Boltinn farinn að rúlla á HM í knattspyrnu!

Boltinn farinn að rúlla á HM í knattspyrnu!

Fótbolti er skemmtileg íþrótt sem stuðlar að heilbrigði líkama og sálar. Íþróttin getur stuðlað að virðingu og auknu manngildi. Boltinn getur brúað ólíka menningarheima og tungumál, enda er íþróttin ein sú vinsælasta í heiminum.
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Víðisson
09. júní 2006

Í dag, föstudaginn 9. júní, hefst úrslitakeppni HM í knattspyrnu í Þýskalandi. Opnunarleikur keppninnar er á milli heimamanna Þjóðverja og Kosta Ríka. Knötturinn er því farinn að rúlla, og heimsbyggðin öll fylgist með knattspyrnuveislunni.

Fótbolti er skemmtileg íþrótt sem stuðlar að heilbrigði líkama og sálar. Íþróttin getur stuðlað að virðingu og auknu manngildi. Boltinn getur brúað ólíka menningarheima og tungumál, enda er íþróttin ein sú vinsælasta í heiminum.

Eftirvænting hefur ríkt hjá mörgum nú fyrir úrslitakeppnina. Hverjir verða heimsmeistarar? Hver verður markahæstur? Hverjum er spáð sigri? Verða einhverjir sem koma á óvart?

Á HM senda þjóðir lið til keppni. Leikmenn eru fulltrúar sinna ríkja og flestir góðir fulltrúar þjóðar og komandi kynslóða. Forvarnargildi úrslitakeppninnar er gríðarlegt þar sem ungir drengir og ungar stúlkur eignast fyrirmyndir og markmið að stefna að með eigin þátttöku á sínum heimavelli.

Það er ávallt svo þegar góðu fræi er sáð að illgresi reynir að skjóta rótum.Vændi er löglegt í Þýskalandi og hefur í umræðunni verið tengt keppninni. Þjóðkirkjan var meðal þeirra fyrstu að mótmæla tengslum vændis og HM.

Sjónvarpsauglýsingar á bjór(líki) er annað illgresi sem virðist vera að festa rætur í tengslum við útsendingar sjónvarps á knattspyrnuviðburðum. Það væri ánægjulegt ef slíkar auglýsingar sæjust ekki á skjánum nú í sumar.

Úrslitakeppni HM í knattspyrnu er einungis haldin á fjögurra ára fresti og er hápunktur knattspyrnunnar í heiminum. Í keppninni nú í Þýskalandi eru stórlið mætt til leiks, og skærustu stjörnur íþróttarinnar. Það er því næsta víst að keppnin á eftir að verða hin besta skemmtun.

Boltakveðjur og góða skemmtun.