Hugsjónafólk

Hugsjónafólk

Ein af athyglisverðari fréttum vikunnar var um Abdullah Öcalan, leiðtoga kúrdískra uppreisnarmanna í Tyrklandi, sem kallaði eftir vopnahléi við Tyrki eftir 29 ára átök. Öcalan hefur verið í haldi Tyrkneskra yfirvalda síðastliðin fjórtán árin.

Jesús var í Betaníu, í húsi Símonar líkþráa, og sat að borði. Þá kom þar kona og hafði alabastursbuðk með ómenguðum, dýrum nardussmyrslum. Hún braut buðkinn og hellti yfir höfuð honum. En þar voru nokkrir er gramdist þetta og þeir sögðu sín á milli: „Til hvers er þessi sóun á smyrslum? Þessi smyrsl hefði mátt selja fyrir meira en þrjú hundruð denara og gefa fátækum.“ Og þeir atyrtu hana.

En Jesús sagði: „Látið hana í friði! Hvað eruð þið að angra hana? Gott verk gerði hún mér. Fátæka hafið þið jafnan hjá ykkur og getið gert þeim gott nær þið viljið en mig hafið þið ekki ávallt. Hún gerði það sem í hennar valdi stóð. Hún hefur fyrir fram smurt líkama minn til greftrunar. Sannlega segi ég ykkur: Hvar sem fagnaðarerindið verður flutt, um heim allan, mun og getið verða þess sem hún gerði og hennar minnst.“ Mark 14.3-9

Hugsjónafólk

Ein af athyglisverðari fréttum vikunnar var um Abdullah Öcalan, leiðtoga kúrdískra uppreisnarmanna í Tyrklandi, sem kallaði eftir vopnahléi við Tyrki eftir 29 ára átök. Öcalan hefur verið í haldi Tyrkneskra yfirvalda síðastliðin fjórtán árin. Fyrri tilraunir til að semja um frið milli Kúrda og Tyrkja hafa runnið út í sandinn en nýjar friðarviðræður hafa frá síðasta ári. Öcalan hvatti samherja sína til að leggja niður vopn og vinna að friði með samningum. Von er til að hagur þessarar hrjáðu þjóðar geti batnað í kjölfar friðarsamninga. Þessi árangur hefur kostað Öchalan stóran hluta af ævi hans og líf tugþúsunda samlanda hans. En hann hefur haft trú á málstað sínum.

Fleiri leiðtogar hafa setið í varðhaldi vegna baráttu fyrir málstað sem þeir trúðu á. Nelson Mandela fyrrverandi forseti Suður Afríku er e.t.v. sá þekktasti. Hann sat í fangelsi á Robin-eyju fyrir utan Höfðaborg í 27 ár og hafnaði frelsi fyrir sjálfan sig gegn því að gefa afslátt af kröfum sínum um jafnræði fyrir hörundsdökka íbúa landsins. Hann uppskar árangur af baráttu sinni er allir íbúar landsins urðu jafnir í kjölfar þess að hvítir menn afsöluðu sér forréttindum sínum.

Aung San Suu Kyi er þriðja dæmið. Hún hefur fórnað lífi sínu í þágu baráttu fyrir lýðræði og mannréttindum í heimalandi sínu, Burma og sat fyrir það í stofufangelsi í 15 ár.

Hægt væri að taka dæmi af mörgu öðru fólki sem unnið hefur í þágu málstaðar sem það trúði á öðrum til góðs og var reiðubúið að gefa líf sitt fyrir hann. Martin Luther King barðist fyrir mannréttindum Bandaríkjamanna af afrískum uppruna í, Marteinn Lúther barðist gegn því að hægt væri að selja fyrirgefningu Guðs, Móðir Theresa helgaði líf sitt fátækum í Kalkútta fjarri heimalandi sínu. Eigum við málstað til að lifa fyrir? Í dag ætlum við að fjalla aðeins um kærleika. Hann er ekki kærleikur nema við miðlum honum, gefum hann. Einn kirkjufeðranna sagði að eins og allt vex að rúmmáli við að hitna stækki kærleikurinn hjörtu okkar. Því meira sem við gefum af okkur til annarra því meira fáum við til baka.

Í Betaníu

Guðspjallið í dag segir frá því er Jesús var gestkomandi í Betaníu, litlum bæ rétt utan við Jerúsalem, þar sem systkinin María, Marta og Lasarus vinir hans bjuggu. Hann heimsótti þau oft er hann var á ferð í Jerúsalem, líkt og fólk af landsbyggðinni sem á erindi til Reykjavíkur fær að gista hjá vinum og ættingjum. Vináttan á milli Jesú og þessara systkina var sterk og hún hefur án efa styrkst eftir að Jesús vakti Lasarus upp frá dauðum. Í þetta sinn var Jesús í heimsókn hjá nágranna þeirra, Símoni líkþráa, sem við vitum ekkert um en sumir hafa getið sér þess til að Jesús hafi læknað hann af holdsveiki. María kom inn í boð þessa nágranna síns og gaf sig að Jesú þar sem hann lá til borðs eins og siður var ásamt öðrum gestum.

Það var venja á þessum slóðum að stökkva nokkrum dropum af ilmolíu á gesti áður en þeir tóku til matar síns því að þeir voru oft sveittir eftir langa göngu í miklum hita og ilmurinn bætti andrúmsloftið til muna. En María lét það ekki nægja heldur tæmdi hún olíuflöskuna yfir Jesú þannig að ilmur olíunnar fyllti húsið. Þetta voru rándýr smyrsl, nardussmyrsl, sem búin voru til á Indlandi og höfðu farið um hendur margra kaupmanna á leið sinni til Betaníu. Þau ásamt flöskunni kostuðu jafngildi 300 daglauna verkamanns, e.t.v. fjórar til fimm milljónir kr. á núvirði.

Öfgar kærleikans

Ýmsum blöskraði þessi sóun og sögðu að nær hefði verið að selja smyrslin og hjálpa fátækum. Jesús bað konunni vægðar. Hann vissi að menn myndu ekki hafa gert það og sagði að fólk hefði alltaf tækifæri til að hjálpa hinum fátæku. María tjáði kærleika sinn til Jesú.

Kærleikur hefur tilhneigingu til að brjótast fram í öfgafullri mynd. Á milli karls og konu getur það verið bíll handa elskunni sinni fyrir milljónir, demantshringur fyrir allt tiltækt lausafé og gott betur, búferlaflutningur frá ættjörðinni til að geta verið hjá þeim sem maður elskar sé viðkomandi frá öðru landi. Kærleikur getur líka birst í því að selja eigur sínar og styrkja gott málefni, helga sig vinnu fyrir góðan málstað jafnvel þótt launin séu lág eins og margt hugsjónafólk gerir. Eða hann birtist í gjöf litla drengsins sem kom með bauk Hjálparstarfs kirkjunnar í kirkjuna okkar með afmælispeningunum sínum af því að hann vildi gefa þá til að hjálpa þeim sem höfðu það ekki eins gott og hann.

Síðasta smurning

María tjáði væntumþykju sína. Þetta var eitt síðasta kærleiksverkið sem unnið var á Jesú. Það átti sér stað daginn fyrir pálmasunnudag. Þann dag reið Jesús inn í Jerúsalem á asna til merkis um að hann kæmi með friði, og íbúar borgarinnar fögnuðu honum sem konunginum sem þeir höfðu vonað og beðið eftir áratugum og jafnvel öldum saman að koma myndi til að frelsa þá undan oki erlends valds. Aðeins fimm dögum síðar hafði þetta sama fólk stuðlað að því að hann yrði tekinn af lífi sem landráðamaður.

Jesús setur kærleiksverk Maríu inn í þetta samhengi. Hann vissi sjálfur hvað beið hans á komandi dögum. Það var siðvenja að smyrja lík með ilmsmyrslum áður en þau voru greftruð og tóm flaskan var látin liggja hjá líkinu. Jesús sagði að með þessu kærleiksverki sínu hefði María smurt líkama hans til greftrunar.

María gaf það dýrmætasta sem hún átti. Kærleikur hennar bendir á kærleika Guðs. Jesús gaf allt, líf sitt, er hann gekk í dauðann fyrir okkur og tók á sig sekt syndar og misgjörða allra manna. Spurningin vaknar: Hvað höfum við að gefa?

Að eiga hugrekki

Mörg illivirki í samtímanum, t.d. í undirheimunum, eru unnin af ótta og oft má rekja illa breytni okkar og um leið ófarir til ótta sem býr hið innra með okkur. Svarið við honum er hugrekki. Við þorum að sýna hugrekki þegar við eigum trú á málstað sem er sterkari. Kærleikurinn er sterkasta aflið gegn öllum ótta og allri illsku. Jesús er kærleikurinn. Hann þorði að mæta pyntingum og þjáningu dymbilviku v.þ.a. hann vissi að það voru ekki endalokin. Hann vissi að ríki hans er sterkara en öll illska, allt sem ógnar lífi okkar. Ríki hans og málstaður hefur það að markmiði að yfirvinna áhrif illskunnar, endurreisa líf sem hefur fallið og skapa líf þar sem kærleikur og umhyggja ríkir. Hann vill gefa okkur hugrekki til þess að útbreiða það.

Jesús sagði við lærisveina sína að þeir myndu vinna meiri verk en hann. Leyndardómur kirkjunnar er sá að Jesús býr í henni í Heilögum anda sínum þannig að fylgjendur hans geta umgengist hann í trúnni og skynjað nærveru hans og kærleika. Þar er uppspretta afls trúarinnar. Þar fáum við hugrekkið, löngunina til að elska og þjóna og fara út fyrir þægindarammann út í umhverfi okkar.

María elskaði mikið. Jesús gaf allt. Kærleikur hans beinist að okkur, mér og þér. Þú segir e.t.v.: Guð man ekki eftir mér eða hann kærir sig ekki um mig. Í lexínni lesum við þessi huggunarríku orð: „Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu? Og þó að þær gætu gleymt þá gleymi ég þér samt ekki. Ég hef rist þig í lófa mér,“ segir Drottinn.

Á ég hugsjónir?

Hvað getum við gefið? Við getum gefið Guði líf okkar og leyft honum að hafa yfirráðin yfir því. Þannig verðum við frjáls sagði Jesús. Nýtt boðorð gef ég yður sagði hann, að þér elskið hvert annað. Heimurinn getur ekki séð Guð nema í lærisveinum Jesú Krists. Kirkja Krists á Íslandi þarfnast fólks sem vill lifa fyrir hann af heilum hug og endurspegla nærveru hans. Hann býður líf í nýrri vídd. Málstaður Jesú Krists er vel þess virði að lifa og deyja fyrir. Okkur stendur það öllum til boða.

Nýtum tækifærið. Amen.