Kemur náunginn okkur við?

Kemur náunginn okkur við?

Í umræðunni um þróunarsamvinnu í síðast liðinni viku var því oftar en ekki haldið á lofti að við værum rík þjóð. Staða okkar og afstaða mótast oftar en ekki af samanburði. Í samanburði við fólkið á sléttunum í Malaví erum við forrík þjóð. Það er gott að sjá aðstæður annarra til að gera sér betur grein fyrir eigin lífi og aðstæðum.

Ég fagna því að fá að vera með ykkur hér í dag kæri söfnuður og bið ykkur blessunar Guðs. Það er dýrmætt fyrir biskup að fá að heimsækja söfnuði, kynnast fólki og starfi og komast í snertingu við það líf sem hér er lifað.

Söfnuðir eru misjafnir eftir því hvar þeir eru og starfið einnig. Lífstaktur sveitarinnar er annar en lífstaktur þéttbýlisins. Hrynjandi árstíðanna ræður þar miklu og brátt mun vorið með gróanda og nýju lífi og önnum sauðburðar eiga huga ykkar allan. Þegar ég þjónaði á Hvanneyri og enn þurfti að keyra fyrir Hvalfjörðinn og um Kjósina til að komast til Reykjavíkur man ég að túnin hér í Kjósinni voru þau fyrstu til að verða græn á vorin. Það voru í raun fyrstu merki þess að vorið væri í nánd.

Fastan er brátt á enda og páskar fara í hönd. Vorið og páskarnir haldast hönd í hönd. Við færumst nær þeim atburðum er breytt hafa heimssýn og lífssýn milljóna manna í gegnum aldirnar og haft umbreytandi áhrif á þjóðlíf og samfélög.

Við tökum okkur stöðu með mannfjöldanum sem hyllti Jesú þegar hann nálgaðist Jerúsalem þar sem hann var deyddur á krossi og reis upp á þriðja degi. Fólkið veifaði pálmagreinum sem þessi sunnudagur dregur nafn sitt af. Sagan af innreiðinni í Jerúsalem er oft lesin á þessum sunnudagi, en í dag heyrðum við frásögu af smurningu, sem nafnlaus kona veitti Jesú. „Hvar sem fagnaðarerindið verður flutt, um heim allan, mun og getið verða þess sem hún gerði og hennar minnst.“

Á héraðsfundi prófastsdæmisins síðast liðinn miðvikudag var sýnt myndband til kynningar á starfsfólki biskupsstofu og starfi þess. Myndbandið var klippt þannig að nöfn sumra komu fram, en ekki allra. Hvað munum við þegar við sjáum slíkt myndband? Hvað munum við af samskiptum okkar við fólk? Þegar við hittum fólk í fyrsta skipti munum við sennilega frekar gjörðir þess og viðmót en nafn. Það sem við gerum hvert öðru skiptir meira máli en hver við erum. Og þannig var það með konuna í guðspjallinu sem lesið var áðan. Við þekkjum verk hennar 2000 árum síðar en vitum ekki hver hún var að öðru leyti.

Konan smurði Jesú. Smurning var veitt konungum. Hún hefur því haft sínar hugmyndir um það hver Jesús var. Hún þjónaði, gaf af sér og gerði það sem hún taldi best.

Hvað skiptir máli í þessu lífi? Hverra verður minnst í framtíðinni og á hvern hátt? Það mun sagan leiða í ljós en það sem máli skiptir er að við gerum Jesú gott eins og ónefnda konan með því að gera náunga okkar gott. „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér“.

Í síðasta mánuði átt ég þess kost að heimsækja tvö lönd í Afríku. Fátt er líkt með daglegu lífi fólksins á sléttunum í Malaví og hér. Þó nóg sé af hitanum þar vantar flest annað til að gróður þrífist og fæðuöflun sé örugg. Á veraldarinnar vísu er fólkið fátækt. Börnin eru fáklædd í fötum sem gætu hafa verið gefin í fatasöfnun, sum rifin og óhrein. Jarðvegurinn þurr og ekki líklegur til að gefa mikið af sér þó ekki sé talað um góðurvana landið sem skepnurnar þurfa að lifa á. Geiturnar og nautgripirnir voru líka skinhoraðar skepnur, sem voru samt sem áður stolt eiganda sinna. Við hittum bóndann sem fyrstur fékk geitur að gjöf frá Hjálparstarfi kirkjunnar á Íslandi. Hann fékk þrjár, sem voru orðnar 67 þegar þarna var komið sögu.

Hjálparstarf kirkjunnar hefur að leiðarljósi að gera Jesú gott með því að hjálpa öðrum. Fermingarbörn á Íslandi hafa t.d. safnað fyrir vatnsdælum sem settar hafa verið upp á sléttunum. Þá hefur verið borað 50 til 70 metra niður í jörðina og upp hefur komið hreint vatn sem er undirstaða lífs og heilbrigðis. Niður í holurnar hafa verið sett rör og á yfirborðinu eru dælur sem vatninu er dælt með. Það nýtist ekki aðeins fólkinu heldur einnig til að vökva jörðina, því ekkert fær vaxið á þurri jörð, enda varla hægt að sá þar hvað þá heldur að láta fræið vaxa.

Kemur okkur náungi okkar við? Eigum við að hjálpa þeim sem eru langt frá okkur? Þessara spurninga er spurt og sýnist sitt hverjum. „Nógir eru erfiðleikarnir hér á landi hjá mörgum þó við förum ekki að eyða fjármunum okkar til annarra“, er þekkt viðhorf.

Í nýliðinni viku var rædd á Alþingi tillaga til þingsályktunar um áætlun um alþjóðega þróunarsamvinnu Íslands næstu 4 árin. Það sem þótti fréttnæmt við ályktunina var afstaða eins þingmanns sem ekki samþykkti hana. Þingmanninum var borið á brýn að vilja ekki styðja baráttu við fátækt, hungur og misskiptingu lífsgæða. Það var eftir því tekið þegar þingmaðurinn fylgdi ekki fjöldanum í þessu máli. Hvað er gott og hvað er þarft? Frammi fyrir þessum spurningum stöndum við oft á lífsins leið. Erum við fátæk, erum við rík? Í umræðunni um þróunarsamvinnu í síðast liðinni viku var því oftar en ekki haldið á lofti að við værum rík þjóð. Staða okkar og afstaða mótast oftar en ekki af samanburði. Í samanburði við fólkið á sléttunum í Malaví erum við forrík þjóð. Það er gott að sjá aðstæður annarra til að gera sér betur grein fyrir eigin lífi og aðstæðum.

En við berum okkur ekki saman við aðrar þjóðir heldur berum við okkur saman innbyrðis. Hér á landi er mannlífið fjölbreytt og aðstæður fólks misjafnar. Flestir búa við góðar aðstæður á veraldarinnar vísu en til er fólk sem þarf hjálp til að komast af. Það eru t.d. um 100 manns sem þiggja mat hjá Samhjálp í Reykjavík dag hvern. Nú er hafin páskasöfnun Hjálparstarfs Kirkjunnar. Á vef stofnunarinnar, help.is má lesa um hana og starfið almennt. Með Fréttablaðinu í gær fylgdi sérblað um innanlandsaðstoðina, en páskasöfnuninni er sérstaklega beint að henni. Þar segir: „Að læra að láta sér líða vel, hætta að óttast fjármálin sín, ná sér í meiri menntun allt eru þetta hlutir sem Hjálparstarf kirkjunnar hjálpar fólki að ná tökum á“. Og um páskasöfnunina segir: „Páskasöfnunin Hjálpum heima er hafin.Fjölbreytt starf felst í mataraðstoð með inneignarkortum í matvöruverslunum, stuðningi við framhaldsskólanemendur, lyfjaaðstoð, fataúthlutun, stuðningi við foreldra vegna skólagagna og fatnaðar á grunnskólabörn, ráðgjöf og stuðningi til endurhæfingar. Páskasöfnun Hjálparstarfsins til styrktar þessu starfi er hafin.

Lofsyngið himnar, fagna þú jörð, þér fjöll, hefjið gleðisöng því að Drottinn hughreystir þjóð sína og sýnir miskunn sínum þjáðu. En Síon segir: „Drottinn hefur yfirgefið mig, Guð hefur gleymt mér.“ Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu? Og þó að þær gætu gleymt þá gleymi ég þér samt ekki. Ég hef rist þig í lófa mér, múra þína hef ég sífellt fyrir augum.

Segir Jesasa spámaður í lexíu dagsins. Guð hefur ekki gleymt okkur. Við megum ekki gleyma honum og náunga okkar, því Guð hefur engar hendur til að vinna verk sín hér í þessum heimi nema okkar hendur. Allt sem við gerum á að vera unnið í nafni hans og honum til dýrðar. Guð gleymir okkur ekki. Við skulum heldur ekki gleyma Guði. Verkin okkar eiga að vitna um kærleika hans. „Hvar sem fagnaðarerindið verður flutt, um heim allan, mun og getið verða þess sem hún gerði og hennar minnst“ sagði Jesú um ónefndu konuna sem smurði hann til greftrunar. Hún gaf af því sem hún hafði, sóaði ekki, heldur vann kærleiksverk. Kynslóðir framtíðarinnar munu minnast þess sem gert er í dag, mannlífi og þjóðlífi til blessunar.