svo sárlega sannrar forystu í anda þjónustu og kærleika. Vonandi horfum við fram til þeirra tíma þegar kirkjan stendur enn betur undir sæmdarheitinu bílskúrskirkja sem flytur bílskúrsmessur. Þar verða dyrnar opnar upp á gátt og allir eru boðnir velkomnir að því nægtarborði kærleikans sem fagnaðerindið er.

Til þess höfum við hið skýra fordæmi Jesú frá Nazaret sem glæðir líf okkar inntaki og innihaldi og breytir vatni í vín.