Heilög þrenning

Heilög þrenning

Hugtakið, heilög þrenning, er ekki að finna í ritningunni, en veruleikinn er þar til staðar, af því að það er ekki uppfundið af kirkjuþingum og guðfræðingum, heldur sprottið úr reynslu bænar og trúar. Að Guðdómurinn er þríeinn, heilög þrenning, er ekki kenning sem smíðuð er af spekingum til að flækja málin, heldur reynsla trúarinnar af þeim Guði sem er kærleikur, samfélag í umhyggju og kærleika.
fullname - andlitsmynd Karl Sigurbjörnsson
11. júní 2006

Drottinn birtist Abraham í Mamrelundi, er hann sat í tjalddyrum sínum í miðdegishitanum. Og hann hóf upp augu sín og litaðist um, og sjá, þrír menn stóðu gagnvart honum. Og er hann sá þá, skundaði hann til móts við þá úr tjalddyrum sínum og laut þeim til jarðar og mælti: Herra minn, hafi ég fundið náð í augum þínum, þá gakk eigi fram hjá þjóni þínum. Leyfið, að sótt sé lítið eitt af vatni, að þér megið þvo fætur yðar, og hvílið yður undir trénu. Og ég ætla að sækja brauðbita, að þér megið styrkja hjörtu yðar, síðan getið þér haldið áfram ferðinni, úr því að þér fóruð hér um hjá þjóni yðar. Og þeir svöruðu: Gjörðu eins og þú hefir sagt. (1. Mós. 18.1-5) Er þetta ekki undursamleg frásögn? Kirkjan hefur ætíð séð hana sem mynd heilagrar þrenningar. Og þess vegna notar rússneski listamaðurinn Rubljev þessa fyrirmynd er hann málar mynd þrenningarinnar. Gestir Abrahams og Söru umhverfis borðið.

Hugtakið, heilög þrenning, er ekki að finna í ritningunni, en veruleikinn er þar til staðar, af því að það er ekki uppfundið af kirkjuþingum og guðfræðingum, heldur sprottið úr reynslu bænar og trúar. Að Guðdómurinn er þríeinn, heilög þrenning, er ekki kenning sem smíðuð er af spekingum til að flækja málin, heldur reynsla trúarinnar af þeim Guði sem er kærleikur, samfélag í umhyggju og kærleika. Þetta kemur svo skýrt fram í hinum þokkafulla íkoni, sem stafar mildi, ást og náð. Þetta á kristin tilbeiðsla og samfélag að bera vitni um fyrir heiminum.

Og þetta er hin kristna guðsmynd: Guð er ekki óhagganleg, óbifanleg einsemd í alheimsgeimi, heldur leikandi létt, fagnaðarrík, unaðsleg hreyfing, dans. Einn hinna fornu kirkjufeðra notaði um þennan leyndardóm gríska orðið perichoresis, dans föður, sonar og heilags anda, sem fyllir alheim ást og gleði um alla eilífð. Og býður okkur upp í dans! Löngunin, þráin að taka þátt í hinum guðdómlega dansi er manninum í blóð borin. Við erum sköpuð til að eiga samfélag við þríeinan Guð í trú og gleði. Við þurfum ekki að skilja og skilgreina guðdóminn, heldur leita, finna, þiggja, njóta, reyna, undrast og ummyndast af.

Persónur guðdómsins eru kringum borðið. Að þessu borði erum við boðin, til að njóta og nærast og styrkjast á líkama og sál. Í hverjum kristnum helgidómi stendur það borð, og sérhver kristin helgiathöfn á að enduróma laðan heilagrar þrenningar að því borði.

Að Guð er heilög þrenning er ekki skilgreining heldur lofgjörð, ekki formúla heldur ljóð. Og þess vegna er kirkjan hans umfram allt hreyfing, samfélag, samfélag í trú og gleði, sem í lofgjörð sinni, vitnisburði og lífsmáta bergmálar dýrðarsönginn: „Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen”