Gómer Diblaímsdóttir

Gómer Diblaímsdóttir

Þungbær eru tengslin á milli ofbeldisfulla eiginmannsins Hósea sem sveltir, niðurlægir og hegnir eiginkonu sinni og Drottins sem gerir það sama við konu sína Ísrael. Á eftir heyrum við hvað hvernig Hósea fyrirgefur konunni sinni. En við heyrum aldrei neitt af því hvernig Gómer tókst að vinna úr sínum málum og sinnar óhamingjusömu fjölskyldu.
fullname - andlitsmynd Sigríður Guðmarsdóttir
23. janúar 2011
Flokkar

Hós. 3

5395.

5395 komur voru skráðar hjá Kvennaathvarfinu í viðtöl og dvöl á árunum 1999-2009 samkvæmt tölum úr ársskýrslum athvarfsins.

Í Neðra Breiðholtinu búa um 5300 manns.

Í Ísafjarðarkaupstað, Bolungarvík og Hólmavík búa um 5300 manns.

5395 er há tala. Hún er örlítið lægri en íbúatala Grafarholts og Úlfarsársdalsins.

Ef við ímynduðum okkur að allir íbúar í Grafarholtinu, smáir og stórir hefðu einhvern tímann á síðustu tíu árum þurft að leita til Kvennaathvarfsins vegna ofbeldis heima fyrir áttum við okkur á því hvað meinið er stórt í samfélagi okkar.

Og samt eru tölurnar úr Kvennaathvarfinu aðeins hluti af stærri veruleika þeirra sem ekki hafa leita sér hjálpar og þreyja þorrann í hljóði. Margar þeirra hafa komið á Slysavarðsstofu og Neyðarmóttöku, aðrar hylja marbletti og glóðaraugu með síðum peysum og meiki. Ótalið er líka heimilisofbeldi kvenna gegn körlum sínum. Og börn sem verða vitni að ofbeldinu eða verða fyrir því sjálf.

Eitt sinn sat ég að spjalli með öldruðum hjónum sem mér þótti vænt um. Til umræðu voru fréttir í útvarpinu af hryllilegu ofbeldi á heimili þar sem eiginmaðurinn hafði barið konu sína til óbóta. Aldraði maðurinn sagði þá: „Hún hefur nú eflaust lagt eitthvað inn fyrir því fyrst.“ Ég gleymi aldrei þessu tilsvari, því það bar með sér viðtekið og fornt viðhorf um það að ofbeldi sé í flestum tilfellum eðlilegt viðbragð og afsakanlegt. Kannski hafði konan verið hortug eða gert eitthvað af sér, lá í orðunum.

Heimilisofbeldi er mikið böl í okkar samfélagi. Og þrátt fyrir margra ára umræður um málefnið liggur enn yfir því hula og skömm. Oft fær það að þrífast og nærast í ár og áratugi. Nágrannarnir horfa í hina áttina og ættingjarnir líka. Fólkið sem beitir ofbeldi og verður fyrir ofbeldi nær að sannfæra sjálft sig, makann og barnið um að allt sé í lagi. En það er ekki í lagi að fólk sé hrætt heima hjá sér á staðnum sem það á að vera öruggast. Það er ekki í lagi að konum sé nauðgað í hjónabandi, að krakkarnir séu hræddir við að koma með vinina heim, að enginn viti í hvernig skapi pabbi er í dag og hvort það sé drukkið á heimilinu í kvöld. Það er ekki í lagi að fjölskyldur einangrist og að ástvinir hóti hver öðrum.

Hvers vegna er heimilisofbeldi svona útbreitt?

Hvers vegna er svona erfitt að taka á því?

Hvers vegna eru svo margir sem látast ekki taka eftir því?

Hvað í samfélagi okkar ýtir undir ofbeldishegðun?

Og hvað kemur þetta trúnni við? Kemur trúin líkömum okkar við, marblettum, brotnum rifbeinum og tönnum, brotnum vonum og ást?

Ég spurði áðan hvað það er í samfélagi okkar og lífsskoðunum sem að ýti undir ofbeldishegðun. Getum við látið eins og Biblían, trúarbók kristinna manna sé ekki einn af þessum þáttum? Kristin gildi eru ekki tímalaus, heldur í samræðu við stað og stund. Þau byggja á fornum vitnisburði um ást og verk Guðs, en sá vitnisburður er líka ritaður á tilteknum tíma og út frá sjónarmiðum þeirra tíma menningar. Vitnisburðurinn kemur heldur ekki til okkar umbúðalaust, heldur í gegnum túlkunarhefðir þúsunda ára. Þegar við lesum orð Guðs og þiggjum af því lærdóm fyrir daginn sem framundan er, þá köfum við í gegnum þessi túlkunarlög.

Biblían er bók full af ást og trúfesti, en hún er líka ofbeldisfull bók, sem segir sögur af afbrýðisömum og grimmum Guði. Getur ekki verið að ýmsir kaflar og kenningar Biblíunnar ýti undir ofbeldishegðun? Getur ekki verið að stundum þurfum við trú til að rífa upp og vera ósammála því sem stendur í hinni helgu bók?

II.

Í fyrri ritningarlestri dagsins mælir spámaðurinn Hósea fyrir munn Drottins, þar sem Drottinn lofar að standa með þjóð sinni, landinu, dýrunum, fuglunum og skriðdýrunum. Og fljótt á litið er ritningarlesturinn hinn fegursti.

Á þeim degi geri ég sáttmála fyrir Ísraelsmenn við dýr merkurinnar og fugla himinsins og skriðdýr jarðarinnar og eyði boga, sverði og stríði úr landinu og læt þá búa óhulta. Ég festi þig mér um alla framtíð, ég festi þig mér í réttlæti, réttvísi, kærleika og miskunnsemi, ég festi þig mér í tryggð, og þú munt þekkja Drottin.

Ef við lesum hins vegar fyrsta og annan kafla Hósea kemur ýmislegt áhugavert í ljós. Þar er hluti að ævisögu Hósea rakinn og sagt frá því að Guð hafi sagt honum að velja sér skækju að eiginkonu. Og Hósea fór og kvæntist Gómer nokkurri Diblaímsdóttur sem var skækja að atvinnu. Ekki vitum við hvort hún var musterisskækja eða seldi sig á götunum. Sumir þýðendur reyndar telja að Gómer hafi ekki unnið við vændi, heldur hafi verið lauslát sem skækja. En hún verður kona Hósea og fæðir honum þrjú börn sem Hósea nefnir öll að boði Drottins. Ekki er nú víst að Mannanafnanefnd á Íslandi hefði samþykkt þessar nafngiftir. Fyrsti sonurinn heitir Jesreel eftir völlum í Ísrael, sem Guð ætlar ekki lengur að vernda. Síðan elur Gómer dóttur sem Hósea nefnir Náðvana, vegna þess að Guð mun ekki framar sýna Ísrael náð. Og að síðustu eignast Gómer son, sem Hósea nefnir Ekki-minn-lýður, því Ísrael er ekki lengur hans lýður. Síðan er sagt frá því að Gómer hafi tekið upp sinn fyrri skækjulifnað og verið manni sínum ótrú en hallað sér að mönnum sem gáfu henni rúsínukökur og olífuolíu.

Kaflinn sem ritningarlesturinn okkar er tekinn úr segir frá því að Hósea fyrirgefur Gómer og tekur hana aftur til sín og engum dylst líkindin milli Hósea og Guðs, Ísraelsþjóðarinnar og Gómer. Samkvæmt spádómsbók Hósea er Guð eins og eiginmaður sem tekur ótrúa eiginkonu sína aftur. Guð elskar Ísrael og er særður þegar Ísrael fer og tekur sér aðra Guði. Þegar Hósea festir sér Gómer, þá festir Guð sér Ísrael og síðar hinn kristna söfnuð. Þessi hjónabandslíking Hósea kann að hafa verið byltingarkennd á sínum tíma. Það hefur eflaust verið sérstakt fyrir feðraveldið Ísrael að vera líkt við konur, og það lauslátar konur. Hún kann líka að vera nýstárleg fyrir okkur sem eru vön líkingum af sambandi Guðs og manneskjunnar sem sambandi foreldris og barns. Hjónabandslíkingin er náin og gerir ráð fyrir hinni trúuðu manneskju sem kynveru í fullorðinslíkama. En hún hefur líka marga galla og þeir koma í ljós þegar við rýnum í annan kafla Hósea. Þar koma viðbrögð Hósea við lauslæti Gómer í ljós.

Ég mun færa hana úr öllu og láta hana standa nakta eins og þegar hún fæddist og gjöra hana eins og eyðimörk og láta hana verða eins og þurrt land og láta hana deyja úr þorsta. Og yfir börn hennar mun ég ekki miskunna mig. Ég mun taka aftur korn mitt og nema burt ull mína og hör er hún skyldi skýla með nekt sinni Og nú vil ég bera gera blygðan mína í augsýn friðla hennar. Ég vil hegna henni. Eflaust getum við skautað léttilega yfir þetta myndmál og sagt að Hósea sé að tala um Gómer í yfirfærðri merkingu sem Ísraelsþjóð. En með því strokum við út tengsl Gómerar við konur af holdi og blóði, sem hafa upplifað sömu reynslu. Til dæmis konur sem komu í Kvennaathvarfið 5395 sinnum á síðustu 10 árum. Þær hafa verið naktar, matur og drykkur hafa verið teknar frá þeim, börn þeirra hafa verið niðurlægðar og afskiptar, þær hafa ekki haft tekjur eða nægileg aðföng til heimilisins, þær hafa verið niðurlægðar frammi fyrir öðrum. Og ofbeldismaðurinn hegnir þeim, enda hafa þær lagt inn fyrir þessu sjálfar eins og hinn aldraði maður sagði svo skorinort í mín eyru. Þungbær eru tengslin á milli ofbeldisfulla eiginmannsins Hósea sem sveltir, niðurlægir og hegnir eiginkonu sinni og Drottins sem gerir það sama við konu sína Ísrael. Á eftir heyrum við hvað hvernig Hósea fyrirgefur konunni sinni. En við heyrum aldrei neitt af því hvernig Gómer tókst að vinna úr sínum málum og sinnar óhamingjusömu fjölskyldu. Hvað fannst Gómer um það að vera nakin, hædd og hungruð og á börn hennar væru látin horfa á neyð hennar? Hver varstu Gómer Diblaímsdóttir? Væri ekki gott einstaka sinnum að fá guðsmyndir í hendur sem ekki byggja bara á reynslu eiginmanna, heldur eiginkvenna líka? Við getum snúið okkur út úr þessu með því að benda á að hlutirnir hafi verið allt öðru vísi í gamla daga. Viðbrögð Hósea bera þannig vott um viðteknar venjur fyrr á tíð gagnvart konum, en nú sé öldin önnur og allir á móti heimilisofbeldi. En þá má spyrja hvað við séum að gera með þennan texta Hósea af afbrýðisama eiginmanninum í ritningarlestrum dagsins? Við höfum klippt út heimilisofbeldið og eftir stendur fyrirmyndareiginmaður með konu og þrjú börn, sem hann hefur fyrirgefið af gæsku sinni og tekið inn á heimilið. Hann líkir sér við Guð og við sættum okkur við það, eins og nágranni sem tekur ekki eftir því að konan við hliðina er með sólgleraugu í skammdeginu. III.

„Auk oss trú!“ segja lærisveinarnir við Jesú í guðspjallinu. Og margar konur hafa á forsendum trúar sinnar snúið aftur í ofbeldissambúð. Þær hafa talið standa sér næst að fyrirgefa högg og niðurlægingu eins og Jesús gerði á krossinum. Þær hafa hugsað með sér að eining fjölskyldunnar skipti meira máli en þær sjálfar, rétt eins og Jesús lagði líf sitt í sölurnar fyrir mennina. Mörg dæmi eru um það að konur hafi fengið þau svör hjá presti sínum að þær eigi að auka trú sína, þær eigi að fyrirgefa og þrauka og halda í vonina að ofbeldinu linni. En ofbeldi linnir yfirleitt ekki, ef það fær að þrífast óáreitt. Ofbeldi vex og stökkbreytist ef enginn veitir því mótstöðu. Og ofbeldi sem er réttlætt og varið af staðnaðri trúarskoðun hefur alveg sérstaklega góð vaxtarskilyrði.

Jesús neitar í sögunni að auka við trú þeirra. En Drottinn sagði: „Ef þér hefðuð trú eins og mustarðskorn gætuð þér sagt við mórberjatré þetta: Ríf þig upp með rótum og fest rætur í sjónum, og það mundi hlýða yður.

Trú sem er eins og mustarðskorn snýst nefnilega meira um gæði en magn.

Hún snýst ekki um að halda í brotinn veruleika og láta eins og hann sé ekki til.

Hún snýst ekki um að sætta sig við ofbeldi, kúgun og einangrun.

Trú byggir á tengslum, en stundum gefur trúin manni líka kraft til að rjúfa tengsl og festa rætur annars staðar. Eins og mórberjatré í hafstraumi, svo undarleg mynd sem það kann að vera.

Trúin getur að sönnu verið afl sem að bindur mann við gamlar og viðteknar venjur með öllum þess kostum og göllum. Trúarbrögð heita religio á latínu, sem þýðir það sem bindur. Það getur verið auðvelt að misnota fyrirgefningu, von og umburðarlyndi. Það er býsna auðvelt að skrumskæla ástina og kærleikann og vísa til venju og fjölskyldu. En í trúnni getur líka verið fólgið byltingar og ummyndunarafl, sem knýr hinn trúaða eða hina trúuðu til að stokka upp í lífsskoðunum sínum, rífa upp mórberjatréð og láta það skjóta nýjum rótum annars staðar.

En til þess þarf maður að vera gagnrýninn á eigin hefðir. Í stað þess að biðja Guð um að auka okkur trú á „gömlu góðu gildin“, þurfum við stundum að biðja um kraft til að rífa upp og senda á haf út. „Gömlu gildin“ eru nefnilega ekki alltaf góð og það á við um hin kristnu gildi eins og hver önnur gildi.

Guð gefi okkur kjark og trú til að binda og festa og fyrirgefa þegar það á við.

En Guð gefi okkur líka kjark og trú til að rífa upp, gagnrýna og festa rætur á nýjum stað. 5395 sinnum.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.