Dár að trú og tjáningarfrelsi

Dár að trú og tjáningarfrelsi

Hér heima þurfum við að gæta þess að ala ekki á árásarkenndinni en leggja þess í stað ríka áherslu á samstöðu og skynsemi en ekki síður á náungakærleika og virðingu fyrir manngildinu. Það er vel hægt að ræða þessa atburði í samhengi við ákvæði hegningarlaga hér á landi, einsog þingmenn Pírata hafa gert, varðandi bann við því að smána eða hæða trúarkenningar.
fullname - andlitsmynd Kristján Björnsson
14. janúar 2015

Hryðjuverkin í París hafa sett mark sitt á alla Evrópu frá því fólskuleg árásin var gerð á ritstjórnarskrifstofu Charlie Hebdo. Og nú er komin nýtt metsölueintak af vikuritinu sem er umdeilt enda ádeila í allar áttir. Einhugur með tjáningarfrelsinu sást vel á samstöðugöngunni í borginni á sunnudag undir yfirskriftinni „Ég er Charlie“. Það var heimsviðburður. Umræðan hefur eðlilega farið um víðan völl enda er málið margbrotið og sporin marka djúpt. Málið varðar óréttlætanlegt ofbeldi, tjáningarfrelsi, trúarkenningar, smán og virðingu. Efnt hefur verið til mótmæla víða til að mótmæla óhæfuverkunum en því miður hefur ofbeldi einnig verið svarað með illsku og árásum á moskur. Kynnt hefur verið undir óskilgreindri og óuppgerðri þjóðernishyggju og afskræmdri trúarumræðu flaggað af léttúð. Íslam hefur meira að segja verið mætt sem þröngsýnum sértrúarsöfnuði. Það er sorglegt að sjá fólk ráðast á samborgara sína í nafni öfgafullra kenninga eða lífsskoðana sem eru einna helst í ætt við glefsukennda eða útúrsnúna bókstafstrú. Það er framsetning sem er m.a.s. óheiðarleg gagnvart þeim trúarritum sem fólk er þó að kenna sig við. Viðhorfið er brjálað og vekur jafnvel spurninguna um það hvort það geti alltaf verið í lagi að hafa í frammi eða halda á lofti skoðun ef hún felur t.d. í sér háska fyrir almannafrið, skemmdir á helgistöðum, ofbeldisfullar árásir eða morð.

Hér heima þurfum við að gæta þess að ala ekki á árásarkenndinni en leggja þess í stað ríka áherslu á samstöðu og skynsemi en ekki síður á náungakærleika og virðingu fyrir manngildinu. Það er vel hægt að ræða þessa atburði í samhengi við ákvæði hegningarlaga hér á landi, einsog þingmenn Pírata hafa gert, varðandi bann við því að smána eða hæða trúarkenningar. Orðið guðlast er að vísu ekki nefnt í þeirri grein en hún kallast engu að síður bann við guðlasti. Ekki er annað að heyra en prestar þjóðkirkjunnar séu meira en reiðubúnir í þá umræðu og þá líka hvernig þessari augljósu takmörkun á tjáningarfrelsinu verður breytt.

Árásarmennirnir í París unnu óhæfuverkin í nafni einhvers öfgaarms af Íslam og virðast hafa ráðist á blaðamennina og teiknarana á Charlie vegna skopmynda sem birtar voru af spámanninum Múhameð. Yfirlýst vandlæting árásarmannanna byggir á því að teiknararnir hafi brotið boðorðin um bann við að gera myndir af því guðlega. Það snýst líklega ekki um hvort það voru skopmyndir eða aðrar myndgerðir. Á óskiljanlegan hátt virðast þeir réttlæta þann verknað að brjóta eitt mikilvægasta boðorð Móse um helgi lífsins, „þú skalt ekki mann deyða“. Þetta leiðir þá ekki aðeins út í þá óhæfu að brjóta eigin boðorð gróflega og komast þannig í alvarlega mótsögn við eigin trúarsannfæringu, heldur virðast þeir rata í þá villu að boð sem þeir vilja halda sín vegna skuli skilyrðislaust eiga við um allar aðrar manneskjur. Þá stunda þeir einnig þá óhæfa að taka lögin í eigin hendur, dæma fólk til dauða og svipta það lífi á hroðalegan hátt. Með því skapast óásættanleg ógn við samfélagslegan frið og velferð mannsins. Fátt á betur við hér en orð Jesú frá Nazaret: „Dæmið ekki svo þér verðið ekki dæmdir.“

Ákvæði hegningarlaganna hér heima um guðlast er trúlega óþarft. Skráð trúfélög hér á landi þurfa varla á því að halda og alls ekki Þjóðkirkjan, sem er í svo mikilli yfirburða stöðu að leitun er að öðru eins. Á það hefur verið bent að taka þurfi þetta ákvæði til endurskoðunar af því að það er þrátt fyrir allt ekki alveg marklaust. Það er óþarft en samt til óþurftar og sérstaklega ef litið er til tjáningarfrelsis. Það sem þarf að skoða er samhengið við alvarlegri hluti í sama kafla laganna sem bannar t.d. ósæmilega meðferð á líki og röskun á grafarhelgi. Auðvitað ætti siðað samfélag ekki að þurfa að hafa lög um svo sjálfsagða virðingu fyrir helgi mannsins og minningu látinna. Hér þarf að skoða hversu langt á að ganga í afnámi ákvæða í hegningarlögum um athæfi sem allur þorri þegnanna er sammála um að enginn skuli drýgja.

Við eigum eiginlega að vera í uppnámi yfir atburðum síðustu daga. Við þurfum að láta það knýja okkur til að skoða allar hliðar þessa máls. Síst af öllu ættu hryðjuverkin í París og ólgan í Evrópu að verða til að við ráðumst af samskonar brjálæði á trú annarra og öfgamennirnir gerðu. Flestir skilgreina sína trú þannig að hún feli í sér virðingu og kærleika gagnvart náunganum. Það er í samræmi við æðsta boðorðið um að elska Guð og elska náungann einsog sjálfan sig. Nú reynir á að sýna samstöðu en stunda ekki ómaklegar ásakanir. Við þurfum að lifa þannig að við treystum hvert öðru og eyðum tortryggni, ótta og vanvirðu. Tjáning trúar og lífsskoðunar, hver sem hún er, þarf að bera henni fagurt vitni í orði og góðum verkum.