Samspil ríkis og kirkju

Samspil ríkis og kirkju

Tvö hús. Þau standa hlið við hlið. Tvö tákn um sögu sem er samofin í þúsund ár. Tvö hús. Dómkirkjan í Reykjavík og Alþingishúsið. Tvisvar á ári rifja þau upp sína formlegu tengingu þegar þau sem þjóna landi og lýð í þinghúsinu ganga fram fyrir altari Guðs, ásamt þjónum kirkjunnar: Við setningu Alþingis og 17.júní.

Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða. Eða hver er sá maður meðal yðar, sem gefur syni sínum stein, er hann biður um brauð? Eða höggorm, þegar hann biður um fisk? Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðir yðar á himnum gefa þeim góðar gjafir, sem biðja hann? Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. Þetta er lögmálið og spámennirnir. (Mt. 7.7-12)

Náð sé með yður og friður frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.- og gleðilega þjóðhátíð.

Tvö hús. Þau standa hlið við hlið.

Tvö tákn um sögu sem er samofin í þúsund ár. Tvö hús. Dómkirkjan í Reykjavík og Alþingishúsið.

Tvisvar á ári rifja þau upp sína formlegu tengingu þegar þau sem þjóna landi og lýð í þinghúsinu ganga fram fyrir altari Guðs, ásamt þjónum kirkjunnar: Við setningu Alþingis og 17.júní,

Og þau syngja þjóðsönginn um Guð þessa lands í þúsund ár. Þþu sem játa trú á hann, og þau sem gera það ekki.

Þjóðsöngurinn innsiglar sáttmálann milli þessara tveggja húsa vegna þess að á bak við þjóðsönginn er þjóðin sjálf.

Þúsund árin eru liðin, og nýtt árþúsund hafið, og það er hægt að taka upp annan sið, og syngja annan brag.

Fyrir réttu ári þegar liðin voru sextíu lýðveldisár stóð ráðherra dóms- og kirkjumála, og formaður Þingvallanefndar, Björn Bjarnason hér í stólnum og flutti eftirminnilega predikun. Hann vitnaði þar til þeirra manna sem héldu ræður hér á Þingvöllum við lýðveldisstofnunina 1944 og sagði:

Þegar við höfum heyrt orð þessara mætu manna er verðugt að velta því fyrir sér í dag hér á þessum stað, hvort áhersla á hinn trúarlega þátt í hátíðarræðum hafi minnkað. Ég hef hlustað á þær margar í tímans rás og tel mig skynja, að svo hafi verið. Niðurstaða mín um þetta efni er byggð á tilfinningu en ekki nákvæmri rannsókn en hún vekur hjá mér spurningar eins og þessar: Hvers vegna höldum við máttarvaldi Guðs ekki jafnmikið á loft og áður var gert? Á áminning um guðlega forsjón ekki sama erindi til okkar nú á tímum, þegar minnst er merkra áfanga í sögu lands og þjóðar?

Þessari spurningu svaraði ráðherrann síðar í predikun sinni þegar hann sagði:

Margt hefur breyst í íslensku þjóðfélagi síðan hugur þúsunda lyftist hér við Lögberg fyrir sextíu árum í þögulli bæn og þakklæti til skapara alls, er ráðið hefur örlögum þjóðarinnar frá upphafi. Eitt hefur þó ekki breyst: Sama bæn og þakklæti eiga enn erindi.

Og síðar sagði hann: Gildi orðsins breytist ekki í áranna rás frekar en umgjörð náttúrunnar um hátíð okkar hér á Þingvöllum. Hún er hin sama og fyrir þúsund árum. ... Hér renna saman straumar kristni og löggjafar á einstæðan og heimsögulegan hátt. Þessa strauma eigum við áfram að virkja sameiginlega næstu árþúsund íslensku þjóðinni til heilla.

Kæri söfnuður þetta sagði ráðherrann.

Stjórnarskrárbundin sambúð þjóð-kirkju og þjóðar er oftar endurnýjuð en þegar stjórnarskráin er endurskoðuð – það er í rauninni gert í hvert sinn sem málefni þings og þjóðar eru borin fram fyrir Guð, - og það er gert hvern helgan dag, í það minnsta.

Þá skulu þeir vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð, og ég vil gefa þeim eitt hjarta og eina breytni, svo að þeir óttist mig alla daga, þeim sjálfum til heilla og börnum þeirra eftir þá. segir Jeremía spámaður (Jer. 32.38).

Hversu miklu máli skiptir 63. grein stjórnarskrárinnar um sérstöðu þjóðkirkjunnar? Mjög miklu. Hún skiptir mjög miklu máli um vægi kristinnar trúar í stjórnskipun landsins. En það er ekki þar með sagt að hún skipti sama máli um vægi trúarinnar í lífi einstaklinga. Þetta þarf að hafa í huga hlustað er eftir viðbrögðum við spurningunni um það hvort þessari grein eigi að breyta.

Viðbrögð margra þeirra sem spurð eru eða tjá sig án þess, ganga út frá viðmiði einstaklinga en ekki þjóðarheildar. Það virðist reyndar vera svo komið að þeim sem valin eru til forystu í málefnum þjóðarinnar sé gert æ erfiðara fyrir vegna þess að þjóðarhagsmunum er hafnað, en einstaklingshagsmunir látnir ráða að öllu leyti í þeirri skammsýni sem ekki sér að ef þjóðarhagsmuna er ekki gætt verður erfitt að gæta hagsmuna einstaklinganna. Þegar kemur að spurningunni um stjórnarskrárbundna sérstöðu þjóðkirkjunnar gagnvart öðrum kirkjum og trúarbrögðum verða svörin mörg og inntak þeirra ólíkt.

Það er sannarlega ekki hægt að viðhalda raunverulegum átrúnaði með lögum. Það er ekki einu sinni hægt að halda uppi aga með lögum hér á landi. Horfðu bara á umferðina.

Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. Þetta er lögmálið og spámennirnir. (Matt. 7:12)

Þetta stendur í guðspjalli kirkjunnar fyrir 17.júní. Hefur það merkingu? Hefur það merkingu að kirkjunni skuli uppálagt að biðja fyrir yfirvöldunum á hverjum helgum degi, fyrir forsetanum, fyrir Alþingi og fyrir dómendum eins og segir í pistlinum:

Fyrst af öllu áminni ég um að bera fram ákall, bænir, fyrirbænir og þakkargjörðir fyrir öllum mönnum, fyrir konungum og öllum þeim, sem hátt eru settir, til þess að vér fáum lifað friðsamlegu og rólegu lífi í allri guðhræðslu og siðprýði. Þetta er gott og þóknanlegt fyrir frelsara vorum Guði, sem vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum. (1.Tím 2:1)

Það er sem sagt tilgangur með bæninni - sá, að allir menn komist til þekkingar á sannleikanum og verði hólpnir.

Er kirkja til þess - eða er hún bara punt á tillidögum. Eða, er hún hluti af lífinu. ?

Skáldið Jón úr Vör segir í ljóði sínu:

Ég vil hafa kirkju

Þökk fyrir ljóð þín, segirðu, þótt ég skilji þau ekki. Ég vil hafa kirkju í miðju plássinu, segirðu.

Þegar ég kem að með bát minn hlaðinn að kvöldi horfi ég fyrst heim að húsinu mínu,

en ég sé líka það hús sem ég veit að enginn hefur valið sér náttstað í nema hátíðleg orð

sem er öðruvísi en hin húsin - og ég veit, að ég á líka erindi þangað.

Það eru bornar fram spurningar um kirkjuna og þjóðina. Ekki síst nú þegar stjórnarskráin er í endurskoðun. Sitt sýnist hverjum eins og yfirleitt þegar spurt er um gömul gildi. Þeim fjölgar sem finnst þjóðkirkjan vera fyrir, eða bara nátttröll liðins tíma. Kirkjan þarf að kunna að svara fyrir sig. En sérhver sá sem henni er trúr er sjálfur kirkja. Þaðan þurfa að berast svör. Ekki bara frá þeim sem valin eru til forystu heldur einnig frá okkur.

Sautjándi júní hefur verið til þessa hátíðisdagur í þjóðkirkjunni eins og með þjóðinni. En hvert er hlutverk þjóðkirkju eða átrúnaðar yfirleitt, í lýðræðislegum skilningi? Það fjölgar þeim sem telja að átrúnaður sé einungis til vandræða.

Kirkja er farvegur átrúnaðar. Ríkið tryggir þegnunum möguleika til að sameinast um þann átrúnað sem þeim sýnist, en það hefur ekki afskipti af trúarbrögðum eða trúarástandi að öðru leyti. Þrátt fyrir það geta kristin gildi að sjálfsögðu verið grundvallandi. Þetta er rökrétt afleiðing af breytingu á hlutverki ríkisvalds í trúarefnum í lýðræðisríki.

Helmut Schmitt fyrrum kanslari í Þýskalandi (f. 1918) er kristinn maður og hefur aldrei dregið dul á það. Meðan hann var í borgarstjórn í Hamborg og síðar borgarstjóri þar sat hann á kirkjuþingi- eða Landssynodu. Hann lauk reyndar starfi sem kirkjuþingsmaður fyrir réttum þrátíu og fimm arum 17.júní 1970. Hann skrifaði bók sem út kom 1976 og heitir: Als Christ in der politischen Entscheidung (Kristinn maður andspænis pólitískum ákvörðunum). Að mati hans er besta staða kirkjunnar gagnvart ríkinu þegar ríkið sem verður að viðhalda hlutleysi gagnvart trúarbrögðum og heimssýn fólks, tryggir hlutleysi, en tryggir um leið frelsi og sjálfsákvörðunarrétt kirknanna, eins og líka rétt þingmanna og ráðherra sem varðveita hlutleysið, til að starfa óáreittir í kirkju sinni, eða eiga enga kirkju eða trú.

Hann skrifar: Mér virðist að aðalhlutverk kirkjunnar í samfélaginu sé einmitt að vera þjóðkirkja, eða fólkskirkja og halda því áfram í samfélagi sem er sundurleitt og skortir andlega leiðsögn. Í framhaldi af þessu skrifar hann að það skipti öllu máli að kirkjurnar báðar, sú evangeliska og sú kaþólska, vinni samanm til þess að geta staðið sameiginlega gegn hættunni sem samfélaginu stafar af skortinum á andlegri siðferðilegri og siðfræðilegri viðmiðun almennings. Hann skrifar ennfremur: Einstaklingurinn, hver einstök manneskja fyrir sig, og aðeins einstaklingur hefur samvisku. Það er ekki til nein sameiginleg samviska. Einstaklingur stendur frammi fyrir spurningunni um það hvort hann eða hún geti samræmt ákveðna pólitíska skoðun, ákveðið pólitískt markmið í borg og sveit eða í landspólitík eigin samvisku, eða eigin trú, eða hvort viðkomandi telur sig skyldugan til að grípa inní mál eða freista þess að hafa áhrif á ákvörðun í samræmi við trú sína eða samvisku.

Kæri söfnuður. Það er hlutverk kirkjunnar á öllum tímum, að kalla eftir viðbrögðum samvisku og trúar hjá þeim sem taka þurfa ákvarðanir, stórar eða smáar.

Í haust verða kosningar í Þýskalandi. Kanslaraefni CDU/ CSU Angela Merkel er fyrsta konan til þess að vera valin kanslaraefni í landinu. Þegar hún hafði verið valin var hún spurð í sjónvarpsþætti : Hvaða þýðingu hefur það, að þú tilheyrir hinni evangelisku kirkju? (Til upplýsingar verður að geta þess í okkar íslenska samhengi að spurningin merkir ekki hvaða þýðingu það hefur að vera trúaður kristinn maður, því að það er alvanalegt í samhengi þýskra stjórnmála, heldur snerist þetta um kirkjudeild, - þar sem flokkssystkin hennar eru í meiri hluta kaþólsk, eins og vísað er til í svari hennar):

Angela Merkel sagði: Ég lít ekki svo á að það sé aðalatriðið hvort ég er evangelisk eða katholsk, en þetta þýðir það að ég aðhyllist hina kristnu lífssýn og kristinn mannskilning og það tel ég vera mikils virði fyrir hið þýska samfélag.

Kæri söfnuður, það er þess vegna sem 63 greinin er svona merkileg. Það er ekki til þess að tryggja að hin evangelisk lutherska þjóðkirkja geti í skjóli laga beitt litlar systurkirkjur sínar ofríki eins og stundum er haldið fram af þeim sem vilja henni ekki vel. Það er til þess að treysta í sessi hina kristnu lífssýn í íslensku samfélagi, með því umburðarlyndi og gestrisni sem því fylgir.

Alþingi hefur með lögum tryggt sjálfstæði þjóðkirkjunnar gagnvart ríkinu, en í því felast engin sambúðarslit, þvert á móti. Sambúðarslit gætu aðeins falist í því að þjóðkirkjan sjálf liðaðist í sundur innan frá og hennar eigin börn yfirgæfu hana. Þjóðkirkjan með sína guðfræði og siðfræði og aðrar grundvallarreglur, verður að standa á eigin fótum. Með öðrum orðum, hún verður að vera súrdeig eins og henni var ætlað í upphafi.

Hugtakið þjóðkirkja felur ekki í sér neitt um tengsl kirkjunnar við ríkisvaldið, heldur um tengslin við þjóðina og felur því í sér starfsáætlun. Þó það sé notað í stjórnarskránni okkar skýrir það ekki í hverju tengslin við ríkið felast. Þjóðkirkja stendur undir nafni þegar það að tilheyra kirkjunni er hið venjulega viðhorf með þjóðinni - þegar barnaskírn er viðtekin venja - uppeldi, siðir og venjur, hegðun og lagasetning innihalda sterk einkenni kristindómsins – og samfélagið tryggir þjóðkirkjunni rétt til viðgangs og vaxtar. Þjóðkirkja hættir ekki að vera til með lögum um trúfélög. Þjóðkirkja hættir að vera þjóðkirkja þegar hennar eigin börn hætta að sækja til hennar þjónustu á vissum tímum ævinnar og á hátíðum. Hversvegna skyldu þeir hætta því?

Þegar þjóðkirkjan hættir að vera sýnileg , ef hún hættir að leita hins týnda, ef hún hættir að vera með fólkinu sínu, styðja það og leiðbeina því og elska það, þá hættir hún að vera hún sjálf og þau sem til hennar leita finna hana ekki.

Hver er hún? Hvar er hún nú?

Ennþá er Þjóðkirkjan að mestu leyti sama stærð og allt fólkið í landinu. Hlutfallsbreyting á stærð hennar felst að miklu leyti í fjölgun innflytjenda sem eru annarrar trúar, en hún felst einnig í fækkun vegna þeirra sem fara annað.. Það er áhyggjuefni sem við sem erum kirkjan þurfum að skoða vandlega og bregðast við.

Það er enn stutt á milli Dómkirkjunnar og Alþingishússins. Og greiðfært. Bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Eru þau systkin sem vaxa upp og fara svo hvort sína leið? Eða eru þau hjón sem gera allt til að halda hjónabandinu gangandi vegna barnanna? Eða eru þau í huga þeirra sem ganga þar inn og út, fyrst og fremst tákn um lifandi áhuga á velferð allra landsins barna, og þar með framtíð lýðveldisins Ísland.

Já, ég er þess fullviss að svo er. Enn. Guði sé lof.

Fyrirheit og yfirskrift þessa þjóðhátíðardags er: Og ég mun ganga meðal yðar og vera Guð yðar, og þér skuluð vera mín þjóð. 3M 26.12

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er enn og verður um aldir alda. Amen.

Predikun í Þingvallakirkju á þjóðhátíðardaginn 17.júní 2005