Tengsl - samskipti

Tengsl - samskipti

Það er svo gefandi að vera með ungu fólki sagði samstarfskona mín við mig ekki alls fyrir löngu þar sem við höfðum verið að ræða saman um daglega lífið og þau mismunandi lífsverkefni sem lífið færir með sér. Og hún hélt áfram og sagði mér af reynslu sinni af því að eiga samtöl við ungt fólk – sinna kennslu meðal þess og því að taka þátt í lífi barnabarna sinna.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. Það er svo gefandi að vera með ungu fólki sagði samstarfskona mín við mig ekki alls fyrir löngu þar sem við höfðum verið að ræða saman um daglega lífið og þau mismunandi lífsverkefni sem lífið færir með sér. Og hún hélt áfram og sagði mér af reynslu sinni af því að eiga samtöl við ungt fólk – sinna kennslu meðal þess og því að taka þátt í lífi barnabarna sinna.

Ég hlustaði af athygli og tók undir orð hennar um gildi þess að vera í samskiptum við unga fólkið – sjálf umkringd ungu fólki í mínu nánasta umhverfi og iðulega sinni ég fjölskyldum sem innihalda alla aldurshópa í starfi mínu sem sjúkrahúsprestur þjóðkirkjunnar á líknardeild Landspítala í Kópavogi. Nýlega átti ég samtal við fermingarbörn um þjónustu mína sem prestur á sjúkrahúsi. Í því samtali kom ýmislegt merkilegt í ljós sem var bæði gefandi og uppbyggilegt og mikilvægt innlegg inn í þær umræður sem við áttum. Ég var t.a.m. spurð um það hvort ég yrði ekki leið þegar ég væri að sinna fjölskyldum þar sem einn fjölskyldumeðlimur væri haldinn ólæknandi sjúkdómi. Ennfremur kom í ljós að í hópi fermingarbarnanna hafði eitt þeirra reynslu af því að fjölskyldumeðlimur hafði veikst af krabbameini og dáið. Samtalið var fyrir mitt leyti gefandi og upplýsandi og ég fór ríkari af fundi þessara unglinga.

Samtal og samskipti við aðra hefur mikla þýðingu og í raun má segja að lífið okkar snúist að mestu leyti um samskipti þ.e.a.s. tengsl við okkur sjálf og annað fólk, hvort sem um er að ræða þau sem standa okkur næst eða fólk sem á vegi okkar verður. Tengslin við Guð eða æðri mátt eru líka eitthvað sem virðist vera mjög stór hluti af því að vera manneskja og koma sterkt fram kannski sérstaklega við ýmis áföll í lífinu svo sem þau að veikjast af alvarlegum sjúkdómi. Dagur heilbrigðisþjónustunnar er nú haldinn formlega í fyrsta skiptið innan þjóðkirkjunnar þó vísir að þessum degi hafi orðið til fyrir ári síðan með söfnun sem þjóðkirkjan stóð fyrir til tækjakaupa á Landspítala. Dagurinn er tengdur Lúkasarmessu sem er 18. október, dagur Lúkasar guðspjallamanns og læknis. Markmið dags heilbrigðisþjónustunnar er að styðja við heilbrigðisþjónustuna í landinu með því að biðja fyrir þeim sem starfa innan hennar, þeim sem þjónustuna þiggja og þeim sem sinna leiðtogastörfum og taka vandasamar ákvarðanir sem lúta að heilbrigðismálum. Á þessum sunnudegi sem þjóðkirkjan tileinkar heilbrigðisþjónustunni í landinu er vert að benda á mikilvægi samskipta ekki síst á heilbrigðisstofnunum þar sem fólk kemur saman í þjónustu við annað fólk. Starfsfólk innan heilbrigðisþjónustunnar hefur aflað sér faglegrar þekkingar og sinnir vandasömum og ábyrgðarmiklum störfum sem grundvallast m.a. á því að geta mætt fólki á erfiðum tímum í lífi þess, tímum þegar sjúkdómar, slys og áföll gera vart við sig í lífinu. Á slíkum stundum reynir á samskipti og tengsl og að vera fær um að mæta hverri manneskju á hennar forsendum með það að leiðarljósi að geta veitt rétta meðferð, stuðning, lækningu og líkn.

Ný íslensk rannsókn sem framkvæmd var meðal fólks sem þáði líknarmeðferð á ákveðnu tímabili sýnir í þessu samhengi áhugaverðar niðurstöður. Til fróðleiks og upplýsingar má geta þess að líknarmeðferð beinist að því að auka gæði lífs. Um er að ræða þjónustu við lífið sem hefur það að markmiði að bæta lífsgæði fólks sem er með lífshættulega sjúkdóma og fjölskyldna þeirra og draga úr líkamlegri, sálfélagslegri og andlegri þjáningu. Niðurstöður fyrrgreindrar rannsóknar draga fram hið andlega svið tilverunnar og að á þessum tíma í lífinu eru tengsl mikilvæg, tengsl manneskjunnar við sjálfa sig og annað fólk og þá sér í lagi samskipti og tengsl við fjölskyldumeðlimi. Þess má jafnframt geta að tengsl við Guð, æðri mátt voru einnig álitin mikilvæg og birtust einkum í notkun bænarinnar, þar sem Guð eða æðri máttur var ákallaður þegar mannlegur vanmáttur var sem áþreifanlegastur. Tilvistarlegar vangaveltur urðu ágengar, vangaveltur sem endurspegluðust í átökum hið innra þar sem miklar tilfinningalegar sveiflur gerðu vart við sig og tilfinningar svo sem reiði, kvíði og ótti voru greinanlegar. Þessar niðurstöður sýna okkur sem störfum innan líknarmeðferðar og almennt við heilbrigðisþjónustu hversu tengsl og samskipti skipta miklu máli og ítreka gildi þess að mæta þarf þörfum fólks á þessu sviði með markvissum hætti, þar sem fólki er gefið tækifæri til að tjá andlega líðan sína og reynslu. Jesús átti samskipti og samtal við alls konar fólk – hvar sem hann fór mætti hann fólki á forsendum þess. Hann lagði sig fram um að vera nálægur – þannig að fólk fyndi að honum væri ekki sama um það heldur að líf þess kæmi honum við sem og lífsaðstæður. Guðspjöllin hafa að geyma ótal frásagnir um þessi samskipti en einnig samtöl og samskipti Jesú við fræðasamfélag þess tíma, valdastéttina og menntafólkið sem óhætt er að segja að hafi staðið ákveðin ógn af honum og boðskap hans um kærleika Guðs, umburðarlyndi og manngildi hvers einstaklings. Frásagan af samtali Jesú við fræðimanninn úr hópi fræðasamfélags Gyðinga er hluti af öðrum frásögum er segja frá rökræðum sem Jesús átti við þennan hóp manna og hvernig honum tókst að koma þeim á óvart með svörum sínum og framgöngu. Í þetta skipti er Jesús inntur eftir því hvað það er sem mestu máli skiptir í lífinu – og það er fræðimaðurinn sem spyr – hugsanlega í því skyni að fræðast af Jesú – heyra hvað hann hefði til málanna að leggja þar sem hann hafði fylgst með rökræðum Jesú við aðra og þótti hann hafa svarað vel. Og fræðimaðurinn spyr: ,,Hvert er æðst allra boðorða?” Í svari sínu leggur Jesús ekki áherslu á boð og bönn eða ófrávíkjanlegar reglur sem fólk á að fara eftir í lífi sínu heldur tekur saman það sem lífið snýst um þ.e. tengslin við Guð og annað fólk. Með orðum sínum dregur Jesús saman boðorðin tíu og sýnir fram á um hvað þau snúast. Boðorðin tíu sem fjalla einmitt um mikilvægi trúarinnar á Guð og hvernig trúin á síðan að endurspeglast í verki. Í svari Jesú, orðum sem nefnast tvöfalda kærleiksboðorðið, kemur hann fram með kjarnann í boðorðunum tíu og hvernig tengslin við Guð hafa óhjákvæmilega áhrif á og snerta tengsl okkar og samskipti við annað fólk. Trúin á Guð mótar hverja manneskju og sú mótun snýst um að tileinka sér það sem er gott og uppbyggilegt og leitast eftir því þannig að hugur og breytni beri trúnni vitni á jákvæðan hátt. Páll postuli talar í þessu samhengi um að trúin geri okkur auðugri á allan hátt og komi fram í allri mælsku og allri þekkingu þ.e. hafi áhrif á það hvernig við tölum og það sem við gerum, hafi áhrif á alla veru okkar. ,,Þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum og þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.” Boðorðið fjallar um að elska Guð og leyfa síðan þeirri elsku að móta lífið. Boð Jesú felur í sér mikilvægi þess að sýna ábyrgð, virðingu, vináttu og umhyggju og láta gott af sér leiða í öllum tengslum og í öllum þeim samskiptum sem við eigum við annað fólk. Það getur verið flókið og það getur reynt á – en verkefnið er verðugt, eitthvað sem ekki verður unnið í eitt skipti fyrir öll – heldur eitthvað sem við stöndum frammi fyrir á degi hverjum í smáu sem stóru, í hverju því lífsverkefni sem blasir við okkur dagsdaglega. Samfélagslegu verkefnin sem við viljum sameiginlega standa að eiga einnig að mótast af þessu boðorði. Á öðrum stað í guðspjöllunum lýsir Jesús því hvernig tvöfalda kærleiksboðorðið á að virka en þar segir hann: ,,Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín.” Í þeim sem standa frammi fyrir margs konar vanda og erfiðleikum ber okkur að sjá sjálfan Krist og koma fram við þau eins og við vildum að komið væri fram við okkur.

Heilbrigðisþjónustan er eitt af þeim samfélagslegu verkefnum sem við stöndum að. Hún er þjónusta sem snertir okkur öll á einn eða annan hátt og við vitum í raun aldrei hvenær að því kemur að við þurfum á henni að halda. Þegar veikindi og slys gera vart við sig, þegar heilsan bilar, er heilbrigðisþjónustan og það starfsfólk sem starfar innan hennar þeir aðilar sem við reiðum okkur á – setjum traust okkar á og þurfum að leita til. Það er því mikilvægt að við sem einstaklingar og þjóð stöndum vörð um heilbrigðisþjónustuna í landinu okkar.

Það hefur vafalítið ekki farið fram hjá neinu okkar að heilbrigðisþjónustan á í erfiðleikum um þessar mundir. Við heyrum ýmsar fréttir af vettvangi heilbrigðisþjónustunnar sem gera það að verkum að okkur stendur ekki á sama. Það steðjar að heilbrigðisþjónustunni margþættur vandi sem þarf að greina með það fyrir augum að finna ásættanlegar lausnir þannig að heilbrigðisþjónustan sem ein af grunnstoðum samfélagins okkar geti staðið undir nafni og mætt okkur með þjónustu sinni þegar á þarf að halda. Að biðja, hugsa vel til, senda hlýjar og góðar hugsanir og að lyfta upp því sem vel er gert skiptir gríðarlega miklu máli – að við leyfum þeim sem starfa innan heilbrigðisþjónustunnar að finna að við metum og virðum þeirra framlag. – Að hugsa vel til – senda hlýjar og góðar hugsanir til þeirra sem eiga við veikindi að stríða eða önnur áföll – er ekki síður það sem okkur ber Sá góði hugur á síðan að bera okkur áfram til góðra verka . Ertu ekki leið sagði fermingarbarnið við mig – Og ég svaraði í einlægni að vissulega væri ég oft leið – og tæki nærri mér þegar fólk væri alvarlega veikt og væri að ganga í gegnum sorg, þjáningu og erfiða tíma.

Samskiptin og tengslin sem hafa myndast og verða til á degi hverjum með því fólki sem leyfir mér að vera samferða því á erfiðum stundum lífsins er þó það sem stendur upp úr og situr eftir. Að eiga samskipti við fólk – unga sem aldna – þau sem eru veik og fjölskyldumeðlimina – að mega taka þátt og vera með fólki á viðkvæmustu stundum lífsins – þegar lífið er hvað brothættast og dauðinn jafnvel í nánd er í rauninni lífið í hnotskurn. Þ.e. að gefa af nærveru sinni og láta sér neyð annarra varða.

Lífið snýst nefnilega meira og minna um tengsl og samskipti og það eru þau tengsl sem gera lífið innihaldsríkt og gjöfult, þrátt fyrir að sársaukinn sé stundum ekki langt undan. Tengslin gefa lífinu innihald og án slíkra tengsla og samskipta myndi lífið ekki vera það sem það er. Og Jesús bendir okkur á að rækta þau tengsl, tengslin við Guð og náungann. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.