Kalt á toppnum

Kalt á toppnum

Ég var ekkert óskaplega spæld. Það er kalt á toppnum – á næsta ári mun okkur hlýna við að klifra aftur ofar í stigann í keppninni um viðurkenningarskjal sem hægt er að ramma inn og hengja upp. Ég hlakka til.

Við á Biskupsstofu urðum í 12. sæti í ár í keppninni „Hjólað í vinnuna“. Það eru auðvitað ákveðin vonbrigði eftir að hafa unnið í fyrra og verið í öðru sæti í hitteðfyrra. Það var samt eiginlega augljóst frá upphafi að við næðum ekki sömu hæðum þetta árið, veikindi, utanlandsferðir hjá lykilaðilum og fleira setti strik í reikninginn.

Ég var ekkert óskaplega spæld. Það er kalt á toppnum – á næsta ári mun okkur hlýna við að klifra aftur ofar í stigann í keppninni um viðurkenningarskjal sem hægt er að ramma inn og hengja upp. Ég hlakka til.

Hjólinu hefur samt ekki verið pakkað. Það stórkostlega við keppnina „Hjólað í vinnuna“ er að það opnar augu margra fyrir hjólinu sem samgöngutæki ekki síður en dægradvöl. Ég bý í Grafarvogi og það tekur mig 40 mínútur að hjóla í vinnuna, enda hjóla ég frekar hægt og nýt ferðarinnar – eða það segi ég að minnsta kosti við sjálfa mig þegar hver hjólamaður af öðrum þýtur framhjá mér. Það eru hrein forréttindi á góðum degi að fá þennan tíma með sjálfum sér, reyna svolítið á sig og styrkja þannig bæði líkama og sál. Þannig hefur átak opnað augu mín fyrir möguleika á lífsstíl sem kostar mig ekkert (ég á hjól og hjálm) en gefur mér mikið.

Á leiðinni í vinnuna velti ég stundum fyrir mér hvort ekki sé rétt að reyna átak á fleiri sviðum og athuga hvort það leiði til betra lífs. Í fyrra hætti ég að drekka koffín og það var gott þegar höfuðverkurinn hætti, sem var eftir tvær vikur. Í ár velti ég fyrir mér að breyta aðferðum mínum við Biblíulestur. Í stað þess að lesa frekar langa kafla en ekki eins reglulega gæti ég gert átak og lesið stutta kafla eftir ákveðnu plani. Og nýtt morguninn en ekki kvöldið þegar ég er orðin þreytt.

Nýlega kom út bók sem heitir Fimm mínútna Biblían. Rétt eins og reiðhjól sem hjálpar okkur að hjóla getur þessi bók hjálpað okkur að ná taktinum í að lesa daglega. Opnað augu okkar fyrir því að það er hægt. Maður þarf ekki að lesa hratt eða mikið – aðalatriðið er að njóta lestursins og gefa sér tíma til að glíma við þær spurningar sem hann vekur. Enn sem komið er eru ekki heldur veitt verðlaun fyrir Biblíulestur þó að slíkt gæti vissulega verið áhugavert – sem átak. En það getur ekki verið markmið í sjálfu sér, markmiðið hlýtur að vera að átakið verði lífstíll þar sem við leyfum orði Guðs að auðga líf sitt, að leyfa Guði að leiða sig inn í daginn.