Gerendur og þolendur: Velferðarsjóður á Suðurnesjum

Gerendur og þolendur: Velferðarsjóður á Suðurnesjum

Næstu skref í starfsemi sjóðsins verða fólgin í auknum félagslegum stuðningi við atvinnuleitendur á svæðinu með það að marki að efla þeim styrk og dáð til þess að takast á við ný verkefni á komandi tímum. Með því móti aukum við líkurnar á því að okkur takist að finna nýjar leiðir til farsældar á þessu svæði.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
30. apríl 2011

Messugestir � Keflav�kurkirkju

Stundum er sagt að tækifærin leynist í kreppunni. Það er rétt upp að vissu marki. Ef við berum gæfu til þess að læra af erfiðleikunum geta jafnvel dimmustu öngstræti breyst í hringtorg með nýjum leiðum. Kreppur geta þó hæglega dýpkað. Mörg dæmi eru um það í sögunni að efnahagssamdráttur hafi leitt af sér vistkreppu, landflótta og aðrar ógöngur. Kreppur eru því prófsteinn á einstaklinga og samfélög. Þar sem innviðir eru sterkir geta þær virkað eins og leiðrétting frá rangri stefnu. Að öðrum kosti er hætta á ferðum, það sýna dæmin.

Enn alvarlegri myndir

Nú er ástandið suður með sjó með þeim hætti, að fjórði hver maður er án atvinnu, þá eru þeir teknir saman sem búa við örorku, eru á framfæri sveitarfélaga eða eru atvinnulausir. Stór hópur fólks hefur verið án atvinnu frá því skömmu eftir hrun svo við því má búast að ástand þetta fari að taka á sig enn alvarlegri myndir fyrir sálarlíf fólks og andlega líðan. Þetta er ekki lítil prófraun og ef marka má ofansagt getur þessi samdráttur, ef illa tekst til versnað enn og haft varanleg áhrif á þetta svæði. Allir þurfa því að leggjast á eitt við að breyta stöðunni til batnaðar.

Sameinaðir kraftar til góðra verka

Velferðarsjóður á Suðurnesjum er eitt dæmið af mörgum um það hvernig samfélagið á þessu svæði hefur spyrnt við fótum gegn þessari þróun. Sjálfboðaliðar í Keflavíkurkirkju lögðu grunninn að myndun sjóðsins í október 2008. Hugmyndin var sú að veita skapandi kröftum á svæðinu í ákveðinn farveg þar sem hópar og einstaklingar gætu sameinað krafta sína til góðra verka.

Fljótlega kom í ljós að þessi sjóður átti eftir að reynast tækifæri fyrir fólk að hafa áhrif og láta til sín taka í aðstæðum sem að öðru leyti höfðu sett okkur í spor þolenda. Á aðventunni söfnuðust 12 milljónir í sjóðinn og þegar þessi orð eru rituð hafa yfir 37 milljónir safnast, allt með frjálsum framlögum einstaklinga og hópa. Markmið sjóðsins hefur frá upphafi verið að létta byrðum af fólki sem á undir högg að sækja á þessu svæði og hefur yfir 28 milljónum verið úthlutað úr sjóðnum. Náið samstarf með Hjálparstarfi kirkjunnar tryggir fagmennsku við útlutanir. Rík áhersla er lögð á að að halda fyllsta trúnaði við skjólstæðinga en jafnframt er leitast við að meta vandlega fjárþörf og aðstæður fólks.

Hringtorgið verða til

Velferðarsjóðurinn er dæmi um verkefni sem gert hefur fólki kost á að sýna kærleika sinn í verki. Hann á rætur að rekja til sjálfboðaliðastarfs og sá þáttur hefur verið áberandi við fjáröflunina sem er að mestu leyti unnin af sjálfboðaliðum, bæði félagasamtökum og hópum sem starfa í tengslum við Keflavíkurkirkju. Framtak þeirra hefur aukið okkur bjartsýni og nú stendur til að halda áfram með þetta uppbyggingarstarf. Næstu skref í starfsemi sjóðsins verða fólgin í auknum félagslegum stuðningi við atvinnuleitendur á svæðinu með það að marki að efla þeim styrk og dáð til þess að takast á við ný verkefni á komandi tímum. Með því móti aukum við líkurnar á því að okkur takist að finna nýjar leiðir til farsældar á þessu svæði.

Grein þessi birtist í Fréttablaðinu 30. apríl 2011