Við freistingum gæt þín

Við freistingum gæt þín

Guðspjall: Matt. 4. 1 – 11 Lexia: 1. Mós. 3.1-19 Pistill: 2. Kor . 6: 1-10

Í dag er fyrsti sunnudagur í föstu. Fastan hefst með öskudegi en þá eru fjörtíu dagar til páska. Þeir minna á dagana fjörtíu sem Jesús fastaði í eyðimörkinni og var freistað af djöflinum. Þar lagði djöfullinn nokkur reynslupróf fyrir Jesú sem hann stóðst með prýði og sýndi þar með fram á það að hann er fullkomlega fær um að sigrast á sérhverri freistingu. Því var hann einnig fær um að vinna það verk sem Guð ætlaði honum að vinna í þágu mannanna og standa að lokum uppi sem sigurvegari gagnvart öflum þjáningar og dauða.

Fastan er hugsuð sem tími fyrir kristið fólk til sjálfsskoðunar og til að dýpka og þroska trúarlíf sitt, samfélagið við Jesú Krist. Á föstunni hafa menn leitast við að lifa í kyrrð og bæn, íhuga píslarsögu Krists og lifa látlausara lífi en annars. Fastan er tími iðrunar fyrir leika jafnt sem lærða, tími undirbúnings fyrir hina miklu gleðihátíð páskanna.

Jesús var ekkert þekktur áður en Jóhannes skírði hann í ánni Jórdan. Hann var jafn kunnur og ég og þú af fjölskyldu sinni og vinum. Enginn veitti honum sérstaka athygli þegar hann gekk um göturnar í Nasaret . Þegar hann braut brauðið þá braut hann brauðið eins og hver annar maður. Þegar hann gaf álit sitt í ljós þá gerði hann það án þess að orðum hans væri sérstakur gaumur gefinn. Þegar hann reið á asna þá gerði hann það ásamt þúsundum annarra án þess að honum væri veitt meiri athygli en öðrum sem slíkt gerðu. En skyndilega breyttist allt við skírn hans. Sumir kennimenn segja að skírnin hafi breytt öllu fyrir Jesú sjálfan. Að hann hafi aldrei vitað fyrr en í kjölfar skírnar sinnar hver hann var í raun og veru. Ég veit það ekki. Ég veit ekki hvernig þeir telja sig vita það.

Þeir sem urðu vitni að skírn Jesú vissu það ekki fyrir að hann væri sonur Guðs. Þeir vissu einungis sumir hverjir að hann væri sonur Maríu og Jósefs sem bjuggu í Nasaret . Á sama andartaki og hann varð skírður þá vissu allir þeir sem voru á árbakkanum að hann væri sonur Guðs því að þar var hann kröftuglega auglýstur fyrir það að vera sonur Guðs. En þá opnuðust himnarnir, rödd heyrðist að ofan. Áhorfendur skynjuðu sterkt návist Guðs anda, ekki síst yfir Jesú sjálfum. Þarna opinberaðist Jesú í öllu sínu veldi. Honum var gefið allt vald á himni og á jörðu og falið það verkefni að breyta þessum heimi með gagngerum hætti með valdi kærleikans.

Fyrstu viðbrögð Jesú voru þau að hlaupa í burtu, fela sig, grafa höfuð sitt í sandinn líkt og strútur á hættustundu. Jesús dvaldi í eyðimörkinni í fjörtíu daga þar sem djöfullinn lagði fyrir hann reynsluprófin. Að þeim loknum þjónuðu englar Jesú sárþjáðum og þreyttum eftir því. Að því loknu leiddi andi Guðs hann út úr eyðimörkinni til byggða og hann byrjaði opinberlega sitt starf á meðal mannanna. Mér finnst alltaf jafn merkilegt að hugsa til þess að starfstími Jesú var einungis þrjú ár. Guðspjöllin rúma ekki allt sem hann gerði á þeim tíma í þágu mannanna. Hann er einstakur sonur Guðs.

Jesús var freistað, ekki aðeins þá, heldur allt sitt líf. Hans var freistað af freistingum sem okkur öllum eru kunnar sem höfum yfir að ráða einhverri þekkingu, valdi, innsæi, menntun, áhrifum. Hver sá sem lokið hefur námi og fengið vinnu, kennari, einkaritari, forstjóri, sérfræðingur, lögmaður, stjórnandi, prestur, læknir. Allir hafa staðið frammi fyrir sömu freistingum og Jesú stóð frammi fyrir. Hvernig hefur okkur gengið í þessum reynsluprófum? Höfum við staðist allar þær freistingar sem fyrir okkur hafa verið lagðar?

Gamli óvinurinn sagði við Jesú í eyðimörkinni forðum: “Notaðu þekkingu þína og vald til að geta brauðfætt sjálfan þig. Gerðu það sem í þínu valdi stendur til að ná í deig svo að þú getir búið til brauð, þ.e. a.s. peninga!” Jesús sagði þá við hann: “Brauðið er ekki allt”. Freistarinn svaraði: “Ég er sammála en þetta er algengasta bragðið mitt, - það sem flestir falla fyrir”.

Freistarinn fór þá með hann upp á musterisbrúnina og sagði: “Kastaðu þér hér ofan. Englar munu örugglega bjarga þér og fólkið hylla þig í musterinu”. Jesús sagði þá við hann: “Þú skalt ekki freista Guðs”. Freistarinn svaraði:: “Ég er sammála þér. Það eru mistökin sem ég gerði sjálfur en það eru margir aðrir sem gera þessi mistök. Ég reyndi aðeins”.

Þá fór hann með Jesú upp á ofurhátt fjall og sýndi honum pólitísk völd þessa heims og sagði “Hvað um þetta? Ef þú fellur ekki fyrir peningum, ef þú fellur ekki fyrir heiðri, hvernig væri þá að falla fyrir því sem allir falla fyrir,- pólitískum völdum?” Aftur svaraði Jesús: “Nei, ekki í þessum heimi eins og hann blasir við mér í dag”. Jesús leit á Satan og bætti við: “Það er vegna þess að þú átt alltof mikil ítök í þessum heimi þar sem ótölulegum fjármunum er veitt t.d. í hernaðarumsvif á sama tíma og milljónir manna eiga ekki til hnífs né skeiðar, skortir húsaskjól og menntun vegna þess að peningunum var eytt til að búa til sprengjur sem drepa. Mitt ríki er ekki af þessum heimi. Í mínu ríki ríkir kærleikur, réttæti, friður og eindrægni þar sem virðing er borin fyrir hverju mannslífi”. Aftur leit Jesús á Satan, prins dauðans og sagði: “Ég kom til að bjarga, þú veist. Ég kom til að frelsa, skilur þú?”

Frásagan um freistingu Jesú leiðir hugann að valdi hins illa og hvernig við eigum að bregðast við því á hverjum

tíma? Lífið er vissulega vettvangur baráttu góðs og ills. Í lífi okkar mannanna heyjum við stríð við lágar hvatir okkar og langanir, stundum við órétt sem við kunnum að vera beitt af samferðamönnum okkar. En þó fyrst og fremst við freistarann, óvininn sjálfan sem gerir það sem í hans valdi stendur til þess að tæla okkur frá Guði og spilla sköpun hans, eyðileggja hana.

Þær raddir eru uppi að djöfullinn sé ekki til, hann sé aðeins hugarfóstur hjátrúarfullra manna. Djöflinum er ekki meiri greiði gerður en að látið sé sem hann sé ekki til því að þá getur hann vaðið uppi og lagt snörur fyrir unga sem aldna með ýmsum hætti.

Biblían sér djöfulinn alltaf á bak við hið illa í heiminum. Hann er hið illa vald sjálft sem stendur gegn Guði og vilja hans. Hið illa vald er óhugnanlega mikið. Hvarvetna sjáum við einhver merki þess er við lítum í kringum okkur, í styrjöldum, kúgun, ofsóknum, ofbeldi, misrétti og þannig mætti áfram telja. Við finnum það jafnvel í okkar eigin sál, í hatri, öfundsýki og sjálfselsku.

Freistingarnar mæta okkur stöðugt, daglega og í hinum ólíkustu myndum. Hjá einum kann það að vera flaska af víni eða alsælutafla á skemmtistað. Hjá öðrum kann það að vera hagræðing í bókhaldinu sér í vil eða þjófnaður í verslun. Hjá hinum þriðja kann það að vera heillandi vinur eða vinkona sem hægt er að hitta án þess að eiginmaðurinn / eiginkonan viti. Eða að hafa makaskipti í því skyni að bjarga hjónabandinu. Freistingarnar eru eins ólíkar og mennirnir eru margir. En allar eiga þær eitt sameiginlegt. Þær eru löngun til syndar. Þær draga okkur niður, fjarlægja okkur frá vilja Guðs, hinu góða, fagra og fullkomna ef við föllum fyrir þeim. Við skulum muna að sá sem fellur fyrir freistingu bíður af því tjón, samviskan kann að ásaka og aðrar erfiðar afleiðingar kunna að fylgja í kjölfarið. Freistingin kann að veita okkur gleði og ánægju í bili en dýpra skoðað er það tálsýn ein.

Ef við gefum eftir þá mun þessi heimur ekki breytast og við munum ekki vera með Jesú. Hann verður þá fjarlægur en samt svo nálægur á hverri stundu ævi okkar. Við þurfum á hjálp hans að halda til þess að sigrast á freistingunum. Við megum til að gera ráð fyrir honum þegar við vöknum á morgnana og leggjumst til hvíldar að áliðnum degi. Hann þekkir okkur betur en við sjálf. Gefum honum gaum. Iðrumst synda okkar og biðjum Jesú að fyrirgefa okkur. Hann mun fyrirgefa okkur, hann mun skilja okkur vegna þess að hann þekkir freistingarnar af eigin raun. En við verðum þá byrðarnar sem hann bar á herðum sér alla leið á krossinn.

Við eigum von, meira að segja sigurvon. Því að sá er til sem hefur sigrað allt hið illa. Sá heitir Jesús. Hann er sigurvegarinn, hann hefir sigrað fyrir okkur. Í freistingu sinni, lífi, starfi, dauða og upprisu hefur hann barist gegn óvininum og sigrað hann. Sá sigur er sigur kærleikans. Það á að vera hlutskipti okkar kristinna manna að skipa okkur í sveit með Drottni okkar og frelsara með öflum uppbyggingar og lífsmáttar, gegn öflum niðurrifs, eyðingar og dauða. Það gerum við í trú og bæn og með kærleika og umhyggju fyrir öllu sem lífsanda dregur. Guð gefi oss náð til þess að berjast góðu baráttunni og öðlast sigurlaunin. Amen.