Að gefa af sér - með gleði

Að gefa af sér - með gleði

Og þegar við gefum ættum við að gefa af gleði. Til dæmis þegar við stöndum frammi fyrir fullum vaski af óhreinu leirtaui sem öllum stendur á sama um nema okkur. Ef við tökum þá ákvörðun að þvo upp ættum við að gera það með gleði, ekki ólund. Þannig blessum við hvern bolla og hverja skeið og uppskerum innri blessun og andlegan vöxt með endurnýjuðu hugarfari.

Þá er gróskutíminn hafinn í kirkjunni sem græni litur sunnudaganna eftir þrenningarhátíð sýnir. Ekki bara að allt sé að grænka utandyra – í vætunni hér syðra og hlýindunum fyrir norðan og austan – heldur minnir græni liturinn okkur á að þann andlega vöxt sem okkur stendur til boða að tileinka okkur í krafti trúarinnar. Stendur til boða, segi ég og skrifa, því andlegur vöxtur kemur ekki bara af sjálfu sér eftir því sem árin bætast við. Við þurfum að taka á móti vextinum og vinna með heilögum anda að því að auðga okkar andlega líf, „þroskast að visku og vexti og náð hjá Guði og mönnum,“ eins og sagt var um Jesú ungan (Lúk 2.52).

Hvað skiptir þig mestu máli? Eitt af því sem varðar okkar andlega vöxt er verðmætamatið. Hvað er það sem skiptir okkur mestu máli? Við könnumst væntanlega flest við fólk sem hefur ofkeyrt sig á vinnu eða lagt sérlega hart að sér í hinu svokallaða lífsgæðakapphlaupi. Kannski höfum við verið þar sjálf eða dottið í þá gryfju að keppast svo við í einhverju málefni að við höfum nánast bókstaflega rekist á vegg, verið að þrotum komin og þurft að forgangsraða upp á nýtt, endurmeta hvað það er sem mestu máli skiptir í lífnu.

Fólk sem orðið hefur fyrir alvarlegum veikindum, að ég tali nú ekki um lífshættu, hefur sömu sögu að segja. Það sem áður skipti mestu máli, oft tengt einhvers konar metnaði, ásókn í efnahagsleg gæði, gráður eða stöður, verður lítilsiglt miðað við þá gjöf að vera á lífi og geta gefið með sér af því sem við höfum þegið. Það er hið sanna ríkidæmi.

Ríkur - fátækur En í dag heyrum við dæmisögu um ríkan mann að veraldlegum skilningi, auðugan að alls kyns lífsins lystisemdum: „Einu sinni var maður nokkur ríkur er klæddist purpura og dýru líni og lífði hvern dag í dýrlegum fagnaði“ (Lúk 16.19-31). Sennilega mætti segja þetta um okkur flest hér í kirkjunni í dag. Í samanburði við stóran hluta mannkyns eru föt okkar ríkmannleg og mataræðið sömuleiðis. Það þarf sjálfsagt ekki að minna okkur á það. Við vitum vel af fátæktinni í heiminum og jafnvel hér á okkar eigin velmektar landi. Þó við séum ef til vill ekki rík að eigin skilningi eigum við samt nóg og með nægjusemi að leiðarljósi getum við öll gefið einhverjum eitthvað.

„Ef einhver er fátækur...“ segir í fyrri ritningarlestri dagsins (5Mós 15.7-8, 10-11). Ef einhver er fátækur. Ef. Það er víst ekkert ef. „Því aldrei mun fátækra vant verða í landinu“ stendur í sama kafla (v. 11). „Fátæka hafið þér jafnan hjá yður,“ sagði Jesús líka við eitt tækifæri (Matt 26.11, Mark 14.7 og Jóh 12.8). Það eru því miður orð að sönnu. Þess vegna er það skylda okkar að loka ekki hendi okkar fyrir fátækum og þurfandi heldur ljúka henni upp. Það ættum við að gera „fúslega en ekki með ólund“ (5Mós 15.10). Og Guð mun blessa öll okkar verk og hvað sem við tökum okkur fyrir hendur, segir í sama versi.

Að gefa fúslega Þessi áskorun úr fimmtu Mósebók endurspeglast í Nýja testamentinu, í öðru Korintubréfi. Þar er talað um að Guð elski glaðan gjafara (2Kor 9.6-8):

En þetta segi ég: Sá sem sáir sparlega mun og sparlega uppskera og sá sem sáir ríflega mun og ríflega uppskera. Sérhver gefi eins og hann hefur ásett sér í hjarta sínu, ekki með ólund eða með nauðung, því að Guð elskar glaðan gjafara. Guð er þess megnugur að veita ykkur ríkulega allar góðar gjafir til þess að þið í öllu og ávallt hafið allt sem þið þarfnist og getið sjálf veitt ríkulega til allra góðra verka.
Þetta lögmál er vel þekkt víða, að ef við gefum sparlega fáum við sparlega; mætti þess vegna kalla reynsluvísindi. Einfalt dæmi er að gefa bros. Ef þú mætir brosandi andliti eru viðbrögð þín oftar en ekki að brosa á móti. Ef þú sýnir örlæti uppskerð þú oft örlæti á móti, kannski úr óvæntri átt. Þetta höfum við flest reynt.

Og þegar við gefum ættum við að gefa af gleði. Til dæmis þegar við stöndum frammi fyrir fullum vaski af óhreinu leirtaui sem öllum stendur á sama um nema okkur. Ef við tökum þá ákvörðun að þvo upp ættum við að gera það með gleði, ekki ólund. Þannig blessum við hvern bolla og hverja skeið og uppskerum innri blessun og andlegan vöxt með endurnýjuðu hugarfari.

Lífið er gjöf Guðs - og við gefum áfram Nokkrum versum síðar í öðru Korintubréfi 9 er talað um að Guð muni „auðga ykkur í öllu svo að þið getið jafnan sýnt örlæti“ (v. 11). Þarna kemur fram það hugarfar að allt sem við eigum sé í raun gjöf frá Guði, að allt okkar sé í hendi Guðs, og okkur beri að miðla áfram því sem við höfum þegið, Guði til dýrðar og náunganum til hjálpar. Þetta hugarfar, að allt sé gjöf frá Guði, getur breytt afstöðu okkar í ýmsum málum. Ef við til dæmis lítum á börn okkar eða maka sem gjöf frá Guði hlýtur það viðhorf að endurspeglast í framkomu okkar og afhöfnum gagnvart þeim.

Þetta er líka í samræmi við síðari ritningarlestur dagsins sem fjallar um kærleika Guðs til okkar sem við ættum einmitt að miðla áfram til annarra, bæði í orði og verki (1Jóh 4.16-21): „Því að sá sem elskar ekki bróður sinn eða systur, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð sem hann hefur ekki séð. Og þetta boðorð höfum við frá honum, að sá sem elskar Guð á einnig að elska bróður sinn og systur“ (v. 20-21).

Með Guði i hjálparliðinu Í guðspjalli dagsins er þessu lýst með kröftugri dæmisögu um ríkan mann sem „lifði hvern dag í dýrlegum fagnaði“ en sinnti í engu um fátæka manninn sem lá við dyr hans, svangur og sjúkur (Lúk 16.19-31). Það er athyglisvert að fátæki maðurinn er eina persónan í dæmisögum Jesú sem ber nafn: „hét sá Lasarus“ (v. 20). Þarna er ekki um að ræða vin Jesú, bróður þeirra Mörtu og Maríu í Betaníu heldur er það merking nafnsins sem skiptir máli. Nafnið Lasarus merkir „Sá sem Guð hjálpar“ (sbr. Hós 13.9). Þarna höfum við eina af þessum dæmisögum Jesú sem virkilega reyna á skilning okkar. Því hvernig má það vera að maðurinn ber nafnið Guð hjálpar en liggur þó örkumla við dyr ríka mannsins?

Við þeirri spurningu er ekkert einfalt svar. En benda má á að ríki maðurinn hafði möguleika á því að vera útrétt hönd Guðs inn í aðstæður þess fátæka og hefði þar með hjálpað bæði honum og sjálfum sér. Synd ríka mannsins er vanrækslan. Það er engin synd í sjálfu sér að vera vel stæður. En ábyrgð okkar vex með veraldlegum gæðum, skyldan til að hjálpa, vera hjálp Guðs í verki, og líka rétturinn til að hjálpa þar sem mikil blessun fylgir því að vera sá eða sú sem réttir hjálparhönd. Ríki maðurinn hafnaði boði Guðs um að vera með í hjálparliðinu og uppskeran varð eftir því. Andlegur vöxtur Þar er andlegan vöxt að finna, þegar við leyfum anda Guðs að leiða okkur til þeirra sem þurfa á hjálp okkar að halda, hvort sem það eru okkar nánustu eða fólk í fjarlægum löndum. Þar er líka öryggið að finna, öryggi eilífa lífsins sem lýst er þannig í guðspjalli dagsins: „ og báru hann englar í faðm Abrahams“ og var „Lasarus við brjóst hans“ (Lúk 16. 22-23). Öryggið sem við áttum sem börn í faðmi mömmu og pabba er blessunin sem fylgir hinu gjafmilda hugarfari, að gefa af gleði, ljúka upp höndum sínum með fúsleika. „Gefins hafið þér fengið, gefins skuluð þér láta í té“ (Matt 10.8).