Áreiðanleiki “bældra minninga” Svör einfalds sveitaprests við spurningum kynjafræðings og sérfræðings í afleiðingum kynferðisofbeldis

Áreiðanleiki “bældra minninga” Svör einfalds sveitaprests við spurningum kynjafræðings og sérfræðings í afleiðingum kynferðisofbeldis

Ég er einfaldur sveitaprestur sem hef lítið sem ekkert komið að kynferðisbrotamálum. Áhugi minn hefur hins vegar beinst að bældum minningum og möguleikanum á því að slíkar minningar geti verið falskar.
fullname - andlitsmynd Kristinn Jens Sigurþórsson
19. nóvember 2011

Heil og sæl Anna Bentína, og þakka þér spurningarnar sem þú beinir til mín hér á Speglinum. Hér fyrir neðan leitast ég við að svara þeim auk þess sem ég beini líka nokkrum spurningum til þín.    1. Hvað hefur þú unnið að mörgum kynferðisbrotamálum?

Svar: Ég er einfaldur sveitaprestur sem hef lítið sem ekkert komið að kynferðisbrotamálum. Áhugi minn hefur hins vegar beinst að bældum minningum og möguleikanum á því að slíkar minningar geti verið falskar. Þessi áhugi hefur fyrst og fremst verið fræðilegur. Fræði eru hins vegar aldrei án tengsla við líf og reynslu, og svo ég bregðist lítillega við aðferðarfræðilegum vangaveltum þínum í lok greinar þinnar, þá hlýtur það alltaf að vera hlutverk vísindalegra og fræðilegra kenninga, að leggja mat á líf og reynslu fólks sem og hversu almenna skírskotun sérhver reynsla hefur. Hvernig til tekst hverju sinni þarf svo auðvitað alltaf að leggja mat á. Við komumst aldrei hjá því að meta og túlka, sama hvað það er sem við fáumst við, og þar eru mál sem snúa að kynferðisofbeldi og misnotkun ekki undanskilin. Einmitt þess vegna kallaði ég eftir áliti háskóla- og fræðasamfélagsins því það mál sem til umræðu hefur verið að undanförnu í okkar samfélagi er bæði mjög alvarlegt og viðkvæmt en um leið afar umdeilanlegt. Því miður hafa viðbrögð ekki verið eins mikil og ég bjóst við og sum hafa fyrst og fremst einkennst af undanbrögðum og hræðslu. Þú vilt hins vegar augljóslega halda þessari umræðu vakandi og er ekkert nema gott um það að segja því mörgum spurningum er ennþá ósvarað. 2. Hvaðan hefur þú þá staðhæfingu þína að bældar minningar séu afar sjaldgæfar og jafnvel með öllu óþekktar eins og í tilviki Guðrúnar Ebbu?

Svar: Þessa staðhæfingu sæki ég fyrst og fremst til Richards McNally, prófessors við Harvard háskóla í Bandaríkjunum, en hann staðhæfir að engar vísindalegar niðurstöður styðji þá kenningu, að minningar “bælist” svo gjörsamlega eins og látið hefur verið liggja að, m.a. í bókinni umdeildu “The Courage to Heal.” sem og bók Guðrúnar Ebbu og Elínar Hirst: “Ekki líta undan.”

Minningar geta hins vegar gleymst eða fólk ýtt þeim meðvitað frá sér ellegar þá að það hugsar ekki um eitthvað í langan tíma. Ekkert styður hins vegar þá tilgátu að minningar mannsins “bælist” til að hjálpa honum að lifa af eins og kenningin um bældu minningarnar gengur út á.

Annar prófessor, dr. Paul McHugh við Johns Hopkins háskólann, hefur auk þess bent á að það sé í rauninni í andstöðu við þróunarkenninguna, að ætla manninum að hafa magnað með sér þau viðbrögð, að gleyma gjörsamlega alvarlegum og ógnandi atburðum, og er það sjónarhorn allrar athygli vert.  

3. Af hverju segir þú ekki frá því að samtök eins og FMSF (false memory syndrome foundation) séu einna helst að beina sjónum sínum að fölskum minningum tengdum dáleiðsluaðferðum, minningum úr fyrri lífum, minningum sem koma fram hjá miðlum, sem hefur ekkert að gera með viðurkenndar aðferðir klínískrar sálarfræði?

Svar: Ég hef hvergi minnst á FMSF-samtökin (False Memory Syndrome Foundation) en mér hefur þó verið kunnugt um þau og fæ ekki betur séð en að þau gagnrýni allt sem skilgreina má sem leiðandi meðferð (Suggestive Therapy).

Á tíu ára tímabili, frá 1992 – 2001, fengu FMSF-samtökin um 4.400 tilkynningar þar sem bældar minningar komu við sögu. Hve margar af þeim reyndust falskar hef ég ekki tölur um.

Það vekur hins vegar athygli að samsetning þess hóps sem komið hefur fram með bældar minningar virðist allt öðruvísi en þess, sem sannarlega hafa orðið fyrir misnotkun eða kynferðisofbeldi.

Í rannsókn, sem gerð var á þeim málum sem komið höfðu til kasta FMSF-samtakanna í Bandaríkjunum, kom fram að 99% þeirra sem settu ásakanir fram voru hvítir á hörund og 93% voru konur. Þá höfðu 77% lokið háskólaprófi og 86% höfðu sótt sér sálræna meðferð. Þá beindust 82% ásakana að föður og störf 87% þeirra féllu undir þann flokk sem á mælikvarða Hollingsheads er kallaður “professional and white collar” (sjá nánar: HYPERLINK "http://www.fmsfonline.org/FMSF.Ref.to.Rec.pdf" http://www.fmsfonline.org/FMSF.Ref.to.Rec.pdf ) Það skal þó tekið fram svo forða megi misskilningi að hvíti kraginn, sem þarna er vísað til, er ekki prestakragi.

Þessi tölfræði er sannarlega athyglisverð og gerir það að verkum, að hugrenningar skjóta óhjákvæmilega upp kollinum um að áskanir byggðar á bældum minningum geti verið einhverskonar menningarafurð.

Mér er hins vegar spurn, Anna Bentína: Hvaðan hefur þú þá staðhæfingu þína að FMSF-samtökin beini gagnrýni sinni einkum að dáleiðslu, fyrri lífum og miðlum – vonandi ekki úr “The Courage to Heal”? Áttu við að samtökin beini sjónum sínum ekki að annarri leiðandi meðferð?

Og hvað finnst þér um þann túlkunarmöguleika, að bældar minningar hvítra kvenna með framhaldsmenntun, sem langflestar hafa sótt sér sálræna meðferð, séu einhverskonar menningarafurð frekar en minningar um raunverulega atburði? Finnst þér ekki líka skrítið að langflestar beinast þessar ásakanir að feðrum, sem nær allir eru menntaðir og í hvítflibbastörfum? Hvað segir þekking þín á “virkni heilans” og “vísindalegum vinnubrögðum” um það? Og hvað hefur kynjafræðingurinn, með sitt samfélagslega sjónarhorn, að segja um þetta allt?

4. Hvers vegna ert þú sem ,,leikmaður" eins og þú titlar þig í fyrri grein þinni, allt í einu orðin sérfræðingur í málefnum sem snerta kynferðisofbeldi ...og jafnvel færari matsaðili en sálfræðingar og aðrir fagaðilar.

Svar: Í fyrri greininni kallaði ég eftir umfjöllun fræðimanna og fagaðila því sjálfur er ég leikmaður á þessu tiltekna sviði, eins og ég tók skýrt fram. Hins vegar hef ég kynnt mér viðfangsefnið bældar minningar og falskar nægilega vel til að átta mig á, að í máli Guðrúnar Ebbu blasir við sú hætta að hún hafi orðið fórnarlamb leiðandi meðferðar og það bæði af hálfu sálfræðingsins, sem hún hefur gengið til árum saman, sem og fjölskylduráðgjafans, sem hún leitaði til innan fjölskylduþjónustu kirkjunnar.

Reyndar sýnist mér mál hennar þannig vaxið, að það sé um það bil ekkert sem styðji við bakið á þeim möguleika, að um minningar um raunverulega atburði sé að ræða. Í því sambandi hef ég bæði bent á hversu langt tímabilið er sem hið meinta ofbeldi á að hafa átt sér stað (en nánast óþekkt er að fólk nái að “bæla” slíka áralanga reynslu með sér) auk þess sem ég hef bent á hættuna af því þegar “minningarnar” taka að brjótast fram eftir að meðferð er hafin.

Fjölmargt fleira vinnur einnig gegn því að unnt sé að álykta sem svo, að minningar hennar séu minningar um raunverulega atburði (sjá t.d. hér: HYPERLINK "http://pps.sagepub.com/content/4/2/126.full" http://pps.sagepub.com/content/4/2/126.full ) Í því sambandi má nefna, að fyrrnefndur McNally hefur í samvinnu við hina hollensku dr. Elke Geraerts unnið að rannsóknum á því hvað það sé helst, sem geri “bældar minningar” um kynferðismisnotkun í æsku sennilegri. Eru eftirfarandi atriði talin auka líkindi þess:

1. Þolandi varð ráðvilltur og upplifði misnotkunina sem ógnandi og viðbjóðslega en ekki sem áfall (trauma).

2. Einungis var um eitt eða í mesta lagi fáein skipti að ræða.

3. Þolandi upplifði atburði ekki sem kynferðislega eða sem misnotkun.

4. Þolandi gat forðast með góðum árangri að hugsa um það sem hafði gerst.

5. Ekkert í lífi eða umhverfi þolanda minnti á atburði.

6. Þolandi gleymdi fyrri minningum sínum um misnotkunina og ímyndaði sér þannig að hann hefði aldrei munað eftir henni.

7. Þegar misnotkun rifjast upp á fullorðinsárum, gerist sú upprifjun skyndilega og henni fylgir mikil undrun yfir hvernig hægt sé að gleyma svona löguðu.

8. Minningarnar koma fram skyndilega sem viðbrögð við einhverju utanaðkomandi án þess að tengsl við leiðandi meðferð séu til staðar.

9. Minningar sem koma fram skyndilega og án nokkurra tengsla við sálræna meðferð eru líklegri til að fá staðfestingu heldur en þær minningar sem koma fram smá saman með leiðandi meðferð.

10. Þá gefa rannsóknir til kynna, að auknar líkur séu á fölskum minningum þar sem minningar koma fram smá saman við sálræna meðferð í samanburði við þær minningar sem koma fram án tengsla við sálræna meðferð.

Hér er satt að segja ekki ekki margt að finna, sem styður þann möguleika, að minningar Guðrúnar Ebbu séu minningar um raunverulega atburði. Eitt er þó sem styður þann möguleika umfram annað en það eru áfallastreituröskunareinkennin, en eins og dr. Berglind Guðmundsdóttir hefur bent á, þá geta slík einkenni sannarlega orðið fylgifiskur kynferðisofbeldis og misnotkunar. (sjá viðtal við dr. Berglindi hér: HYPERLINK "http://www.dv.is/frettir/2011/10/17/salfraedingur-falskar-minningar-ekki-algengar/" http://www.dv.is/frettir/2011/10/17/salfraedingur-falskar-minningar-ekki-algengar/ )

Hins vegar getur ýmislegt fleira orsakað áfallastreituröskun. Það geta átt sér stað annars konar áföll, og hjá Guðrúnu Ebbu er af nokkru að taka í þeim efnum. Orsakasamhengið er því ekki skýrt og í rauninni vantar þar mikið upp á. Kannski dr. Berglind útskýri þetta betur fyrir okkur og svipti þannig burt í eitt skipti fyrir öll þeim efasemdum sem óhjákvæmilega gera hér vart við sig?

Mig langar hins vegar að spyrja þig, Anna Bentína, hversu vel þekkir þú til “bældra minninga” og hefur þú sem “sérfræðingur í afleiðingum kynferðisofbeldis” fengið mörg slík mál til meðferðar? Er mikið um “bældar minningar” á Íslandi? Að svo miklu leyti sem þú þekkir mál Guðrúnar Ebbu, er þá eitthvað sem þú telur útiloka að um falskar minningar geti verið að ræða? Hvað í frásögn hennar finnst þér gera minningar hennar sennilegar? 

Og úr því ég er tekinn til við að skrifa slíkan langhund hér inn á netið sem raun ber vitni vil ég nefna, að mig er farið að undra stórum meir en áður hvers vegna ekki einu orði var minnst á falskar minningar í bókinni “Ekki líta undan.” Skrásetjari, Elín Hirst, segist hafa lagst í mikla rannsóknarvinnu í tengslum við falskar minningar en þess sér hins vegar hvergi stað í bókinni. Viðtali við hana á pressan.is lýkur með því að hún hvetur fólk til að “lesa bókina og draga sínar ályktanir.” En hvernig á að draga ályktanir um bældar minningar eða falskar þegar lesandanum er ekki einu sinni gefinn sá möguleiki að láta sér til hugar koma, að um slíkar minningar geti verið að ræða? Hér hefði vönduð ritstjórn getað breytt miklu.

Læt þetta svo duga þó gaman hefði verið að ræða vísindaleg vinnubrögð eins og mér sýnist þú, Anna Bentína, kalla eftir. Það væri hins vegar sannarlega áhugavert ef þeir sérfræðingar, sem þekkja hvað gerst til bældra minninga Guðrúnar Ebbu, kæmu fram með hennar leyfi og fjölluð um þetta mál með skýrum hætti, þannig að málavextir yrðu sem flestum ljósir og til þess að gott mætti af hljótast.

Grein þessi birtist á spegill.is 19. nóvember 2011.