Jólin allstaðar?

Jólin allstaðar?

„Jólin, jólin allstaðar“ segir í vinsælu jólalagi sem hljómar um þessar mundir í útvarpinu og á tónleikum um allt land. Þetta er fallegt og grípandi lag eftir Jón Sigurðsson og texti Jóhönnu G. Erlingsson nær einhvern vegin svo vel andrúmslofti hinna íslensku jóla.

„Jólin, jólin allstaðar“ segir í vinsælu jólalagi sem hljómar um þessar mundir í útvarpinu og á tónleikum um allt land. Þetta er fallegt og grípandi lag eftir Jón Sigurðsson og texti Jóhönnu G. Erlingsson nær einhvern vegin svo vel andrúmslofti hinna íslensku jóla:

Jólin, jólin alls staðar með jólagleði og gjafirnar. Börnin stóreyg standa hjá og stara jólaljósin á.

Jólaklukka boðskap ber um bjarta framtíð handa þér og brátt á himni hækkar sól, við höldum heilög jól.

Jólagleðin, jólaljósin, jólaklukkan. Allt minnir þetta okkur á Hann sem fæddist inn í myrka veröld og færði mannkyni von um bjarta framtíð í trú á Guð og kærleika til Guðs og manna. Í hugann koma orð Jóhannesar guðspjallamanns: „En þetta er ritað til þess að þið trúið að Jesús sé Kristur, sonur Guðs, og að þið í trúnni eigið líf í hans nafni“ (Jóh 21.30). Jesús, sonur Guðs, kom í heiminn til að birta okkur ást Guðs og gefa okkur hlutdeild í umbreytandi mætti Heilags anda, já gefa okkur líf, líf í fullri gnægð, eins og segir í Jóhannesarguðspjalli og líka þetta: „Í honum var líf og lífið var ljós mannanna... hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann...“ (Jóh 1.4 og 9). Jesús Kristur er því „vort jólaljós... ljósið af hæðum“ eins og Valdimar Briem orti (sálmur 94 í sálmabók þjóðkirkjunnar).

Fyrir okkur kristið fólk er því hin sanna jólagleði fólgin í því að taka á móti Jesú hvert augnablik lífs okkar, að hjartað okkar sé vaggan hans: „Vil ég mitt hjartað vaggan sé, vertu nú hér, minn kæri“ eins og segir í fallega sálminum hans Einars Sigurðssonar (sálmur 72 í sálmabók þjóðkirkjunnar). Það eru jólin - þar eru jólin.

„En mamma...“

„En mamma, jólin eru ekki alls staðar“, sagði átta ára dóttir mín eftir að hafa horft á uppáhalds þáttinn sinn í sjónvarpinu nú á aðventunni, Jól í Snædal. Meðal barnanna sem þar búa er klár og skemmtilegur drengur sem langar svo að taka þátt í helgileiknum og syngja söngvana sem tilheyra jólunum. Hann fær sínu framgengt, þvert á vilja foreldranna sem ekki eru kristin, en segir við þau eitthvað á þessa leið: „Mig langar bara að syngja með, ég er ekkert að fara að halda jól“.

Jólin eru ekki alls staðar. Fyrir því eru svo margar ástæður. Sum okkar finna ekki þessa jólagleði í hjarta sér, þrátt fyrir að hafa boðið Frelsarann velkominn inn í líf sitt. Bænin er þar eina björgunin, að biðja Guð um að gefa okkur gleði, frið og þakklæti, umfram allt þakklæti. Önnur eru hreinlega andsnúin kristinni trú, þverskallast við að heyra Orðið sem þeim er boðað – og varna, þ.e. banna, börnunum sínum að koma til Jesú. Svo eru þau sem ekki hafa átt möguleika á að kynnast ljósi heimsins, Jesú Kristi, þar sem boðskapurinn hefur ekki náð til þeirra: „Hvernig eiga menn að geta ákallað þann sem þeir trúa ekki á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann sem þeir hafa ekki heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra án þess að einhver prédiki?“ segir Páll postuli (Róm 10.14).

Út með illsku og hatur, inn með gleði og frið

Við verðum því að tala Orðið, já og ekki bara tala heldur birta Krist í öllu okkar lífi, alltaf. Þetta heitir helgun og hana ber okkur kristnu fólki að ástunda. Við eigum að vera „staðföst í trú, kærleika og helgun samfara hóglæti“ (1Tím 2.15). Líf okkar segir oft meira en mörg orð.

Það er bæn mín að jólin mættu vera alls staðar, í mínu hjarta og þínu og meðal allra þjóða, já í hverju hjarta. „Út með illsku og hatur, inn með gleði og frið. Taktu á móti jólunum með Drottin þér við hlið“, segir í laginu hans Magnúsar Eiríkssonar, „Gleði og friðarjól“ sem Pálmi Gunnarsson syngur svo eftirminnilega. Leyfum þeim félögunum að eiga lokaorðið – innilega gleðileg jól til ykkar allra.

Gleði og friðarjól

Út með illsku og  hatur inn með  gleði og  frið. Taktu á móti  jólunum með  Drottinn þér við  hlið. 

Víða’ er hart í  heimi, horfin  friðar  sól.  Þar geta ekki  allir  haldið gleði- og  friðar jól. Mundu að þakka Guði gjafir frelsi og frið, þrautir, raunir náungans víst koma okkur við.

Bráðum klukkur klingja, kalla „Heims um ból.“ Vonandi þær hringja flestum gleði og friðarjól. 

Biðjum fyrir  öllum þeim sem  eiga bágt og  þjást víða mætti vera meir´ um  kærleika og  ást.  Bráðum koma jólin bíða gjafirnar út um allar byggðir verða boðnar kræsingar. En gleymum ekki Guði hann son sinn okkur fól gleymum ekki að þakka fyrir gleði og friðarjól.