Villuljós eða hið sanna ljós

Villuljós eða hið sanna ljós

En einnig getur það komið fyrir að við teljum okkur vera á réttri leið, höfum meira að segja fengið hjálp frá góðu fólki til að skoða málin og velja leiðina. Tekið ákvörðun og haldið af stað, en svo reyndist stefnan röng, ljósið villuljós, ráðleggingarnar byggðust á röngum grunni, voru jafnvel blekkingar. Hver ber ábyrgð í slíkum tilvikum?
fullname - andlitsmynd Magnús Björn Björnsson
25. desember 2008
Flokkar

Gleðileg jól öll sömul. Guð veri með ykkur öllum.

Aðventan hefur talað til mín

Ég vona að ykkur hafi liðið vel í gær og aðfangadagur hafi fært ykkur frið og fögnuð.

Aðventan hefur talað til mín á einkar sérstakan hátt. Hér í kirkjunni hafa heimsóknir leikskóla og grunnskóla verið með eðlilegum hætti eins og undanfarin ár. Ekki hefur heyrst hósti eða stuna frá þeim sem mótmæltu hástöfum í fyrra. Enda hafa skólastjórnendur einfaldlega kannað hug foreldra eða gert það upp við sig að heimsókn í kirkju á aðventu er ekki hættuleg ungmennum og hún er hluti af menningu meirihlutans, sem ber að kynna fyrir öllum börnum.

Aðventan hefur talað til mín sterkar vegna aðstæðnanna. Höggið sem samfélagið upplifði, með hruni bankanna og fyrirtækja og vanda heimilanna, hefur skekið mig eins og aðra. Ég hef notað tækifærið til að skoða mitt eigið líf. Hugsa um það sem mér er dýrmætt og kært. Hvað er dýrmætt og þess virði að eiga og hlúa að?

Hvert er svarið hjá þér? Mitt svar er að fyrst af öllu kemur fjölskyldan, svo samskiptin við vini og kunningja, félagslegu tengslin sem gefa svo mikið.

Í því stormviðri sem geisað hefur kemur æ betur í ljós mikilvægi trúarinnar. Hún leggur þann grundvöll, sem ekki haggast. Jesús Kristurl, ljós heimsins, Kristur Drottinn í borg Davíðs, er sá grundvöllur. Kærleikur hans heldur okkur uppi. Vitneskjan um elsku Guðs og Krists ber okkur er móti blæs. Þá er gott að hugleiða frásögnina um fæðingu frelsarans. Í henni birtist óendanleg elska Guðs. Þó svo mennirnir séu breiskir og oft hrokafullir, kemur Guð fram af náð. Hann kom í Jesúbarninu. Foreldrarnir voru smiður og yngismær. Fæðingarhjálp flestra barna á þessum tíma var í höndum ljósmæðra. En fjárhúsið var ekki ákjósanlegur staður. Allt ber merki þess að Guð samsamar sig aðstæðum hins fátæka og smáa. En mitt í þeim kringumstæðum koma englar til hirða á Betlehemsvöllum. Svo margar sögur hafa verið gerðar um þá atburði, að okkur finnst við þekkja þá. Þeir eru heimilisvinir eins og jólasveinarnir. En samt eru þeir öðru vísi, því hirðarnir fengu fyrstir að heyra um fæðingu frelsarans. Og þeir fengu fyrstir að sjá hann. Enda biðu þeir ekki með hinar góðu fréttir heldur sögðu öllum frá því sem þeir höfðu séð og heyrt.

Villuljós

Stórt beitiskip var á siglingu. Skyndilega verður stýrimaðurinn var við ljós í fjarska sem virðist sigla beint í áttina til þeirra. Aðmírállinn ákveður að hafa samband við hitt skipið með þeim skilaboðum að biðja það um að breyta stefnu sinni um 10° til að forða árekstri. Skeytið er sent. Ekki leið á löngu þar til svar kom til baka: “Breyt þú um stefnu, um 10°”!!

Aðmírállinn varð hálf hvumsa og sendi aftur skilaboð: “Við erum 2.000 tonna beitiskip og við breytum ekki okkar stefnu. Breytt ÞÚ þinni stefnu!”. Aftur kom svar: “Breytt þú um stefnu um 10°”.

Nú var farið að fjúka í aðmírálinn og enn sendir hann sömu skilaboð. Aftur kom svar: “Ég er vitavörður í vita og færi mig ekki neitt. Breytt þú um stefnu”.

Ekki þarf að taka fram að beitiskipið og aðmírállinn urðu að breyta stefnunni.

Oft er það svo í lífinu að við teljum að stefna okkar sé rétt og að aðrir þurfi að laga sig að stefnu okkar. Það kann að vera gott og mikilvægt sérstaklega þegar við viljum ná ákveðnu marki í lífinu. Ungu fólki er mikilvægt að setja snemma stefnu á starfssvið, því þá verður það markvissara í námsvali, líður betur og finnur betu tilgang í lífinu. Hið sama á við um fullorðna. Það er mikilvægt að setja sér mark og mið, bæði í stóru og smáu.

En einnig getur það komið fyrir að við teljum okkur vera á réttri leið, höfum meira að segja fengið hjálp frá góðu fólki til að skoða málin og velja leiðina. Tekið ákvörðun og haldið af stað, en svo reyndist stefnan röng, ljósið villuljós, ráðleggingarnar byggðust á röngum grunni, voru jafnvel blekkingar. Hver ber ábyrgð í slíkum tilvikum? Við sjálf, þeir sem gáfu ráðin? Um slíkt er erfitt að fullyrða, nema skoða hvert mál fyrir sig. En eftir situr sá, sem tók ranga stefnu, í erfiðleikum, sorg og jafnvel sjálfsásökun fyrir að hafa treyst slíkum ráðleggingum. Margir eru jafnvel ekki fúsir til að ræða slík mál af því þau eru svo persónuleg. Þau eru jafnvel gerð tortryggileg. Eftir sitja einstaklingar í sorg og reiði.

Í dæmisögunni hér að framan var ljósið viti, sem hjálpaði sæfarendum að greina stefnuna og rétta hana af, ef skip voru að sigla í strand. Oft er talað um villuljós. Það eru ljós, sem færa menn af réttri leið og geta leitt í ógöngur, jafnvel vegleysu. Slík ljós hafa logað um skeið í íslensku samfélagi. Því miður hafa margir farið eftir slíkum villuljósum. Vitar eru gerðir til að leiða um rétta vegu.

Í jólaguðspjallinu er sagt frá því, að hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, hafi komið í heiminn. En í tvígang er um það rætt að heimurinn hafi ekki tekið við því. Það er því miður heimsins mein. En gleðitíðindin á þessum jólum eru þau, þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. Eða eins og segir í jólaguðspjallinu: „Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.“ Öllum mönnum, sem vilja við honum taka.

Kæri söfnuður. Ég þekki ekki líf hvers og eins ykkar. Ég veit ekki hvort þær hremmingar sem nú ganga yfir þjóð okkar hafi komið illa við þig. Ég vona sannarlega að þú komist í gegnum þá erfiðleika. Jesús er hið sanna ljós. Sem systkin hans höfum við þau forréttindi að geta beðið um hjálp og leiðsögn í hverri raun eða vanda. Á sama hátt og vitinn gaf beitiskipinu leiðbeiningar um stefnuna, getur Jesús Kristur gefið okkur hjálp til að finna stefnuna. Hann er fær um að upplýsa okkur um líf okkar í stóru sem smáu. Ef við viljum finna tilgang lífsins, getum við fundið hann hjá honum. Ef við viljum finna siðferðilega stefnu og leiðbeiningar getum við það. Margir þrá leiðsögn í ákveðnum atriðum í lífi sínu, en öðrum nægir að fela líf sitt Guði og treysta því að heilbrigð skynsemi og forsjón hans leiði um rétta vegu. Hvort sem við veljum, þá eru fyrirheitin þau að Jesús sé hið sanna ljós, sem upplýsi hvern mann. Það merkir að hann getur leiðbeint og hjálpað gegnum bænina og orðið sitt. Ef til vill hefur fjámálahöggið slegið þig svo þú finnur til og veist ekki hvað er til ráða. Leitaðu leiðsagnar eða hjálpar, ekki byrgja það inni. Jesús er ljósið, sem upplýsir hvern mann, einnig í mjög persónulegri merkingu. Megi Jesús, bróðir þinn, leiða þig, styrkja og blessa nú og um alla framtíð.

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er enn og verða mun, um aldir alda. Amen.