Grænt

Grænt

Reykjavíkurskáldið Tómas orti, að gömlu símastaurarnir grænkuðu á ný, við yndisleik vorsins og öll skiljum við hvað hann er að fara. Grænn er litur lífs og góðra væntinga.

Runninn er upp fyrsti sunnudagur af mörgum, sem í kirkjunni eru fagurgrænir að lit. Þetta eru sunnudagar eftir þrenningarhátíð, sem haldin var með pompi og prakt nú fyrir viku. Litur þessara daga er eins og plönturnar sem organistinn hefur selflutt hingað í safnaðarheimilið og verða til sölu á eftir. Já, nú er runnin upp réttnefnd græn messa. Þá spyrjum við hvaða svið tilverunnar þar eru sem við viljum gjarnan að fái vaxið og dafnað. Fer vel á því að í kjölfar hennar bíður okkar fjölbreytt úrval af lífverum - sem kunna eitt betur en nokkra aðra list - einmitt það að vaxa.

Vöxtur

Aristóteles flokkaði lífríkið í þrjá flokka, plöntur, dýr og svo mennina. Hinir síðastnefndu voru honum að vonum mest hugleiknir, með öllum sínum hugsunum, orðum og undarlegheitum. Fyrir neðan manninn í færni voru dýrin, sem geta geta langflest ferðast um og hreyfst. Hlutverk plöntunnar og tilgangur hennar er á hinn bóginn, að vaxa. Plöntur kunna hvorki að ganga, fljúga né synda og ekki brjóta þær heilann um tilgang lífsins. Nei, þær láta sér nægja að vaxa, stækka á einhvern hátt og fjölga sér.

Vöxturinn lifir í huga okkar í kirkjunni og allir þessir sunnudagar sem framundan eru allt fram til aðventunnar í lok nóvember eru táknaðir með grænum lit. Grænn er litur vaxtarins og grænu tónarnir þykja hentugir til að skapa jafnvægi í sálinni. Reykjavíkurskáldið Tómas orti, að gömlu símastaurarnir grænkuðu á ný, við yndisleik vorsins og öll skiljum við hvað hann er að fara. Grænn er litur lífs og góðra væntinga.

Það er eins og í okkur blundi einhver gömul taug sem unir sér best innan um iðagrænan gróðurinn. Við komum plöntum fyrir á ýmsum stöðum á heimili okkar og vinnustöðum. Hér í Neskirkju ætlum við að reyna að standa okkur á þessu sviði og planta einhverju niður hér fyrir utan kirkjuna. Svo rennur vonandi upp sá dagur að helgidómur þessi verði rétt nefndur græn kirkja þar sem starfsemin stenst þau skilyrði að teljast vera vistvæn, svo langt sem það nú nær.

Grænn er boðskapurinn og allt fram til aðventu er þessi litur ríkjandi við þeim skilaboðum til messugesta að vöxtur og þroski sé hið eðlilega hlutskipti hvers kristins manns. Sá gróandi er þó ekki bundinn við það eiginleika sem heimspekingurinn tengdi við gróður jarðar, ekki heldur sífelld ferðlög dýranna til fæðu og fjölgunar. Við mennirnir búum ekki bara við flóknari tilveru, kröfurnar sem við gerum til okkar eru líka af öðrum toga. Þar flækjast málin og spurningarnar verða stærri. Það er sú viðleitni sem er sístætt íhugnarefni trúarinnar og Matthías yrkir um í þjóðsöng okkar, að lyftir oss duftinu frá. Já, viðfangsefnin eru meiri og ákvarðanir okkar hafa þýðingu fyrir allt það annað sem lifir og hrærist.

Þá er sunnudagur þessi vitaskuld ekki einungis sá fyrsti í röð fjölmargra grænna daga eftir þrenningarhátíð. Þetta er líka sjómannadagurinn, þar sem víða um byggðir eru færðar þakkir í kirkjum fyrir gjafir náttúrunnar og við mennirnir áminntir um að búa svo í haginn fyrir komandi kynslóðir að þær megi einnig njóta þeirra gæða sem okkur eru búin. Fyrir samfélag sem á svo mikið undir sjósókn bæði nú og forðum verður sá dagur okkur hugleiðing um það jafnvægi sem þarf að ríkja til að lífið fái þrifist um framtíð og á tækniöld verður ásóknin í auðlindina enn eitt dæmið um þá afdrifaríku kosti sem við mennirnir stöndum frammi fyrir.

Hvað á ég að gera? Spurning sunnudagsins er ekki löng. Söguhetja í dæmisögu Krists spyr: ,,Hvað á ég að gera?”

Þetta var ríkur maður og þegar einhver er með fullar hendur fjár spyr svona, þá skiptir svarið talsvert miklu máli. Tækifærin eru mörg, rétt eins og á við um velmegandi þjóð sem getur með ákvörðunum sínum haft mikil áhrif bæði í nútíð og um ókomna tíma.

Í þessu tilviki varðaði spurningin sjálfan auðinn sem hann hafði milli handanna. Afrakstur ævistarfsins var þar til umfjöllunar. Vöxturinn hafði verið góður, ávöxtunin til fyrirmyndar og nú þótti honum sem nóg væri komið. Sálin átti að geta hvílst, etið og drukkið og notið lífs í gæðum og gleði.

En þá talaði Guð til mannsins. Hvernig gerði hann það? Var það í gegnum samviskuna - þessarar dularfullu raddar sem tekur að óma jafnvel ekki síst við teljum að lífið sé komið á einhvern stað í áhyggjuleysi og værð. Blundar þá ekki í okkur einhver taug sem kippir í okkur þegar minnst varir og fær okkur til að hugleiða stöðu okkar og ákvarðanir. Er þetta líf okkar virkilega í jafn góðum skorðum og við teljum?

Guð talaði til mannsins og mótmælti því svari sem hann sjálfur gaf við spurningunni stóru, hvað hann ætti að gera. Svarið sem Guð gaf honum var annað og þar minnti hann það að á himnum gilda ekki sömu lögmál og í hverfulleika heimsins. Þar þykir lítið til þess auðs koma sem við mænum á hverri stundu og nýtum sem mælikvarða á ákvarðanir okkar og gjörðir. Hagvöxturinn er ekki léttvæg stærð í samfélagi þjóðanna en gagnvart Guði er fátt sem bendir til þess að hann sé úrslitaatriðið.

Þetta sjáum við svo víða í Biblíunni þar sem veraldargæðin eru annars vegar. Ekkjan sem lagði aurinn í baukinn í samkunduhúsinu - hún gaf meira en allir hinir. Drengurinn með brauðið og smáfiskana gerði Jesú kleift að mettað fjöldann í eyðimörkinni. Í sjálfu sér er þetta ekki langsótt og jafnvel miklu nær lífinu en hagvaxtartölur bankanna. Fátt er hverfulla en fjármagnið, þar rýkur allt upp í augabragði og ef til vill eru fleiri en sá sem hér stendur sem óttast að nýr skellur sé handan við hornið. Nei, bindum ekki okkar trúss við þau stundargæði, finnum aðra mælikvarða á líf okkar og velgengni.

Þá skynjum það erindi sem skaparinn á við okkur, þessarar skyni gæddu veru, að tilgangur okkar sé annar og meiri en sá að hvíla í þeirri velsæld sem við mögulega höfum skapað.

Spámaðurinn Míka, bregst við þessum valkostum í lexíu dagsins. Þar ávarpar hann leit mannsins að tilgangi og jafnvægi. Í þeirri tíð, þar sem fólk var ofurselt öflum náttúru, færðu þeir fórnir til að blíðka máttarvöldin. Fórnin átti að tryggja að allt væri með felldu. Blóð nautgripa flóð yfir fórnarstallinn, jafnvel frumburðir fólks fengu sömu örlög - fyrir því eru mörg dæmi. Þetta átti að tryggja farsæld og velsæld á tímum óvissu. Samviskubitið fólkið taldi sig geta yfirfært misgjörðir sínar á slíkan blóraböggul sem svo var látinn taka út þær fórnir sem fólkið taldi sig eiga skilið fyrir syndugt líferni.

Sú hugsun er ef til vill ekki eins fjarlæg og við kynnum að ætla á okkar dögum. Fórnirnar sem við færum eru líka óskaplegar. Okkur þykir það með réttu hryllilegt að þegar fólk fórnaði frumburði sínum á altarið til að tryggja betri tíð. Við hugleiðum það sjaldnar hverjar afleiðingar gjörðir okkar hafa.

Þá talar ritningin til okkar. Fórnin sem Guð Biblíunnar, vill að við færum snýr að hjarta okkar sjálfra, hugsunum og breytni. ,,Maður, þér hefur veirð sagt hvað gott er og hvers Drottinn væntir af þér” segir spámaðurinn. ,,…þess að þú gerir rétt, ástundir kærleika og þjónir Guði í hógværð.”

Boðskapur hins græna sunnudags sem við fléttum hér í tali og tónum saman við sjómannadaginn lýtur að þessum þáttum. Hann er á þá leið að við leitumst eftir því að vera rík í augum Guðs. Ríkidæmi okkar er sjálfur gróandi kærleikans, uppfylling þess tilgangs sem okkur er búinn. Við erum undarleg lífvera sem hugleiðir hin margvíslegustu mál og fær stöku sinnum samviskubit, ekki síst þegar lífið virðist vera að falla í hinar réttu skorður. En lausnin er ekki flókin. Hún er lýtur að því að við vöxum að visku og náð í þeim kærleika sem okkur er ætlað að ástunda. Okkur til blessunar og til heilla náunga okkar í nútíð og framtíð.