Hann er bróðir minn, hún er systir mín, hann er sonur minn, hún er dóttir mín

Hann er bróðir minn, hún er systir mín, hann er sonur minn, hún er dóttir mín

Við erum öll á sama báti og megum ekki gleyma náunga okkar, hvort sem hann býr nær eða fjær.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
11. desember 2015

Hann opnaði dyrnar varlega og bauð góðan daginn.  Ég var stödd á Fitjum í Njarðvík þar sem hælisleitendur fá húsaskjól.  Hann virtist á unglingsaldri, hafði flúið land sitt vegna stríðsátaka og týnt fjölskyldu sinni.  Hefði getað verið sonur minn eða bróðir.  Í augum hans var von um framtíð en raunveruleikinn blasti við.  Hann yrði sendur úr landi fljótlega.

Ég var að vísitera, heimsækja söfnuðina suður með sjó og vildi fá að hitta þau sem dvöldu á Fitjum.  Þetta var fyrir tæpum þremur árum og rifjaðist upp fyrir mér þegar ég las frétt um albanska hælisleitendur sem hafði verið vísað úr landi síðast liðna nótt.  Já, í skóli nætur var farið inn á heimili þeirra og þau sótt.  Hjón með 2 börn og annað langveikt.  Heimilisfaðir í vinnu hér á landi og börn sem höfðu gengið í skóla og leikskóla.  Slíkar fréttir koma við hjartað í manni og sem kristinn  einstaklingur leita ég fanga í þeim boðskap sem veitir ráð í öllum aðstæðum lífsins.  Þar er talað um kærleikann, sem fellur aldrei úr gildi.

Þau sem taka erfiðar ákvarðanir sem hafa áhrif á líf annars fólks sinna vandasömu starfi.  Þau fara eftir lögum og reglum þessa lands.  Getur verið að eitthvað vanti í það regluverk sem gleymir mannúð og mildi?  Gleymir því að þessi litla eyja norður í höfum er hluti af heiminum sem er bústaður allra mannanna barna.  Við erum öll á sama báti og megum ekki gleyma náunga okkar, hvort sem hann býr nær eða fjær. Þó fólk sé ekki að flýja styrjaldir í landi sínu þá getur ríkt annars konar ófriður sem gerir fólki ómögulegt að búa þar.

Rikisborgararétturinn er dýrmætur.   Það sjáum við best nú þegar svo mörg freista þess að flýja frá erfiðum aðstæðum til frelsis og betra lífs.

Pistill birtur á www.biskup.is