42 metrar til Sahel

42 metrar til Sahel

Það er ekki langt á milli hinnar opnu grafar og alla leið til Sahel. Það eru ekki nema 42 metrar á milli Sahel og páskanna okkar. 42 metrar af því sem við getum mælt og reiknað af lífslíkum barnanna þar, barna sem við getum bjargað, ef við bregðumst nógu snemma við, 42 metrar af lífi sem getur umbreyst ef við bara veitum því athygli og umhyggju. Og Sahel er víða.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

I.

Sahel. Landssvæðið sunnan Saharaeyðimerkurinnar teygir sig eins og þunnur borði yfir meginland Afríku, allt frá Atlantshafi til Rauðahafs. Það er nefnt einu nafni Sahel, sem þýðir strönd á arabísku, jaðar eyðimerkurinnar. Við Sahelsvæðið hafa risið stórveldi sem áður réðu verslun og ferðum um eyðimörkina í norðri. Nú orðið er nafnið helst tengt löndum Vestur-Afríku sunnan Sahara. Þar varð mikill uppskerubrestur fyrir tveimur árum og ástandið er engu betra nú. Á Sahelsvæðinu eru viðkvæm svæði að þurrkast upp og jaðar eyðimerkurinnar færist til.

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna hefur undanfarnar vikur og mánuði vakið athygli á ástandinu í Sahel og lagt áherslu á forvarnir. Samkvæmt upplýsingum barnahjálparinnar eru 15 milljónir manna í hættu í átta ríkjum, Máritaníu, Malí, Tsjad, Búrkína Fasó, Níger, Senegal, Nígeríu og Kamerún. Meira en ein milljón barna á Sahel geta þjáðst af alvarlegri vannæringu í ár ef ekkert verður að gert. Það er um það bil einni milljón barna of mikið.

Neyðin er að taka völdin í Sahel. Þessi neyð er ekki neyð náttúruhamfaranna þar sem auga heimsins beinist að fólki við erfiðar aðstæður skamma stund. Neyðin í Sahel hefur ekki skollið á í kjölfar jarðskjálfta, eldgoss eða flóðbylgju, heldur leggst hún rólega yfir eins og skuggi, hægt og hljótt. Slíku svæði og slíkum þjáningum er auðvelt að gleyma.

II.

Þetta er dagurinn sem Drottinn gerði, fögnum og verum glöð á honum.

Fögnum og verum glöð, segir lexían okkar í dag á sjálfan páskadaginn. Kannski finnst ykkur undarlegt að ég nefni Sahel við ykkur í dag á höfuðhátíð kristninnar, degi gleði, birtu og hamingju, degi sem fagnar sigri lífs yfir dauða. En páskarnir halda saman skugga og birtu, gleði og sorg. Gleði páskanna brýst fram úr skuggahliðum og vonleysi hversdagsins og erfiðleikarnir í Sahel eru þar ekki undanskilin.

Við fögnum ekki og erum glöð vegna þess að allt er í lukkunnar velstandi, eða til þess að breiða yfir erfiðleika heimsins. Við fögnum á páskum vegna þess að við trúum því að Guð muni eiga einhver ráð við vanda okkar. Það hjálparráð fæddist í heiminn, dó á krossi og skildi eftir gröfina opna handa hinum sorgbitnu og örvæntingarfullu vinum sínum. Þess vegna er við hæfi að nefna Sahel á hæstum páskum og fela vanda Sahel sem er einnig vandi okkar góðum Guði. Og þess vegna getum við tekið undir gleðihróp Saltarans:

Þetta er dagurinn sem Drottinn gerði, fögnum og verum glöð á honum.

Páskar eru minning um forna atburði og forna gleði, vandlega markaðir á dagatöl og gersamlega fyrirsjáanlegir að lokinni sjö vikna föstu. Og samt er eitthvað ófyrirsjáanlegt við páskana líka, eitthvað sem ekki er hægt að reikna út og skrúfa frá, eitthvað sem verður til í hvert skipti sem við göngum inn í gleði páskanna. Þannig er líka gleði, alvöru gleði. Hún á sér engin mörk og engin yfirráðasvæði heldur. Henni verður ekki svo auðveldlega haldið frá hinu harmræna og sorglega. Það er einmitt þar sem hún birtist, í svartnættinu, ógeðinu og veruleikanum sem gleymdist. Gleðin birtist á furðulegustu stöðum og aldrei sterkar en þar sem enginn á hennar von.

Sahel þarf þess með að umheimurinn taki eftir þörf hennar, vannæringu og brostnum vonum um uppskeru. Sahel þarf þess með að börn hennar séu ekki látin tærast upp af vannæringu.

Og svo er víðar um hinn byggða heim. Heimurinn og mannfólkið allt þarf á von, athygli og umhyggju að halda. Hann þarfnast þess með að við kennum til mennsku okkar og meðlíðunar með öðrum manneskjum og sættum okkur ekki við að þær gleymist eða standi utan við gleði okkar. Og þess vegna eiga páskar og Sahel saman, vegna þess að gleði og vonar er þörf í Sahel.

III.

Ég velti því fyrir mér hvernig þeim er innanbrjósts sem stendur frammi fyrir tómri gröf. Frásögnunum um þau sem komu að gröf Jesú Krists ber ekki saman í Biblíunni en þær eiga allar ákveðna þætti sammerkta. Öll þau sem urðu vitni að upprisu Drottins urðu undrandi og ringluð yfir því óvænta sem gerst hafði. Sum eru hrædd, önnur hissa eða skammast sín fyrir að hafa ekki reynst Jesú betri vinir. Öll standa þau ráðþrota gagnvart veruleik sem er stærri og dýpri en þeirra eigin útskýringar af orsökum og afleiðingum í heiminum. Þau standa frammi fyrir gleði sem er stærri en þeirra djúpu sorgir, frammi fyrir því sem þau skilja ekki og geta ekki reiknað út.

Kristnir ákalla Jesú Krist krossfestan og upprisinn. Og það er vegna þessa andrýmis hins krossfesta og upprisna sem við fögnum páskum með hinu forna hrópi, Kristur er upprisinn, Kristur er sannarlega upprisinn. Hann hefur afmáð dauðann!

Tóm gröf er það sama og opin gröf, gröf sem hefur verið merkt dauðanum og þar sem hinn dauði hefur gist, en er horfinn þaðan. En tóm gröf er líka merkt tóminu, hinu auða rúmi í hjarta okkar. Að horfa inn í tóma gröf getur þannig meint að horfa inn í tómið, leiðann, inn í allt sem rænir okkur merkingu og hlýju. Tómið læðist að okkur eins og uppskerubrestur á Sahelsvæðinu. Hægt og hljótt rænir tómið okkur gleðinni.

Og þess vegna eru páskarnir andstæða þessa hljóða og tóma niðurbrots þar sem eyðileggingin vinnur sitt stöðuga verk.

Páskarnir eru óvæntir og truflandi. Páskarnir bresta á þegar minnst varir. Páskarnir eru glaðir og bjartir og hlæja framan í heiminn. Páskarnir eru ekki andstæða sorgarinnar, en þeir eru möguleg útkoma tómsins. Þeir eru tóm gröf og gröf sem er meira en tóm. Þeir tákna gröf sem er full af Jesú, náð og návist Guðs í heiminum.

IV.

Yfirlitssýning á verkum sjón og hreyfilistakonunnar Rúríar stendur núna yfir í listasafni Íslands. Beint á móti dyrum eins af sýningarsölunum hangir stórt verk fyrir miðju. Það heitir 42 metrar og er sett saman úr 42 metrum af gulum tommustokkum sem er raðað á víxl í stóran hring.

Tommustokkur getur táknað kerfin sem við notum til að mæla veröld okkar, skipta henni upp í skiljanlegar skipuheildir, forgangsraða og setja í flokka. Tommustokkur er fyrirtaks tákn línulegrar hugsunar, sem mælir frá einum metra til annars og síðan í fermetra og rúmmetra. Tommustokkarnir okkar og kerfin eru mikilvæg mælitæki til að meta skynjun okkar og reynslu. En þau mæla aldrei allt. Í verki sínu leikur Rúrí sér með þetta virðingarverða mælikerfi og leggur það fram á nýjan hátt og nýjan veg. Birtan skín í gegnum tommustokkinn, alla 42 metrana, hring eftir hring eftir hring. Og innan þessa hrings rúmast alheimurinn, allt og ekkert, loft og rúm og ljós.

Ég stóð lengi fyrir framan þetta verk fyrir nokkrum dögum. Og mér fannst ég standa frammi fyrir opinni gröf. Þar með er ég ekki að segja að verkinu sé endilega ætlað að túlka trúarlegan veruleika, en öll góð og djúp listaverk hafa möguleika því að dýpt þess sé túlkuð trúarlega. En ég sá í hringnum gröf, tóma gröf sem mig langaði að stíga inn í eins og konurnar gerðu á fyrsta kristna páskadaginn. Um hið hringlaga op hinna 42 metra lék ekki skuggi og sorg, heldur villt gleði sem steig upp af tommustokkunum.

Gröfin var tóm, en hún var engu að síður full af ljósi og lífi. Tommustokkarnir skaga út frá veggnum, leggjast hver yfir annan og mynda ótal krossa. Ljósið skín í gegnum krossana. Ljósið skín í myrkrinu. 42 metrar af ljósi og gleði.

V.

Það er ekki langt á milli hinnar opnu grafar og alla leið til Sahel. Það eru ekki nema 42 metrar á milli Sahel og páskanna okkar.

42 metrar af því sem við getum mælt og reiknað af lífslíkum barnanna þar, barna sem við getum bjargað, ef við bregðumst nógu snemma við, 42 metrar af lífi sem getur umbreyst ef við bara veitum því athygli og umhyggju. Og Sahel er víða, Sahel er á hverjum þeim stað sem þarf á hjálp okkar að halda, hvar sem myrkur dauðans, hungursins, óréttlætisins og vanlíðunarinnar grúfir yfir.

Í vinsælli bók og ennþá vinsælli bíómynd „The Hitchhiker´s Guide to the Galaxy“ var spurningunni um það hver væri hinsta spurningin um lífið, alheiminn og allt svarað með einni tölu. 42 er svarið við spurningunni. Og enginn veit hvað það þýðir. En við vitum hvar Sahel er. Og við vitum að vonin skiptir okkur öllu máli sem manneskjur. Án vonar og gleði erum við illa stödd. Inn í þennan veruleik talar táknmál páskanna.

Páskarnir blása hugrekki í brjóst vina sem ganga að gröf. Páskarnir greina frá Guði sem opinberaðist í Jesú frá Nasaret. Páskarnir segja frá frelsara sem þjáðist og dó á krossi eins og mennirnir. Páskarnir gefa okkur Krist sem reis upp og gefur okkur líf, gleði og von þegar tómið og skugginn syrtir að. Páskarnir birta okkur eilífa hljómkviðu lífsins sem heldur áfram þrátt fyrir allt.

Páskarnir gefa okkur kjark til að horfa inn í tómið og sjá þar rými sem er fullt af ljósi heimsins. Þetta ljós er okkur ætlað að bera áfram inn í líf allra þeirra sem sjá bara tóm og gröf í lífi sínu.

VI.

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna hefur sent út neyðarkall til heimsbyggðarinnar um að gleyma ekki Sahel einmitt nú. Neyðarkall er ekki sent út nema mikil þörf sé á. Hungursneyð er ekki skollin á í Sahel og það er sameiginlegt verkefni heimsins að sjá til þess að svo verði ekki.

Guð gefi okkur það verkefni á þessari páskatíð að hreinu vatni og lyfjum verði komið til barnanna á Sahel svæðinu, þau verði bólusett og fái mat.

Guð gefi það að við getum tekið fram tommustokka okkar mælanlega lífs og þanið þá út í mynstur gleði og friðar.

Guð gefi rúm í hjarta okkar fyrir páska, gleði og birtu.

Og kannski er svarið við öllum okkar spurningum um alheiminn og lífið þá einmitt 42.

42 metrar af sólarljósi sem skín í gegnum krossana á leið okkar og gefur okkur kjark til að horfast í augu við skuggahliðar heimsins.

Ein tóm gröf. Einn upprisinn Guð. Einir páskar af því að Kristur er upprisinn, hann er sannarlega upprisinn!

Þetta er dagurinn sem Drottinn gerði, fögnum og verum glöð á honum.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri blessun: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með yður öllum. Amen.