Hallgrímsarfur í þrem svipmyndum

Hallgrímsarfur í þrem svipmyndum

Í sálminum Allt eins og blómstrið eina er dregin upp mynd af óvissu dauðans: “líf mannlegt endar skjótt.” Þessa mynd skilja allir án frekari umhugsunar. “Æskan unga” hleypur um án þess að láta þessar hugsanir trufla sig en hún fer sömu leið og aðrir: til grafarinnar.
fullname - andlitsmynd Gunnar Kristjánsson
05. mars 2007

Ég dreg upp þrjár sundurlausar svipmyndir sem tengjast samt allar Hallgrími Péturssyni og arfleifð hans.

Sú fyrsta er jarðarför: sunginn er sálmurinn Allt eins og blómstrið eina: Hallgrímur er nálægur. Sálmurinn um blómið, sem Þórbergur Þórðarson kallar svo, var fyrst prentaður á Hólum 1666, eftir það hefur hann verið sunginn við yfir moldum alls þorra Íslendinga. Það hlýtur að teljast þó nokkuð afrek að yrkja sálm sem nær slíkum tökum á þjóðinni, ekki aðeins einni kynslóð heldur mörgum. Það hefur reyndar áreiðanlega átt sinn þátt í því að tengja Hallgrímsarfinn dauðanum og – að viðbættum Passíusálmunum – einnig þjáningunni. Þjáning og dauði eru því tvö meginstef sem koma okkur í hug þegar minnst er á Hallgrím. Hvort tveggja klassísk þemu.

Í sálminum Allt eins og blómstrið eina er dregin upp mynd af óvissu dauðans: “líf mannlegt endar skjótt.” Þessa mynd skilja allir án frekari umhugsunar. “Æskan unga” hleypur um án þess að láta þessar hugsanir trufla sig en hún fer sömu leið og aðrir: til grafarinnar. Og dauðinn eirir engum frekar en sláttumaðurinn sem gerir ekki greinarmun á jurtunum sem verða fyrir ljánum. Allt fellur, hvaðeina “víkur að sama punkt”. Dauðinn hopar ekki “eitt strik”, ekki heldur undan auði og valdi, hann gerir engan mannamun. Hann er samofinn eðli mannsins. Dauðinn gegnir sérkennilegu hlutverki: hann hefur það hlutverk að sækja sálina og flytja hana heim á ný, hann er sendiboði skaparans að þessu leyti. Því er engu að kvíða, á himnum lifir Lausnarinn sem sigraði dauðann á krossinum, þar deyddi hann dauðann, þótt líkaminn deyi þá lifir sálin, allt snýst um að treysta Lausnaranum í lífi og dauða, að lifa í hans nafni og deyja í hans nafni.

Þannig er hugsun þessa sálms og hvað lýsir betur viðhorfi Íslendinga til dauðans en einmitt þessi sálmur? Ég held að sá texti sé vandfundinn. Þess vegna er hér klassískur texti sem á vel við, hann er skýr og greinilegur. Hann orðar grundvallarhugsun safnaðarins sem kveður hinn látna, hann orðar grundvallarhugsun sem hann hefur sjálfur átt þátt í að móta. Hann stillir hugann með því að draga allt fram sem máli skiptir, ótta og óvissu annars vegar en hins vegar traust og trúnað.

En á hinn bóginn telja sig ekki allir geta tekið þátt í þessum söng, vitund þeirra um dauðann er önnur, trú þeirra á Lausnarann, sem bíður handan við gröf og dauða, er ekki fyrir hendi – eða þá að fjölmenningarsamfélagið hefur bætt inn þáttum sem eru ekki fyrir hendi hér.

Næsta svipmyndin er upplestur á Passíusálmum Hallgríms í kirkjum landsins.

Hér er hinn “stóri, luralega vaxni, skinndökki og stirðraddaði” Saurbæjarprestur, svo vitnað sé í lýsingu Jóns prófasts í Hítardal, sem dregur til sín heilu starfsstéttirnar: leikara, fjölmiðlafólk og aðra til þess að lesa og lesa sálmana fimmtíu í kirkjum landsins, bæði í stærstu glæsikirkjunum og litlum kirkjum í sveitum og bæjum. Þetta þykir við hæfi nú um stundir á föstudaginn langa. Hallgrímur er í tísku.

En hvað er það sem fólki er boðið er uppá, sem kemur úr annríki dagsins, úr heimi fjölmiðlanna, úr skemmtanaheiminum, úr tækniheiminum, úr atvinnulífinu, ungum og öldnum? Í kirkjubekkjunum situr afþreyingarkynslóðin áhyggjulausa og hugsjónasnauða, leitandi að meira fjöri og fleiri mataruppskriftum – reyndar ekki hún ein. Hvað býður Hallgrímur uppá?

Enn sem fyrr klassískan kristindóm sautjándu aldar í sparibúningi ljóðskáldsins. En í bekkjunum situr sem sagt ekki fólk frá sautjándu öld heldur tuttugustu og fyrstu öld sem hefur mótað sér allt aðrar skoðanir um himininn og Guð, um trúna og sálarlíf mannsins, hér er fólk á tímum fjölmenningar og siðferðislegrar afstæðishyggju, á tímum sem líða hratt og sífellt er beðið eftir nýjum tíðindum úr hinum síkvika heimi fjölmiðlanna. Passíusálmarnir boða ekkert nýtt, hér eru engin ný tíðindi. Hefur Hallgrímur eitthvað fram að færa handa kynslóð tuttugustu og fyrstu aldar? Svarar hann hennar spurningum – kann hann að skilgreina hennar trú og hennar trúarlegu spurningar? – eða vakna spurningar eins og þessar: Hvar er trúarskáld okkar kynslóðar, hver kennir afþreyingarkynslóðinni að trúa eins og Hallgrímur á sautjándu öld og séra Matthías í upphafi tuttugustu aldar? Er það bara upplesarinn sem skiptir máli – eða kannski einnig ljóðsnilldin?

Þriðja svipmyndin sem mér kemur í huga er vígsla Hallgrímskirkju. Ástæðan er áreiðanlega öðru fremur sú að við erum hér að hugleiða Hallgrímsarfinn, arf píslarskáldsins þjáða og luralega.

Séra Hallgrími eru helgaðar fjórar kirkjur: Grafarkirkja á Höfðastrand varðveitir minninguna um fæðingu hans og uppvöxt, Hvalsneskirkja minninguna um Steinunni dóttur skáldsins sem lést á fjórða ári, Hallgrímskirkja í Saurbæ varðveitir minninguna um Passíusálmana, þjáningar og andlát Hallgríms, Hallgrímskirkja í Reykjavík ein tengist ekki sögustöðum úr ævi Hallgríms.

Svipmyndin er frá vígslu kirkjunnar 1986.

Fyrir vígsluna höfðu verið blaðadeilur um aðgengi fatlaðra að kór kirkjunnar. Svo fór að tvö andstæð sjónarmið mynduðust: fylking fatlaðra annars vegar og forsvarsmanna kirkjunnar hins vegar. Ekki náðist sátt fyrir vígsluna svo að fatlaðir stóðu með mótmælaspjöld við dyr kirkjunnar þegar skrúðganga prestanna gekk inn í kirkjuna, því að vígslan tengdist prestastefnunni.

Þetta er í mínum huga sterk svipmynd af Hallgrímsarfinum og ég spyr: til hvers viljum við varðveita Hallgrímsarfinn, hvað hefur hann um lífsviðhorf okkar að segja, hvað um mannúð? Hvernig ávöxtum við þennan arf, hvernig verður hann höfuðstóll nýrrar hugsunar, nýrra viðhorfa?

Halldór Laxness skrifaði söguna um hinn sorglega skáldsnilling, Ólaf Kárason, eftir að hann hafði skrifað hina umdeildu og beinskeyttu ritgerð “Inngángur að Passíusálmum” að kristindómurinn hafi ekki sinnt því hlutverki sem honum er í reynd ætlað: að gæta réttar hinna smæstu hér og nú heldur hafi hann með tímanum sífellt meir helgað sig boðun handanlægrar vonar um eilíft líf að þessu loknu. Trúin er að mati Nóbelsskáldsins að feta í fótspor Jesú “fótmál fyrir fótmál”, líkjast honum æ meir í daglegu lífi. Það er sá arfur sem Hallgrímur skildi eftir og ætti að nýtast öllum vel.

Flutt á kirkjulistarhátíð í Hallgrímskirkju í Reykjavík 26. ágúst 2005.