Á helgum Hólastað

Á helgum Hólastað

Í dag er hátíð á helgum Hólastað. Enn einu sinni kalla klukkur staðarins leika sem lærða til samfundar við hirði sinn. Með bjölluhljómnum berst ómur af liðinni sögu. Í sérhverju slagi er minning fólgin.

Þegar þeir höfðu matast, sagði Jesús við Símon Pétur: Símon Jóhannesson, elskar þú mig meira en þessir? Hann svarar: Já, Drottinn, þú veist, að ég elska þig. Jesús segir við hann: Gæt þú lamba minna. Jesús sagði aftur við hann öðru sinni: Símon Jóhannesson, elskar þú mig? Hann svaraði: Já, Drottinn, þú veist, að ég elska þig. Jesús segir við hann: Ver hirðir sauða minna. Hann segir við hann í þriðja sinn: Símon Jóhannesson, elskar þú mig? Pétur hryggðist við, að hann skyldi spyrja hann þriðja sinni: Elskar þú mig? Hann svaraði: Drottinn, þú veist allt. Þú veist, að ég elska þig. Jesús segir við hann: Gæt þú sauða minna. Jóh 21. 15-17

Í dag er hátíð á helgum Hólastað.

Enn einu sinni kalla klukkur staðarins leika sem lærða til samfundar við hirði sinn. Með bjölluhljómnum berst ómur af liðinni sögu. Í sérhverju slagi er minning fólgin.

Í hartnær níu hundruð ár hefur þessi staður verið tengdur guðskristni á landi hér órofaböndum. Í sjö hundruð ár var hann hæsta höfuðból og menntasetur í Norðlendingafjórðungi. Síðan komu niðurlægingartímar en nú hefur staðurinn verið reistur við á ný og er á góðri leið með að endurheimta forna reisn. Við Hólastað eru bundnar miklar vonir um að tengja megi saman fornt og nýtt á öflugan og framsækinn hátt svo enn á ný megi leiðirnar liggja heim til Hóla. Það eflir dáð að minnast þess að hér hafa staðið við stjórnvölinn einhverjir hinir mestu andans menn og þjóðskörungar sem íslensk saga geymir. Í þeim flestum eigum við dýrmæta fyrirmynd. Koma þá strax í hug nöfn biskupanna Jóns Ögmundarsonar, brautryðjandans; Guðmundur Arasonar, gjafmilda góðmennisins; Jóns Arasonar, skáldsins og baráttumannsins og Guðbrands Þorlákssonar hins fjölhæfa fræði- og atorkumanns, sem lyft hefur nafni staðarins hærra en nokkur annar fyrr eða síðar. Allir voru þessir kirkjuhöfðingjar miklir hirðar sauða sinna, hver á sinn hátt. Allir höfðu þeir verið kallaðir til hirðisstarfsins fyrir ást sína á Kri.sti og þá elsku ávöxtuðu þeir með þeim hætti að nöfn þeirra eru enn í minnum höfð þrátt fyrir mikla fjarlægð í tíma.

Slíkan vitnisburð er gott að fá í arf enda þótt dómsorð manna séu léttvæg og lítt ábyggileg frammi fyrir Honum sem leiðir það í ljós sem í myrkrinu er hulið, Honum sem opinberar ráð hjartnanna. Það skyldu menn alltaf hafa í huga ekki síst þeir sem sækjast eftir lofi fjöldans eða trausti til forystustarfa í samfélaginu. Af þeim eins og öllum mönnum er til þess ætlast að þeir séu trúir. Trúir því hlutverki sem þeim er falið á hendur og verðugir þess trausts sem þeim er sýnt. Það sem skilur þá hinsvegar frá öllum almenningi er valdið sem þeim er gefið. Vald vinsældanna, vald valdsmannsins, sem hefur þræði samfélagsvefsins í hendi sér. Poppsöngvarinn spilar á aðdáendur sína, er þeim fyrirmynd í einu og öllu. Ráðsmaðurinn sem settur er yfir hag fólks er sömuleiðis fyrirmynd þó með öðrum hætti sé. Á hvorum tveggja hvílir því mikil ábyrgð og eins og allir sem í sviðsljósinu standa verða þeir iðulega fyrir óvæginni og stundum ómaklegri gagnrýni.

Af slíkum dómum förum við starfrsmenn kirkjunnar ekki varhluta. Enda erum við eins og postulinn bendir á, þjónar Krists og ráðsmenn yfir leyndardómum Guðs. Ábyrgð okkar er því mikil, á það ber að leggja þunga áherslu. Og þó lyklavald himnaríkis sé ekki á okkar hendi lengur í hugum fólks, þó við náum ekki áheyrn eins margra úr stólnum og við teldum æskilegt, þá höfum við engu að síður mikið vald. Við höfum áhrifavald vegna þess hlutverks sem við höfum: að vera þjónar Krists og ráðsmenn yfir leyndardómum Guðs. Því er eftir okkur tekið og til okkar gerðar kröfur um trúmennsku við það háa hlutverk. Við erum fyrirmynd og eigum að vera það.

Það gleymist hinsvegar stundum, að við, embættismennirnir, erum ekki einir um það að vera þjónar Krists, né heldur ráðsmenn yfir leyndardómum Guðs. Það eru nefnilega allir kristnir menn.

Kirkjufaðir okkar, Marteinn Lúter nefndi það almennan prestsdóm.

Sérhver sá maður sem kallaður hefur verið til trúar og ber elsku til Krists á þessu hlutverki að gegna. Hann er þjónn Krists, og settur til að gæta sauða hans. Og fyrir heilaga skírn er hann ráðsmaður yfir leyndardómum Guðs. Þar með ætti hann að vera fyrirmynd um kærleiksríkt og dyggðugt líferni.

Nei, við embættismenn kirkjunnar erum ekki Kirkjan, þó sá skilningur virðist vera ofarlega í hugum margra. Við erum hinsvegar þjónar kirkjunnar. Við erum þjónar þess fólks sem elskar Krist og vill fylgja honum. Það er hin raunverulega kirkja, hún er fólkið sem skírt hefur verið til nafns Guðs föður, sonar og heilags anda. Þess vegna er kirkja Krists á Íslandi gríðarlega stór og öflug fjöldahreyfing. Hún snertir nánast hvern einasta einstakling. Hún á sér fulltrúa á hartnær hverju heimili í landinu. En það gera sér ekki allir grein fyrir því að þeir eru meðlimir, að þeir eru skírðir og fermdir til þjónustu við Krist, að í sál þeirra hefur verið sáð frækorni guðsríkisins og að þeir eru réttbornir erfingjar þess. En þeir vita það ekki. Þess vegna er svo mikil sút í hugum margra. Svo mikið tilgangsleysi, tómhyggja og jafnvel lífsfyrirlitning.

Hlutverk okkar þjóna kirkjunnar, leikra sem lærðra, er að leita uppi þetta fólk, þá, sem villst hafa frá hjörðinni og koma þeim aftur í hópinn. Koma þeim heim, svo þeir megi endurheimta öryggiskenndina og lífsgleðina sem fylgir því að vita sig í umsjá og gæslu hirðisins góða. Hans, sem sendur var til þess að leita hins týnda og frelsa það.

Ekkert hlutverk er meira gefandi en það að vera bróðir og systir í raun. Ekkert er mikilvægara landi og þjóð en að það hlutverk sé rækt af kostgæfni og trúarstyrk. Þess vegna ber brýna nauðsyn til þess að Kirkja Krists eflist með þjóð okkar, þannig að sem allra flestir megi finna sig þjóna Krists og ráðsmenn yfir leyndardómum Guðs.