Máttur orða

Máttur orða

Orð eru máttug. Þau hafa áhrif sem geta verið bæði til góðs og ills. Orð verða til blessunar og orð eru bölvaldar. Orð má nota til að æsa menn upp til haturs, hryðjuverka og manndrápa. Orð koma af stað styrjöldum.
fullname - andlitsmynd Svavar Alfreð Jónsson
11. janúar 2015

Svavar Alfreð Jónsson

Sagan sýnir að tjáningarfrelsið er viðkvæmt og margir upplifa það sem ógn, ekki síst alræðisöfl, hvort sem þau eru trúarleg eða pólitísk. Þess vegna hafa mennirnir reist allskonar varnarmúra í kringum hina frjálsu tjáningu. „Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar,“ segir í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins og þar er lagt bann við ritskoðun eða öðrum sambærilegum takmörkunum á þessu frelsi. „Allir skulu frjálsir skoðana sinna og að því að láta þær í ljós,“ er ritað í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.

Þegar mennirnir árétta þannig gildi hinnar frjálsu tjáningar eru þeir að segja að það skipti máli, að maðurinn megi taka til máls og megi tjá sig með orðum, myndum eða öðrum hætti. Það geti skipt sköpum. „Orð eru til alls fyrst,“ segir gömul speki og sönn. Orð mannsins afhjúpa ranglæti. Orð hvetja menn til að ráðast til atlögu við það. Orð hleypa af stað byltingum og setja í gang þróun til hagsbóta fyrir mennina.

Orð eru máttug. Þau hafa áhrif sem geta verið bæði til góðs og ills. Orð verða til blessunar og orð eru bölvaldar. Orð má nota til að æsa menn upp til haturs, hryðjuverka og manndrápa. Orð koma af stað styrjöldum.

Þessvegna hafa mennirnir ekki einungis sett lög og reglur til verndar hinni frjálsu notkun orða og annarrar tjáningar. Mennirnir hafa líka séð sig tilneydda að semja lög til að vernda fólk fyrir orðum. Í íslenskum hegningarlögum segir til dæmis að að sekta megi menn eða fangelsa fyrir að hæðast að, rógbera, smána eða ógna manni „eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar“.

Sömu takmarkanir á tjáningarfrelsinu er að finna í Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Þar segir:

„Allur málflutningur til stuðnings haturs af þjóðernis-, kynþáttar- eða trúarbragðalegum toga spunnið sem felur í sér hvatningu um mismunun, fjandskap eða ofbeldi skal bannaður með lögum.“

Tjáningarfrelsið er í þágu mannsins. Það á sér tilgang. Það á að vera mönnunum til blessunar en þeir gera sér líka grein fyrir að þessu frelsi má misbeita eins og sagan sýnir. Í fyrrnefndum Sáttmála Sameinuðu þjóðanna er ákvæðum um tjáningarfrelsið fylgt eftir með þeirri ábendingu, að sérstakar skyldur og ábyrgð felist í því að nota sér þau réttindi.

Frelsið til tjáningar er ekki skylda til tjáningar. Í tjáningarfrelsinu felst líka frelsi til að þegja. Sá sem hefur frelsi til tjáningar hefur frelsi til að ákveða sjálfur hvenær hann tekur til máls og hvenær hann kýs að þegja.

Öllu frelsi fylgir ábyrgð. Líka tjáningarfrelsinu. Allt frelsi má misnota. Líka tjáningarfrelsið. Allt frelsi verður að nota af dómgreind. Það á líka við um tjáningarfrelsið.

Vestræn löggjöf gerir ekki ráð fyrir miklum takmörkunum á tjáningarfrelsi. Stjórnarskrá íslenska lýðveldisins tilgreinir sérstaklega þær lagaskorður sem setja má frjálsri tjáningu. Þar mega þær aðeins vera „í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra“ eins og þar stendur.

Á sama hátt og tjáningarfrelsið skal vera í þágu mannsins eru skorður á því líka einungis leyfilegar, séu þær í þágu mannsins.

Í kjölfar voðaverkanna í París hefur einkum ein takmörkun á tjáningarfrelsi verið til umræðu hér á landi, lög gegn guðlasti, 125. grein almennra hegningarlaga. Samkvæmt henni telst refsivert að smána trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegra trúfélaga á Íslandi.

Margir hafa bent á að þessi takmörkun á frelsinu til tjáningar sé barn síns tíma og löngu úrelt enda sjaldgæft að þessum lögum sé beitt, þótt ein skýringin á því kunni að vera sú, að mál þar að lútandi er ekki hægt að höfða nema að fyrirlagi ríkissaksóknara.

Ef til vill eru sterkustu rökin gegn þessum guðlastsákvæðum þau, að þessi takmörkun á tjáningarfrelsi sé ekki í þágu manna heldur birtist í þeim þörf fólks fyrir að verja Guð. Þegar maðurinn sér sig knúinn til að semja sérstaka löggjöf til verja Guð fyrir orðum manna, teikningum eða athæfi, getur það lýst vantrú á mætti Guðs.

Guði hlýtur að vera treystandi til að verja sig sjálfur sýnist honum þörf á.

Sagan sýnir líka, að yfirvöld hafa iðulega sett tjáningarfrelsinu skorður til að verja stofnanir og trúarkerfi. Þá hafa menn verið sóttir til saka fyrir að gagnrýna stofnanirnar og kerfin og grafa þannig undan völdum þeirra. Gleymum ekki að Jesú Kristi var gefið að sök að guðlasta þegar hann leyfði sér að gagnrýna viðtekin trúarleg viðhorf síns tíma. Og nú, þegar styttist í stórafmæli siðbótarinnar, skulum við heldur ekki gleyma beinskeyttri gagnrýni hennar á kristna kirkju þess tíma og margar af kenningum hennar. Oft notaði Marteinn Lúther háðið í þeirri beittu gagnrýni, komst í bráða lífshættu fyrir vikið og var í raun lýstur réttdræpur.

Þótt lög gegn guðlasti kunni að vera óþörf og úrelt er alltaf þarft að verja rétt þeirra sem verða fyrir aðkasti og eiga undir högg að sækja. Stundum má níðast á fólki með því að traðka á því sem því er heilagt. Mörkin á milli guðlasts og hatursáróðurs geta verið óljós.

Í umræðu vikunnar hefur örlað á því sjónarmiði að þjóðfélög séu hvorki almennilega frjáls né opin nema þar sé guðlastað, nítt og móðgað í allar áttir til að allir viti, að þar sé tjáningarfrelsið heldur betur virkt og í lagi.

Kannski ættu slík samfélög að hafa fólk í vinnu við að móðga, hneyksla og níða niður það sem öðrum er heilagt, ekki síst nýbúum, til að gera þeim ljóst, að nú séu þeir að hefja búsetu í landi sem kennir sig við fjölmenningu, frið og virðingu fyrir ólíkum menningarheimum?

Án efa eru þó til heppilegri leiðir fyrir þjóðir til að sýna tjáningarfrelsinu þá virðingu sem það á skilið í öllum lýðræðisríkjum.

(Pistill þessi er byggður á prédikun sem ég flutti í Akureyrarkirkju sunnudaginn 11. janúar 2015.)