Skriðan

Skriðan

Fyrir nokkrum árum kom sr. Hjörtur Magni Jóhannsson, prestur í Fríkirkjunni í Reykjavík, í heimsókn síðla sumars í Heydali. Hann var þá sóknarprestur í Þjóðkirkjunni. Á meðan heimsókninni stóð bárust tíðindi um stórt skriðufall sem lokaði þjóðveginum í Kambaskriðum sem skilja að Breiðdalsvík og Stöðvarfjörð.
fullname - andlitsmynd Gunnlaugur S Stefánsson
25. nóvember 2010

Fyrir nokkrum árum kom sr. Hjörtur Magni Jóhannsson, prestur í Fríkirkjunni í Reykjavík, í heimsókn síðla sumars í Heydali. Hann var þá sóknarprestur í Þjóðkirkjunni. Á meðan heimsókninni stóð bárust tíðindi um stórt skriðufall sem lokaði þjóðveginum í Kambaskriðum sem skilja að Breiðdalsvík og Stöðvarfjörð. Við fórum saman á vettvang til skoða aðstæður og blasti þá við hrikaleg sjón þar sem blautur aurinn úr snarbröttu fjallinu lá yfir veginum á löngum kafla og hefti alla för. Síðar komu dugmiklir verkamenn frá Vegagerðinni með sín tól og tæki og opnuðu veginn sem er lífæð fyrir samskipti fólksins í nálægðum byggðum.

Ég ber mikla virðingu fyrir göfugu og þróttmiklu starfi fríkirknanna sem á rætur að rekja í hugsjón innan Þjóðkirkjunnar á síðasta áratug 19. aldar og laut að skipulagi kirkjunnar, en ekki að kenningum eða játningum. Þess vegna varð alltaf traust samstarf á milli fríkirkna og Þjóðkirkjunnar, nutu sambúðar í hvívetna og gera enn m.a. með því að Biskup Íslands vígir presta til þjónustu við fríkirkjurnar, fylgja sömu Handbók og helgisiðum, styðjast við sömu sálmahefð og nýta ýmiss hjálpargögn til styrktar þjónustunni sem Þjóðkirkjan sér um að gefa út. Samstarfið hefur náð langt út yfir þetta, verið heilt og traust til heilla fyrir kristni og menningu.

En nú finnst mér eins og að skriða hafi fallið á veginn sem tengir Þjóðkirkjuna og Fríkirkjuna í Reykjavík. Skriðunni lýsir sr. Hjörtur Magni í stóryrtri gagnrýni í garð Þjóðkirkjunnar, finnur henni flest til foráttu og dregur ekkert undan. Ég virði málefnalegar skoðanir hans um skipulag kirkjumála þó ég sé þeim ekki öllum sammála, en á erfitt með að skilja tilfinningaríku öfgana í málflutningi hans sem gera lítið úr Þjóðkirkjunni, öllu hinu fjölþætta starfi sem hún stendur fyrir um land allt og hinum fjölmörgu sem þar standa að verkum. Ekki styrkir slík óverðskulduð ádeila kristni og menningu. Ef ágreiningur er á milli kirkjudeildanna, þá væri nær að setjast niður og ræða þau mál, komast að niðurstöðu svo friður megi ríkja. Langtum fleira sameinar en sundrar. Það þekkir fríkirkjufólkið af reynslunni með þjóðkirkjufólkinu árum saman.

Nú þarf að einhenda sér í að hreinsa skriðuna af veginum sem er lífæð í samskiptum Fríkirkjunnar í Reykjavík og Þjóðkirkjunnar. Vegið er kristinni menningu um þessar mundir í þjóðlífinu, lýðskrum og innanát ágerist sem elur á sundrungu og ósamlyndi. Trúfélögin fara ekki varhluta af pólitískri ágengni með stöðugri skerðingu Alþingis á félagsgjöldunum sem nálgast 40% á þremur árum ef yfirlýst skerðingaráform samkvæmt fjárlagafrumvarpi ná fram að ganga. Það er einstakt að Alþingi taki í ríkissjóð af félagsgjöldum frjálsra félaga sem trúfélögin eru að meðtaldri Þjóðkirkjunni.

Kristin trúfélög þurfa að standa saman, varðveita og efla kristna menningu í þjóðlífinu, stuðla að einingu á meðal þjóðar og vekja með fólki bjartsýni og von. Þar verður Þjóðkirkjan og Fríkirkjan í Reykjavík að vera saman hönd í hönd á greiðfærum vegi og rækta gróandi samstarf.