Hugrekki hins venjulega manns

Hugrekki hins venjulega manns

Þrátt fyrir að allt bendi til hins gagnstæða, er okkur óhætt að lifa og deyja, hugrökk frammi fyrir lífinu og óttalaus frammi fyrir dauðanum. Með slíkan boðskap í höndunum þarf engar grísk-rómverskar hetjur eða helgisagnir dýrðlinga

Á mínu heimili er látlaus heimilisguðrækni, sem felst í kvöldbænum og einstaka borðbæn, kvöldsálmi þegar vel liggur á fjölskylduföðurnum og lestri í barnabiblíum heimilisins. Heilbrigt og eðlilegt trúaruppeldi á íslenskan mælikvarða. Í vikunni upphófust hinsvegar heilmiklar umræður um samanburðar-trúarbragðafræði eftir að við 10 ára sonur minn höfðum farið í bíó og séð á hvíta tjaldinu hetjur grísk-rómversku goðsagnanna.

Syni mínum fannst sannast sagna, þær hetjur mun meira spennandi en persónur Nýja testamentisins. Þegar heim var komið var dreginn fram bókakostur heimilisins og fræðst um Herkúles og Jason, Póseidon og Seif og hvorki meira né minna bornar saman sköpunarfrásögur grikkja, norrænna manna og Biblíunnar. Slíkann áhuga hef ég ekki enn getað vakið á sögunum um Jesú.

Það sem sonur minn ekki veit er að hinar grísku og rómversku goðsögur voru á ritunartíma Nýja testamentins í beinni samkeppni við sögurnar af Jesú. Það er merkilegt til þess að hugsa að hinar látlausu persónur guðspjallanna, sem hvorki bera yfirbragð grísk-rómverkra hetja eða síðari helgisagna af dýrðlingum, hafi áunnið sér slíkra vinsælda að kristni varð ríkistrú í Róm við byrjun þriðju aldar.

Mannlýsingar guðspjallanna eru fullkomlega raunsæjar. Þar eru fylgjendur Jesú - lærisveinar af báðum kynjum - venjulegt fólk, í venjulegum aðstæðum að takast á við þá óvenjulegu reynslu að hafa kynnst Jesú Kristi.

Í guðspjalli dagsins erum við stödd í Betaníu í miðjum fjölskylduharmleik. Vinkonur Jesú, Marta og María, hafa misst bróður sinn Lasarus en heimili þeirra kemur einnig við sögu í Lúkasarguðspjalli, þar sem þær systur fara ólíkar leiðir við að sýna frelsaranum gestrisni á heimili sínu. Marta hleypur á móti Jesú, en hún hafði haft fregnir af komu hans, á meðan systir hennar María sat heima með þeim sem komnir voru að votta samúð sína.

Í sorg sinni sýnir Marta aðdáunarverða trú. Hún segir við Jesú: ,,Drottinn, ef þú hefðir verið hér væri bróðir minn ekki dáinn. En einnig nú veit ég að Guð mun gefa þér hvað sem þú biður hann um.” Viðbrögð Jesú benda nánast til þess að hann vilji kanna hversu langt trú hennar nær, ,,Jesús segir við hana: ,,Bróðir þinn mun upp rísa.” og Marta virðist vilja játa þá trú sem henni var miðlað og segir „Ég veit að hann rís upp í upprisunni á efsta degi.”

Guðspjallamaðurinn er að undirbúa frásögnina af upprisu Lasarusar en hún er hápunktur þeirra kraftaverka, eða tákna, sem að Jesús framkvæmir og opinbera fyrir kirkjunni hver hann er. Táknin eru sjö talsins í Jóhannesarguðspjalli og öll benda þau með einum eða öðrum hætti til krossfestingar og upprisu Jesú og kallast á við kvöldmáltíðarsakramentið. Hið fyrsta er þegar Jesús breytir vatni í vín, sem þegar fram vindur verður að tákni fyrir blóð krists, og hið sjöunda, upprisa Lasarusar vísar til sjálfra páskanna, þegar upprisa Jesú tryggir okkur sigur yfir dauðanum sjálfum og eilíft líf.

Það er því mikið undir í frásögninni af samskiptum Jesú við systkinin í Betaníu og viðbrögð Jesú við játningu Mörtu eru ein af grunnstoðum kristinnar kirkju. Jesús mælti: ,,Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu?”

Öll þurfum við að horfast í augu við eigin dauðleika og óttumst flest dauðann, þó með ólíkum hætti á mismunandi lífsskeiðum. Öll leiðum hugann að því hvort til sé líf eftir þetta líf og þá með hvaða hætti slík tilvera er. Sú tilhugsun að endalok lífs, séu endalok lífs, er óhugsandi fyrir barnshuga en mörgum fullorðnum þykir sú hugmynd fela í sér mesta huggun. Tilvist Guðs og handantilveru vekur upp fleiri siðferðislegar spurningar en hún svarar.

Dauðinn getur verið ógnvænleg tilhugsun af svo mörgum ástæðum. Maður getur efast um að líf manns hafi skipt einhverju eða einhverja máli, og að maður hafi eða muni afreka nægilega miklu á stuttu æviskeiði. Reynsla þeirra sem háum aldri ná er hinsvegar sú að lífgæði felast hvorki í afrekum eða veraldlegum efnum, heldur í gæðum tengsla við sjálfan sig og ástvini. Með þeim augum er líf hins ófædda barns, og þess sem heilsa hefur brostið jafngild þeim sem miklu koma í verk.

Biblían boðar þann mannskilning, að lífið sé heilagt í sjálfu sér, og því verði verðmæti mannslífs aldrei skilgreind með utanaðkomandi þáttum. Nýja testamentið er í raun mannréttindasáttmáli og fyrirmynd nýrri sáttmála, á borð við mannréttindasáttmála Sameinuðu Þjóðanna, þar sem mannhelgi liggur til grundvallar.

Sjálfur bý ég ekki yfir neinum haldbærum upplýsingum um handantilveru okkar. Slíkt er ekki kennt í guðfræðideild Háskóla Íslands. Þá hef ég enga opinberun fengið, bý ekki yfir neinum miðilshæfileikum og hef engri nærdauðareynslu að segja frá. Ég er raunar fullkomlega gagnslaus þegar kemur að því að lýsa þeirri tilveru sem bíður okkar, handan dauða og grafar.

En, ég veit að Guð er til, af því að ég hef reynt það. Og ég stend í þeirri trú að sú reynsla að hafa reynt gæsku Guðs í lífi mínu, sé hvorki sérstök né fágæt, heldur standi hverjum þeim til boða sem í einlægni vill eiga reynslu af Guði. Það eina sem til þarf er fúsleiki til að leita í bæn hinnar hljóðu kærleiksríku raddar Guðs, sem bærist hið innra. Og ég leyfi mér að draga þá ályktun að fyrst við stöndum ekki ein í lífinu, heldur njótum þeirra gæða að mega ganga í gegnum lífið leidd af Jesú, þá stöndum við heldur ekki ein frammi fyrir dauðanum.

,,Trúir þú þessu?” Marta segir við Jesú: ,,Já, Drottinn. Ég trúi að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn.” Sagan af upprisu Lasarusar, Mörtu og María, er saga af venjulegu fólki, en boðskapur sögunnar er eins róttækur og afdráttarlaus og hann gerist. Hún er hápunktur þeirra tákna sem eiga að upplýsa hver Jesús er og hverju koma hans breytir fyrir okkur sem reiða sig á hann.

Þrátt fyrir að allt bendi til hins gagnstæða, er okkur óhætt að lifa og deyja, óttalaus, hugrökk frammi fyrir lífinu og óttalaus frammi fyrir dauðanum. Með slíkan boðskap í höndunum þarf engar grísk-rómverskar hetjur eða helgisagnir dýrðlinga, okkur hinum stendur þetta til boða, jafnt við þá sem lýst er í guðspjöllunum. Þetta hafa trúaðir menn á öllum öldum reynt og er ástæða þess að kristin kirkja stendur eins og klettur í hafi sögunnar.

,,Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja.” Trúarskáldið Hallgrímur Pétursson þekkti frelsarann á þennan hátt og gat lifað og dáið, óttalaus í trú sinni. Sálmur hans Um dauðans óvissu tíma hefur algjöru sérstöðu í okkar menningu og það fer varla fram sú kristna útför, að hann er ekki sunginn. Í kveðskap Hallgríms kallast á sorg yfir dótturmissi og gleði í þeirri trú að við stöndum ekki ein í lífinu og ekki ein frammi fyrir dauðanum.

Ég lifi' í Jesú nafni, í Jesú nafni' eg dey, þó heilsa' og líf mér hafni, hræðist ég dauðann ei. Dauði, ég óttast eigi afl þitt né valdið gilt, í Kristí krafti' eg segi: Kom þú sæll, þá þú vilt.