Staður hamingju

Staður hamingju

Kæru fermingarbörn: þetta er staður gleði og upplifunar – og þetta er kirkjan ykkar.
Flokkar

Til hamingju með daginn! Það er oft sem við getum sagt það hér í þessum sal. Þetta er hamingjustaður og hingað safnast fólk saman á mestu og stærstu stundum lífsins. Barn er borið til skírnar og allir ljóma af hamingju. Hamingjan brosir við brúðhjónum og fjölskyldum þeirra. Og jafnvel þegar samferðamenn eru kvaddir hér rifjum við upp þær stundir sem baðaðar eru hamingju í minningunni.

Kirkjan ykkar

Já, kæru fermingarbörn: þetta er staður gleði og upplifunar – og þetta er kirkjan ykkar. Hér á fólk góðar og innilegar stundir og ekki síður stórar og merkilegar stundir á ferð sinni allt frá upphafi ævigöngunnar og til enda hennar. Og nú eruð þið hingað komin og get ég ímyndað mér að margir hafi unnið hörðum höndum til þess að undirbúa þennan dag! Hann er sannarlega þess virði. Því hingað gangið þið fram kæru vinir með fyrirheitið stóra: að gera Jesú Krist að leiðtoga lífsins.

Leiðtogi lífsins

Leiðtogi lífsins: það þarf nú ekki að leita langt yfir skammt til þess að sjá hvað það merkir. Eru ekki stærstu áfangar ævi okkar hér í húsi Drottins? En þið? Á hvaða tímapunkti standið þið? Þið eruð á gríðarlega merkilegum stað í lífinu. Þið gangið nú í gegnum einhvern mesta þroskakipp sem þið eigið eftir að upplifa í lífinu. Og svo einkennilegt sem það nú er þá mun margt af því sem þið sýslið við nú fylgja ykkur lengi í lífinu. Tónlistin sem þið hlustið á núna kallar fram notalega tilfinningu mörgum áratugum síðar, fólkið sem þið umgangist gæti orðið að ævilöngum vinum, færnin sem þið tileinkið ykkur, búið þið að langt fram eftir aldri – allt þetta hverfur ekki svo auðveldlega úr minnisbönkum í huga ykkar.

Þá talar orð Drottins til okkar: „Með hverju getur ungur maður haldið vegi sínum hreinum? Með því að gefa gaum að orði þínu“.

Krossgötur

Þetta er svolítið eins og að standa á krossgötum og reyna að gera sér grein fyrir því hvaða leið maður ætlar að fara. Það getur verið erfitt að skipta um þá braut sem einu sinni hefur verið valin. Og þá er einmitt viðeigandi að spyrja ykkur um þá leiðsögn sem þið viljið njóta í lífinu. Því það skiptir sannarlega sköpum hvaða átti þið fetið og hver það er sem sýnir ykkur veginn.

Góður kostur

Þess vegna er þetta ein af stóru hamingjustundunum sem við eigum hér í kirkjunni. Það að velja Jesú Krist sem leiðtoga lífsins er að segja já við þeim góðu valkostum sem lífið býður upp á. Það er að játa það að gullna reglan á að stýra lífi okkar. Það er að skynja það og vita að þegar allt kemur til alls er sælla að gefa en þiggja. Það er að vita það að jafnvel þótt við göngum í gegnum dimman dal þá vitum við að Guð er með okkur og leiðir okkur að lokum að vötnum þar sem við megum næðis njóta.

Og sjálf vitum við að mikilvægasta hlutverk okkar er að hjálpa þeim sem sjálfir eru staddir í myrkri og vonleysi. Það fékk þessi hópur sannarlega að reyna í vetur þegar hann safnaði til bágstaddra í Afríku myndarlegri fjárhæð.

Því við getum sjálf áorkað svo miklu, eins og postulinn segir: „Lát engan líta smáum augum á æsku þína, en ver fyrirmynd trúaðra í orði í hegðun í kærleika í trú í hreinleika.“ Þetta er meðal þeirra gullkorna sem heilög ritning færir okkur. Sjálf höfum við valið ritningartexta og afhendum fermingarbörnum hann ásamt kveðju frá kirkjunni sem verður vonandi haldið upp á um ókomin ár.

Þroski í trúnni

Til hamingju með daginn kæru fermingarbörn. Njótið hans og festið í huga ykkar allt það sem þið hafið fengið að upplifa og læra í vetur. Takið þátt í starfi kirkjunnar í KFUM og KFUK og öðrum þeim vettvangi þar sem þið getið haldið áfram að dafna og þroskast sem kristið fólk. Æðra hlutskipti er ekki til. Og festið í huga heitið sem þið vinnið hér á eftir á mikilvægum tímamótum í lífi ykkar. Látið Jesú Krist leiða ykkur áfram í gegnum lífið.