Stefnumót, sendiferð, samfylgd

Stefnumót, sendiferð, samfylgd

Við lifum á tímum flutninga: Fólksflutninga, vöruflutninga, gagnaflutninga. Kirkjan er kölluð til að flytja fagnaðarerindið milli staða, milli fólks í mismunandi heimshlutum og menningarheimum. Stöndum við okkur í stykkinu? Hvað flytjum við?
fullname - andlitsmynd Ragnar Gunnarsson
12. nóvember 2006
Flokkar

En lærisveinarnir ellefu fóru til Galíleu, til fjallsins, sem Jesús hafði stefnt þeim til. Þar sáu þeir hann og veittu honum lotningu. En sumir voru í vafa. Og Jesús gekk til þeirra, talaði við þá og sagði: Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar. Matt 28.16-20
Ég heilsa ykkur öllum í nafni Jesú frelsara okkar. Ninawasalimia katika jina la Yesu mwokozi wetu. Þannig hefjast flestar prédikanir og vitnisburðir fólks í kirkjunum í Pókot í Keníu. Allt hefst í Jesú nafni. Allt snýst um hann. Allt er breytt eftir að Jesús kom inn í líf og aðstæður systra okkar og bræðra. En hvað með okkur? Hvað með þig?

Hvar er Jesús í lífi þínu?

Hefur einhver spurt þig þessarar spurningar nýlega? Hefur þú staldrað við til að skoða samband þitt og Jesú. Var heitið sem þú vannst á fermingardaginn, að gera Jesú Krist að leiðtoga lífsins, tekið alvarlega?

Hvernig þekkir þú Jesú? Þekkir þú hann af afspurn eða af því að þið lifið saman, talið saman? Hvaða sess skipar hann í lífi þínu?

Við játuðum áðan trú á Jesú Krist sem var krossfestur, dáinn og grafinn, steig niður til heljar og reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum. Hvaða merkingu hefur krossdauði Jesú fyrir þig? Breytir það einhverju að þú þekkir krossfestan og upprisinn frelsara sem lifir í dag?

Hvers vegna skyldi ég hefja prédikun mína á því að demba yfir ykkur svona mörgum og ágengum spurningum? Ein ástæða er sú að í 60 mínútna guðsþjónustu er ekki tími til að nota 10 mínútur til að koma sér að efninu. Önnur ástæða er sú að við þurfum á því að halda við og við að hrist sé upp í okkur. Stundum þarf eitthvað að gerast svo við stöldrum við og skoðum okkar gang. Þriðja ástæðan er sú að erfitt er að tala um krisntiboð án þess að tala um samband okkar við Jesú.

Málið er ekki að segja „já“ við Jesú og svo er allt búið. Nei, þá fyrst byrjar fjörið. Guðspjall dagsins í dag er niðurlag Matteusarguðspjalls. Allir kaflarnir og öll versin þar á undan segja okkur söguna af Jesú og hvernig lærisveinarnir voru með honum dag eftir dag, allt til enda. Þessi lokavers segja okkur þrennt um Jesú og lærisveinana: Hann kallaði þá á fund, hann sendi þá í sendiferð og hann lofaði þeim samfylgd.

Stefnumót við Jesú

Jesús stefndi lærisveinum sínum til fallsins í Galíleu. Þeir hlýddu og héldu af stað þó leiðin væri löng frá Jerúsalem. Þeir voru vanir að fara og vera þar sem hann vildi að þeir færu og væru. Þeir höfðu yfirgefið allt hans vegna. Líf þeirra allt hafði snúist um hann sem hafði verið leiðtogi þeirra í þrjú ár. Hann hafði verið krossfestur en var nú upprisinn. „Jesús gekk til þeirra,“ lesum við. Hann kom til móts við þá og honum lá mikið á hjarta.

Jesús lagði áherslu á að hann hefði allt vald á himni og jörðu. Honum var það gefið og hann talaði í krafti almættis Guðs þessi lokaorð, þessi mikilvægu skilaboð, þessa áminningu á kveðjustund.

Vald sitt hafði hann vegna þess að hann hafði í hlýðni við vilja Guðs afsalað sér öllu, gerst maður og látið krossfesta sig eins og stórglæpamann. Hann reis upp og honum er gefið nafnið sem er öllum nöfnum æðra. Nafn Jesús er einstakt og því fylgir vald: Vald til að fyrirgefa syndir, vald til að gefa fólki nýtt og eilíft líf, vald til að brjóta á bak aftur mátt hins illa í lífi fólks.

Fyrstu ár og áratugi kristniboðsstarfsins í Konsó í Eþíópíu var vitnisburður hinna kristnu þessi: Jesús er sterkari en Satan. Fólk losnaði úr fjötrum ótta og undan valdi hins illa sem það þekkti af eigin raun. Jesús var mættur í Konsó, hann var kominn til að frelsa.

Sendiför fyrir Jesú

Á grundvelli verks síns og í krafti valds síns sendi Jesús lærirsveinana af stað. „Farið! Þið eigið að fara í sendiför fyrir mig. Þið hafið verk að vinna: Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum!“

En hvernig? Með því að skíra fólk í nafni föður, sonar og heilags anda og kenna því að halda allt það sem Jesús hafði boðað. Lærisveinarnir fóru af stað. Postulasagan segir okkur hvernig til tókst í byrjun. Fjöldi fólks komst til trúar, kristnin breiddist út, andspyrnan var mikil en ekki tókst að brjóta hreyfingu Jesú Krists á bak aftur. Kirkjan var komin til að vera.

Hún er enn að, kölluð til að fara um heiminn. Hún er eins og skip, skip sem ekki á að liggja í höfn heldur að vera sífellt á ferðinni. Hún er á leiðinni, alltaf á leiðinni, til þess að segja hve heitt Jesús elskar okkur öll.

Við lifum á tímum flutninga: Fólksflutninga, vöruflutninga, gagnaflutninga. Kirkjan er kölluð til að flytja fagnaðarerindið milli staða, milli fólks í mismunandi heimshlutum og menningarheimum. Stöndum við okkur í stykkinu? Hvað flytjum við? Hvað geyma orðin sem við flytjum milli heimsálfa, landshluta eða hverfa með léttum slætti á lyklaborð eða tölvumús?

Pistill dagsins minnir okkur á að til að fólk trúi þarf það að heyra. Til að það heyri þarf einhver að prédika. Til að einhver prédiki þarf að senda viðkomandi. Orðið sem prédikað er, gleðiboðskapurinn um Jesú Krist, vekur trúna.

Skúli Svavarsson kristniboði sendi fyrir tæpri viku bréf frá Pókot í Keníu. Hann skrifaði um heimsókn sína á afskekkt svæði þar sem enginn hvítur maður hafði áður heimsótt. Fólkið þrábað hann og fulltrúa kirkjunnar um að koma. „Við viljum fá að þekkja Jesú. Komið og hjálpið okkur.“ Þá er erfitt að neita þó svo verkefnin séu að kæfa mann fyrir.

Sjónvarpsstöðin SAT 7 sendir út kristilega dagskrá til Norður-Afríku og Mið-Austurlanda, alla leið inn í Íran. Hlutfall kristins fólks á þessu svæði fór minnkandi alla síðustu öld. Sjónvarpið er eina tenging margra við kirkju Krists. Kirkjurnar á svæðinu sameinast um að framleiða góða dagskrá sem sniðin er að þeirra menningu. Fólk heyrir, sér og játar trú á Jesú Krists.

Við lesum um frumkirkjuna. Fólki brann það á hjarta að segja frá Jesú. Það hafði sjálft upplifað straumhvörf í lífi sínu. Jesús hafði breytt öllu. Það bar vitni um Jesú sem gengið hafði í dauðann fyrir það og var upprisinn, lifandi og nálægur fyrir heilagan anda. Hin kristnu gátu ekki og vildu ekki þegja og eiga þetta aðeins fyrir sig. Sömu sögu er að segja víða um heim. Kirkjan hefur breiðst út um heiminn og eflst í 20 aldir af þessari sömu ástæðu.

Ávöxturinn

Við horfum yfir starfsakrana. Eftir rúmt 50 ára kristniboðsstarf í Eþíópíu og 30 ár í Keníu, hvað sjáum við? Við sjáum ávöxt starfsins, blessun Guðs.

Við sjáum fólk koma saman og fylla hrörlegar kirkjur eða safnast saman í skugga trjánna. Við sjáum gleðina ljóma af andlitunum og heyrum kröftuga vitnisburði hljóma. Við sjáum breitt bros, glampandi augu, þakklætisorð: „Sjá, Guð er mitt hjálpræði, ég er öruggur og óttast eigi, því að Drottinn Guð er minn styrkur og minn lofsöngur, hann er orðinn mér hjálpræði.“

Við sjáum hoppandi og dansandi söfnuði sem lofa Drottin sinn með öllu sem í þeim er. Ég vildi að þið gætuð öll séð það með eigin augum og heyrt með eigin eyrum. Kristniboðarnir hafa oft fengið að ausa með fögnuði úr lindum hjálpræðisins yfir þurrt og skrælnað land.

Við sjáum mæður sem annast börnin sín á nýjan og góðan hátt, börn sem blómstra og nærast, börn sem eiga líf í stað allra þeirra sem dóu vegna vanþekkingar á árum áður. Við sjáum börn sem fá að lifa í stað þess að þau séu borin út í Voitódalnum í Eþíópíu.

Við sjáum börnin streyma í skólana, börn sem sólgin eru í að verða sér úti um eins mikla menntun og unnt er. Við sjáum börn og unglinga, nýja kynslóð sem vex fram, með nýjan grunn og ný tækifæri. Framtíð Afríku er ekki vonlaus með þennan mannauð. Mentun er forsenda lýðræðis.

Við sjáum fjölskyldulíf breytast, virðingu fyrir konum vaxa, samfélagið verða heilbrigðara og framfarir sem leysa af hólmi drykkjuskap, leti, kæruleysi og vonleysi. Við sjáum fólk með nýja sjálfsvirðingu og metnað, fólk sem ræktar akrana sína og hugsar um börnin sín, fólk sem þekkti þau varla áður í drykkjuskap og eigin eymd.

Við sjáum heilu byggðarlögin sem eru óþekkjanleg samanborið við það sem var fyrir 20 eða 25 árum. Við sjáum fólk fá aðgang að hreinu vatni, hreinlæti og bætt heilsufar sem helst í hendur. Við sjáum kamrana spretta upp um víðan völl, sem merki um nýjan skilning og framfarir á sviði hreinlætis og heilsugæslu.

Við höfum séð með eigin augum þúsundir og tugþúsundir fólks sem Jesús hefur reist við og gefið nýtt líf og ný tækifæri.

Við höfum fengið að vera með og þú mátt líka vera með því enn er margt ógert. Víða úti um heim er fólk sem þekkir ekki frelsarann Jesú Krist. Kall hans til kristniboðs hljómar áfram. Stærstu kristniboðsakrarnir eru í svonefndum lokuðum löndum þar sem kristniboð og trúskipti eru bönnuð, þar sem kristið fólk er minnihlutahópar og þarf oft að sæta ofsóknum. Augu kristniboðssamtaka beinast í ríkari mæli að löndum múslima og guðleysis. Þar býr fólk sem þarf á kærleika Jesú að halda. Okkar er að elska þau eins og Jesús. Múslimar eru ekki ógn heldur hluti af uppskeru sem hann hefur falið okkur að ná í hús. Hinn óplægði akur er stór. Útlendingarnir streyma til Íslands. Hvílíkt tækifæri til að segja þeim frá Jesú!

Samfylgd með Jesú

Kristniboðsstarfið er ekki einleikur, heldur samstarf og samfylgd margra.

Í fyrsta lagi erum við í för með Jesú sjálfum. Hann sagði: Sjá, ég er með yður alla daga, allt til enda veraldar. Það munar mikið um það að vera í samfylgd Jesú, það munar öllu. Sendiförin er farin fyrir hann og með honum. Hvort sem siglt er í meðvindi eða mótvindi þá er hann með.

Í öðru lagi er kristniboðsstarfið samfylgd þeirra sem send eru og þeirra sem bera starfið uppi, skilja mikilvægi þess og eru með þótt þau fari ekki sjálft út á kristniboðsakurinn. En það sem fólk biður og ber umhyggju fyrir því. Margir hafa fórnað miklu í elsku sinni til Jesú og fólks í fjarlægum löndum. Við tölum stundum um kristniboðsvini. Þeir eru með í sendiför Jesú, hver á sinn hátt og allir skipta máli.

Í þriðja lagi er krisntiboðsstarfið unnið í samfylgd heimamanna. Fagnaðarerindið er ekki boðað í tómarúmi heldur í ákveðnu menningarlegu og félagslegu samhengi.

Kristniboðsyfirlýsing Lútherska heimssambandsins er nýútkomin á íslensku. Hún leggur áherslu á mikilvægi þess að skoða samhengið og eigin guðfræði í kristniboðsstarfinu. Allir þessir þættir hafa áhrif hver á annan. Kristniboðinn býr yfirleitt á staðnum, lærir tungumálið, setur sig inn í menningu og hugsunarhátt heimamanna. Hann er ekki síst kominn til að hlusta og læra. Starfið er unnið með því að efla heimamenn til dáða og láta þá bera eins mikla ábyrgð eins fljótt og unnt er. Kirkjan í Afríku á að vera afrísk og í Asíu að vera asísk. Félagslegt samhengi kristniboðsstarfsins hefur alla tíð kallað á fjölbreytta kærleiksþjónustu. Biðjandi, boðandi og þjónandi kirkja

Þetta eru einkunnarorð Þjóðkirkjunnar. Þessir áhersluþættir hafa einkennt kristniboðsstarfið alla tíð og þurfa að gera það áfram.

Í áðurnefndri kristniboðsyfirlýsingu Lútherska heimssambandsins segir meðal annars: „Þar sem kirkjan er almenn fer boðun fram alls staðar þar sem kirkjan er, á öllum tímum og meðal allra kynslóða. Þess vegna er sérhver söfnuður ábyrgur fyrir boðunarverkefnum á sínu svæði en á um leið að vera reiðubúinn til samvinnnu við aðra á öðrum svæðum þegar kallað er til samstarfs og þátttöku í sameiginlegu kristniboði á stöðum sem ekki hefur áður verið vitjað.“

Við lok guðsþjónustunnar meðtökum við blessun Drottins. Við erum send út í heiminn til að þjóna honum. Við erum undir útbreiddum faðmi hans. Kirkjan, ég og þú, erum send í blessun Drottins til að þjóna honum með gleði, í orði og verki, nær og fjær. Blessandi hendur hans eru yfir okkur þegar við gerum máttarverk hans kunn meðal þjóðanna, hvort sem við förum sjálf eða tökum þátt í því að senda aðra.

Jesús hefur kallað okkur á fund sinn í dag. Hann kemur til okkar og spyr: Viltu vera með svo að heimurinn frelsist? Viltu taka þátt í að umbreyta lífi fólks og gefa því ný tækifæri? Viltu vera hluti af biðjandi, boðandi og þjónandi kirkju og kristniboðsstarfi?