Blað, skæri, steinn

Blað, skæri, steinn

Það tekur við góður tími, þar sem ný lögmál ríkja. Ekki lögmál samkeppni og yfirgangs heldur lögmál samhjálpar og samkenndar.

Upphaf fermingarstarfsins

Ég heilsa ykkur í Jesú nafni og býð sérstaklega nýju fermingarbörnin og fjölskyldur þeirra velkomin í kirkjuna okkar. Það er gaman að sjá ykkur hérna og ég veit að við eigum eftir að sjást oft og mörgum sinnum, áður en stóri dagurinn rennur upp og þið fermist. Og vonandi sjáumst við líka oft eftir það!

Það er skemmtilegur vetur framundan - þótt hann virðist langt í burtu og heilt sumar á milli með öllum sínum ævintýrum - þá verður það fljótt að líða og áður en við vitum af hittumst við hérna, brún og sæt í byrjun september - af því að það verður svo gott sumar, sko.

Fermingarveturinn hefur alla möguleika til að vera skemmtileg, fjölbreytt og gefandi reynsla fyrir ykkur sem takið þátt. Það verða fundir einu sinni í viku, þar sem við hittumst og förum yfir mikilvæga hluti sem er gott að læra og gott að vita. Það verður ferð á frábæran stað, sem heitir Vatnaskógur, þar sem við verðum heilan sólarhring með strákunum og heilan sólarhring með stelpunum. Þar verður tímanum varið í leik og fræðslu í einstöku umhverfi og af því að við ætlum að vera snemma í skóginum, verður ennþá sumarstemning og möguleiki á að fara á báta á vatninu og njóta útiveru. Og eitt enn sem við ætlum að gera mikið af næsta vetur, við ætlum að hittast hérna í kirkjunni á sunnudögum og njóta þess að eiga guðsþjónustu í sameiningu.

Við leggjum mikla áherslu á að allir sem ætla að fermast í kirkjunni, sæki messur á meðan undirbúningi stendur. Það á ekki að vera leiðinleg skylda heldur tækifæri til að eiga gæðastund, með pabba og mömmu, í kirkjunni, hlusta á fallega tónlist og æfa sig í bæninni og að hlusta á það sem stendur í Biblíunni.

Við hvetjum ykkur til að líta á fermingarfræðsluna sem tækifæri til að kynnast trúnni og kynnast því sem tengist Jesú og boðskapnum um Guð sem elskar manneskjuna og vill að allir eigi gott líf. Það er nefnilega frábært tilefni að nota næsta vetur til að vera dugleg að koma í kirkjuna og setja það á dagskrá að kynnast Jesú og því sem stendur í Biblíunni.

Hver skilur Biblíuna?

Það er oft ekkert einfalt eða lítið mál að skilja sögurnar og textana í Biblíunni - sérstaklega þegar maður er unglingur. Og það er ekkert skrítið að það sé erfitt að skilja það sem stendur í Biblíunni, hún er samansafn texta sem eru eldgamlir, skrifaðir í allt öðru menningarumhverfi en við þekkjum í dag og skrifaðir í ólíkum tilgangi.

Gamla testamentið er t.d. skrautlegt safn af ritum sem sum eru eins og lagabálkar, sum eins og annálar af mönnum og viðburðum, sum eins og ljóðabækur, með ljóðum sem lýsa fallegri ást milli elskenda og ljóðum sem lýsa þunglyndi og áhyggjum af lífinu.

Sumir benda á að Gamla testamentið sé sérlega erfitt og óviðeigandi því þar komi líka fyrir ljótir textar af ofbeldi, stríðsátökum og grimmd. Er ekki skrítið að hafa svoleiðis texta í því sem við köllum heilaga ritningu?

Svona spurningar eiga fullkomlega rétt á sér og eru líka afar skiljanlegar. Sumum finnst líka skrítið að halda svona mikið upp á eina gamla bók og segja að það gangi ekki upp því að þar standi fullt af hlutum sem við vitum núna í dag að eru ekki eins og þeim er lýst þar.

Tökum sem dæmi söguna af því hvernig heimurinn varð til. Í Biblíunni eru tvær sögur af því hvernig Guð skapaði heiminn. Þær eru ólíkar og lyfta upp mismunandi hlutum. En lýsa þær því hvernig jörðin varð til og lífið kviknaði, betur en vísindin?

Ég held að sögurnar í Biblíunni um hvernig lífið varð til, séu ekki til þess að útskýra það sem vísindin kenna. Ég held að þær kenni okkur eitthvað allt annað. Ég held að þær segi okkur söguna um hvernig manneskjan, hvernig við sjálf, sjáum okkur í tengslum við heiminn, í tengslum við ástina, þjáninguna, lífið og dauðann. Þær fjalla einmitt um allt annað en það sem vísindin fjalla um.

Og kannski getum við hugsað um erfiðu og ljótu kaflana í Biblíunni eins og að þeir séu nokkurskonar hrunskýrsla - skrifaðir mitt í mikilli upplausn og erfiðleikum, þegar heil þjóð var með allt niðrum sig og undir stöðugum árásum. Þá tekur við tími uppgjörs og gagnrýni þar sem ekkert er dregið undan.

Endurræsum og horfum fram á veg

Gagnrýni og skammir gera samt ekki mikið gagn ef ekki fylgja uppbyggileg og huggunarrík orð sem hjálpa til að koma okkur á fætur aftur og endurræsa hjarta og huga. Og við höfum einmitt dæmi um svoleiðis texta í dag, í fyrirheitinu um að við sé að taka góður tími, þar sem ný lögmál ríkja, ekki lögmál samkeppni og yfirgangs heldur lögmál samhjálpar og samkenndar.

"Ég mun gefa ykkur nýtt hjarta og leggja ykkur nýjan anda í brjóst. Ég mun taka steinhjartað úr líkama ykkar og gefa ykkur hjarta af holdi." (Esk 36.26)

Þetta er gott að taka með sér út í sumarið, er það ekki? Það er svo gott að geta horft fram á veginn, þegar við höfum gert upp við það sem fór úrskeiðis og litið í eigin barm. Þá er það líka búið - við höfum frelsi til að slíta okkur frá ofurvaldi hins liðna og skapað okkur nútíð sem gerir okkur sjálfum og þeim í kringum okkur gott. Hérna gildir ekki að steinninn kremji það sem verður fyrir honum - eins og í leiknum sem við leikum til að skera úr um hver vinnur - heldur að mannúðin og samhyggðin, sem er að finna í mannshjartanu, sigri.

Þetta, krakkar mínir, er kannski aðalatriðið í kristinni trú og þess vegna ættuð þið að sperra eyrun vel og vandlega. Það er þetta, að við erum kölluð til að vera fólk sem gengur áfram veginn, veginn til góðs þar sem er pláss fyrir alla, við erum frjáls frá því sem hélt okkur niðri og skemmdi sambandið okkar við Guð, okkur sjálf og náunga okkar. Við erum kölluð til að vera fólk sem elskar og gleðst og horfir á Jesú, sem er hirðirinn okkar og gengur á undan.

Hvað fermingin er

Það er þessi trú, sem við ætlum að skoða í sameiningu næsta vetur, þegar þið krakkar, undirbúið ykkur fyrir ferminguna. Og fermingin sjálf, hvað er hún? Í gamla daga þá var sagt að við fermingu væri maður kominn í fullorðinna manna tölu, og þá var ekkert með það, að þá var bara næst á dagskrá að axla ábyrgð og fá sér vinnu. Það er mjög skrítið að hugsa til þess að 14 ára börn séu hluti af vinnumarkaðinum með réttindi og skyldur fullorðins fólks! En sem betur fer er þetta ekki svona í dag - við mömmurnar og pabbarnir erum allavega fegin að fá að hafa ykkur aðeins lengur og gefa ykkur rými og tækifæri til að vera ung.

Stundum er líka sagt að fermingin sé staðfesting skírnarinnar. Ég vil ekki taka undir það, því að skírnin stendur alveg fyrir sínu, og þarf enga staðfestingu frá okkur til að virka. En hvað er þá verið að gera í fermingunni. Hver er "gerandinn" í fermingunni?

Gerandinn í fermingunni, er ekki fyrst og fremst fallega fermingarbarnið, heldur ekki presturinn sem fermir. Gerandinn er söfnuðurinn, þ.e.a.s. fólkið á trúarveginum, sem tekur á móti fermingarbarninu sem játar þessa trú, býður það velkomið með því að gleðjast með því, hvetja það og ekki síst, biðja fyrir því.

Þetta skoðum við allt saman miklu betur í haust og næsta vetur. Það er ómetanlegt fyrir börnin að vera hér í dag með ykkur, foreldrar, og það er ómetanlegt fyrir þau að finna stuðning og jákvæðni frá ykkur í garð fermingarstarfsins. Þið getið hjálpað til, með því að fylgjast með, með því að hjálpa krökkunum að mæta og passa upp á að þau lendi ekki í árekstrum með dagskrána sína. Við vitum að það eru allir voða busy alla daga vikunnar en þegar við höfum valið að taka þátt í fermingarstarfinu, einn vetur, þá er um að gera að hjálpast að og standa vörð um tímana. Þá verður uppskeran svo miklu skemmtilegri næsta vor, þegar við stöndum hérna prúðbúin og tökum á móti þessum frábæru krökkum á trúarveginn sem liggur til lífs og gleði.