Brauð og bikar lífsins

Brauð og bikar lífsins

Íbygginn unglingsstrákur krítaði gamla götusteinana fyrir framan dómkirkjuna í Sansepolcro í austurhluta Toscana. Nærri voru pappakassar. Í einum voru um 15 lítrar af gulum krónublöðum einhverrar fífiltegundar, sem var íslenskum flórukarli framandi. Í öðrum voru blóm af smágerðri baldursbrá og í þeim þriðja blá blóm. Hvað var strákurinn að gera? Krónublaðaókjörin heilluðu, þvílíkt magn og vinnuvilji!

Íbygginn unglingsstrákur krítaði gamla götusteinana fyrir framan dómkirkjuna í Sansepolcro í austurhluta Toscana. Nærri voru pappakassar. Í einum voru um 15 lítrar af gulum krónublöðum einhverrar fífiltegundar, sem var íslenskum flórukarli framandi. Í öðrum voru blóm af smágerðri baldursbrá og í þeim þriðja blá blóm. Hvað var strákurinn að gera? Krónublaðaókjörin heilluðu, þvílíkt magn og vinnuvilji!

Eitthvað var í bígerð, en hvað? Svo fyllti drengurinn lófana af blómum og lét falla á götuna og úðaði svo vatni yfir. Gul breiðan virtist ætla að verða í mynd faðmandi veru. Eða var það bikar? Svo kom stór baugur hvítu blómanna ofan við þau gulu. Gjörningurinn átti sér einhverja merkingu og var ætlað að tala til þeirra, sem áttu leið um götuna. En hver var meiningin?

Hátíðisdagur

Það var hátíðisdagur í borg hinnar heilögu grafar. Karlar báru úr dómkirkjunni, kirkju heilags Jóhannesar, stórkostlegan vínrauðan vefnað. Í hann var ofin dagsetningin 1760. Klæðið hengdu þeir á gamlan residens, líklega biskupsins. Svo komu góðlátlegir og skríkjandi hringjararnir með stóra kertastjaka úr kirkjunni og komu þeim fyrir á borði á upphækkuðum tröppum, nærri klæðinu góða. Prestur kom stikandi með nokkra hökla. Klukkur hringdu í turnininum. Hátíð fór að og klukkuómarnir bárust letilega út í daginn og kölluðu fólk í síestunni.

Undirbúningur hátíðar í Toscana snart Íslendending með hugan heima á Hólum. Sonur Sigrúnar og Baldvins á Rangá, sá góði drengur Jón Aðalsteinn, skyldi vígður. Klukkan tjáði mér að nú hefði prósessían náð heimahöfn í Hólakirkju og athöfnin væri hafin. Ég skaust inn í myrka dómkirkjuna, fram hjá Madonnumynd. Á ljósberanum loguðu ljós og þar var hægt að koma fyrir kerti úr íslenskum höndum.

Fyrirbæn um hvelfingu og himin

Fyrirbæn leið um hvelfingu og himin. Það er nú gott að Guð heyrir jafnvel í Toscana og Skagafirði. Alnálægðin er vel skiljanleg guðfræði í þessari aðstöðu. Jón blessaður, kollegarnir, biskupinn, Hólar, kristnin og allur heimur og geimur eru umspennt gæsku. Lífvefnaður heimsins titrar allur þegar bæn snertir eyra Guðs. Engin bæn er of lítilmótleg og engin dettur dauð niður.

Fullvissir um öfluga Guðshlustun klifum við átta ára Klemens og Nick, faðir hans, upp í kirkjuturn til að líta yfir dómkirkjuþakið, borgina og skoða voldugar, gamlar klukkur en með nýjum kólfum. Það var eitthvað í blænum sem blés í brjóst að Jón yrði farsæll vígslubiskup. Kirkjan á ekkert annað skilið en góða og nýta þjóna. Það verkjaði lítillega í lærvöðva í niðurklifrinu. Tröppurnar voru margar og brattar. Svo fórum við aftur til að kíkja á gjörninginn á götunni.

Krónublaðadrengurinn hélt áfram að úthella örlæti Guðs og auðæfum sínum á strætið. Nú var búið að bæta við greinilegum stöfum ofan í hvítan hringinn. Presturinn sá og skildi. Hin kirkjulega merking var að birtast: IHS. Það var skammstöfun mannkynsfrelsarans. Svo bættust við geislar.

Hostia

Forvitinn vegfarandi spurði hvað þetta væri. Án þess að líta upp svaraði blómadrengurinn stuttaralega: Hostia. Þá var allt skýrt. Brauð lífsins og svo var það líka bikar lífsins. Allt frá Guði, allt í táknrænni mynd, en í raunveruleika og skuggsjá strætisins.

Kirkja í borg hinnar heilögu grafar til nota fyrir hinn góða boðskap. Strætið helgað með gerningi til að túlka hver merking lífsins er, hvaðan allt er og til hvers. Samtímis í öðrum heimshluta er Kinnardrengur borinn fram fyrir Guð í bæn og yfir hann lagðar hendur. Hann er til nota fyrir hinn elskulega boðskap. Yfir, með og undir er andi Guðs í brauði og víni, fyrir heim, fyrir líf, til lífs. Allt af sömu rót, allt úr sömu vínyrkju og allt úr sama bakaríi Guðs og fyrir Guð. Biskup, kirkja, fólk og prestar - brauð handa heimi og bikar til lífs.