Æpið fagnaðaróp!

Æpið fagnaðaróp!

Dýpstu þrár okkar og allra manna kristallast í hugtökunum von, friður, gleði og kærleikur, um betra líf og betri heim. Jesús boðaði þetta allt saman þess vegna er hann von heimsins og frelsun mannanna. Í samfélagi fylgjenda hans er hann nálægur með frið sinn og afl til að gera okkur að ljósi og salti í íslensku samfélagi.
fullname - andlitsmynd Kjartan Jónsson
25. desember 2008
Flokkar

Jes. 62, 10-12; Tít. 3,4-7; Jóh. 1,1-14. Bæn: Guð, sem ert ljós í myrkri. Þetta er dagurinn sem þú hefur gjört. Dagur hinnar miklu gleði. Þú kemur á móti okkur þar sem við þreifum okkur áfram í myrkrinu, og sýnir okkur Jesú Krist sem er fagnaðarboði þessa heims og ljós huggunarinnar augum okkar að eilífu. Amen. Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Gleðilega jólahátíð!

Góður maður sagði: „Það er gott að vakna jóladagsmorgun og vita að jólin eru ennþá, að hátíðin sem gekk í garð í gærkveldi hún varir ennþá.“ Í einum af pistlum aðventunnar segir Jesaja: „Æpið fagnaðaróp.“ Ég minnist þess á fyrstu jólunum mínum í Afríku, að í miðjum jólasálmi stóðu nokkrar konur upp, dilluðu sér og gáfu frá sér afrísk gleðiljóð. Ég hrökk svolítið við, þekkti ekki þessa tegund tjáningar, en hún var þeim eðlileg. Þær glöddust yfir boðskap jólanna. Á þessum slóðum voru engar jólagjafir gefnar en sumir fengu nýja flík í desember þegar búið var að selja það af uppskerunni sem var umfram þarfir fjölskyldunnar. Jólin snerust um boðskap jólanna. Atburðir jólaguðspjallsins urðu samtímaviðburðir. Fólk gladdist yfir því að hafa fengið að kynnast kærleika sem var meiri og dýpri en það hafði nokkurn tíma þekkt áður. Það hafði kynnst skilyrðilausri fyrirgefningu sem fram að því var óþekkt hugtak og boðskap um eilíft líf sem gaf því von jafnvel í vonlausum aðstæðum. Því fannst stórkostlegt að hafa fengið að kynnast Guði sem var nálægur, en sá Guð sem það hafði þekkt var ópersónulegur og fjarlægur. Í Jesú hafði það kynnst afli sem var sterkara en illu andarnir sem voru allt í kringum það og vakti þeim stöðugan ótta. Nú gat það lifað í öryggi og friði.

Ekkert er eins sætt og gleði sem nær til dýpstu hjartans róta. Margt getur vakið hana. Sigur í mikilvægum kappleik, próf sem gengu vonum framar, prófgráða sem unnið hefur verið að í langan tíma, stöðuhækkun, tímamótasamningur í viðskiptum, endurgoldin ást, fæðing heilbrigðs barns, niðurstaða úr sjúkdómsgreiningu sem var miklu betri en á horfði, bænheyrsla langt umfram það sem við höfðum vit á að biðja um. Ég minnist þess óljóst þegar ég var tveggja ára og fékk þríhjól í jólagjöf. Mér er sagt að ég hafi orðið svo kátur að það hafi engu tauti verið við mig komandi og ég hafi ekki tekið í mál að fara af hjólinu, heldur hjólaði um litlu kjallaraíbúðina þar til kraftarnir þrutu og ég sofnaði seint og um síðir á hinum nýfengna farskjóta.

Ég heyrði prest eitt sinn segja frá því í prédikun er ég var á ferð erlendis að náinn vinur hans hefði haft samband við sig og sagst hafa greinst með krabbamein. Hann þurfti að fara í erfiða lyfjameðferð sem leiddi til þess að hann horaðist svo mjög að fólk þekkti hann varla, jafnvel ekki börnin hans. Um tíma var hann við dauðans dyr en hjaraði sem betur fer við um síðir. Mánuði eftir að meðferðinni lauk fór hann í rannsókn sem leiddi í ljós að krabbameinið væri komið á fullt aftur og væri í rauninni á svipuðu stigi og þegar meðferðin byrjaði. Sem læknir gerði hann sér fullkomna grein fyrir að þetta var dauðadómur og að hann ætti ekki langt eftir ólifað. Þetta var mikið áfall. Hann hringdi í prestinn, vin sinn. Eins og flestir sem fá sorgarfréttir reyndi hann að afneita þeim og sagði að hér hlyti að vera um misskilning að ræða. Eldsnemma morguninn eftir hringdi síminn. Það var vinurinn. „Þú trúir þessu ekki,“ sagði hann. „Einhver á rannsóknastofunni ruglaðist á prufunni minni og prufu sjúklings sem átti eftir að fara í lyfjameðferð. Prufan mín sýndi að krabbameinið er horfið!“ „Ég fæ að lifa og fæ að fylgjast með börnunum mínum vaxa úr grasi. Ég ætla að verða gamall með konunni minni. Ég fæ að lifa!“

Þeir grétu báðir af gleði í símanum nokkra stund. Þá sagði vinurinn að hann hefði aldrei á ævinni fundið fyrir jafn djúpstæðu þakklæti. Hann sagðist ekki geta hætt að koma við börnin sín og faðma konuna sína. Nú skildi hann ekki bara með vitsmunum sínum, heldur af eigin reynslu, að lífið er gjöf. Við getum ekki unnið okkur það inn. Sérhver stund er gjöf Guðs. Þess vegna er hver dagur gleðidagur sem við eigum að njóta.

Jólin eru hátíð gleði. Lexían úr spádómsbók Jesaja lýsir sigurgöngu konungs sem kemur úr stríði. Hann sýnir herfang sitt. Í slíkum göngum voru sigraðir konungar gjarnan hafði til sýnis fremstir og það fínasta af herfanginu. Afleiðingin af þessum sigri var frelsi undan oki, björt framtíð, líf undir blessun Guðs. Myndir af þessu tagi er að finna á mörgum stöðum í Biblíunni. Guð fer með sigur af hólmi yfir illskunni, öllu sem ógnar lífi lýðs hans og því sem vill fjötra lífið almennt, skemma það og breyta gleði í sorg. „Sjá Drottinn hefur kunngjört þetta allt til endimarka jarðarinnar.“ Allar þjóðir eiga að fá vitneskju um þetta.

Guðspjallið í dag er um orðið. Þetta stóra hugtak Biblíunnar „Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð… Hið sanna ljós sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn (Jh. 1:1,9). Guð skapaði heiminn í árdaga með orði sínu. Með því getum við vitað að það er hugsun á bak við sköpunarverkið. Margir finna til guðlegrar snertingar úti í náttúrunni þegar þeir virða fyrir sér undur hennar og fullkomleika og íhuga samræmið sem þar ríkir. Við erum sett inn í þetta samhengi, erum hluti af því. Staða okkar í sköpunarverkinu eða að við erum yfir höfuð til er ekki tilviljun. Við erum ekki feilnóta í tilverunni, eins og Sigurbjörn Einarsson biskup sagði, heldur kóróna þess. Og í miðju sköpunarverksins erum við sett sem ráðsmenn þess, ekki eigendur.

Þessi hugur sem skapaði allt varð áþreifanlegur á jólanótt er hann varð maður, fæddist og varð einn af okkur. Orð Guðs varð holdi klætt. Hér er nýtt upphaf í mannkynssögunni, ný sköpun. Guð talar á nýjan hátt. Líf Jesú er í heild sinni er boðskapur Guðs, opinberun hans, sem var hulinn kynslóðunum á undan honum. Í orðum hans heyrum við Guð tala, heyrum hug hans til okkar og allra manna sem er kærleikur elskandi föður sem hefur sömu afstöðu til okkar og foreldrar sem horfa barn sitt með ástúð og getur ekki hætt að virða það fyrir sér. Það er vitnisburður kynslóðanna að eftirbreytni eftir orðum Jesú sé farsælasti vegur lífsins, grundvöllur sem ekki bregst eins og ýmsir tískugrundvellir til dæmis auðhyggja samtímans. Á jólum nálgast Guð okkur, réttir okkur höndina til að verða þátttakandi í lífi okkar sem vinur og sálufélagi. Í Jesú Kristi fær Guð andlit, hættir að vera óhlutstæð hugmynd eða hugtak og verður nálægur. Við getum virt hann fyrir okkur.

Sögð er saga af manni sem virti mauragöngu fyrir sér. Honum fannst iðni þeirra og skipulag stórkostlegt. Í áhuga sínum á að fylgjast með starfi þeirra og skipulagi uggði hann ekki að sér og varð of nærgöngull þannig að þeir skynjuðu hættu. Upplausn varð í göngunni og þeir fóru hver í sína áttina. Manninum fannst þetta leitt, vildi segja þeim að hann ætlaði ekki að gera þeim mein og að engin hætta væri á ferðum það væri bara hann sem væri hjá þeim. En þó að hann væri allur af vilja gerður skildu maurarnir ekki hugsanir hans og ekki gat hann talað mál sem þeir skildu. Hann gerði sér grein fyrir að hann yrði að verða maur og tala máli þeirra til að geta komið boðskap sínum á framfæri.

Þetta gerði hinn lifandi Guð einmitt á jólunum. Hann varð einn af okkur, bróðir. Með því kom Guð því til skila til okkar að hann elskaði okkur, mig og þig, óendanlega mikið og fá að taka þátt í glímu lífsins með okkur, færa okkur blessun og farsæld. Hann tók á sig þá sekt sem misgjörðir okkar í nútíð og fortíð hafa bakað okkur.

Með Jesú er Guðs ríki nálægt. Með honum er Guðs ríki er komið sem mun að lokum leiða sköpunina fram til fullkomnunar þannig að hún verði eins og henni var ætlað að vera áður en syndin kom inn í heiminn. Þetta ríki gefur fyrirheiti um upprisu og eilíft líf þar sem sorg og kvöl er fjarri og réttlæti ríkir.

Dýpstu þrár okkar og allra manna kristallast í hugtökunum von, friður, gleði og kærleikur, um betra líf og betri heim. Jesús boðaði þetta allt saman þess vegna er hann von heimsins og frelsun mannanna. Í samfélagi fylgjenda hans er hann nálægur með frið sinn og afl til að gera okkur að ljósi og salti í íslensku samfélagi. Við hvert og eitt skulum vinna að því að láta ríki hans koma í hjörtum okkar og leggja síðan hönd á plóginn við að byggja ríki hans hér á jörð. Við munum fá ögrandi áskoranir á næstu mánuðum þegar efnahagsaástand Íslands mun versna enn og margir munu eiga um sárt að binda. Boðskapur jólanna er ekki ævintýri heldur róttaæk áskorun til að taka þátt í að láta ríki Guðs komi, og stuðla að því að réttlæti og sannleikur ríki á meðal okkar. „Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum. En þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn.“

Dýrð sé Guð, föður syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verðu um aldir alda. Amen.