Samheldnin

Samheldnin

Guðspjall: Jóh. 15.9-12 Lexia: Jer. 32. 38-41 Pistill: Róm. 13. 8-10

Á þjóðhátíðardegi göngum við íslendingar til fundar við Guð í helgidómi hans og færum honum þakkir fyrir að hafa haldið hlífiskildi yfir landi og þjóð og biðjum um áframhaldandi leiðsögn hans og vernd á komandi tímum.

Það var einu sinni lítill strákur. Honum barst sú furðufregn að til væri maður sem gæti svarað öllum spurningum. Sá stutti var kominn það langt á þroskabrautinni að vita að sumu yrði ekki svarað. Hann ætlaði nú aldeilis að sýna að maðurinn væri ekki alvitur. Eftir nokkur heilabrot ákvað strákur að fara með kolíbrífuglinn sinn falinn í hnefa. Hann ætlaði að spyrja spekinginn hvort fuglinn væri á lífi eða ekki. Ef hann fengi það svar að hann væri lifandi þá ætlaði hann að kreista fuglinn og sýna hann síðan dauðann. Ef hann hins vegar fengi það svar að hann væri dauður ætlaði hann að opna hnefann og sleppa fuglinum upp í himinhvelfinguna. Fór hann svo hróðugur til vitringsins. Hann bar upp spurningu sína og var tilbúinn að kreista ef með þyrfti. Sá sem svara átti tók sér góðan tíma, horfði djúpt í augu drengsins og sagði síðan með hægð: “Það er á þínu valdi drengur minn. Þú hefur líf eða dauða á þínu valdi”.

Sagan er áleitin. Okkur berast fréttir af fólki og þjóðum á mærum lífs og dauða. Sextíu og tveir skólanemendur létu lífið þegar flóð skall á skólabyggingu í Kína. Minnisvarði var vígður um helgina í Súðavík til minningar um þá sem létust í snjóflóðinu þar. Við vitum hvað getur orðið til hjálpar og hvernig megi vinna lífinu gagn þegar við hugsum um hjálparstarfið í kjölfar snjóflóðanna á Vestfjörðum. Okkur finnst eðlilega að Súðvíkingarnir standi okkur nær en Kínverjarnir. Afleiðingar jarðskjálftans mikla annan í jólum voru hrikalegri en orð eða myndir fá lýst. Með samstilltu átaki þjóða var leitast við að koma fólki til hjálpar með ýmsum hætti. Íslendingar tóku virkan þátt í þessu alþjóðlega hjálparstarfi og miklir fjármunir söfnuðust á skömmum tíma í fjársöfnun hér heima.

Þegar grannt er skoðað getum við ekki vikist undan því að vera fullveðja og samábyrg. Líf fólks, líf heims er beinlínis undir okkur komið. Þá er að vita hvernig hjartalag okkar sé og hver sé skilningur okkar?

Í vikunni var viðtal í kvöldfrétttum sjónvarps við þeldökkan mann sem var í dagsheimsókn í uppsveitum Árnessýslu, m.a. með viðkomu í Skálholti ásamt fleiri einstaklingum sem óskað hafa eftir pólitísku hæli á Íslandi. Hann sagði að í sínu heimalandi hefði verið komið fram við sig eins og dýr en á Íslandi væri komið fram við sig eins og mann. Því óskaði hann eftir því að fá að búa hér framvegis. Þegar ég hlustaði á manninn þá kom mér í huga sagan af kolibrífuglinum sem var í hnefa stráksins.

Við Íslendingar höfum líf eða dauða þessa þeldökka manns á okkar valdi sem og þess fólks sem hingað sækir og vill setjast hér að. Þessir umræddu einstaklingar hafa dvalið saman í húsnæði í Reykjanesbæ á meðan útlendingaeftirlitið hefur farið yfir mál þeirra frá öllum hliðum. Af fréttum að dæma þá hefði mátt reyna að hafa meira ofan af fyrir þeim en þeir geta ekki stundað vinnu meðan mál þeirra er í skoðun.

Í fréttatilkynningu frá Dóms og kirkjumálaráðuneytinu frá því í mars segir að á síðasta ári var 637 útlendingum veittur íslenskur ríkisborgararéttur og er það veruleg fjölgun frá árinu 2003 þegar 436 útlendingum var veittur ríkisborgararéttur og árinu 2002 þegar 364 útlendingum var veittur íslenskur ríkisborgararéttur. Auk þessara 637 útlendinga fengu jafnframt íslenskan ríkisborgararétt með þeim 182 börn þeirra, sem jafnframt er fjölgun frá síðustu árum, en árið 2003 fengu 109 útlensk börn ríkisborgararétt með foreldri sínu og árið 2002 fengu 87 börn ríkisborgararétt með þeim hætti.

Af þessum 637 útlendingum fengu 594 ríkisborgararétt með bréfi frá dóms- og kirkjumálaráðherra en 43 fengu ríkisborgararétt með lögum frá alþingi. Árið 2003 veitti alþingi 27 útlendingum ríkisborgararétt og 17 árið 2002.

Flestir hinna 637 nýju Íslendinga eru fæddir í Póllandi, 108 alls. Í Sovétríkjunum sem voru eru 56 fæddir, frá Júgóslavíu fyrrverandi koma 52, frá Taílandi 49, Filipseyjum 45, Bandaríkjunum 25, Svíþjóð 20, Þýskalandi 17, Víetnam 16, Englandi 15 og Marokkó 12. Færri eru fæddir í öðrum löndum, en hinir nýju íslensku ríkisborgarar koma víða að, og má auk næstu nágrannalanda Íslands nefna lönd eins og Alsír, Angóla, Eþíópíu, Gambíu, Ghana, Kenýu, Líbanon, Mongólíu, Namibíu, Nígeríu, Pakistan, Senegal, Sierra Leone, Sri Lanka, Sýrland, Túnis, Trinidad og Tobago og Úganda.

Við Íslendingar erum stöðugt að færast meira og meira í þá átt að vera fjölmenningarlegt samfélag. Það er hyggilegt að stíga varlega til jarðar í því þegar veita skal fólki frá fjarlægum löndum ríkisborgararétt. Gildar og góðar ástæður þurfa að mínum dómi að vera fyrir hendi til að rétturinn sé veittur því að við íslendingar erum mjög fámenn þjóð og búum í strjálbýlu landi með eigið tungumál, menningu og siði. Það er alltaf forvitnilegt að kynnast menningu annarra landa en mér þykir eðlilegt að innflytjendur tileinki sér menningu og siði íslendinga og læri tungumál okkar til að þeir samlagist fyrr þjóðfélaginu og háttum þess en ella. Um leið kynna þeir menningu þeirra landa sem þeir koma frá og auðga þannig menningarlífið hér á landi. Vestfirðingar hafa árlega efnt til þjóðahátíðar þar sem vestfirðingar, af ýmsu þjóðerni, hafa komið saman til að kynna t.d. matarmenningu og aðrar hefðir í löndum sem þeir komu frá. Þetta þykir mér áhugavert framtak og verðugt viðfangsefni fyrir okkur þingeyinga að huga að t.d. í tengslum við Mærudaga hér á Húsavík. En stöðugt fjölgar fólki sem er af erlendu bergi brotið sem vill búa hér mitt á meðal okkar og auðgar mannlíf okkar með ýmsum hætti.

Við útskrift í Borgarhólsskóla á dögunum fékk einn unglingur sem útskrifaðist úr 10. bekk margvísleg verðlaun, m.a. fyrir hæstu einkunn í íslensku. Þessi árangur vakti sérstaka athygli fyrir það að á heimili hans er ýmist töluð þýska eða enska. Mér fannst þetta mjög athyglisverður árangur og dæmi um það að fólk af erlendu bergi brotið vill leggja sig fram um að læra íslensku eins vel og því er unnt.

Íslenska þjóðin á kristilega stjórnarskrá. Það er dýrmætur fjársjóður. Það er komið undir valdi kristindómsins í lífi einstaklinganna hvort þjóðin verður áfram kristin eða ekki. Reynslan hefur sýnt að kristilegar dyggðir, kærleikur, sannleikur, réttlæti, iðni og nægjusemi hafa til þessa eflt ríki og þjóð. Reyndar er nægjusemin á undanhaldi vegna þenslunnar í þjóðfélaginu á öllum sviðum. Aldrei fyrr hafa íslendingar átt jafn auðvelt með að nálgast fjármagn en fjármálastofnanir hafa reynt með margvíslegum gylliboðum að ná í viðskiptamenn. Og aldrei fyrr hafa landsmenn eytt jafn miklu á stuttum tíma. Græðgin virðist stundum vera taumlaus. Ef fólk gætir ekki að þá getur það lent í verulegum vandræðum þegar kemur að skuldadögum. Þá er hætt við því að sannleikurinn og réttlætið fari fyrir lítið þegar hver reynir að bjarga sér sem best hann getur.

Íslendingar lifa nú sitt mesta hagvaxtar og framfaraskeið. Mikil uppbygging er á öllum sviðum í þjóðfélaginu. Göngum við til góðs eða göngum við ekki til góðs? Það er spurningin. Vissulega göngum við til góðs á mörgum sviðum t.d. hvað menntun og heilsugæslu áhrærir. Þar erum við í fremstu röð. En þegar kemur að þróunarastoð við fátækustu löndin þar megum við gera enn betur. Á þessu sviði höfum við þó brett upp ermarnar á undanförnu. Það er dapurt að horfa upp á að fátækum fjölskyldum fjölgar á Íslandi í þessu góðæri. Verkefni okkar er að stuðla að því að vilji Guðs nái fram að ganga í þessu landi sem Guð gaf okkur.

Í messunni í dag var Benedikt Viðar skírður. Guð tók hann að sér sem sitt barn og gaf honum ríkisborgararétt í sínu ríki. Sú gjöf er óumræðilega dýrmæt vegna þess að enginn getur tekið þennan rétt frá honum héðan í frá og að eilífu. Enginn þarf að gerast flóttamaður úr ríki Guðs. Allir eru velkomnir að vera ríkisborgarar í ríki Guðs án nokkurra skilyrða.

Sem skírðir einstaklingar þá erum við ríkisborgarar í ríki Guðs sem á sér engin landamæri. Við viljum gjarna að réttlæti Guðs nái fram að ganga á þessu landi. Það nær fram að ganga þegar við auðsýnum smælingjum þessa lands og annarra landa samhug í orði og verki með þeim hætti að þeir finni sig elskaða og virta þegna.

Það er hægt að umgangast fólk eins og það sé ekki til – og kreista með þeim hætti smám saman úr þeim líftóruna eins og hefði getað farið fyrir kólíbrífuglinum.

Vitum við kannski um einhvert fólk sem við viljum hvorki heyra né sjá eins og komist er að orði? Það er böl að bera slíkt og leggja slíkt á aðra. Vonandi eigum við ekki þá byrði að bera. Okkur er fullkunnugt um það að við getum horft við öðru fólki eins og það sé loft, reykur, gufa. Við getum gengið framhjá því á vinnustað, jafnvel heima hjá okkur, eins og við hvorki sjáum það né heyrum. Lengra kemst maður ekki í því að vanvirða annað fólk en með því að hætta að sjá það og heyra.

Til þess að við séum í eðlilegu sambandi við aðra þarf innri skilyrði, hugarafstöðu, góðan vilja, heilbrigt hjartalag. Þau tengsl milli fólks sem varða mestu byggjast ekki á boðskiptum ytri skynfæra heldur á því að hugur mæti hug. Raunveruleg snerting manna verður þegar þeir opnast innra hver fyrir öðrum. Lykillinn að raunverulegu heilbrigðu og þroskandi samfélagi er í leynum hugans, í hjartanu.

Eins er um Guð. Við getum fundið Guð á sama sviði og við tengjumst huga mannlegrar persónu. Við verðum að taka þá forsendu gilda að hann sé nálægur fyrir augum okkar hvert sem við lítum og búi innra með okkur. Það er víst að Guð gengur ekki framhjá okkur eins og hann hvorki heyri né sjái. Jesús sjálfur er tryggingin fyrir því. En hann segir: “Ég stend við dyrnar og kný á. Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum mun ég fara inn til hans.. Biðjið og yður mun gefast...Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hver annan, eins og ég hef elskað yður”.

Við skulum leitast við að hlúa að lífinu í trú, von og kærleika til Guðs og manna á þessum þjóðhátíðardegi. Megi íslenska þjóðin bera gæfu til þess að halda vöku sinni gagnvart mannréttindum og réttlæti á hverjum tíma. Amen